140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:08]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bregðast við þessu. Jú, ég er þeirrar skoðunar að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi í mörgum efnum staðið að framsali lagasetningarvalds frá þingi til framkvæmdarvaldsins. Í þessu máli sérstaklega er það gert blygðunarlaust, ef svo má segja, því að sú lagabreyting sam samþykkt var í september með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna gegn atkvæðum okkar í stjórnarandstöðunni fól í sér að mikið vald var fært frá þinginu til framkvæmdarvaldsins þó að vissulega héldist það fyrirkomulag að þessi mál þurfa að koma til umræðu á þingi eins og við upplifum núna. Þetta er ágætt dæmi um það hvernig völd eru flutt frá þjóðþinginu til framkvæmdarvaldsins.

Varðandi fjárstjórnarvaldið þá er það svo að þegar Alþingi tekur ákvarðanir án þess að hafa nokkra hugmynd um hver kostnaðurinn verður þá er auðvitað, eins og hv. þingmaður nefnir, með vissum hætti verið að framselja fjárstjórnarvald til ríkisstjórnar þó að nauðsynlegt sé lögum samkvæmt að koma með fjáraukalagafrumvarp í fyllingu tímans til að leita eftiráheimildar til þeirra fjárráðstafana sem gripið verður til á grundvelli þessarar tillögu. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að kallað sé eftir upplýsingum um útgjöld sem fylgja tillögum af þessu tagi, það er mjög mikilvægt. Gert er ráð fyrir því í þingsköpum að svona þættir séu skoðaðir. Eins og hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu þá er það sem liggur fyrir í þessu máli afar opið, óljóst og tekur aðeins til hluta þess kostnaðar sem líklegt er að falli til.