Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 373 . mál.


Sþ.

1151. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988.

Frá 1. minni hl. fjárveitinganefndar.



    Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1988 var flutt voru kynnt þau meginmarkmið sem þáverandi ríkisstjórn hafði sett sér í fjármálum ríkisins. Þau voru eftirfarandi:
—     Að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum.
—     Minni lánsfjárþörf og engar nýjar erlendar lántökur fyrir A-hluta ríkissjóðs.
—     Endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins þannig að skattkerfið yrði einfaldara, skilvirkara og réttlátara.
—     Dregið yrði úr sjálfvirkni ríkisútgjalda.
—     Ríkisábyrgðum yrði aflétt.
    Í samræmi við þessi markmið voru fjárlög afgreidd með rekstrar- og greiðslujöfnuði. Fjárlögunum var síðan lítillega breytt í febrúarmánuði með lögum nr. 10/1988 án þess að meginmarkmiðunum væri raskað.
    Það frumvarp til fjáraukalaga, sem hér er til meðferðar, sannar á hinn bóginn að útkoman úr fjármálum ríkisins á árinu 1988 varð á margan hátt fjarri því sem að var stefnt. Þetta á sér m.a. þær skýringar að á árinu störfuðu tvær ríkisstjórnir og tveir fjármálaráðherrar. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lét af störfum en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við 28. september.
    Að sjálfsögðu verður ekki sundurgreint með neinni nákvæmni hvað tilheyrir hvorri ríkisstjórn fyrir sig af því sem úr böndum fór í meðferð ríkisfjármála á árinu. Sumt af því liggur þó býsna ljóst fyrir enda varð mikil stefnubreyting við stjórnarskiptin.
    Allt fram í septembermánuð hélt fyrrverandi fjármálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, því fram að staða ríkissjóðs hefði að vísu hallast, en þó eigi meira en svo að halli yrði 693 m.kr. Hér verður ekki lagður dómur á hvort þetta var rétt mat. Niðurstaðan varðandi árið í heild varð hins vegar sú að hallinn varð 8.166 m.kr. Hallinn varð því nærri tólffalt meiri en Jón Baldvin Hannibalsson áætlaði fyrir stjórnarskiptin. Beinar aukafjárveitingar urðu fyrstu níu mánuði ársins í tíð Jóns Baldvins 511 m.kr. en síðustu þrjá mánuði ársins í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2.055 m.kr.
    Um leið og markmiðið um jöfnuð í ríkisbúskapnum fór svo hrapallega út um þúfur varð hið sama uppi á teningnum varðandi áformin um lántökur ríkissjóðs og greiðslujöfnuð. Þrátt fyrir markmið um engar nýjar erlendar lántökur voru tekin erlend lán sem námu 4.200 m.kr. og lán A-hluta ríkissjóðs í heild urðu tæplega 9.400 m.kr. Þrátt fyrir allar þessar lántökur varð greiðsluhalli sem nam 4.200 m.kr.
    Gífurleg útgjöld úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga, einkum á síðustu mánuðum ársins eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði tekið við, leiddu til þeirrar niðurstöðu sem fyrr er að vikið, að ríkissjóðshallinn varð 8.200 m.kr. Útgjöldin voru hækkuð um liðlega 9.000 m.kr. en tekjurnar hækkuðu á móti um 900 m.kr. Að hluta til má rekja það til samdráttar í efnahagskerfinu að tekjurnar skyldu ekki verða meiri.
    Það millifærslu- og sjóðakerfi sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kom á fót á síðustu mánuðum ársins leiddi auðvitað til þess m.a. að markmiðið um að draga úr ríkisábyrgðum hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þess í stað voru ríkisábyrgðir svo stórkostlega auknar. Nú standa ríkisábyrgðir að baki a.m.k. 10 milljörðum kr. sem varið hefur verið til skuldbreytinga og millifærslna á grundvelli þessa kerfis. Þær fjárhæðir gjaldfalla á árunum 1991–92 og verða þá að greiðast, annað tveggja af atvinnufyrirtækjunum eða ábyrgðin fellur á ríkissjóð og veldur því nýjum vanda á þeim árum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar velti þannig vandanum þarna, sem víða annars staðar, yfir á herðar framtíðarinnar til þess að það kæmi í hlut annarra að standa undir honum.
    Þess er nauðsynlegt að minnast að Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn slitu stjórnarsamstarfinu í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar vegna tillagna sjálfstæðismanna en þær voru í megindráttum tvenns konar:
    Í fyrsta lagi að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl, m.a. með breytingu á gengi.
    Í öðru lagi að mæta verðhækkunaráhrifum gengisbreytingarinnar fyrir almenning í landinu með því að lækka matarskattinn um helming.
    Þessar tillögur formanns Sjáflstæðisflokksins réðu úrslitum. Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn rufu stjórnarsamstarfið og mynduðu nýja ríkisstjórn í lok september. Í stað þess að fallast á aðgerðir, sem hefðu veitt undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar nýjan rekstrargrundvöll, hlupu þessir flokkar í faðm Alþýðubandalagsins og mynduðu nýja ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn hafðist ekki að í málefnum atvinnuveganna mánuð eftir mánuð, utan þess að taka lán til millifærslna, skuldbreytinga og hlutafjárframlaga og stofna með þeim til ríkisábyrgða sem binda framtíðinni bagga. Samtímis fór óráðsía í fjármálum ríkisins vaxandi svo sem vikið er að hér að framan og frumvarp þetta ber vitni um. Afleiðingarnar hafa verið meiri útgjöld ríkissjóðs og hærri skattar á þjóðina en nokkru sinni hafa áður þekkst.

Alþingi, 29. apríl 1990.



Pálmi Jónsson,


frsm.


Friðjón Þórðarson.


Egill Jónsson.