141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég tek undir með hv. þingmanni um þau áhyggjuefni sem komu fram í máli hans og varða fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóðanna, sem þetta frumvarp snýr að.

Það var eitt sem ég hjó sérstaklega eftir í máli hv. þingmanns sem mig langaði að spyrja hann frekar út í. Hv. þingmaður kom inn á það að lífeyrissjóðir ættu í auknum mæli, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að fjárfesta í orkufyrirtækjum og öðru slíku vegna þess að það væru innlendar eignir sem skiluðu erlendum gjaldeyri inn í rekstur lífeyrissjóðanna. Mig langar að spyrja að því, kannski ekki að ástæðulausu vegna þess að formaður Sjálfstæðisflokksins m.a. opnaði á það í viðtali fyrir ekki svo löngu síðan og sagðist vera fylgjandi því að hluti Landsvirkjunar yrði seldur til lífeyrissjóðanna. Síðan var einhver umræða um að þetta hefði verið samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en það mun nú ekki hafa verið, að því er ég best veit.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður á við Landsvirkjun í þessu samhengi. Væri hv. þingmaður opinn fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í Landsvirkjun eða er hv. þingmaður sammála okkur framsóknarmönnum meðal annarra að Landsvirkjun eigi ávallt að vera í eigu ríkisins líkt og flokksþing Framsóknarflokksins ályktaði um? Mig langaði að spyrja hv. þingmann að þessu og hvort hann hafi átt við þetta sérstaka dæmi þegar hann var að tala um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í orkugeiranum og í orkufyrirtækjum.