150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að játa að ég varð af og til hissa undir ræðu hv. þingmanns sem mér fannst tala eins og hér væru nánast útboðsskilmálar fyrir framkvæmdir sem ætti að fara í, talar um grá fjárfestingarverkefni sem eigi ekki að fara í umhverfismat. Heldur hv. þingmaður að hvert og eitt þessara verkefna fari ekki í slíkt mat? Umhverfismat er ekki unnið hér innan sala þessa húss, veggja Alþingis, heldur fer hver framkvæmd að sjálfsögðu í slíkt mat. Og aftur varð ég hissa einmitt þegar ég hlýddi á hv. þingmann tala eins og hér ætti að fara að starta ýtum og byrja. Það kemur mjög skýrt fram í málinu að þetta er heimild til að bjóða út með þeim hætti. Að sjálfsögðu fer þá af stað öll sú vinna sem gerð er við hverja einustu stóra framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar. En ekki hvað, forseti? Það er svo mikill útúrsnúningur að það hálfa væri nóg að standa hér og láta eins og verið sé að reyna að koma sér fram hjá því. Hv. þingmaður veit betur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna orða hans um Sundabraut. Það kom margt gott fram í máli hv. þingmanns. Er hv. þingmaður á móti þeim samgöngusamningi sem gerður var milli allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins þar sem m.a. er hugað að Sundabraut og skoðað skipulag og mögulegar framkvæmdir þar um? Að sjálfsögðu með sama fororði og ég nefndi með allar aðrar framkvæmdir? Er hv. þingmaður á móti þeim samningi?