154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Tillagan snýst um kosningar í haust. Það er nægur tími til að klára þessi mikilvægustu mál sem ríkisstjórnin hefur lagt á borðið ef hún tekur þátt í því á málefnalegan hátt að greiða úr þeim. Ég skil ekki að þetta sé flókið. Já, ég tel að kosningar séu það eina rétta í stöðunni í dag. Það þvælist vissulega fyrir að það þarf að klára nokkur stór mál. Forsetakosningar eru þarna inn á milli og nýr forseti tekur við 1. ágúst. Það væri svona almenn kurteisi að láta ekki fráfarandi forseta glíma við einhvers konar stjórnarmyndunarviðræður þannig að það er bara mjög eðlilegt að gefa þinginu tíma, gefa einhverri starfsstjórn tíma til að klára þau mál sem hér eru, þessi stóru og erfiðu mál sem er búið að taka sex og hálft ár að koma á koppinn og þarf að klára einhvern veginn á síðustu metrunum, hreint allt mjög undarlegt fyrirkomulag. Ég veit því ekki hvernig stjórnarandstaðan á að hafa verið að tefja einhver mál. Mér finnst það mjög undarlegur málflutningur því að eins og ég segi þá er ríkisstjórnin búin að hafa mikinn tíma til að koma þessum málum í gagnið en hefur ekki gert það enn þá. Ég veit ekki af hverju ég ætti að trúa því að ríkisstjórnin nái að klára það á þessu eina og hálfa ári eða eitthvað svoleiðis sem er fram að kosningum. Ég segi bara: Einhendum okkur í það að klára þessi stóru mál sem við getum verið sammála um fram að hausti og förum í kosningar.