154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:07]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og það eru mjög mikilvægar og góðar spurningar sem þarna koma fram. Hvers vegna erum við ekki bara að rúlla til baka og halda áfram? Ég tel að í svari mínu í minni ræðu sem ég flutti áðan þá hafi ég komið ágætlega inn á það að þessum spurningum og vangaveltum sem fram hafa komið hefur verið svarað áður, svo það sé sagt. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál af þessum toga hefur verið lagt fram og við höfum fengið þessar athugasemdir í hvert einasta skipti. Við höfum tekið umfjöllun og umræður um það. Það má vel vera að það sé heppilegt að taka einn hring í viðbót. En ég velti því sömuleiðis fyrir mér að ef málið tekur ekki neinum breytingum í meðförum nefndarinnar, þrátt fyrir að hafa tekið gesti og annað, til hvers er þá af stað farið?