141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól; ég vil meina að þingmaðurinn hafi mjög yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af lífeyrismálum og fjármálamarkaðnum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hversu raunhæft markmið eða raunhæf skilyrði það eru sem lífeyrissjóðunum eru í rauninni sett með þeim lögum sem eru í gildi varðandi ávöxtunarkröfu þeirra upp á 3,5%. Er það ekki þannig að síðastliðin ár hefur sú ávöxtun ekki náðst? Ég velti því um leið upp við hv. þingmann hvort mikilvægt eða rétt sé að endurskoða löggjöfina sem setur það skilyrði.

Ef við reynum að horfa til framtíðar, hvað þýðir það ef við verðum áfram með þá kröfu en hún næst ekki? Hvaða áhrif mun það mögulega hafa á stöðu lífeyrissjóðanna og þeirra sem þiggja greiðslur í framtíðinni?

Mér þótti áhugavert þegar hv. þingmaður talaði um þá áhættu sem felst að sjálfsögðu í því að auka eða gefa frekari heimildir til að fjárfesta í óskráðum bréfum. Ég velti því upp við hv. þingmann hvaða aðrar leiðir séu færar til að koma öllum þeim fjármunum sem lífeyrissjóðirnir eru með hjá sér í vinnu, ef má orða það svo, á næstu árum og næstu missirum. Ég hygg að það sé í kringum 350–500 milljarðar sem þarf að ávaxta á næstu árum. Hvernig á að gera það ef ekki með aðgerðum eins og þeim sem er verið að boða hér?