151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um stuðning við einkarekna fjölmiðla og hér var að enda framsaga með minnihlutaáliti í því máli. Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson talaði um að tímabilið væri of stutt. Ég spyr: Hversu langt ætti tímabilið að vera? Fimm ár? Er endurskoðunarákvæði í þessu? Á að hækka upphæðina samkvæmt vísitölu eða á að meta hvort það þurfi meira fjármagn? Hefur hann eitthvað spáð í hvernig það ætti að vera?

Og síðan hitt, ég sé að minni hlutinn gerir það að tillögu, sem ég tel alla vega til bóta, að rekstrarkostnaður skuli að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði. Það sem stingur mig svolítið er að það skuli ekki vera hærri fjárhæð en 50 milljónir. Ef við horfum á 50 milljónirnar í stærra samhengi — ég held að ég sé með rétta upphæð, það eru um 500 milljónir sem eiga að fara í þetta — þá eru bara tíu aðilar sem gætu fengið þá upphæð. Ég er að spá í litlu blöðin, þessi héraðsblöð sem eru virkilega að berjast. Ég er alveg sammála því að það umhverfi þurfum við að styrkja. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef ánægju af að lesa þessi fréttablöð, núna blaðið í Kópavogi og áður í Hafnarfirði. Ég vil ekki missa þau en ég veit að börnin mín hafa engan áhuga á að lesa þau. Það er því orðið svolítið óljóst hvernig við eigum að — ég skil að við þurfum að styrkja þetta en á sama tíma skil ég líka að við getum ekki verið að styrkja einhverja sem hafa algerlega efni á því að reka sinn fjölmiðil, þá sem þurfa ekkert á styrkjum halda.