Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

lögheimili og aðsetur.

895. mál
[16:47]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Frumvarpið felur í sér minni háttar breytingar á 5. gr. laganna og er tilefni þess brýnt. Eins og kunnugt er kom inn nýmæli með lögum um lögheimili og aðsetur, um dulið lögheimili. Ákvæðið kom einnig síðar inn betur mótað með lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019. Nánar er kveðið á um úrræðið í reglugerð sem ráðherra setur. Úrræðið hefur almennt reynst vel.

Eins og algengt er við lagasetningu koma fram vankantar á lögum þegar þau eru síðan framkvæmd í raunveruleikanum og komið hefur í ljós að einstaklingar sem sæta heimilisofbeldi og eru í hjónabandi geta ekki flutt lögheimili sitt meðan á skilnaðarferli stendur þrátt fyrir heimildina í 5. gr. laganna um að hjón megi eiga sitthvort lögheimilið. Í lögskýringargögnum með lögunum er kveðið á um það að skilyrði fyrir sitthvoru lögheimili hjóna sé að hjón séu sammála um það. Því verður sá maki sem beitir ofbeldinu að samþykkja flutning lögheimilis þolandans og ekki er hlaupið að því að fá það samþykki. Þannig getur þolandi heimilisofbeldis ekki fengið umsókn um lögheimilisflutning samþykkta án samþykkis geranda og því er umsókn um dulið lögheimili synjað. Um tíu til tuttugu svona mál eru til meðferðar á ári hverju að mati Þjóðskrár Íslands. Nú eru mjög sérstök mál til meðferðar sem skýrir hraða málsins.

Mikilvægt getur verið fyrir einstaklinga að fá lögheimili flutt þar sem mörg réttindi fylgja skráningu þess. Skilnaðarferli er fremur langt þrátt fyrir lagabreytingu sem á að taka gildi í sumar á hjúskaparlögum og mun flýta ferlinu. Þannig getur sá maki sem sætir ofbeldi og ógnunum lifað í frekar langan tíma við erfiðar aðstæður eða fjarri lögheimili sínu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir þær breytingar sem lagðar eru til á 5. gr. laganna með þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er lagt til að ummæli í greinargerð um samþykki hjóna fyrir sitthvoru lögheimili verði færð inn í lagatextann. Þetta er gert af því að meginreglan er sú að hjón eigi sama lögheimili og því eðlilegt að hjón séu sammála um sitthvort lögheimilið. Í öðru lagi er lagt til að gerð verði undantekning á þessu samþykki og að samþykki beggja hjóna eigi ekki við ef annað hjóna sætir heimilisofbeldi af hálfu maka. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að samkvæmt reglugerð þarf einstaklingur sem óskar eftir því að lögheimili hans og fjölskyldu hans sé dulið að sýna fram á það með staðfestingu frá lögreglustjóra að hann og fjölskylda hans sé í hættu. Beiðni um dulið lögheimili getur einnig komið frá lögreglustjóra. Í staðfestingu lögreglustjóra þarf að koma fram að viðkomandi sé í hættu og alvarleiki hættunnar. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að skrá lögheimili sambúðaraðila hvort á sínum stað þegar annar sambúðaraðila sætir heimilisofbeldi af hálfu hins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.