Samantekt um þingmál

Þjóðkirkjan

587. mál á 151. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að einfalda regluverk þjóðkirkjunnar og draga sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins af málefnum þjóðkirkjunnar.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um þjóðkirkjuna og er það liður í að uppfylla viðbótarsamning milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019 þar sem m.a. er stefnt að einföldun reglu­­verks um þjóðkirkjuna. Lagt er til að kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar nema lög kveði á um annað og að hún ráði málefnum sínum um skipulag sitt og starfsemi innan lögmæltra marka. Þá er lagt til að flest ákvæði í gildandi lögum er varða starfsemi þjóðkirkjunnar og skipulag hennar falli brott og verði því einungis fjallað um þau mál á kirkjuþingi og hjá öðrum kirkjulegum stjórnvöldum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, lög um leysing á sóknarbandi, nr. 9/1882, lög um innheimtu og meðferð á kirknafé, nr. 20/1890, lög um umsjón og fjárhald kirkna, nr. 22/1907, lög um sölu á prestsmötu, nr. 54/1921, lög um Strandarkirkju og sandgræðslu í Strandarlandi, nr. 50/1928, lög um bókasöfn prestakalla, nr. 17/1931, lög um utanfararstyrk presta, nr. 18/1931, lög um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3/1945, lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963, lög um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982, og lög um Skálholtsskóla, nr. 22/1993.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð svo nokkru nemi.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt nær óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og viljayfirlýsing frá 6. sept. 2019.


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.