150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

álverið í Straumsvík.

[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég undrast nokkuð að svo virðist sem ráðherra sé að segja okkur að hann hafi fram til þessa ekki beitt sér neitt sérstaklega í málinu. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann telji koma til greina að beita sér frekar. Það er rétt að það er stjórn yfir Landsvirkjun en sú stjórn er kjörin og skipuð af okkur hér, þ.e. af ráðherra. Hann fer með hlutabréf í þessu fyrirtæki og ber þar af leiðandi nokkra ábyrgð á stjórninni og fyrirtækinu. Við hljótum að ætlast til þess þegar svona hætta steðjar að að ráðherra beiti sér með einhverjum hætti. Telur hann koma til greina að blanda sér ákveðnar í málið? Telur ráðherra koma til greina að fara yfir málið með forstjóra Landsvirkjunar?

Engan sáttatón er að finna í orðum forstjóra Landsvirkjunar þegar kemur að málefnum þessa fyrirtækis, í það minnsta ekki í fjölmiðlum. Við hljótum að kalla eftir því að sú starfsemi sem þarna er í húfi sem og störfin og gjaldeyrisöflunin hverfi ekki og bætist á annan vanda (Forseti hringir.) sem við eigum við að etja á Íslandi í dag.