154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:50]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá að ræða þetta mál hér í dag og það er mjög gott að stjórnvöld hafi stigið þetta stóra skref í átt að jafnari tækifærum foreldra á vinnumarkaði með því að hækka þessa hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi. Þetta hefur verið eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins um árabil en hámarkið hefur staðið í stað síðan 2019 þrátt fyrir miklar launa- og verðlagshækkanir. Eðlilega hafa vaknað spurningar um gildissvið og gildistíma þessa ákvæðis sem á að breyta, eins og kom fram í umræðum hér rétt á undan. Ég ætla ekki að fara mikið dýpra í það en langar kannski að heyra aðeins meira frá ráðherranum, af því að hann nefnir mismunun, hvort það sé ekki mismunun að — t.d. þekki ég eina konu sem náði bara ekki að halda í sér fram yfir 1. apríl og fæddi fyrir þann dag, hvort það sé ekki mismunun að hún muni ekki njóta þessarar hækkunar. Þetta var einnig fyrirvari þingflokks Sjálfstæðisflokksins við málið og því vona ég að ráðherra taki vel í að nefndin skoði þetta og geri breytingar þess efnis á frumvarpinu við meðferð málsins.