150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og vangaveltur. Ég velti því líka fyrir mér óvissunni sem hann kom að í fyrri spurningu sinni og tók þar Vaðlaheiðargöngin sem dæmi. Ég held að í þessum sex framkvæmdum sé óvissan mest í Hvalfjarðargöngunum og auðvitað yrði líka óvissa ef farið væri með Sundabraut í göng undir sundin að einhverju leyti, hún gæti verið mikil þar. En auðvitað er alls staðar einhver óvissa, en kannski ekki stór í hinum, held ég, ef ég man rétt, kannski gleymi ég einhverjum þeirra.

Svo velti ég fyrir mér gjaldtökunni, sparnaðinum, forgangsröðuninni og styttingunni, eins og á Selfossi, þar er sparnaðurinn bara 400 m. Í Vík í Mýrdal er hann 2 km, kannski fremur 3. Í Hornafirði eru það 12 km. Auðvitað spara menn bensín og ferðatíma og geta hugsanlega greitt upp eitthvert gjald þar á milli. En ég vil endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni að Miðflokkurinn hefur lagst gegn því að auknar verði álögur á bifreiðaeigendur, það yrði að koma eitthvað á móti ef þessi leið yrði farin. Það yrði að vera í fyrsta lagi einhver sparnaður á ferðinni í tíma og vegalengd, að sjálfsögðu, og síðan einhvers konar lækkun á álögum á bifreiðaeigendur samhliða og jafnframt afsláttur. Þessi leið er algjörlega óútfærð varðandi það hversu hátt þetta yrði, hversu sparnaðurinn yrði mikill og hvað ríkisstjórnin ætlar að taka í það langan tíma. Eru það 30 ár, 10 ár eða 15 ár? Þetta er bara ramminn, þetta er ekkert annað.