149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvergi í þriðju orkutilskipuninni er verið að ráðstafa eða hafa áhrif á það með hvaða hætti við nýtum okkar orkuauðlindir. Það er heldur ekki verið að leggja neinar kvaðir á okkur þegar kemur að hugsanlegri lagningu sæstrengs enda er ein forsenda þess hér að það muni þurfa samþykki Alþingis til.

Þegar vitnað er í Stefán Má Stefánsson og hvað er fylgiskjal og hvað ekki þá hygg ég að ég hafi t.d. vitnað í það sem kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins, eða réttara sagt Stjórnarráðsins, um Stefán Má Stefánsson þar sem hann tekur undir það og staðfestir að álit hans og Friðriks Árna Friðrikssonar, sem benti á mögulega leið sem nú hefur verið farin, sé í samræmi við álitsgerðina sem er fylgiskjal þessa þingmáls, þingsályktunartillögunnar sem hér liggur fyrir. Þannig að ég skil það ekki, nú kann að vera að ég hafi (Forseti hringir.) mismælt mig eða einhver annar í dag þegar vitnað var í þetta skjal, í þessa umsögn Stefáns Más Stefánssonar sem birtist á vef Stjórnarráðsins, (Forseti hringir.) sem er eingöngu staðfesting á því að farið sé eftir álitsgerð þeirra félaga.