143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:12]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar aðkomuna að Urriðafossi þá er það rétt hjá hv. þingmanni að ég þekki ágætlega til þar. Þar er ágætismalarvegur sem endar í litlu snúningsplani við fossinn. Þar er stundum mikil traffík og kannski sérstaklega erfitt fyrir rútubíla að aðhafast, en ég held að við þurfum ekki að bæta því inn í samgönguáætlun þar sem fólk tefst bara og þarf að labba aðeins lengri leið. Það er yfirleitt gott veður þarna á Suðurlandi (Gripið fram í: Nú?) þannig að það er allt í lagi. [Hlátur í þingsal.] Nú fæ ég hlátur í sal.

Hvað varðar ferjuna var kannski svolítið óksýrt hvað ég meinti. Heimamenn í Vestmannaeyjum hafa aðallega komið að máli við mig. Þeir vilja bara fá einhverja stefnu og fá að vita hvaða skipulag verður fyrir fram. Hvert fer ferjan? Fer hún á veturna til Þorlákshafnar? Þá vilja þeir bara vita það. Fer hún þrisvar á dag eða á einhverjum ákveðnum tímum til Landeyjahafnar? Þeir vilja bara fá kerfi á þetta, eitthvað sem þeir geta treyst á, ekki eitthvað sem gerist kannski í dag, kannski á morgun. Það var það sem ég vonaði að útboðið næði að skýra og setja upp og að nefndin fengi síðan útskýringar og kynningu á því þannig að ég gæti fengið að spyrja frekar.