138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR.

357. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og ágætum sætisfélaga, Guðmundi Steingrímssyni, fyrir orðræðu hans hér. Hún var eins og mælt út úr mínum munni að því leytinu til að þegar fólk setur sig niður í að skoða regluverkið sem þessari starfsemi er búið sjá allir að það er mjög bagalegt hvernig þessu er fyrirkomið með tilliti til aðstöðu þeirra fyrirtækja sem starfa á þessum markaði að koma framleiðslu sinni út á markað út af einokun ÁTVR og þá er regluverkið með þeim hætti sem hér er lýst.

Þegar ég skoðaði þetta fyrst fyrir tveimur til þremur árum kom það einnig upp í umræðunni að ÁTVR væri ætlað að starfa að einhverjum Evrópusamþykktum sem legðu ákveðnar skyldur á herðar því fyrirtæki meðan einokunin væri að koma vörum í hillur með einhverjum tilteknum hætti. En undirliggjandi ástæða hins vegar í þessum efnum varðandi dreifinguna á innanlandsframleiðslunni er hrein og klár, hún er ósköp einfaldlega peningaspursmál. Þegar ég skoðaði þetta á þessum tíma minnir mig að sá kostnaður sem féll með þeim hætti á fyrirtæki sem þá voru starfandi í þessari grein næmi einhvers staðar á bilinu 70–80 millj. kr. sem þau báru meðan önnur sem voru nær dreifingarstöðinni báru hann ekki. Og þá er þetta fyrst og fremst spurningin um það hvort ríkið ætlar að nýta sér þessa skökku samkeppni til að geta blóðmjólkað fyrirtæki sem starfa utan dreifingar- eða áhrifasvæðis dreifingarmiðstöðvarinnar. Það er því vel og ég fagna því mjög að fá stuðning við þetta mál sem við flytjum hér, þeir þingmenn sem ég gat um áðan.

Þetta tekur líka, ef menn vilja fara út í það, til miklu fleiri þátta í starfsemi hins opinbera. Það eru ótal eftirlitsstofnanir sem hafa höfuðstöðvar hér í miðjunni og stóra svelgnum, eðlilega, sem vilja skiljanlega vernda sitt og halda utan um sitt en það gerist oftar en ekki með þeim hætti að starfsstöðvar viðkomandi stofnana vítt um land fá ekki heimildir til að sinna tilteknum verkefnum, heldur eru sendir héðan með tilheyrandi kostnaði einstaklingar sem starfa á viðkomandi sviði og eru látnir taka út fyrirtæki, oft frá einni, tveimur og upp í þrjár stofnanir. Þetta gerir ekkert annað en auka kostnað þeirra fyrirtækja sem þurfa að standa við skyldur sínar sem eftirlitinu er uppálagt að fylgja eftir.

Við getum rutt úr vegi ýmsum svona hindrunum án mikils kostnaðar, fyrst og fremst með því að reyna að hugsa hlutina aðeins opnar en verið hefur og ekki vera eilíflega bundin við þá miðju sem hér er og þá gríðarlegu miðstýringu sem á sér stað og hefur verið byggð upp á mörgum undanförnum árum í starfsemi hins opinbera. Miðja hennar liggur hér og það sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu er í mínum huga gleggsta dæmið um það, gleggsta dæmið sem maður finnur um beina hindrun í regluverki hins opinbera fyrir uppbyggingu atvinnustarfsemi úti um land. Því ber í mínum huga tvímælalaust að ryðja úr vegi.