Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að muna þessar þrjár spurningar sem ég skrifaði ekki hjá mér. Í fyrsta lagi þá tel ég, og það hefur raunar komið fram á fundum innan nefndarinnar, að samráðið hafi verið gott. Það hafa verið haldnir margir fundir og vinnustofur. Ítrekað hefur álits verið leitað og þessu hefur verið svarað. Því hef ég engar áhyggjur af því.

Varðandi nafnið þá hef ég svo sem ekki myndað mér sérstaka skoðun hvað það varðar, en ég tel mjög brýnt að nafnið verði endurskoðað og verði meira lýsandi fyrir þau verkefni sem falla undir stofnunina. Hér erum við ekki bara að tala um mál vinnumarkaðarins, við erum að tala um svo miklu meira og það er mín skoðun að nafnið verði að endurspegla starfsemi stofnunarinnar.

Í síðasta lagi var spurt um hvort framkvæmdarvaldið væri að framkvæma lögin. Ég held að þetta sé nú dálítill útúrsnúningur. Auðvitað er það svo að við byrjum ekki á því að setja lögin að óskoðuðu máli. Fyrst er farið af stað, eins og komið hefur fram, með ákveðna greiningu á því hvort þetta sé góð eða vond hugmynd, hvort betra væri að sameina stofnanir eða ekki. Unnið er að þessu og frumvarp gert, en það er auðvitað svo að ef við hér, löggjafarvaldið, samþykkjum ekki sameininguna þá verður einfaldlega ekki af henni. Því held ég að ekki sé búið að gera neitt. Grundvöllurinn er auðvitað sá að við samþykkjum frumvarpið hér. Það tel ég að sé mjög mikilvægt, bæði held ég að það sé hagur starfsfólks og þeirra sem sækja þjónustuna — ég held að það sé mikill hagur allra aðila að af sameiningunni verði.