145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

svar við fyrirspurn um Borgunarmálið.

[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil allt til þess vinna að þingmaðurinn fái góð svör við spurningum sínum. Það er ekki nokkur minnsta ástæða fyrir mig til að leggja honum ekki lið í því máli.

Það eru hins vegar vonbrigði að það skuli ekki vera mat þingmannsins að málið sé til þess fallið að draga allt fram í því ferli sem ég hef fellt það með bréfi til Bankasýslunnar. Ég heyri það sem hv. þingmaður segir, að honum þyki skorta á að nokkrum tilteknum álitamálum sé svarað, eins og nákvæmlega hverjir keyptu og hvernig eignarhald hins selda skiptist milli kaupenda. Ég heyri að hv. þingmaður er enn spenntur fyrir því að finna út úr þessu og ég skal taka til íhugunar hvort hægt sé að bregðast við því. (Gripið fram í.)

Ég var eingöngu í upphafi máls míns að benda á að þessar upplýsingar er ekki að finna í fjármálaráðuneytinu og það eru tvær stjórnir á milli mín og upplýsinganna.