154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. ráðherra hér í tengslum við skólamál, málefni sem kom svo oft og ítrekað upp í samtölum okkar í Viðreisn í vetur þegar við vorum að heimsækja skóla víðs vegar um landið og það skipti engu hvort við vorum að ræða við skólastjórnendur, kennara eða nemendur sjálfa. Það er það sem lýtur að námsgögnum. Ég er ekki að leggja sérstaka áherslu í spurningu minni endilega á nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir eða annað, heldur bara þessa þróun, breytingar í kennsluháttum sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur rætt mikið um; hvernig við þurfum að efla kennara, veita þeim færi á að búa nemendurna okkar undir örar breytingar, bregðast við, endurnýja, uppfylla, mæta þessum fjölbreyttu kröfum og ekki bara nútímavæða eða færa þetta sem mest við getum í átt að kröfum dagsins í dag heldur líka þannig að hægt sé að bregðast við þessum öru breytingum sem eru að verða. Það verður að segjast eins og er að námsgagnagerð — og þetta er kannski eitt af því fáa sem ég ætla ekki að varpa sökinni á beint á þessa ríkisstjórn, þróunin er lengri, þetta hefur staðið yfir í lengri tíma — hefur einhvern veginn setið á hakanum. Það hefur verið skortur á endurnýjun og nýrri hugsun þar. Ég sakna þess eiginlega í þessari fjármálaáætlun að það séu skýr skilaboð um það að hér eigi að gera bragarbót á. Ég ætla eiginlega bara að nýta tækifærið hér og spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru skilaboð fjármálaáætlunar um þessi mál?