150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Öllum má vera ljóst af umræðu síðustu missera að fjárveitingar til nýframkvæmda og viðhalds vega eru miklu naumar skammtaðar en nauðsynlegt er. Þetta hefur verið viðvarandi umræða og fjárveitingar lækkuðu umtalsvert í kjölfar bankahrunsins en það hefur gengið mjög illa að ná upp því hlutfalli þannig að Vegagerðin eigi einhvern möguleika á því að ná í skottið á sér hvað varðar viðhaldsþörf og hvað þá nýframkvæmdaþörf. Ég hef komið inn á það nokkrum sinnum í ræðum hér í þinginu að miðað við það hversu hátt eða í rauninni lágt hlutfall þeirra tekna sem ríkissjóður hefur af akstri og umferð og ökutækjum fer til vegagerðar og viðhalds, ætti það eitt og sér að vera nægjanlegt sem hvatning til að hækka það hlutfall. En mér sýnist í augnablikinu að ekki sé meiri hluti fyrir slíkri nálgun á þinginu og það hefur svo sem verið látið á það reyna.

Í öðru lagi gerði Miðflokkurinn sérstaka tillögu núna í byrjun árs um að Vegagerðinni yrði veitt heimild til að nálgast málið út frá skuldsettum framkvæmdum, ef svo má segja, að félag yrði stofnað sem hefði heimild til að taka verulegar fjárhæðir að láni sem endurgreiddust síðan yfir lengri tíma, 20, 30, 40 ár. Ég er efins um að við eigum að festa okkur í því að endurgreiðsluferli framkvæmda sem þessara eigi að miðast við 20 ár. Líftími þeirra er gegnumgangandi miklu lengri og við þurfum að horfa til þess að það geti verið skynsamlegt í þessum efnum.

Ég vil fagna því — ég vona að ég sé ekki að leggja hæstv. ráðherra orð í munn en mér heyrðist hann í framsöguræðu sinni áðan nefna það sem möguleika hvað vinnu hv. umhverfis- og samgöngunefndar varðar, að það yrði skoðað að veita heimild til lántöku í sérstöku félagi sem hluta af útfærslu þessa máls. Ég held að skynsamlegt væri að taka það til ígrundaðrar skoðunar í nefndinni því að málið eins og það er lagt fram hér þykir mér vera tiltölulega þröng nálgun á það sem þarf að gera. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort þetta mál sé nátengt, eða ekki, því sem fram undan er, sem er heildstæð endurskoðun gjaldtöku á umferð í landinu. En ég held að það skipti í sjálfu sér ekki öllu máli. Ég hefði gjarnan viljað sjá þá nálgun koma núna á sama tíma. Ég held að það hefði verið skynsamlegt að vinna þetta tvennt saman og þá í samhengi við samgönguáætlun sem er nú verið að vinna í umhverfis- og samgöngunefnd. En ég held að það sé í sjálfu sér ekki stóra málið í þessu heldur þurfum við að finna leið til að koma framkvæmdum hraðar áfram. Það held ég að sé stóra vandamálið sem við okkur blasir.

Í þessu samhengi hef ég — eða ég leyfi mér að segja Miðflokkurinn í heild — aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um veggjöld. En á meðan hinar tvær leiðirnar eru ekki farnar, þ.e. að hækka hlutfall þeirra tekna sem ríkissjóður fær af akstri og ökutækjum eða veita heimild til þess að fara í skuldsettar framkvæmdir í þessum efnum, þá verðum við að horfa til þess að þetta sé leið sem geti verið lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir hvað fjármögnun samgönguframkvæmda varðar og nálgast það þannig en þó alltaf undir þeim formerkjum að umferðin, ökumaðurinn, sá sem nýtir framkvæmdirnar, hafi hag af framkvæmdinni, a.m.k. jafn háan og helst hærri en það gjald sem heimt er. Þetta er, má segja, ákveðið neyðarúrræði ef niðurstaðan verður sú að fara í gjaldtökuna. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir væri skynsamlegt að mörgu leyti að hnika frumvarpinu — og það verður auðvitað skoðað í nefndinni — að einhverju marki til í þá veruna að það verði almennara og opnara án þess að ég sé með neina útfærslu á því hér hvernig sú niðurstaða væri æskilegust að mínu mati. Það væri skynsamlegt að horfa til þess að það væri útfærsla sem væri á þeim nótum að settur yrði rammi þar sem væri síðan hægt að bæta inn framkvæmdum með til að mynda þingsályktun innan regluverks sem er þá búið að forma. Þetta er það sem ég vildi segja almennt um fjármögnunina og afstöðu mína til veggjalda. Þetta er ekki óskastaða en á meðan ekki er meiri hluti fyrir því að fara aðra hvora hinna tveggja leiðanna, þá held ég að mikilvægi þess að hraða samgönguframkvæmdum sé svo mikið að við verðum að hafa þessa leið opna.

Mig langar örstutt að fara í gegnum verkefnin. Þau eru talin upp í frumvarpsskjalinu og eru sex talsins. Það er hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli og síðan auðvitað Sundabraut. Ég verð að viðurkenna að ég held og sýnist á öllu að þeir sem sömdu frumvarpið hafi komið sér í dálítið þrönga stöðu með þessari nálgun að önnur leið sé fær. Ég veiti því reyndar athygli að í einni þessara framkvæmda er ekki tilgreint að önnur leið sé fær. Það er hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli. Ég hef svo sem ekki forsendur til að lesa út frá þessum texta hvort núverandi vegur verður þá aflagður eða hvort horft er til þess að á honum verði til að mynda ekki vetrarþjónusta sem er svo sem lógískt þegar fram í sækir. En þetta vekur engu að síður upp spurninguna, áður en ég fer í verkefnin hvert fyrir sig, hvað er önnur leið? Hvenær er ekki önnur leið fær? Ef brú fer í sundur á Suðurlandinu í dag þá komumst við alveg til Hafnar, keyrum bara norður fyrir og austur um. Það er alltaf önnur leið. Hvar á skilgreiningin að vera og hver á að taka þessa ákvörðun þannig að sanngjarnt sé á landsvísu? Ég held að það detti ekki nokkrum manni til hugar að halda því fram í dag að það að keyra um Hvalfjörð sé raunhæf önnur leið samanborið við Hvalfjarðargöngin fyrir fólk sem sækir vinnu til Reykjavíkur. Það er það bara ekki, fyrir utan þann gríðarlega kostnað sem ríkissjóði hefur sparast á undanförnum rúmum 20 árum eftir að göngin voru opnuð, þannig að ég held að þarna sé verið að þvæla málinu óþarflega mikið. En það kemur auðvitað til skoðunar í nefndarvinnunni.

En það sem mig langaði að koma inn á varðandi verkefnin sjálf — af því að þetta hefur jafnvel verið kallað Covid-mál — ég hef svo sem ekki alveg áttað mig á því hvernig sú tenging verður til því að ef við horfum á verkefnin þá er ekki nema hluti þeirra eitthvað í námunda við framkvæmdastig. Við hringveg norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá liggur forhönnun framkvæmdarinnar þegar fyrir, umhverfismati er lokið og veglínan kom inn á staðfest skipulag. Þarna er allt í bærilegasta standi. Hvað hringveg um Hornafjarðarfljót varðar er umhverfismati lokið og veglínan komin á staðfest skipulag og raunin er sú að framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út og það var ákveðið að fara í þennan fyrsta hluta, eins og það er orðað í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Ákveðið var að fara í þennan hluta til að viðhalda framkvæmdaleyfinu opnu.“ — Fyrirgefið, „til að halda framkvæmdaleyfinu opnu“ hlýtur þetta að eiga að vera, bara misritun.

Þarna eru tvær af sex framkvæmdum sem eru nærri í tíma ef fjárveiting og annað fæst. Síðan kemur að Axarvegi. Þar er verkhönnun ekki lokið og við þekkjum það að þessir hlutir, sérstaklega á veglínu eins og þarna, taka töluverðan tíma. Hvað varðar tvöföldun Hvalfjarðarganga er undirbúningur ekki hafinn eins og segir í frumvarpinu og val á leið liggur ekki fyrir þannig að slík framkvæmd er ekki nærri í tíma. Hvað hringveg um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli varðar þá segir, með leyfi forseta:

„Um er að ræða nýja framkvæmd sem hefur enn marga lausa enda varðandi undirbúning.“

Það er væntanlega töluvert í að slíkt gæti raungerst. Síðan þekkjum við öll, því miður, sorgarsöguna um Sundabrautina og hversu mjög hefur verið þvælst fyrir því mikilvæga verkefni. Þannig að ekki mörg þessara sex verkefna bjóða upp á að komast af stað með einhverjum afgerandi hætti framkvæmdalega séð á næstunni og í því samhengi er ég efins um að setja þetta mál undir Covid-hattinn, ef svo má segja. Ég vildi halda þessu til haga hér. Það eru verkefni þarna inni sem ég þekki svo sem ágætlega eins og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Ég ek þar um flesta daga ársins eða mjög marga alla vega, og þarna er til að mynda horft til þess að vegfarendur hafi aðra leið, eins og sagt er í frumvarpstextanum:

„Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmdarinnar í samgönguáætlun. Áætlað sem hrein einkaframkvæmd/reiðugreiðsluleið.“

Hvað þýðir þetta, að þarna komi efnislega ný Hvalfjarðargöng við hlið þeirra sem nú eru? Sem rökstuðningi er því flaggað að þetta sé vegstytting um 59 km miðað við Hvalfjörð. Ég veit ekki alveg hvernig sá sem skrifaði frumvarpið náði að sannfæra sig um að þetta væru sanngjörn eða skynsamleg rök í málinu. Það er auðvitað engin stytting með nýjum göngum, það eru aukin umferðarrýmd en það er engin stytting. Núverandi göng eru orðin gjaldfrjáls og þar fram eftir götunum. Býsna oft í umræðunni hefur því verið haldið fram að það sé bara krafa út frá Evrópusambandsreglum að gerð séu ný göng samsíða þeim núverandi. Það er allt á misskilningi byggt og regluverkið sem þar er vísað í nær til ganga sem eru opnuð töluvert eftir að Hvalfjarðargöngin núverandi voru opnuð. Það er því svona eitt og annað í þessu sem þarf nauðsynlega að koma til skoðunar og ég hlakka til að fá málið inn til nefndar og tilgreindi reyndar í þingræðu fyrir nokkrum vikum að ég hvetti til að mælt yrði fyrir því hið snarasta og þá tekið inn fyrir annað ómögulegt mál ríkisstjórnarinnar sem snýr að þjóðlendum. En það var ekki gert en nú mælir hæstv. ráðherra fyrir þessu í dag og ég hlakka mikið til þeirrar vinnu að taka það til meðferðar í nefndinni.

Ég vil ítreka eitt í lokin. Fyrsta tilfinning mín er að almennur rammi þar sem hefði verið hægt að setja framkvæmdir á síðari stigum inn í hefði verið kannski það sem — mín upplifun er sú að það sé það sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd var að kalla eftir í samþykktri samgönguáætlun í fyrra. En málið liggur fyrir eins og það er og ég fagna því að það komist til meðferðar þingsins og vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd geti bætt mögulega einhverjum þáttum þarna inn eða aðlagað sem gera málið betra en það er í augnablikinu að mínu mati. En auðvitað sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri við 1. umr. og þakka hæstv. samgönguráðherra aftur fyrir framsöguna.