140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla helst ekki að ræða mikið fortíðina, ég hef meiri áhuga á að snúa mér að framtíðinni í þessari umræðu en engu að síður vil ég segja eitt: Því hefur verið haldið svo lengi fram að fylgt hafi verið meðvitaðri stefnu, sérstakri stjórnmálastefnu, um að reyna að hafa sem minnst eftirlit með fjármálastarfsemi í landinu. Nú er það svo að þessi mál eru afgreidd á Alþingi og á hverju ári er afgreiddur sérstakur fjárhagsrammi utan um Fjármálaeftirlitið. Ég fór í það að skoða nákvæmlega hvernig staðið var að þessum málum árin 2005–2008 og þá kom í ljós að um þetta mál var fullkomin pólitísk samstaða. Eina gagnrýnin sem kom fram kom reyndar úr flokki Vinstri grænna og var sú að það væri óeðlilega mikil aukning á fjármunum til Fjármálaeftirlitsins miðað við það sem hefði gerst í þróun varðandi Samkeppniseftirlitið. Þetta er um fortíðina.

Það sem mig langaði hins vegar til að segja er þetta: Ríkisstjórnin hefur það mikið á valdi sínu hvernig fjármálamarkaðurinn mun þróast, m.a. vegna þess að ríkisvaldið, fjármálaráðuneytið, heldur utan um stofnfjárbréfin að mjög miklu leyti í mjög mörgum sparisjóðum. Þess vegna veltur það mjög mikið á eigendastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum fjármálafyrirtækjum hvernig þessi fjármálamarkaður mun þróast. Ég sýndi fram á það áðan að við værum í fákeppnisástandi, ég sýndi fram á að það hefði orðið gríðarleg samþjöppun á síðustu árum á fjármálamarkaðnum. Mér finnst það slæm þróun. Ég hvatti til þess að ríkið reyndi að tryggja það með eigendastefnu sinni að þessi samrunaþróun héldi ekki áfram og sala á hlut ríkisins í sparisjóðunum yrði tryggð þannig að hún leiddi ekki til frekari samþjöppunar. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra aftur og ítreka það: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Mun ríkisstjórnin líða til dæmis sölu á einhverjum sparisjóðum á næstunni, sem mögulega verður á þessu ári? Mun ríkisstjórnin með einhverjum hætti tryggja (Forseti hringir.) að það verði ekki til að auka frekar samþjöppunina og fækka sparisjóðum í sparisjóðakerfinu í landinu?