136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:18]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framlagningu þessa frumvarps sem ég tel svo sannarlega skref í rétta átt. Í þinginu í gær í umræðu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórnir fjármálafyrirtækja átti ég einmitt orðastað við hv. þm. Pétur Blöndal um þetta tiltekna ákvæði sem snýr að hlutföllum kynjanna.

Ég mun ef til vill koma betur að því síðar í umræðunni, hæstv. forseti, í ræðu en engu að síður vil ég þó í stuttu andsvari þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Niðurstaðan þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til skipunar þeirrar nefndar sem vann að málinu. Þar eru miklir jafnréttissinnar á ferð, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í umfjöllun sinni. Ég held að hér sé mikilvægt skref stigið í átt til jafnréttis varðandi hlutafélög og lög um einkahlutafélög á Íslandi.