144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt og það verður áhugavert að sjá hvað hæstv. ráðherra hyggst þá leggja til í sambandi við meðferð þess hluta. Auðvitað er svigrúm fyrir hendi hjá ríkinu til þess að ákveða hvort það býður skipti á þeim hlut eða heldur honum til þess að bjóða mönnum til leigu eða eitthvað því um líkt. Það eru möguleikar og svigrúm í þeim efnum. En ég tel bara að það væri skynsamlegt að hafa það meira. Auðvitað tel ég skynsamlegast að gera það sem ég hef þegar talað fyrir, að skjóta lagastoð undir áframhaldandi tímabundna stjórnun.

Ef menn fara í úthlutun eða hlutdeildarsetningu að einhverju leyti finnst mér það lágmark að ríkið haldi eftir talsverðum potti til þróunar í greininni og við sjáum svo hvernig þetta gengur fyrir sig nokkur næstu árin, svo sem eins og gangan inn á grunnslóð. Ef það verður þannig til frambúðar að það verður bæði auðvelt og mjög hagkvæmt að sækja makrílinn á grunnslóðinni á vissum tíma ársins, júlí, ágúst, september — með því er líka hægt að dreifa vinnslunni á fleiri staði í landinu eins og aðeins hefur gerst — á þá ekki að leyfa því að þróast og halda eftir einhverjum 10% eða einhverju (Forseti hringir.) svoleiðis í potti til þess að eiga þann möguleika?