145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[11:13]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ganga til atkvæða um frumvarp til laga um húsnæðissamvinnufélög, rekstur þeirra og réttarstöðu búseturéttarhafa.

Um það vil ég segja að hér eru gerðar ýmsar breytingar sem eru til bóta. Hv. velferðarnefnd hefur farið vel í saumana á ýmsum þáttum sem þurfti að taka fyrir eins og kaupskyldu þar sem hún er í raun bönnuð, þ.e. fortakslaust, en er þó ekki ófær leið ef húsnæðissamvinnufélög kjósa að fara þá leið og hafa það á sinni stefnuskrá í samþykktum sínum. Þá er lagt til að óheimilt verði að greiða fé úr húsnæðissamvinnufélagi til þeirra sem að félaginu standa sem arð eða ígildi arðs.

Um frumvarpið í heild vil ég segja þetta, virðulegi forseti, að ég vænti þess að það verði til að efla rekstur slíkra félaga sem stofnuð eru án hagnaðarkröfu og ekki síður til að bæta réttarstöðu búseturéttarhafa og það sem er kannski mikilvægast, verði til þess að auka valmöguleika og framboð á húsnæðismarkaði sem er stóra verkefnið.