151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó að ég sé alls ekki sammála undirtóninum enda virðist þingmaðurinn einn af fáum talsmönnum Ríkisútvarpsins í Sjálfstæðisflokknum. Í málinu kemur fram að þeir sem fá þessa styrki þurfi að sækja um þá á hverju ári. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann: Hvernig getur hv. þingmaður í rauninni sagt okkur að þetta sé tímabundið þegar gert er ráð fyrir að það sé árlegt framlag sem þurfi að sækja um? Hvernig passar það við þá orðræðu sem er lögð fram, borin á borð fyrir okkur þingmenn? Þetta gengur einfaldlega ekki upp vegna þess að gert er ráð fyrir að þetta sé varanlegt. Þingmaðurinn er að segja okkur hér að hún hyggist styðja það að einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verði gerðir að varanlegum styrkþegum ríkisins. En gefum okkur að einhver muni koma í þennan ræðustól innan hálfs árs eða eins árs og flytja tillögu um að hætt verði við þetta allt saman, að einkareknir fjölmiðlar fái ekki lengur styrki byggða á þessum lögum, hvernig heldur hv. þingmaður að gangi að ná því hér í gegn þegar búið er að koma þessu á? Það væri gaman að vita það. Síðan verð ég að spyrja þingmanninn út í eitt. Nú er það þannig, og ég benti á það í andsvari fyrr í kvöld, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með málefni Ríkisútvarpsins í 27 ár af síðustu 37 árum. Hvernig stendur á því, fyrst Sjálfstæðismenn tala svona mikið um að það þurfi að gera eitthvað við Ríkisútvarpið eða stærð Ríkisútvarpsins og fyrirferð og allt þetta, að það hefur ekki verið gert?