Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 411 . mál.


Ed.

717. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

Flm.: Guðrún Agnarsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir.



1. gr.

    59. gr. laganna orðist svo:
    Barn merkir í lögum þessum einstakling innan 16 ára aldurs.
    Ungmenni merkja í lögum þessum unglinga á aldursskeiði 16–18 ára.

2. gr.

    60. gr. orðist svo:
    Börn yngri en 14 ára má ekki ráða nema til léttra, hættulítilla starfa. Ekki má láta börn á aldrinum 14 og 15 ára, né heldur þau sem yngri eru, vinna við hættulegar vélar og við hættulegar aðstæður.
    Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur leiðbeinandi skilgreiningar um hvað teljast létt, hættulítil störf, hættulegar vélar og hættulegar aðstæður, sbr. lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, og að höfðu samráði við Barnaverndarráð Íslands.

3. gr.

    Í stað orðsins „unglinga“ í fyrri málsgrein 61. gr. komi: barna. Í stað orðsins „unglingar“ í síðari málsgrein greinarinnar komi: ungmenni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Hér eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um vinnu barna og unglinga. Tilgangur þeirra er annars vegar að auka vernd gegn slysum og hins vegar að samræma aldursmörk þeim mörkum sem gilda í lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 53 frá 1966, með áorðnum breytingum.
    Tíundi kafli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 frá 1980, fjallar um vinnu barna og unglinga. Enn hafa ekki verið settar sérstakar reglur um framkvæmd þessa þáttar laganna og reynslan hefur sýnt að ákvæðin, sem varða vinnu ungmenna, veita þeim ekki næga vernd gegn slysum. Allt of mörg dæmi eru þess að börn og unglingar yngri en 15 ára hafi verið sett til vinnu við mjög hættulegar vélar sem þau kunnu lítið með að fara eða að búnaði vélanna var áfátt. Slíkt getur og hefur reyndar leitt til alvarlegra slysa.
    Enn fremur ber á það að líta að ákvæðin um vinnu barna og unglinga í lögum nr. 46 frá 1980 eru ekki í samræmi við ákvæði laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53 frá 1966, um sama efni hvað snertir aldursmörk. Í marsmánuði 1983 var gerð eftirfarandi breyting á skilgreiningu barna og ungmenna í síðarnefndu lögunum: „Með börnum er samkvæmt lögum þessum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru unglingar á aldursskeiði 16–18 ára, sbr. ákvæði 1. mgr. 43. gr. þessara laga.“ (1. gr. laga nr. 14/1983.)
    Í þessu frumvarpi eru aldursmörk hækkuð til samræmis í því skyni að lengja það æviskeið sem í lögum er kölluð bernska. Jafnframt er bætt inn sérstöku ákvæði um hættulegar vélar og hættulegar aðstæður. Báðar þessar breytingar eru gerðar með það í huga að draga úr slysahættu og óhóflegu vinnuálagi á börn. Brýnt er að settar verði nánari reglur um framkvæmd þessara lagaákvæða strax þegar breytingar þessar hafa náð fram að ganga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér eru aldursmörk hækkuð úr 14 í 16 ára fyrir börn og úr 14–17 ára í 16–18 ára fyrir ungmenni í samræmi við áorðnar breytingar á lögum nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna.

Um 2. gr.


    Hér er að hluta stuðst við fyrri skilgreiningu á börnum, þ.e. að börnum yngri en 14 ára er einungis ætlað að vinna létt og hættulítil störf. Hins vegar má fela 14 og 15 ára börnum erfiðari störf, en sérstök áhersla er jafnframt lögð á það að hvorki þau né yngri börn megi vinna við hættulegar vélar eða hættulegar aðstæður.
    Rétt þykir að stjórn Vinnueftirlitsins hafi samráð við Barnaverndarráð
Íslands þegar hún setur nánari reglur og skilgreiningar um vinnu barna og ungmenna.

Um 3. gr.


    Í greininni er einungis breytt orðalagi til samræmingar við fyrri breytingar.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Vinna barna og unglinga — X. kafli laga nr. 46 frá 1980,


um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.



     59. gr. Barn merkir í lögum þessum einstakling innan 14 ára aldurs.
    Ungmenni merkja í lögum þessum unglinga á aldursskeiði 14–17 ára.
     60. gr. Börn má ekki ráða, nema til léttra, hættulítilla starfa.
    Vinnueftirlit ríkisins setur leiðbeinandi skilgreiningar um, hvað teljast létt, hættulítil störf, sbr. lög nr. 53 1966 um vernd barna og ungmenna.
     61. gr. Vinnutími unglinga, sem eru 14 og 15 ára, skal ekki fara fram úr venjulegum vinnutíma fullorðinna, sem starfa í sömu starfsgrein.
    Unglingar mega ekki vinna lengur en 10 klukkustundir á dag. Vinnutíminn skal vera samfelldur og aðeins vera rofinn af hæfilegum matmáls-, kaffi- og hvíldartímum.
     62. gr. Unglingar, sem eru 16 og 17 ára, skulu hafa minnst 12 klukkustunda hvíld á sólarhring. Hvíldartíminn skal að jafnaði vera á tímanum milli klukkan 19 og 7.
    Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett sérstakar reglur um lengd vinnutíma unglinga 16 og 17 ára og hvenær hann skal vera, fyrir störf og starfsgreinar, þegar aðstæður eru slíkar, að nauðsynlegt er að setja slíkar reglur.
     63. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett reglur um:
    a. að hve miklu leyti megi leyfa vinnu unglinga, sem eru 16 og 17 ára, fram yfir venjulegan vinnutíma í viðkomandi starfsgrein.
    b. takmörkun á því að unglingar, sem eru 16 og 17 ára, vinni við þau skilyrði, sem nefnd eru í 3. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr., staflið a.



Fylgiskjal II.


41. gr. laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna.



    Barnaverndarnefnd skal hafa eftirlit með því, að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum.
    Eigi má ráða barn yngra en 15 ára til vinnu í verksmiðju, enda hafi það lokið fullnaðarprófi barnafræðslu eða burtfararprófi. Eigi má hafa yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára við vinnu í skipum, nema skólaskipi eða æfingaskipi. Yngri menn en 18 ára mega ekki vera kyndarar eða kolamokarar, og eigi mega yngri menn en 19 ára starfa við vélgæslu á skipum. Eigi má ráða yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára til vinnu í loftfari. Til iðnaðarnáms má eigi ráða barn yngra en 16 ára.
    Rétt er ráðherra að setja reglugerðir, er taki yfir landið í heild, ef við á, en annars einstök umdæmi, þar sem nánar er kveðið á um aldur barna til vinnu í tiltekinni starfsgrein, hvíld, aðbúð, orlof og önnur vinnuskilyrði barna og ungmenna í tilteknum starfsgreinum og við tiltekin störf starfsgreinar. Þá skal einnig setja ákvæði í reglugerð, er sporni við yfirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu barna og ungmenna, og kveða á um hámarksvinnutíma svo og eftir atvikum læknisskoðun til úrlausnar um það fyrir fram, að vinna sé ekki barni eða ungmenni um megn. Enn fremur skal setja ákvæði í reglugerð, er sporni við vinnu barna og ungmenna með tækjum, er sérstök slysahætta stafar af.
    Rétt er, að ákvæði reglugerða um vinnuvernd barna og ungmenna taki m.a. yfir vernd sendisveina í starfi, þar á meðal útbúnað flutningatækja þeirra; takmörkun á blaðasölu barna og ungmenna og annarri verslunarstarfsemi þeirra; störf barna og ungmenna í veitingahúsum og opinberum skemmtistöðum og þátttöku þeirra í opinberri skemmtistarfsemi, svo og önnur störf, sem siðferði þeirra getur stafað hætta af.
    Brot gegn ákvæðum greinar þessarar, svo og brot gegn ákvæðum reglugerða, er settar eru samkvæmt henni, varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3
árum. Auk refsingar má svipta mann réttindum samkvæmt almennum hegningarlögum, ef miklar sakir eru.



Fylgiskjal III.


Fjórði kafli reglugerðar nr. 105/1970 um vernd barna og ungmenna.



    Barnaverndarnefnd skal hafa eftirlit með því, að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum.
    Eigi má ráða barn yngra en 15 ára til vinnu í verksmiðju, enda hafi það lokið fullnaðarprófi barnafræðslu eða burtfararprófi. Eigi má hafa yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára við vinnu í skipum, nema skólaskipi eða æfingaskipi. Yngri menn en 18 ára mega ekki vera kyndarar eða kolamokarar, og eigi mega yngri menn en 19 ára starfa við vélgæslu á skipum. Eigi má ráða yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára til vinnu í loftfari. Til iðnaðarnáms má eigi ráða barn yngra en 16 ára.
    Við framkvæmd ákvæða um vernd barna og ungmenna, skal jafnan kosta kapps um að ala þau upp í anda starfs og framkvæmda, og að öðru leyti á þann veg að andlegur og líkamlegur þroski þeirra glæðist og að þau fái sem best neytt hæfileika sinna.
    Jafnframt skal þess gætt í starfsvali að starfið sé í samræmi við afkastagetu og starfsþol viðkomanda. Sérstaklega skal þess gætt að starfið reyni ekki um of á líkamsþrek viðkomanda, hvorki að því er varðar eðli starfsins né lengd starfstíma. Þannig ber að gæta þess að tímalengd starfsins fari eigi í bág við andlega uppfræðslu barnsins eða ungmennisins, svo sem skólavist þess. Enn fremur skal þess gætt að viðkomandi njóti nægrar hvíldar, svefns og fæðis.
    Þá skal þess gætt, að starfsaðstaða á vinnustað sé góð, andrúmsloft gott, frekar lögð áhersla á úti- en innivinnu, þar sem því verður komið við.
    Enn ber að gæta þess sérstaklega, að barni eða ungmenni sé eigi falið starf, sem í eðli sínu eða vegna starfsliðs geti haft siðspillandi áhrif á viðkomanda.
    Hafa ber um hönd nákvæmt eftirlit með líkamlegri og andlegri heilsu barna og ungmenna í sambandi við starf, bæði að því er varðar val starfs og í
sambandi við starfið að öðru leyti. Þannig ber að sjá fyrir nægu eftirliti læknis, bæði að því er varðar viðkomanda sjálfan og samstarfslið.
    Forðast skal að fela börnum meðferð fjár eða önnur verslunarviðskipti í starfi. Þá skal þess gætt að fela eigi börnum eða ungmennum starf með hættulegum tækjum, svo sem hvers konar ökutækjum eða öðrum tækjum sem sérstök slysahætta getur stafað af, nema þau hafi hlotið kennslu og hæfnispróf.
    Að því er varðar vinnu með ökutækjum við landbúnaðarstörf, vegavinnu og önnur störf, þar sem aðstæður kunna að valda því, að slík vinna sé eðlileg eða óhjákvæmileg skal þess gætt að hún fari eingöngu fram á sléttlendi eða þar sem eigi er hætta á veltu ofan í gryfjur, skurði eða aðrar slíkar misfellur í landi.
    Ef nauðsynlegt þykir eða óhjákvæmilegt að fela börnum eða ungmennum starf í frystihúsum, skipum eða annars staðar, þar sem vélar eða önnur hættuleg tæki eru staðsett og notuð, skal það því aðeins heimilt, að barnið sé yfir 14 ára og að foreldri, aðrir forráðamenn eða sérstakir trúnaðarmenn viðkomandi barnaverndarnefndar hafi tryggt eftirlit með högum barnsins við vinnuna. Í slíkum tilvikum séu börn eða ungmenni frekar höfð við útistörf en innistörf og eingöngu á stöðum, þar sem auðvelt er að fylgjast nákvæmlega með þeim.
    Bannað er að börn innan 16 ára vinni að jafnaði lengur en 6 klukkutíma í einu eða næturvinnu.