140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála þessu mati hv. þingmanns og ég held að hæstv. forseti hljóti að vera það líka. Þetta blasir einhvern veginn við ef maður gefur sér bara tíma til að skoða málin og máta tillögurnar við raunveruleikann. Við þær aðstæður sem við erum nú að fást þurfa ráðuneytin að geta einbeitt sér að ákveðnum úrlausnarefnum, þau hafi vald til þess og viti hversu langt valdsvið þeirra nær og við hverja eigi að tala ef fara þarf út fyrir það valdsvið. Og við þurfum að hafa sérhæfinguna, við þurfum að hafa þekkinguna á úrlausnarefnunum. Allt verður þetta miklu erfiðara og óhagkvæmara ef yfirsýnin glatast, ef sérhæfinguna skortir og þekkinguna og menn gaufast í hinu og þessu og vita í raun ekki alveg að hverju þeir eiga að einbeita sér á hverjum tíma.

Af því að hv. þingmaður nefndi áðan velferðarráðuneytið má velta því fyrir sér hversu æskilegt það er að einn maður þurfi samtímis að beita sér fyrir því að lausnir verði fundnar á stöðu Íbúðalánasjóðs og stöðu heilbrigðiskerfisins. Hver eru rökin fyrir því að blanda saman þeim málaflokkum? Þau eru ekki augljós, ekki frekar en aðrar samsetningar sem er að finna í þeim tillögum sem við ræðum hér. Hættan er því ekki aðeins sú sem ég fór yfir í ræðu minni, að óvissan og vinnan við að framkvæma breytingarnar valdi óbeinu tjóni, óbeinum kostnaði, heldur líka sú (Forseti hringir.) að þegar búið er að framkvæma breytingarnar verði ráðuneytin verr í stakk búin til að fást við vandann.