144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað í þessari umræðu, það er æskilegt að frumvörp komi inn sem fyrst til þess að menn fái nægan tíma til að fara yfir þau; ég veit að atvinnuveganefnd er öflug og mun gera það samviskusamlega og vel. Þá verður að segja það og ítreka að frumvarp þetta um veiðigjöld er að því leytinu þægilegra til umfjöllunar í nefndinni að það er nákvæmlega eins, með sömu forsendur, og í fyrra, það er engin breyta fólgin í því. Þess vegna er kannski auðveldara að bera það saman; þær breytingar sem þarna eru eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og fremur til bóta eins og staðgreiðslan og gagnaöflunin sem tryggir að við getum komið fram með nýrri gögn í framtíðinni, sem styrkir grunninn.

Hv. þingmaður hefur rætt allnokkuð um þrepaskipt gjald og gjarnan talað um skatt í því sambandi. Það er alveg rétt að allflestir hagfræðingar og sérfræðingar, sem fjallað hafa um málið, segja einfaldlega og fullyrða fullum fetum að engin auðlindarenta sé eftir í þessu kerfi — það á aftur á móti ekki við um makrílinn — og ef menn vilja fara skattaleiðina þá er einfaldast að nota skattkerfið til þess.

Hér er aftur á móti um gjald að ræða sem menn eru að greiða fyrir afnot af auðlindinni og við notum þessa afkomuígildisstuðla til að finna sem sanngjarnasta leið milli fisktegunda. Þá skiptir, held ég, miklu máli að þar sé jafnræði og við getum ívilnað minnstu útgerðunum, sem samkvæmt öllum opinberum gögnum bera minnst úr býtum, með frítekjumarkinu sem við höfum áður rætt. Ef menn vilja fara skattaleiðina þá er allt önnur aðkoma að því, (Forseti hringir.) því að hér er um gjald fyrir afnot af auðlindinni að ræða.