154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[13:23]
Horfa

Halldóra K. Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til að koma hingað upp og lýsa yfir vonbrigðum mínum með þessa umræðu. Hér er verið að ræða mikið framfaraskref í íslenskum landbúnaði. Ég er vissulega varaþingmaður en fylgist grannt með á kantinum. Ég hef fylgst með þessum breytingum á búvörulögum og taldi það hálfgerða veislu að fá að vera hér á þingi þegar málið væri til umræðu. Ég tel vissulega mikilvægt að mynduð verði sem breiðust sátt um þetta. Vissulega er það mikilvægt en menn, eins og hér hefur margoft komið fram, greinir oft á um hver besta leiðin er.

Á þriðjudaginn síðastliðinn mætti ég hér á þing og ég fann fyrir áhuga þingheims á að bregðast við og breyta og tala meira um íslenskan landbúnað, sem ég fagna. En upplifun mín er sú í dag að hér er verið að tala um — ég ætla bara að fá að líkja þessu við einhvers konar hræðsluáróður. Hér tala menn um að vilja greiða fyrir íslenskum landbúnaði og svo þegar tækifæri gefst þá bara guggna menn.

Þetta mál er ekki nýtt. Það hefur verið í meðförum þingsins í um fimm ár. Sömuleiðis er þetta gömul hugmynd og það hefur lengi verið talað fyrir henni. Mig langar líka að fá að tala hér sem bóndi. Ég hef tekið mikinn þátt í félagsmálastarfi bænda. Bændur eiga sér málsvara sem eru Bændasamtök Íslands og þau hafa líka talað fyrir málinu og bera okkur saman við nágrannaþjóðir okkar og Norðurlöndin sérstaklega.

Og af hverju er það þannig að við þurfum alltaf, Íslendingar, að finna einhverja séríslenska leið? Sem er þá að gera hvað? Ekkert, af því að við komum okkur ekki saman um hlutina. Margir hv. þingmenn tala hér um að bíða og kalla þá eftir frekari umsögnum og talað hefur verið um frekari samvinnu. Ég tala nú fyrir mikilli samvinnu, ég get alveg tekið undir það, eins og margir gera. En eins og margoft hefur komið fram eru menn bara stundum ósammála um leiðir. Ég veit ekki betur en að það hafi verið mikil samvinna og að mikill metnaður hafi verið lagður í samvinnu í atvinnuveganefnd. En aftur þetta: Svo kemur að atkvæðagreiðslunni og þá guggna menn á einhverju. En út af hverju? Þetta er alla vega mín upplifun. Við hvað eru menn raunverulega hræddir?

Ég trúi því ekki að það sé raunverulegur ótti þingheims að bændur muni einoka markaðinn. Mér finnst það orðið ansi langsótt. Ég held því miður, eins áttamiðuð og ég er, að það muni ekki hafa neitt upp á sig að fresta málinu. Hvað þá? Ég er ekki sannfærð um að eftir páska muni þeir þingmenn sem kalla á meiri samvinnu og vilja aðeins fresta þessu allt í einu verða tilbúnir til að hoppa á lestina. Ég sé ekkert sem hefur komið fram í umræðunni sem bendir til þess. Ég hef ekki heyrt neinar lausnir eða neitt. Ég heyri hins vegar áhyggjur hv. þingmanna en ég deili þeim ekki. Við verðum að gera eitthvað í stöðunni. Við erum alltaf að segjast vilja gera eitthvað og bregðast við en einhvern veginn komumst við aldrei lengra. Ég hef ekki heyrt neinar lausnir frá þeim hv. þingmönnum sem hafa þessar efasemdir.

Ég ætla þó að leyfa mér að segja að ég fagna því að menn skilji að hagsmunir bænda og neytenda séu samofnir, því að það er staðreynd. En bændur hafa lengi þurft að benda á það í umræðunni. Með því frumvarpi sem er hér til umræðu er verið að bregðast við vanda sem er uppi. Við höfum hér tækifæri til að bregðast við og bæta kerfið okkar með hag bænda og neytenda að leiðarljósi. En ef við náum að hagræða hlýtur það að skila sér í betra verði til bóndans og þannig til neytandans. Mér finnst það bara vera útúrsnúningur að tala um einhverja einokun í þessu samhengi.

Mig langar að lokum að skora á þingheim að standa með íslenskum landbúnaði, endurskoða afstöðu sína og greiða atkvæði hér í dag með íslenskum landbúnaði. Ég er sannfærð um að verði frumvarpið að lögum þá erum við saman hér í dag að stíga gífurlega mikilvægt skref í sögu íslensks landbúnaðar. En við erum vissulega ekki búin. Þetta er bara eitt skref og að mínu viti í rétta átt.