139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kosningarréttur er mikilvægasti réttur sem nokkur einstaklingur hefur í lýðræðisríki. Finnst hv. þm. Birgi Ármannssyni það ekki einkennilegt að hér er vísvitandi verið að skapa lagaeyðu í kæruleiðum í þeim málum sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það sem ekki er kveðið á um í lögum, það er ekki réttur sem skapast í leiðinni. Finnst þingmanninum það ekki skrýtið að eftir ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni skuli vera vísvitandi lagt til að kæruleið til Hæstaréttar sé felld í heilu lagi út úr þessu frumvarpi? Ég er mjög uggandi yfir þessu því að stundum er lýðræðið fallegt, sérstaklega þegar ákveðnir flokkar eru í stjórnarandstöðu, ég er að vísa í núverandi ríkisstjórnarflokka, en stundum er lýðræðið heft með þessum hætti.

Það gerðist nefnilega í stjórnlagaþingskosningunni að eyðuákvæði var í lögunum um stjórnlagaþing og þegar Hæstiréttur var búinn að úrskurða þá kosningu ógilda var ekki hægt að leggja til að kjósa upp á nýtt því að þá setningu vantaði inn í lögin um stjórnlagaþing að ógilti Hæstiréttur kosningar beri tafarlaust að kjósa upp á nýtt. Það var eyðuákvæði. Þess vegna var sú leið jafnvel ófær alla tíð.

Ég spyr því þingmanninn á nýjan leik: Finnst honum ekki skynsamlegra að samþykkja þá breytingartillögu sem liggur hér fyrir þinginu, að 13. gr. verði óbreytt í lögunum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna? Af því að það eru aðeins umdeild og stór mál sem fara til þjóðarinnar með þessum hætti og það verður að gulltryggja að allar kæruleiðir og allar lagagreinar séu til staðar í lögunum svo ekki skapist meiri órói (Forseti hringir.) en orðið er í samfélaginu. (Forseti hringir.) Nóg er nú komið samt.