151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

íþyngjandi regluverk.

[13:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Dæmið sem hér var tekið finnst mér heldur rýrt í roðinu vegna þess að hér erum við að tala um peningaþvættismál þar sem við höfum á undanförnum árum þurft að gera okkur grein fyrir því að ef við sinnum ekki þeim málaflokki og gerum það ekki myndarlega í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar mun það koma okkur í koll og draga úr tækifærum íslensks atvinnulífs, ekki síst í alþjóðlegu samhengi. Hins vegar er alltaf spurning hversu langt kerfið á að ganga í að setja kvaðir á fyrirtæki um að veita upplýsingar.

Ég ætla að nefna dæmi um mál þar sem ríkisstjórnin hefur verið að stíga skref til þess að gera lífið einmitt auðveldara fyrir þá sem eru í rekstri. Stafrænt Ísland er mér auðvitað efst í huga í því sambandi þar sem við drögum úr þörfinni fyrir að standa í röðum til þess að eiga í samskiptum við stofnanir ríkisins, færum okkur inn í stafrænu öldina, notum stafræna tækni til að eiga samskipti, tökum gagnagrunna ríkisins og látum þá tala saman á bak við tjöldin en ekki þannig að hlaupa þurfi með pappíra úr einni stofnun yfir í aðra og svo í þá þriðju og fjórðu til að fá að stimpla þá, sem er krafan sem kerfið gerir til þess að fólk fái leyfi sem um er sótt.

Lækkun tryggingagjalds er auðvitað áherslumál sem við höfum verið með á undanförnum árum sem mun létta róðurinn fyrir fyrirtæki, og einnig almennt lægri skattar. Það eru mál sem skipta raunverulegu máli, en að taka peningaþvættismálin á dagskrá sem mál sem geri fyrirtækjum erfitt fyrir, finnst mér, eins og ég segi, ekki lýsandi fyrir það sem helst brennur á að við gerum. En ég tek undir með hv. þingmanni um að við þurfum að vera meðvituð um það þegar ólík ráðuneyti, ólíkar stofnanir og embættismenn og kerfið allt fær hugmyndir, hver í sínu horni sem síðan safnast saman í straum hugmynda um að skoða betur (Forseti hringir.)og láta svara sér um hitt og þetta. Það er alveg hárréttur punktur. En mér finnst hins vegar peningaþvættismálin kannski ekki gott dæmi.