141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. En það er einfaldlega þannig. Málið var til dæmis á dagskrá í síðustu viku ásamt öðrum málum sem komu seinna inn en þetta, til dæmis Bakki. Þá samdi stjórnarandstaðan um það hvaða málum henni var þóknanlegt að hleypa hér í gegn. Þetta mál var því miður ekki eitt af þeim þó að ég hefði gjarnan viljað að svo væri. Þessa dagana búum við við slíkt ofríki stjórnarandstöðunnar að mál eru tekin hér í gíslingu. Síðan fara þau mál til nefnda sem henni eru þóknanleg. Svo einfalt er það. Menn sáu það allir í síðustu viku þegar málið á var á dagskrá ásamt fleiri góðum málum.

Þegar þessi ósk kom til mín taldi ég það ábyrgðarfyllstu leiðina að óska eftir því að nefnd, sem sér um heildarendurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna og sem í eiga m.a. sæti fulltrúar Seðlabankans og líka fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, færi yfir málið. Það skiptir miklu máli að þessir aðilar séu sammála því að það sé gert, það er ábyrg niðurstaða þannig að málið kemur gríðarlega vel undirbúið hingað til þings þar sem þeir hafa nú þegar fjallað um það. Ef þingið treystir sér ekki til þess að fara með málið í gegn verður svo að vera. En ég legg málið engu að síður fram þó að ég hefði gjarnan viljað gera það fyrr og þó að það hafi ekki hlotið náð fyrir augum stjórnarandstöðunnar í samningum fyrir helgi. Ég tel það brýnt og ef þingið treystir sér ekki til að samþykkja það þá er það bara þannig. En hér legg ég málið inn vel tilbúið og vel rökstutt og vona að þingheimur sjái sér fært að samþykkja það af því að (Forseti hringir.) það skiptir miklu máli fyrir atvinnuvegafjárfestingu í þessu landi.