140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast um að hægt sé að finna sambærileg vinnubrögð og verið hafa í þessu máli þegar kemur að breytingum á Stjórnarráðinu. Reyndar hafa mótmælin verið mun kröftugri og það er kannski vegna þess sem okkur hefur fundist vanta upp þá vinnu sem fara hefði þurft fram í aðdraganda þess að þetta mál var lagt fram og að við hefðum haft aðkomu að þessu málinu vegna þess að við hljótum að vera sammála um að svona mál þarf helst að afgreiða í mikilli sátt og sem breiðastri samstöðu. Málið er þess eðlis.

Málið var keyrt í gegnum þingið án þess að samráð hafi verið haft við til að mynda þingflokk Framsóknarflokksins. Ég get ekki talað fyrir hönd annarra þingflokka en ég þykist hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafa vitneskju um að ekki hafi verið haft samband við þingflokk hans heldur þannig að ljóst er að gengið var fram hjá stjórnarandstöðunni þegar kom að undirbúningi þessa máls. Það er mjög ámælisvert fyrir utan það ferli sem ég rakti áðan.

Ég náði því miður ekki að koma inn á eitt atriði sem tengist þessu máli en það er kostnaðarumsögnin sem fylgir frumvarpinu. Það mun kosta á þriðja hundrað millj. kr. að framkvæma þessar breytingar, þetta áhugamál hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, á sama tíma og við þingmenn höfum þurft að vera viðstaddir fjölmarga íbúafundi meðal annars vegna þess að skera hefur þurft niður tugi milljóna af einstökum heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið og því miður hefur í framhaldinu þurft að segja upp starfsfólki þess vegna. Þetta er forgangsröðun stjórnarinnar, að við tölum ekki um heimilin í landinu þar sem úrbóta er þörf á Alþingi, en því miður er það helsta baráttumál ríkisstjórnarinnar að ala á óeiningu (Forseti hringir.) og sundrungu í þessu samfélagi og því verðum við að breyta.