153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég upplifi stundum að við höfum ekki alveg setið sömu fundina. Hún minnist hér á að samráðið og samstarfið hafi verið gott í upphafi en svo hafi botninn einhvern veginn dottið úr því. Þessar vinnustofur hafa verið góðar og samvinnan í gegnum allt ferlið. Við fengum um það upplýsingar á síðasta fundi að fundað var með Fjölmenningarsetri og starfsfólkinu. Það er vika síðan. Því átta ég mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara með þessu.

Nú er bara þessi eina breytingartillaga um einhverja endurskoðun að ákveðnum tíma liðnum, sem ég tel ekki sérstaklega mikilvægt að setja inn í lögin þar sem hv. velferðarnefnd getur hvenær sem er óskað eftir öllum upplýsingum, gögnum og skýrslum á fundum. Ég spyr mig: Ef þetta er það eina sem minni hlutanum finnst ábótavant, af hverju erum við þá með svona langt nefndarálit um hvað þetta sé allt saman ómögulegt?