Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 97. mál.



Ed. 100.

Frumvarp til laga



um gjaldþrotaskipti o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. ÞÁTTUR


Almenn ákvæði.


I. KAFLI

Orðskýringar.

1. gr.

    Í lögum þessum er orðið skuldari notað um mann, félag eða stofnun sem æskir og fær eftir atvikum heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafist er gjaldþrotaskipta hjá.
    Orðið þrotamaður er í lögum þessum notað um mann þegar bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ef átt getur við og annað er ekki tekið fram er orðið einnig notað um félög og stofnanir þegar bú þeirra hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

2. gr.

    Í lögum þessum telst frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum þessara laga um gjaldþrotaskipti. Ef fleiri en einn þessara daga koma til álita telst sá fyrsti þeirra frestdagur, sbr. þó 2.–4. mgr.
    Sá dagur, sem héraðsdómara barst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, telst frestdagur þótt beiðnin hafi verið afturkölluð eða henni hafi verið hafnað, ef ný beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans berst héraðsdómara innan mánaðar frá því það gerðist. Hafi skuldara verið veitt heimild til greiðslustöðvunar telst sá dagur, sem beiðni um hana barst héraðsdómara, enn fremur frestdagur ef héraðsdómara berst beiðni skuldarans um heimild til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti á búi hans innan mánaðar frá því greiðslustöðvun lauk.
    Sá dagur, sem héraðsdómara barst beiðni um heimild til að leita nauðasamnings, telst frestdagur ef honum berst ný beiðni um slíka heimild, beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða krafa um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans innan mánaðar frá því upphaflega beiðnin var afturkölluð eða henni var hafnað, heimild til að leita nauðasamnings féll niður eða úrskurður gekk um hvort nauðasamningur yrði staðfestur.
    Sá dagur, sem héraðsdómara barst krafa um gjaldþrotaskipti, telst frestdagur þótt krafan hafi verið afturkölluð eða henni hafi verið hafnað, ef honum berst ný krafa um gjaldþrotaskipti eða beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings innan mánaðar frá því það gerðist.
    Beiðni eða krafa telst komin fram innan mánaðar skv. 2.–4. mgr. ef hún berst í síðasta lagi á sama mánaðardegi og fyrri atburður gerðist almanaksmánuði fyrr.


3. gr.

    Orðið nákomnir er í lögum þessum notað um þá sem eftirfarandi tengsl standa milli:
     1.      hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð,
     2.      þá sem eru skyldir í beinan legg eða fyrsta lið til hliðar, en með skyldleika er í þessu sambandi einnig átt við tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur,
     3.      þá sem tengjast með hjúskap eða óvígðri sambúð með sama hætti og um ræðir í 2. tölul,
     4.      mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í,
     5.      tvö félög eða stofnanir ef annað þeirra eða maður nákominn öðru þeirra á verulegan hluta í hinu,
     6.      menn, félög og stofnanir sem eru í sambærilegum tengslum og um ræðir í 1.–5. tölul.

II. KAFLI

Lögsaga o.fl.

4. gr.

    Þegar skuldari er einstaklingur verður ákvæðum þessara laga um heimild hans til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og um gjaldþrotaskipti á búi hans því aðeins beitt að skuldarinn eigi lögheimili hér á landi og sé ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla. Ákvæðum þessara laga verður þó beitt um íslenskan ríkisborgara sem á ekki lögheimili hér á landi, ef hann er undanþeginn lögsögu dómstóla í öðrum ríkjum.
    Þegar skuldari er félag eða stofnun verður ákvæðum þessara laga um heimild hans til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og um gjaldþrotaskipti á búi hans því aðeins beitt að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:
     1.      þegar um skrásett félag er að ræða að það eigi skráð varnarþing hér á landi,
     2.      þegar um óskrásett félag er að ræða að það eigi varnarþing hér á landi samkvæmt samþykktum sínum, lögum eða eðli máls, en sömu reglum skal beitt um stofnun eftir því sem átt getur við.

5. gr.

    Einkafirma manns og félagi, þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum, verður aðeins veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings ef sá eða þeir sem bera ábyrgð á skuldbindingum firmans eða félagsins fá einnig sömu heimild. Bú slíks firma eða félags verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema bú þess manns eða þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum firmans eða félagsins séu áður tekin til gjaldþrotaskipta.
    Nú er skuldarinn félag, sem á varnarþing hér á landi og starfrækir útibú hér eða erlendis, félagið ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og félaginu er veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, og skal þá sú heimild ná sjálfkrafa til útibúsins. Eins skal farið að ef bú félagsins er tekið til gjaldþrotaskipta. Hér á landi verður útibúinu ekki veitt sjálfstæð heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og bú þess verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema með búi félagsins.
    Opinberri stofnun verður ekki veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og bú hennar verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta ef ríkið eða sveitarfélag ber ábyrgð á skuldbindingum hennar nema mælt sé á annan veg í lögum. Bú sveitarfélags verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta.

6. gr.

    Dómsmálaráðherra er heimilt að gera samninga fyrir hönd íslenska ríkisins við önnur ríki þannig að lagagildi hafi hér á landi um að heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, sem er veitt í einu samningsríki, gildi sjálfkrafa í öðru samningsríki með þeim réttaráhrifum sem fylgja slíkri heimild í öðru hvoru ríkinu. Á sama hátt er dómsmálaráðherra heimilt að gera samninga við önnur ríki um að gjaldþrotaskipti í einu samningsríki nái einnig til eigna eða réttinda þrotamanns í öðru samningsríki, en ákveða má í slíkum samningi að gjaldþrotaskipti fari að einhverju leyti eða öllu sjálfstætt fram í hverju samningsríki fyrir sig eftir löggjöf þess eða annars tiltekins ríkis.
    Ef annað leiðir ekki af samningi, sem er gerður eftir ákvæðum 1. mgr., hafa heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipti í öðru ríki ekki áhrif hér á landi. Þó verður ákvæðum þessara laga um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings beitt um útibú erlends félags, sem er starfrækt og á skráð varnarþing hér á landi, ef félagið ber ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og hefur áður fengið sömu eða fyllilega sambærilega heimild í sínu heimaríki. Bú slíks útibús verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi, nema bú erlenda félagsins hafi áður verið tekið til gjaldþrotaskipta.

7. gr.

    Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og krafa um gjaldþrotaskipti skal vera skrifleg. Í henni eða fylgigögnum með henni skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
     1.      hvers sé beiðst eða krafist,
     2.      fullt nafn skuldarans og kennitala hans; sé skuldarinn einstaklingur skal enn fremur koma fram hvert lögheimili hans sé og dvalarstaður, sé hann annar en lögheimili, hvort hann hafi atvinnurekstur með höndum og ef svo er hver sá rekstur sé, hvar hann fari fram og hvort um firma sé ræða sem beri sérstakt heiti; ef skuldarinn er félag skal enn fremur koma fram hvert varnarþing og hvar starfsstöð þess sé, hvenær það hafi verið stofnað, hver tilgangur þess sé, hverja starfsemi það hafi með höndum og hvar hún fari fram, en sömu upplýsingar skulu koma fram ef skuldarinn er stofnun,
     3.      við hver atvik, rök og lagaákvæði beiðnin eða krafan sé studd.
    Ef beiðni eða krafa stafar frá skuldaranum sjálfum skulu að auki koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir hans og skuldir.
    Ef krafa stafar frá öðrum en skuldaranum skal koma fram hver hafi hana uppi ásamt kennitölu hans og heimili, svo og yfirlýsing af hendi hlutaðeiganda um að hann ábyrgist allan kostnað af þeirri aðgerð sem hann krefst.
    Þau gögn sem beiðni eða krafa er studd við skulu fylgja henni. Ef skuldarinn er félag skulu eftir því sem unnt er einnig fylgja samþykktir þess, gögn eða vottorð um skráningu og síðustu reikningar þess, en eftir atvikum skal eins farið að ef um stofnun er að ræða eða mann sem hefur atvinnurekstur með höndum.

8. gr.

    Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og kröfu um gjaldþrotaskipti skal beint til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem skuldarinn yrði sóttur í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu.
    Ef samtímis er beiðst heimildar til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafist gjaldþrotaskipta hjá einum manni eða fleirum og firma eða félagi, sbr. 1. mgr. 5. gr., og varnarþing þeirra er ekki það sama, getur sá sem setur fram beiðni eða kröfu óskað eftir því við héraðsdómara á varnarþingi eins þeirra að hann fari með málefni þeirra allra. Ef héraðsdómari telur efni til að verða við þeirri ósk skal hann senda dómsmálaráðherra erindið tafarlaust, en ráðherra ákveður endanlega hvort við því verði orðið. Héraðsdómari getur ekki tekið fyrir beiðni eða kröfu varðandi þá sem eiga varnarþing utan umdæmis hans fyrr en ráðherra hefur heimilað það.
    Ef beiðni eða krafa kemur fram í umdæmi þar sem ekki verður farið með hana skal héraðsdómari framsenda hana og fylgigögn með henni héraðsdómstólnum í réttu umdæmi með áritun eða vottorði um hvenær hún hafi borist honum, en sá dagur sem hann tók við henni telst frestdagur þótt hún hafi komið fram í röngu umdæmi.
    Farið verður með beiðni eða kröfu í því umdæmi þar sem hún kom réttilega fram þótt skuldari flytji lögheimili sitt eða skráð varnarþing úr umdæminu áður en endanleg afstaða er tekin til hennar.
    Beiðnum eða kröfum skuldarans eða annarra varðandi heimild til greiðslustöðvunar skal beint til þess héraðsdómstóls sem veitti heimildina í byrjun þótt skuldarinn hafi flutt lögheimili sitt eða skráð varnarþing úr umdæminu eftir að heimildin var veitt. Eins skal farið með beiðnir eða kröfur varðandi heimild til að leita nauðasamnings.

9. gr.

    Við héraðsdómstóla skulu haldnar skrár um beiðnir og kröfur samkvæmt lögum þessum þar sem fram koma upplýsingar um afdrif þeirra, svo og um dómsmál sem eru rekin eftir ákvæðum laga þessara, en dómsmálaráðherra setur nánari reglur um slíkar skrár í reglugerð.
    Dómsmálaráðherra setur enn fremur fyrirmæli í reglugerð um þingbækur, aðra skráningu upplýsinga og veitingu vottorða um þau málefni sem lög þessi taka til.
    Héraðsdómari skal veita þeim sem þess krefst og hann telur hafa lögmætra hagsmuna að gæta upplýsingar úr skrám skv. 1. mgr. Sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta getur einnig krafist aðgangs að beiðnum eða kröfum og fylgigögnum með þeim þótt þær hafi ekki verið lagðar fram á dómþingi.

2. ÞÁTTUR


Greiðslustöðvun.


III. KAFLI

Heimild til greiðslustöðvunar.

10. gr.

    Skuldari, sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, sem hann hefur ráðið í því skyni, getur leitað heimildar til greiðslustöðvunar.
    Í beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða með henni skal, auk þess sem mælt er fyrir um í 7. gr., koma fram ítarleg greinargerð skuldarans um hvað valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir felist, hvernig hann hyggist leysa úr þeim með heimild til greiðslustöðvunar og hvern hann hafi ráðið sér til aðstoðar. Ef skuldarinn er bókhaldsskyldur skal fylgja beiðninni yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að bókhald skuldarans sé í lögboðnu formi.
    Aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun skal fullnægja hæfisskilyrðum 1.–4. tölul. 2. mgr. 75. gr. og má hann hvorki sjálfur hafa hagsmuna að gæta af fjárhagslegum málefnum skuldarans né neinn honum nákominn. Með beiðni um heimild til greiðslustöðvunar skal lögð fram yfirlýsing hans um að hann sé fús til að taka að sér starfann og fullnægi þessum skilyrðum.

11. gr.

    Tafarlaust eftir að beiðni um heimild til greiðslustöðvunar hefur borist skal héraðsdómari ákveða hvenær hún verði tekin fyrir á dómþingi, en þinghald í því skyni skal háð svo fljótt sem verða má. Ákvörðun þessa tilkynnir héraðsdómari skuldaranum með sannanlegum hætti og þeim fyrirvara að þingsókn verði komið við.
    Þegar beiðni um heimild til greiðslustöðvunar er fyrst tekin fyrir og mætt er af hálfu skuldarans skal héraðsdómari leita svara við sérhverju því sem hann telur óljóst eða ónógar upplýsingar komnar fram um og getur haft þýðingu við mat á því hvort orðið verði við beiðninni. Héraðsdómara er rétt að benda skuldaranum á það sem kann að vera áfátt og veita honum skamman frest til að leggja fram frekari gögn eða til að veita nánari upplýsingar um tiltekin atriði, ef það verður talið geta borið árangur, en slíkur frestur skal ekkí veittur til lengri tíma en einnar viku og að jafnaði aðeins einu sinni. Héraðsdómara er einnig rétt að veita skuldaranum frest með sama hætti til að ráða sér annan mann til aðstoðar ef sá maður, sem hann hefur ráðið sér í byrjun, fullnægir ekki hæfisskilyrðum til starfans að mati héraðsdómara.
    Ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans þegar beiðni hans er tekin fyrir skoðast hún afturkölluð.

12. gr.

    Þegar gagnaöflun er lokið um beiðni um heimild til greiðslustöðvunar skal héraðsdómari án ástæðulauss dráttar kveða upp úrskurð um hvort heimildin sé veitt.
    Héraðsdómari skal synja um heimild til greiðslustöðvunar ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
     1.      að krafa um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans hafi komið fram áður en beiðni hans um heimild til greiðslustöðvunar var tekin til úrskurðar og krafan hafi hvorki verið afturkölluð né hafnað með úrskurði,
     2.      að skuldarinn hafi áður haft heimild til greiðslustöðvunar sem hefur lokið innan þriggja ára fyrir frestdag,
     3.      að nauðasamningur hafi komist á fyrir skuldarann innan þriggja ára fyrir frestdag,
     4.      að skuldaranum sé sýnilega þegar orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu vegna ákvæða 2. mgr. 64. gr.,
     5.      að ekki verði talið að skuldarinn eigi í slíkum fjárhagsörðugleikum að þeir séu verulegir eða ónógar upplýsingar hafi komið fram til að lagt verði mat á það,
     6.      að ráðagerðir skuldarans um ráðstafanir meðan á greiðslustöðvun stæði verði ekki taldar heimilar eða samrýmast tilgangi hennar, raunhæfar eða líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál hans, eða upplýsingar um þær séu svo óljósar að ekki þyki fært að leggja mat á það,
     7.      að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar af hendi skuldarans séu vísvitandi rangar eða villandi,
     8.      að beiðni skuldarans eða fylgigögnum með henni sé áfátt í öðrum atriðum eða sá sem hann hefur ráðið sér til aðstoðar verði talinn vanhæfur til að gegna því starfi, enda hafi skuldarinn ekki sinnt ábendingum héraðsdómara skv. 2. mgr. 11. gr.
    Telji héraðsdómari skilyrðum fullnægt til að verða við beiðni um heimild til greiðslustöðvunar skal tiltekið í úrskurði að heimildin sé veitt til ákveðins dags og stundar innan þriggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins þegar þing verður háð til að taka málefnið fyrir á ný.
    Úrskurði héraðsdómara samkvæmt þessari grein verður ekki skotið til æðra dóms.

13. gr.

    Aðstoðarmaður skuldarans skal tafarlaust eftir veitingu heimildar til greiðslustöðvunar boða lánardrottna hans til fundar sem skal haldinn á varnarþingi skuldarans og ekki síðar en þremur sólarhringum fyrir þinghald sem héraðsdómari hefur ákveðið skv. 3. mgr. 12. gr., en að öðru leyti skal ákveða stað og stund til fundarins með þeim hætti að ætla megi að sem flestir lánardrottnar geti átt kost á að sækja hann.
    Fundarboð skal vera skriflegt og sent öllum þekktum lánardrottnum skuldarans með hæfilegum fyrirvara í útbornu ábyrgðarbréfi, símskeyti eða á annan sannanlegan hátt. Í því skal koma fram að heimild hafi verið veitt til greiðslustöðvunar, hvar og hvenær fundur verði haldinn með lánardrottnum og hvenær héraðsdómari hafi ákveðið að taka málefnið fyrir á ný á dómþingi. Lánardrottnum, sem ekki var kunnugt um í byrjun en uppvíst verður um fyrir fundinn, skal tilkynnt um þetta á sama hátt.

14. gr.

    Á fundi með lánardrottnum, sem boðað er til skv. 13. gr., skal aðstoðarmaður skuldarans leggja fram tæmandi og sundurliðaða skrá sína um eignir og skuldbindingar skuldarans, en þar skal andvirði hverrar eignar áætlað og fjárhæð hverrar skuldbindingar reiknuð út miðað við frestdag. Á fundinum skal aðstoðarmaðurinn gera grein fyrir því hvernig hann telji unnt að reyna að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans, hvað hafi þegar verið gert í þeim efnum og hvort skuldarinn hyggist æskja áframhaldandi greiðslustöðvunar. Á fundinum skal aðstoðarmaðurinn enn fremur leita afstöðu lánardrottna til ráðagerða sinna og tillagna þeirra um aðgerðir.
    Aðstoðarmaðurinn stjórnar fundi með lánardrottnum og færir fundargerð, en í henni skulu viðhorf lánardrottna til ráðagerða hans koma skýrlega fram. Í þessum efnum skal farið eftir ákvæðum 4. og 5. mgr. 79. gr., að því leyti sem átt getur við, en rétt til fundarsóknar eiga þeir sem gefa sig fram á fundarstað og kveðast eiga kröfu á hendur skuldaranum sem hann kannast við eða þeir sýna skilríki fyrir.

15. gr.

    Nú æskir skuldarinn áframhaldandi greiðslustöðvunar og skal hann þá leggja fram skriflega beiðni um það í þinghaldi sem héraðsdómari hefur ákveðið í úrskurði sínum skv. 3. mgr. 12. gr.
    Beiðninni skulu fylgja skrá aðstoðarmanns um eignir og skuldbindingar skuldarans, sönnur fyrir að boðað hafi verið til fundar með lánardrottnum eftir fyrirmælum 13. gr., fundargerð af fundinum og skrifleg greinargerð aðstoðarmannsins um hvernig hafi verið staðið að aðgerðum á greiðslustöðvunartímanum og hverjar ráðstafanir verði gerðar ef beiðnin verður tekin til greina.

16. gr.

    Lánardrottni skuldarans er heimilt að mæta á dómþingi þar sem beiðni skuldarans skv. 15. gr. er tekin fyrir og leggja þar fram skrifleg og rökstudd mótmæli gegn því að hún verði tekin til greina. Farið skal með slík mótmæli eftir 166. gr. ef hvorki skuldarinn né lánardrottinn hans falla þegar frá kröfum sínum.

17. gr.

    Ef skuldarinn leggur fram beiðni skv. 1. mgr. 15. gr. framlengist greiðslustöðvun sjálfkrafa þar til héraðsdómari hefur tekið afstöðu til hennar í úrskurði, þó aldrei lengur en í sjö sólarhringa.
    Héraðsdómari skal synja um áframhaldandi greiðslustöðvun ef eitthvert eftirtalinna atvika eiga við:
     1.      að svo standi á sem segir í 4.–8. tölul. 2. mgr. 12. gr.,
     2.      að aðstoðarmaður skuldarans þyki hafa vanrækt skyldur sínar í starfi, enda verði ekki ráðin bót á því með ráðningu nýs aðstoðarmanns,
     3.      að skuldarinn hafi með eða án samþykkis aðstoðarmanns síns gert ráðstafanir í andstöðu við ákvæði 19.–21. gr.,
     4.      að talið verði eftir því sem fram er komið og í ljósi aðstæðna að ekki hafi verið staðið eðlilega að tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans meðan á greiðslustöðvun hefur staðið,
     5.      að áframhaldandi greiðslustöðvun þyki ekki munu þjóna tilgangi.
    Úrskurði héraðsdómara um synjun um áframhaldandi greiðslustöðvun verður ekki skotið til æðra dóms.
    Telji héraðsdómari skilyrði til að fallast á beiðni skuldarans um áframhaldandi greiðslustöðvun skal ákveðið í úrskurði að heimildin sé framlengd til tiltekins dags og stundar þegar þing verður háð til að taka málefnið fyrir á ný innan þriggja mánaða eftir að beiðnin var lögð fram á dómþingi.
    Aðstoðarmaður skuldarans skal tafarlaust tilkynna öllum þekktum lánardrottnum um úrskurð héraðsdómara í útbornu ábyrgðarbréfi, símskeyti eða á annan sannanlegan hátt.

18. gr.

    Nú hefur greiðslustöðvun verið framlengd en sá tími hefur ekki nægt til að ljúka við að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans og getur hann þá enn lagt fram beiðni um áframhaldandi greiðslustöðvun í þinghaldi sem héraðsdómari hefur ákveðið skv. 4. mgr. 17. gr., ef veruleg líkindi verða talin fyrir að slík heimild leiði til árangurs. Áður skal aðstoðarmaður skuldarans boða og halda fund með lánardrottnum eftir ákvæðum 13. og 14. gr.
    Beiðni skuldarans skv. 1. mgr. skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja þau gögn sem eru talin í 2. mgr. 15. gr., en það skal rökstutt í greinargerð aðstoðarmannsins hvers vegna sá tími sem er þegar liðinn hafi ekki nægt til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans og hvernig greiðslustöðvun geti borið árangur ef af framhaldi hennar yrði.
    Ákvæðum 16. og 17. gr. skal beitt um meðferð beiðni skuldarans skv. 1. mgr., þó þannig að héraðsdómari getur aldrei heimilað skuldaranum greiðslustöðvun í lengri tíma en alls sex mánuði talið frá þinghaldi sem hann hefur ákveðið í úrskurði skv. 3. mgr. 12. gr. Héraðsdómari ákveður ekki þinghald við lok greiðslustöðvunar sem stendur þann hámarkstíma.
    Framlengja má heimild til greiðslustöðvunar oftar en tvívegis innan þess hámarksfrests sem mælt er fyrir um í 3. mgr.

IV. KAFLI

Réttaráhrif greiðslustöðvunar.

19. gr.

    Meðan á greiðslustöðvun stendur er skuldaranum óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum og stofna til skuldbindinga á hendur sér, nema aðstoðarmaður hans veiti fyrir fram samþykki sitt til þess hverju sinni og heimild standi til slíkrar aðgerðar í 20. eða 21. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðstoðarmanni heimilt að veita skuldaranum skriflega fyrir fram almennt samþykki til að verja fjármunum innan tiltekinna marka til að afla sér og fjölskyldu sinni daglegra nauðsynja eða til að standa straum af reglubundnum eða nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri sínum, en skuldaranum ber að gera aðstoðarmanninum grein fyrir ráðstöfunum í skjóli slíks samþykkis með reglulegu millibili eftir ákvörðun aðstoðarmannsins og er samþykkið afturtækt án fyrirvara.
    Aðstoðarmanni skuldarans ber eftir föngum að hafa umsjón eða eftirlit með fjárreiðum hans til að fyrirbyggja að hann brjóti gegn ákvæðum 1. og 2. mgr.

20. gr.

    Meðan á greiðslustöðvun stendur er óheimilt að ráðstafa eignum eða réttindum skuldarans, nema ráðstöfunin verði talin nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri hans eða tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál hans, eðlilegt verð komi fyrir þau og andvirðið sé varðveitt þannig að það liggi fyrir óskert við lok greiðslustöðvunar, sbr. þó 2. mgr. Skuldaranum er þó heimilt að ráðstafa eignum eða réttindum sínum sem rynnu ekki til þrotabús hans ef til gjaldþrotaskipta væri þegar komið.
    Meðan á greiðslustöðvun stendur er óheimilt að verja peningaeign skuldarans, peningum sem fást við ráðstöfun eigna eða réttinda, arði af eignum eða réttindum eða tekjum sem hann aflar í atvinnurekstri til annarra þarfa en:
     1.      að afla skuldaranum og fjölskyldu hans daglegra nauðsynja,
     2.      að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri skuldarans,
     3.      að greiða skuldir að því leyti sem það er heimilt skv. 21. gr.,
     4.      að greiða óumflýjanlegan kostnað af tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans,
     5.      að kosta aðgerðir sem má telja víst að séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir verulegt tjón.

21. gr.

    Skuldaranum er óheimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar meðan á greiðslustöðvun stendur nema að því leyti sem víst er að skuldbindingin yrði efnd eða skuldin yrði greidd eftir stöðu sinni í skuldaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi hans í kjölfar greiðslustöðvunar. Heimilt er þó annars að greiða skuld eða efna aðra skuldbindingu ef telja má víst að það sé nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni.
    Meðan á greiðslustöðvun stendur er skuldaranum óheimilt að stofna til skulda, taka á sig aðrar skuldbindingar eða leggja höft á eignir sínar eða réttindi, nema til að afla sér og fjölskyldu sinni daglegra nauðsynja, eða það sé nauðsynlegt til að halda áfram atvinnurekstri hans eða til að varna verulegu tjóni og víst þykir að sú aðgerð yrði lánardrottnum hans til hagsbóta ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi hans í kjölfar greiðslustöðvunar.

22. gr.

    Ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda taka ekki gildi gagnvart skuldaranum á þeim tíma sem greiðslustöðvun stendur yfir, að öðru leyti en því að krefjast má dráttarvaxta, dagsekta eða févítis vegna vanefnda skuldarans á skyldum sínum án tillits til greiðslustöðvunar.
    Meðan á greiðslustöðvun stendur er óheimilt að taka bú skuldarans til gjaldþrotaskipta eða kyrrsetja eignir hans, taka þær í löggeymslu, gera fjárnám í þeim eða ráðstafa þeim með nauðungarsölu.
    Meðan á greiðslustöðvun stendur er stjórnvöldum óheimilt að neyta þvingunarúrræða í garð skuldarans vegna vanefnda hans á skuldbindingum sínum við þau. Veiting heimildar til greiðslustöðvunar raskar ekki ástandi sem stjórnvald hefur komið á fyrir þann tíma með slíku úrræði.

V. KAFLI

Lok greiðslustöðvunar.

23. gr.

    Greiðslustöðvun lýkur án frekari aðgerða þegar sá tími er á enda sem héraðsdómari hefur markað henni og beiðni um áframhaldandi greiðslustöðvun kemur ekki fram eða ekki er mætt af hálfu skuldarans í þinghaldi við lok áður ákveðins greiðslustöðvunartíma.
    Greiðslustöðvun lýkur sjálfkrafa þótt sá tími sé ekki runninn út sem heimild var veitt til hennar:
     1.      þegar héraðsdómara berst skrifleg tilkynning skuldarans um að hann afsali sér heimild sinni til hennar,
     2.      þegar úrskurður gengur um að skuldaranum sé veitt heimild til að leita nauðasamnings,
     3.      þegar úrskurður gengur um að bú skuldarans sé tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu hans sjálfs,
     4.      við andlát skuldarans,
     5.      við kosningu lögmæltrar skilanefndar til að slíta félagi sem hefur heimild til greiðslustöðvunar.
    Greiðslustöðvun lýkur þegar í stað við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um synjun um áframhaldandi heimild til hennar eða niðurfellingu heimildarinnar skv. 24.–26. gr., svo og ef sá frestur rennur út sem getur í 1. mgr. 17. gr. án þess að úrskurður sé kveðinn upp innan hans um áframhaldandi greiðslustöðvun.
    Ef greiðslustöðvun lýkur skv. 2. eða 3. mgr. falla sjálfkrafa niður fundir með lánardrottnum og þinghöld í tengslum við hana sem áður hafði verið ákveðið að halda.
    Aðstoðarmanni ber tafarlaust að tilkynna þekktum lánardrottnum skuldarans skriflega um lok greiðslustöðvunar og tiltaka þar hvenær henni lauk og af hverri ástæðu.

24. gr.

    Ef aðstoðarmaður skuldarans telur sér ekki fært að gegna því starfi lengur meðan á greiðslustöðvun stendur skal hann tilkynna það héraðsdómara án tafar. Tilkynning aðstoðarmannsins skal vera skrifleg og tekið fram í henni hverjar ástæður búi að baki afstöðu hans. Enn fremur skal koma fram hverjar ráðstafanir hafi helstar verið gerðar eftir að heimild var veitt til greiðslustöðvunar.
    Ef skuldarinn telur aðstoðarmann sinn vanrækja störf sín eða standa á annan hátt óeðlilega að þeim skal hann tilkynna það héraðsdómara skriflega. Í tilkynningunni skal koma fram skýring á því sem skuldarinn telur aðfinnsluvert í störfum aðstoðarmannsins.
    Berist héraðsdómara tilkynning skv. 1. eða 2. mgr. skal hann tafarlaust boða skuldarann og aðstoðarmann hans til þinghalds með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið. Telji héraðsdómari það sem fram er komið þess eðlis að skuldaranum yrði synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun af þeim sökum skv. 2. mgr. 17. gr. eða ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans skal héraðsdómari þegar í stað fella niður heimildina með úrskurði. Ella bókar hann þá ákvörðun sína að gefa skuldaranum kost á að tilnefna þá þegar annan aðstoðarmann sem fullnægir hæfisskilyrðum til starfans og stendur þá heimild til greiðslustöðvunar óbreytt að því gerðu.
    Úrskurði héraðsdómara um niðurfellingu greiðslustöðvunar skv. 3. mgr. verður ekki skotið til æðra dóms.

25. gr.

    Aðstoðarmanni skuldara er skylt að tilkynna héraðsdómara það skriflega ef hann telur að greiðslustöðvun muni ekki bera árangur eða skuldarinn starfar ekki af trúmennsku með honum eða hefur gert ráðstafanir í andstöðu við 19.–21. gr.
    Berist héraðsdómara tilkynning skv. 1. mgr. skal hann tafarlaust boða skuldarann og aðstoðarmann hans til þinghalds með sannanlegum hætti og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið. Telji héraðsdómari það sem fram er komið þess eðlis að skuldaranum yrði synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun af þeim sökum skv. 2. mgr. 17. gr., eða ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans, skal héraðsdómari þegar í stað fella niður heimildina með úrskurði. Ella ákveður héraðsdómari að heimild til greiðslustöðvunar standi óbreytt.
    Úrskurði héraðsdómara um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar skv. 2. mgr. verður ekki skotið til æðra dóms.

26. gr.

    Lánardrottinn skuldarans getur krafist þess að heimild hans til greiðslustöðvunar verði felld niður ef þau atvik eru uppi sem mundu valda því að héraðsdómara bæri að synja um áframhaldandi greiðslustöðvun skv. 2. mgr. 17. gr.
    Krafa skv. 1. mgr. skal vera skrifleg. Skal tiltekið skýrlega í henni um hver atvik sé að ræða og hver rök standi til að heimild til greiðslustöðvunar verði felld niður. Gögn til stuðnings kröfunni skulu fylgja henni.
    Héraðsdómari getur ákveðið með bókun í þingbók að vísa kröfunni á bug án frekari aðgerða ef hann telur hana bersýnilega tilefnislausa, efni hennar verulega áfátt eða að komið verði að lokum greiðslustöðvunar þegar unnt yrði að taka afstöðu til kröfunnar. Ákvörðun héraðsdómara um þetta verður ekki skotið til æðra dóms.
    Ef kröfu verður ekki vísað á bug skv. 3. mgr. skal héraðsdómari tafarlaust boða þann sem hefur hana uppi, skuldarann og aðstoðarmann hans til þinghalds með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans og hlutaðeigandi lánardrottinn krefst þess skal héraðsdómari þá þegar fella niður heimild skuldarans til greiðslustöðvunar með úrskurði. Ef sótt er þing af hálfu beggja og hvorugur fellur frá kröfum sínum skal héraðsdómari fara með ágreininginn eftir 166. gr. og kveða síðan á í úrskurði um hvort heimild til greiðslustöðvunar falli niður eða standi óbreytt.
    Úrskurði héraðsdómara skv. 4. mgr. um að heimild til greiðslustöðvunar falli niður verður ekki skotið til æðra dóms.

3. ÞÁTTUR


Nauðasamningar án undanfarandi gjaldþrotaskipta.


VI. KAFLI

Almenn ákvæði um nauðasamninga.

27. gr.

    Með nauðasamningi er í lögum þessum átt við samning um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldarans og áskilins meiri hluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Nauðasamningur, sem þannig er gerður, bindur einnig aðra lánardrottna skuldarans eftir því sem nánar er mælt hér fyrir.

28. gr.

    Nauðasamningur hefur ekki áhrif á eftirtaldar kröfur á hendur skuldaranum:
     1.      kröfur sem hafa orðið til eftir að úrskurður gekk um heimild skuldarans til að leita nauðasamnings,
     2.      kröfur um annað en peningagreiðslu sem verður fullnægt eftir aðalefni sínu,
     3.      kröfur sem nytu stöðu skv. 109., 110. og 112. gr. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim degi sem úrskurður gekk um heimild hans til að leita nauðasamnings,
     4.      kröfur sem trygging er fyrir í eign skuldarans að því leyti sem andvirði eignarinnar hrekkur til að fullnægja þeim og tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins,
     5.      kröfur sem yrði fullnægt með skuldajöfnuði ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta,
     6.      kröfur sem eru sérstaklega undanþegnar áhrifum nauðasamnings eftir ákvæðum hans með því að þær greiðist að fullu, sbr. 2. mgr. 36. gr.
    Lánardrottinn skuldarans getur afsalað sér réttindum skv. 1. mgr., þannig að nauðasamningur hafi áhrif á kröfu hans, með yfirlýsingu sem hann gefur við undirbúning skuldarans að öflun heimildar til að leita nauðasamnings eða síðar. Binda má slíka yfirlýsingu því skilyrði að hún feli því aðeins í sér endanlegt réttindaafsal að nauðasamningur komist á.
    Nauðasamningur leiðir til brottfalls skulda sem yrði skipað í skuldaröð eftir 1.–3. og 5. tölul. 114. gr. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

29. gr.

    Þær kröfur á hendur skuldaranum, sem eru ekki undanþegnar áhrifum nauðasamnings og falla ekki niður vegna hans eftir ákvæðum 28. gr., nefnast samningskröfur.
    Í nauðasamningi má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, breytt form á greiðslu þeirra eða þrennt það síðastnefnda í senn. Í nauðasamningi verður ekki ákveðin mismikil eftirgjöf samningskrafna. Þó má kveða á um að tilteknir lánardrottnar, einn eða fleiri, veiti meiri eftirgjöf en aðrir, ef þeir samþykkja það sjálfir, og einnig má kveða á um að lágar samningskröfur verði greiddar með tiltekinni fjárhæð þótt sú skipan leiði til þess að hlutfallsleg eftirgjöf þeirra lánardrottna verði minni en annarra, sbr. 2. mgr. 36. gr.
    Í nauðasamningi verður ekki ákveðin misjöfn lenging gjaldfrests á samningskröfum, nema gjalddagi þeirra allra verði sá sami eða sá eða þeir lánardrottnar sem er ætlað að veita lengri gjaldfrest en aðrir samþykki það. Ákveða má að þeir sem veita lengri gjaldfrest fái greidda vexti eftir þann tíma sem aðrir fá greitt eða verði sett trygging fyrir greiðslu eftir það.
    Í nauðasamningi verður ekki ákveðið að greiðslur til lánardrottna verði inntar af hendi í mismunandi formi. Þó má kveða á um það að tilteknir lánardrottnar taki við greiðslu í öðru og verðminna formi en aðrir, ef þeir samþykkja það sjálfir, en við mat á verðgildi greiðslu skal byggt á því hvert gangverð hennar telst gegn staðgreiðslu með peningum.
    Þótt einn eða fleiri lánardrottnar samþykki að hætti 3.–5. mgr. að veita meiri ívilnun en aðrir eða einum þeirra eða fleirum er ætlað skv. 2. mgr. 36. gr. að veita minni eftirgjöf en öðrum þá skal litið svo á um ákvörðun atkvæða við samningsgerðina og í öðru tilliti, sem getur skipt máli, að allir lánardrottnar veiti þá almennu ívilnun sem kveðið er á um í nauðasamningnum.

30. gr.

    Nauðasamningur hefur í för með sér, án tillits til samninga, laga eða annarra reglna, að allar samningskröfur falla sjálfkrafa í gjalddaga gagnvart skuldaranum þegar samningurinn kemst á, nema kveðið sé þar á um tiltekinn gjaldfrest. Fjárhæð samningskröfu verður ekki færð niður þótt hún falli fyrr í gjalddaga af þessum sökum en annars hefði orðið.
    Samningskröfur í erlendum gjaldmiðli skulu færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings.
    Við ákvörðun heildarfjárhæðar hverrar samningskröfu skal miðað við stöðu hennar á þeim degi sem úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings, að meðtöldum vöxtum, verðbótum, gengisálagi, innheimtukostnaði og öðru sem kann að hafa fylgt kröfunni á þeim tíma. Samningskröfur bera ekki vexti eftir að nauðasamningur er kominn á nema þar sé kveðið á um það, en dráttarvextir falla á þær eftir almennum reglum ef vanefndir verða á samningnum.
    Nú á sami lánardrottinn fleiri samningskröfur en eina á hendur skuldaranum og skal þá leggja fjárhæðir þeirra saman og telja heildarfjárhæðina eina samningskröfu án tillits til uppruna krafnanna eða annarra atvika. Hafi lánardrottinn, sem átti fleiri kröfur en eina á hendur skuldaranum, framselt einhverja þeirra þremur mánuðum fyrir frestdag eða síðar skal einnig telja kröfurnar samanlagðar eina samningskröfu, en framsalshafinn telst þá eiga sitt hlutfall í samningskröfunni í samræmi við fjárhæð hvorrar eða hverrar þeirra. Eins skal farið að við önnur aðilaskipti að kröfu.

31. gr.

    Kröfur teljast til samningskrafna án tillits til þess hvort vitað sé um þær eða þær séu háðar ókomnu skilyrði við gerð nauðasamnings.
    Ágreiningur um réttmæti kröfu breytir því ekki að hún verði talin samningskrafa eins og endanlega verður úr henni leyst.

32. gr.

    Reglum XX. kafla um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti verður beitt ef nauðasamningur kemst á, að öðru leyti en því að skuldarinn verður að höfða dómsmál til riftunar innan þriggja mánaða frá því samningurinn komst á. Að því leyti sem ákvæði XX. kafla taka mið af þeim degi sem úrskurður var kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal við riftun eftir gerð nauðasamnings miða við þann dag sem úrskurður gekk um heimild til að leita hans.
    Krafa, sem kann að verða til á hendur skuldaranum vegna riftunar eða rakna við af þeim sökum, telst samningskrafa ef ákvæði 28. gr. leiða ekki til annars. Við nauðasamningsumleitanir skal slík hugsanleg krafa talin skilyrt nema riftun hafi þegar átt sér stað.

33. gr.

    Þeir lánardrottnar skuldarans sem eiga samningskröfur á hendur honum og lýsa þeim við nauðasamningsumleitanir, sbr. 4. mgr. 45. gr., eiga atkvæðisrétt um nauðasamning nema:
     1.      lánardrottnar sem eru nákomnir skuldaranum,
     2.      lánardrottnar sem fara með skilyrtar kröfur ef skilyrðið er ekki komið fram.
     Lánardrottnar sem eiga atkvæði um nauðasamning skv. 1. mgr. nefnast atkvæðismenn.
    Við atkvæðagreiðslu um nauðasamning fer hver atkvæðismaður með eitt atkvæði þar sem þau eru greidd eftir höfðatölu, sbr. þó 4. mgr. 30. gr. Ef tveir eða fleiri atkvæðismenn eiga samningskröfu saman fara þeir samanlagt með eitt atkvæði en hver þeirra á sjálfstæðan atkvæðisrétt fyrir sínu hlutfalli af kröfunni.
    Þegar atkvæði eru greidd um nauðasamning eftir kröfufjárhæðum skal leggja saman heildarfjárhæð krafna allra atkvæðismanna og reikna síðan út hundraðshluta kröfu hvers þeirra af heildarfjárhæðinni. Fer síðan hver atkvæðismaður með atkvæði sem nemur hundraðshluta hans.

VII. KAFLI

Heimild til að leita nauðasamnings.

34. gr.

    Skuldari sem æskir heimildar til að leita nauðasamnings skal gera beiðni sína svo úr garði sem segir í 7. gr., en að auki skal eftirfarandi koma fram í henni eða greinargerð með henni:
     1.      ástæður þess að skuldarinn leitar nauðasamnings, þar sem sérstaklega skal greint frá því hvað hafi valdið skuldastöðu hans, hvers vegna hann geti ekki staðið að fullu skil á skuldum sínum, á hverjum forsendum samningsboð hans hafi verið ákveðið og hvernig hann rökstyðji að hann muni geta staðið við það,
     2.      skýringar við frumvarp að nauðasamningi eftir því sem skuldarinn telur þörf,
     3.      nákvæm talning eigna skuldarans ásamt áætluðu verðmæti hverrar þeirra og nákvæm talning skulda hans ásamt fjárhæð hverrar þeirra á þeim tíma sem beiðnin er gerð,
     4.      hvort einhverjar ráðstafanir hafi átt sér stað sem kynnu að verða riftanlegar ef nauðasamningur kæmist á.

35. gr.

    Auk þess sem mælt er fyrir um í 7. gr. skal eftirfarandi fylgja beiðni um heimild til að leita nauðasamnings:
     1.      frumvarp að nauðasamningi eftir fyrirmælum 36. gr.,
     2.      skriflegar yfirlýsingar frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans, bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum, um að þeir mæli með nauðasamningi á grundvelli frumvarps skuldarans,
     3.      síðasta skattframtal skuldarans,
     4.      trygging fyrir greiðslu kostnaðar af aðgerðum við frekari undirbúning og gerð nauðasamnings.
    Ef skuldarinn er bókhaldsskyldur skulu enn fremur fylgja síðustu ársreikningar hans og uppgjörsreikningar sem kunna síðan að hafa verið gerðir, ásamt álitsgerð löggilts endurskoðanda um hvort bókhald skuldarans sé í lögboðnu horfi og hvort reikningar hans gefi raunhæfa mynd af efnahag hans.

36. gr.

    Í frumvarpi að nauðasamningi skal kveðið á um eftirfarandi:
     1.      hversu mikið skuldarinn bjóðist til að greiða af samningskröfum og í hverju formi,
     2.      hvenær greiðslur muni eiga sér stað,
     3.      hvort vextir og þá hverjir verði greiddir af samningskröfum frá því nauðasamningur kemst á til gjalddaga ef greiðslufrestur er ráðgerður,
     4.      hvort trygging og þá hver verði sett fyrir efndum nauðasamnings.
    Í frumvarpi að nauðasamningi má setja ákvæði um að kröfur, innan tiltekinnar fjárhæðar, sem hefðu ella talist samningskröfur, verði greiddar að fullu ef sú fjárhæð verður talin óveruleg í ljósi efnahags skuldarans, en ákvæði sem þetta má ekki standa nema allar samningskröfur fáist að minnsta kosti greiddar með þeirri fjárhæð. Ef sami lánardrottinn á fleiri kröfur en eina á hendur skuldaranum eða hefur átt þær og aðilaskipti hafa orðið að þeim innan þeirra tímamarka, sem getur í 4. mgr. 30. gr., þá skulu kröfurnar lagðar saman og ákveðið samkvæmt því hvort ákvæði sem þetta taki til þeirra.
    Ef skuldari æskir þess að einhverjir lánardrottnar samþykki að veita honum meiri ívilnun en aðrir, sbr. 3.–5. mgr. 29. gr., skal tekið skýrlega fram í frumvarpi að nauðasamningi hver sú ívilnun sé og í hverjum atriðum hún víki frá almennum skilmálum frumvarpsins.

37. gr.

    Héraðsdómari skal tafarlaust eftir að beiðni um heimild til að leita nauðasamnings hefur borist honum ákveða hvenær hún verði tekin fyrir á dómþingi, en þinghald í því skyni skal háð svo fljótt sem verða má. Héraðsdómari tilkynnir ákvörðun þessa skuldaranum með sannanlegum hætti og þeim fyrirvara að þingsókn verði komið við.
    Ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans, þegar beiðni hans ei tekin fyrir, skoðast hún afturkölluð.
    Þegar beiðnin er fyrst tekin fyrir og mætt er af hálfu skuldarans skal héraðsdómari leita svara við sérhverju því sem hann telur óljóst eða ónógar upplýsingar komnar fram um og getur haft þýðingu við mat á því hvort orðið verði við beiðninni. Héraðsdómari getur veitt skuldaranum skamman frest til að leggja fram frekari gögn eða til að gefa nánari upplýsingar um tiltekin atriði, ef hann telur það geta komið að haldi, en slíkur frestur skal ekki veittur til lengri tíma en einnar viku og að jafnaði aðeins einu sinni.
    Þegar gagnaöflun er lokið um beiðnina skal héraðsdómari án ástæðulauss dráttar kveða upp úrskurð um hvort heimild sé veitt til að leita nauðasamnings.

38. gr.

    Héraðsdómari skal synja um heimild til að leita nauðasamnings ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
     1.      að skuldarinn hafi áður haft heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og heimildin hafi verið felld niður innan þriggja ára fyrir frestdag vegna framferðis hans,
     2.      að nauðasamningur hafi áður verið staðfestur fyrir skuldarann innan þriggja ára fyrir frestdag eða kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings hefur verið hafnað á sama tímabili af öðrum sökum en þeim að ágallar hafi verið á framkvæmd nauðasamningsumleitana,
     3.      að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar af hendi skuldarans séu vísvitandi rangar eða villandi,
     4.      að beiðni skuldarans sé áfátt, fylgigögn vanti með henni eða annmarkar séu á þeim, eða trygging skv. 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. sé ófullnægjandi að mati héraðsdómara,
     5.      að ástæða sé til að draga verulega í efa að frumvarp skuldarans fáist samþykkt, nauðasamningur verði staðfestur eða skuldarinn muni efna hann.
    Skuldarinn má einn skjóta synjunarúrskurði héraðsdómara til æðra dóms. Ef heimildin er veitt fyrir æðra dómi miðast tímamörk í ákvæðum VI. kafla við þann dag sem úrlausn hans er kveðin upp.

39. gr.

    Telji héraðsdómari skilyrðum fullnægt til þess veitir hann skuldaranum heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði. Slíkum úrskurði verður ekki skotið til æðra dóms.
    Tafarlaust eftir að heimild hefur verið veitt til að leita nauðasamnings skal héraðsdómari skipa mann með bókun í þingbók til að hafa umsjón með framkvæmd nauðasamningsumleitana. Ákvæði XIII. kafla um hæfi skiptastjóra, réttindi þeirra, skyldur og frávikningu gilda um umsjónarmanninn eftir því sem átt getur við.

40. gr.

    Frá því heimild er veitt til að leita nauðasamnings og þar til nauðasamningur kemst á eða heimildin fellur niður hefur hún sömu áhrif og greiðslustöðvun skv. 19.–21. gr. og 1. og 3. mgr. 22. gr., þó þannig að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gegnir því hlutverki sem aðstoðarmanni skuldarans er mælt í þeim ákvæðum.
    Á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. verður bú skuldarans ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema eftir kröfu hans sjálfs. Á því tímabili verða eignir skuldarans heldur ekki kyrrsettar, teknar í löggeymslu, fjárnám gert í þeim eða þeim ráðstafað með nauðungarsölu til tryggingar eða fullnustu samningskröfu, kröfu sem félli niður skv. 3. mgr. 28. gr. ef nauðasamningur kæmist á eða kröfu sem skuldarinn býðst til að greiða að fullu án tillits til nauðasamnings skv. 2. mgr. 36. gr.
    Á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. er skuldaranum óheimilt að framselja kröfu sína á hendur öðrum ef framsalið hefði í för með sér að réttur til skuldajafnaðar við kröfu hans færi forgörðum.

41. gr.

    Heimild til að leita nauðasamnings fellur sjálfkrafa niður:
     1.      þegar héraðsdómara berst skrifleg tilkynning skuldarans um að hann afsali sér henni,
     2.      þegar úrskurður gengur um að bú skuldarans sé tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni hans sjálfs,
     3.      við andlát skuldarans,
     4.      þegar úrslit atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi liggja fyrir skv. 52. gr. og það hefur ekki hlotið samþykki nægilegs fjölda atkvæðismanna,
     5.      þegar frestur skv. 1. mgr. 54. gr. er runninn út án þess að skuldarinn hafi lagt kröfu um staðfestingu nauðasamnings fyrir héraðsdómara eða skuldarinn fellur frá þeirri kröfu,
     6.      þegar kröfu um staðfestingu nauðasamnings hefur verið endanlega hafnað, sbr. 59. gr.

42. gr.

    Lánardrottnar skuldarans, sem fara með samningskröfur og umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum, geta krafist þess skriflega við héraðsdómara að heimild til að leita nauðasamnings verði felld niður ef:
     1.      svo margir atkvæðismenn láta í té skriflegar yfirlýsingar um andstöðu við frumvarp að nauðasamningi að víst sé að það fáist ekki samþykkt,
     2.      skuldarinn hefur gert ráðstafanir sem honum eru óheimilar skv. 1. mgr. 40. gr. eða sinnir að öðru leyti ekki þeim skyldum sem fylgja heimild hans,
     3.      önnur atvik liggja þegar fyrir sem munu fyrirsjáanlega valda að synjað verði um staðfestingu nauðasamnings.
    Krafa skv. 1. mgr. skal vera rökstudd og skulu þau gögn fylgja henni sem hún er byggð á.
    Héraðsdómari getur vísað kröfu skv. 1. mgr. á bug með bókun í þingbók og án frekari aðgerða ef hann telur hana bersýnilega tilefnislausa eða efni hennar eða gögnum til stuðnings henni verulega áfátt, eða ef svo skammur tími er þar til niðurstaða fæst um samþykki frumvarps eða staðfestingu samnings að engir hagsmunir standi til að leysa úr henni. Ákvörðun héraðsdómara um þetta verður ekki skotið til æðra dóms.
    Ef kröfu verður ekki vísað á bug skv. 3. mgr. skal héraðsdómari tafarlaust boða þann sem hefur hana uppi og skuldarann til þinghalds með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans og gagnaðili hans krefst þess skal héraðsdómari þá þegar fella niður heimild skuldarans með úrskurði. Ef sótt er þing af hálfu skuldarans og hann mótmælir kröfunni skal farið með ágreininginn eftir 167. gr. Héraðsdómari tekur þá afstöðu til kröfunnar í úrskurði.
    Skuldarinn getur skotið úrskurði héraðsdómara um niðurfellingu heimildar til að leita nauðasamnings til æðra dóms innan sólarhrings frá uppkvaðningu úrskurðarins. Heimildin fellur niður að þeim fresti liðnum hafi málskot ekki átt sér stað, en ella helst hún þar til leyst er úr málinu fyrir æðra dómi. Sé kveðið á um niðurfellingu heimildar til að leita nauðasamnings fyrir æðra dómi telst heimildin þá þegar fallin brott. Að öðru leyti gilda almennar reglur um málskot á úrskurði héraðsdómara skv. 4. mgr.

VIII. KAFLI

Nauðasamningsumleitanir.

43. gr.

    Umsjónarmaðurinn skal strax eftir skipun sína athuga hag skuldarans eftir föngum til að staðreyna hvort þær upplýsingar séu réttar sem skuldarinn gaf þegar hann aflaði sér heimildar til að leita nauðasamnings og leiða atriði í ljós sem geta haft þýðingu fyrir úrlausn um hvort nauðasamningur verði staðfestur. Hann skal einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir þegar í stað til að koma á eftirliti sínu og umsjón með fjárreiðum skuldarans. Í þessu skyni er skuldaranum skylt að veita umsjónarmanninum sérhverjar upplýsingar um efnahag sinn og aðgang að gögnum um þau efni. Þá er þeim einnig skylt að veita umsjónarmanninum upplýsingar sem væri skylt að veita skiptastjóra ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Umsjónarmanninum er heimilt að neyta úrræða 81. og 82. gr.
    Meðan á samningsumleitunum stendur skal umsjónarmaðurinn gæta þess sérstaklega hvort einhver atvik komi upp sem valda eða gætu valdið niðurfellingu heimildar skuldarans til að leita nauðasamninga.

44. gr.

    Umsjónarmaðurinn skal tafarlaust eftir skipun sína gefa út og fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á lánardrottna skuldarans, sem telja sig eiga samningskröfur á hendur honum, að lýsa kröfum sínum fyrir umsjónarmanninum innan fjögurra vikna frá því innköllunin birtist fyrra sinni. Í innkölluninni skal koma fram nafn skuldarans, kennitala og heimilisfang, að honum hafi verið veitt heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði uppkveðnum tiltekinn dag og hvert kröfulýsingar skuli sendar. Þá skal einnig tiltekið í innkölluninni hvar og hvenær fundur verði haldinn með atkvæðismönnum til að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans.
    Jafnframt því að gefa út innköllun skv. 1. mgr. skal umsjónarmaðurinn senda öllum lánardrottnum skuldarans sem fara með samningskröfur og vitað er um tilkynningu í ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggan hátt þar sem sömu atriða skal getið og í innköllun. Með tilkynningunni skal fylgja eintak af frumvarpi skuldarans að nauðasamningi.

45. gr.

    Kröfulýsingar lánardrottna skulu gerðar úr garði á sama hátt og við gjaldþrotaskipti, sbr. 2. og 3. mgr. 117. gr.
    Ef kröfu er lýst fyrir umsjónarmanni er fyrningu hennar slitið gagnvart skuldaranum.
    Krafa lánardrottins á hendur skuldaranum fellur ekki niður þótt henni sé ekki lýst innan kröfulýsingarfrests við nauðasamningsumleitanir.
    Þeir atkvæðismenn eiga einir rétt á að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi sem hafa lýst kröfum sínum fyrir umsjónarmanninum innan kröfulýsingarfrests.

46. gr.

    Þegar kröfulýsingarfrestur er á enda skal umsjónarmaðurinn gera skrá um þær samningskröfur sem hafa borist innan frestsins og atkvæðisréttur fylgir. Í skránni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      nafn hvers lánardrottins og hvenær krafa hans hafi borist,
     2.      fjárhæð hverrar kröfu eins og henni hefur verið lýst, en þó þannig að hún hafi eftir atvikum verið reiknuð með tilliti til ákvæða 3. mgr. 28. gr. og 2. og 3. mgr. 30. gr.,
     3.      hver atkvæði fylgi hverri kröfu, bæði að höfðatölu og eftir kröfufjárhæð.
    Hafi kröfu verið lýst fyrir umsjónarmanninum sem hann telur ekki samningskröfu, eða hafi samningskröfu verið lýst af lánardrottni sem umsjónarmaðurinn telur ekki atkvæðismann, skal krafan ekki talin í skrá skv. 1. mgr. Umsjónarmaðurinn skal tilkynna hlutaðeigandi lánardrottni um þá afstöðu sína með sannanlegum hætti með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara áður en fundur verður haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans.
    Skuldaranum skal gefinn kostur á að kynna sér skrá skv. 1. mgr., kröfulýsingar og fylgigögn með þeim með hæfilegum fyrirvara áður en fundur verður haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp hans.

47. gr.

    Skuldarinn má gera breytingar á frumvarpi sínu að nauðasamningi eftir að honum hefur verið heimilað að leita hans og þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um það. Ef frumvarpinu er breytt til ívilnunar handa skuldaranum verður það þó því aðeins borið undir atkvæði í breyttri mynd að fram komi meðmæli með frumvarpinu svo breyttu frá þeim fjölda atkvæðismanna sem er áskilinn í 2. tölul. 1. mgr. 35. gr.

48. gr.

    Fundur skal haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi innan tveggja vikna frá því kröfulýsingarfresti er lokið. Um ákvörðun fundarstaðar og tíma, stjórn fundarins, rétt til fundarsóknar og tillagna, færslu fundargerðar og önnur almenn atriði sem lúta að framkvæmd hans gilda ákvæði 79. og 125. gr. eftir því sem átt getur við, þó þannig að umsjónarmaðurinn gegnir því hlutverki sem skiptastjóra er þar mælt.
    Í upphafi fundar skv. 1. mgr. skal umsjónarmaðurinn gera grein fyrir eftirfarandi:
     1.      frumvarpi skuldarans að nauðasamningi og þeim breytingum sem kunna að hafa verið gerðar á því frá upphaflegri mynd,
     2.      hverjar niðurstöður hafi orðið af athugun hans skv. 1. mgr. 43. gr. og hvort hann telji frumvarp skuldarans sanngjarnt fyrir alla hlutaðeigendur í því ljósi,
     3.      hverjar ráðstafanir hafi helstar verið gerðar um hagsmuni skuldarans frá því samningsumleitanir hófust,
     4.      skrá sinni skv. 1. mgr. 46. gr. og hvort einhverra krafna, sem hefur verið lýst, sé ekki getið í henni, sbr. 2. mgr. 46. gr.
    Umsjónarmaðurinn skal því næst lýsa eftir mótmælum gegn réttmæti krafna sem koma fram í skrá hans skv. 1. mgr. 46. gr., ákvörðun fjárhæða þeirra og atkvæðisréttar, og því hvort einhver telji sig eiga atkvæðisrétt sem ekki er þar getið. Atkvæðismenn og skuldarinn eiga rétt á að lýsa yfir mótmælum, svo og þeir lánardrottnar sem telja sér ranglega meinað um atkvæði. Komi mótmæli fram skal umsjónarmaðurinn leitast við að jafna ágreining, en þó það takist ekki skal fundi fram haldið eftir því sem hér á eftir segir.
    Umsjónarmaðurinn skal síðan gefa fundarmönnum kost á að tjá sig um frumvarp skuldarans og atriði sem varða það. Umsjónarmaðurinn og skuldarinn skulu eftir föngum veita fundarmönnum svör við fyrirspurnum, en að því búnu skulu greidd atkvæði um frumvarpið að nauðasamningi.

49. gr.

    Frumvarp að nauðasamningi telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, bæði eftir höfðatölu allra atkvæðismanna og fjárhæðum krafna þeirra, en þó aldrei minna en 60 hundraðshluta atkvæða á báða vegu. Ef frumvarp miðar hvorki að hlutfallslegri né algerri eftirgjöf samningskrafna telst það samþykkt ef það hlýtur samþykki 60 hundraðshluta allra atkvæðismanna eftir bæði höfðatölu og fjárhæðum krafna þeirra.

50. gr.

    Atkvæðismenn mega greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi skriflega og skal tekið tillit til slíkra atkvæða sem berast umsjónarmanninum í síðasta lagi áður en atkvæðagreiðslu er lokið, enda sé þá enginn viðstaddur af hálfu atkvæðismannsins þegar atkvæðagreiðsla fer fram. Skriflegt atkvæði skal þó því aðeins tekið gilt að ótvíræð og skilyrðislaus afstaða atkvæðismanns til frumvarpsins komi þar fram, undirskrift hans sé vottuð af tveimur vitundarvottum, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða lögbókanda, og ef breytingar hafa verið gerðar á frumvarpi skuldarans frá upphaflegri mynd að tvímælalaust sé að atkvæðið varði frumvarpið með áorðnum breytingum.
    Greiða má atkvæði um frumvarpið eftir umboði en um sönnun umboðs fer eftir almennum reglum.
    Tekið skal við atkvæði um frumvarpið frá atkvæðismanni þótt kröfu hans hafi verið mótmælt. Þá skal einnig tekið við atkvæði þess sem mætir á fundinn og krefst að fá að njóta atkvæðisréttar um frumvarpið þótt hans sé ekki getið í skrá skv. 1. mgr. 46. gr. Slík atkvæði teljast ágreiningsatkvæði. Ef mótmæli varða aðeins hluta af kröfu atkvæðismanns skal atkvæði hans greitt í tvennu lagi en sá hluti atkvæðis sem styðst við umdeildan hluta kröfunnar telst þá ágreiningsatkvæði.
    Fært skal í fundargerð hvort atkvæðismaður hafi greitt atkvæði, hvort það hafi verið greitt á fundinum eða komið fram skriflega, hvort atkvæðismaður hafi staðið þar að verki sjálfur eða umboðsmaður hans og hvernig atkvæðið hafi fallið. Greint skal milli ágreiningsatkvæða skv. 3. mgr. og annarra atkvæða.

51. gr.

    Ef frumvarp fæst hvorki samþykkt né fellt á fundi skv. 48. gr. vegna ónógrar þátttöku í atkvæðagreiðslu getur umsjónarmaðurinn ákveðið að beiðni skuldarans áður en fundi er slitið að atkvæðagreiðslu verði fram haldið á nýjum fundi sem skal haldinn innan tveggja vikna. Þann fund þarf ekki að boða frekar en að tilkynna um hann áður en upphaflegum fundi er slitið. Um framkvæmd framhaldsfundar fer eftir reglum 48. og 50. gr. að öðru leyti en því að mótmælum verður ekki komið þar fram eftir 3. mgr. 48. gr.
    Ef atkvæðismaður sækir ekki framhaldsfund skv. 1. mgr. eða greiðir þar ekki atkvæði stendur fyrra atkvæði hans óhaggað nema frumvarpi að nauðasamningi hafi verið breytt eftir að hann greiddi það.

52. gr.

    Þegar atkvæðagreiðslu er endanlega lokið á fundi skv. 48. eða 51. gr. skal niðurstaða hennar tilkynnt áður en honum er slitið.
    Við talningu atkvæða skal fyrst litið til þess hvort önnur atkvæði en ágreiningsatkvæði skv. 3. mgr. 50. gr. nægi ein til úrslita þótt öll ágreiningsatkvæðin yrðu talin með. Ef svo er ráðast úrslit atkvæðagreiðslu án frekari aðgerða.
    Ef í ljós kemur að ágreiningsatkvæði geti ráðið niðurstöðu um hvort frumvarp að nauðasamningi fáist samþykkt skal umsjónarmaðurinn reyna til þrautar að jafna ágreining um þau á fundinum. Verði ágreiningur leystur að einhverju leyti eða öllu með þessum hætti skulu atkvæði talin á ný skv. 2. mgr.
    Ráðist úrslit atkvæðagreiðslu ekki á þann hátt sem í 3. mgr. segir skal umsjónarmaðurinn að endingu telja ágreiningsatkvæði með sem hafa fallið til samþykkis frumvarpinu en virða öll önnur ágreiningsatkvæði að vettugi. Skulu úrslit þannig fengin ráða niðurstöðu nauðasamningsumleitana.

53. gr.

    Ef frumvarp skuldarans hefur ekki hlotið samþykki nægilegs fjölda atkvæðismanna skal umsjónarmaðurinn tafarlaust tilkynna það héraðsdómara skriflega.
    Falli heimild skuldarans til að leita nauðasamnings niður, hvort sem er vegna þess sem getur í 1. mgr. eða af öðrum sökum, skal umsjónarmaðurinn fá birta, svo fljótt sem verða má, auglýsingu um þau málalok í Lögbirtingablaði.

IX. KAFLI

Staðfesting nauðasamnings.

54. gr.

    Nú hefur nauðasamningsumleitunum lokið með samþykki frumvarps skuldarans og skal skuldarinn þá leggja skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamnings fyrir héraðsdómara innan viku frá því sú niðurstaða var kynnt á fundi, sbr. 1. mgr. 52. gr.
    Með kröfu skv. 1. mgr. skal fylgja yfirlýsing umsjónarmannsins um hvers efnis endanlegt frumvarp skuldarans hafi verið, hver niðurstaða atkvæðagreiðslu um það hafi orðið og hvort hún hafi ráðist af ágreiningsatkvæðum. Í yfirlýsingunni skal umsjónarmaðurinn einnig láta uppi álit sitt á atriðum sem hann telur geta haft þýðingu við úrlausn um hvort krafa skuldarans verði tekin til greina. Kröfunni skulu enn fremur fylgja eintak af skrá umsjónarmannsins skv. 1. mgr. 46. gr. og fundargerðir af fundi skv. 48. og eftir atvikum 51. gr.

55. gr.

    Þegar héraðsdómara hefur borist krafa skv. 1. mgr. 54. gr. skal hann svo fljótt sem verða má ákveða þinghald til að taka hana fyrir. Boðað skal til þinghaldsins með auglýsingu sem héraðsdómari gefur út og fær birta einu sinni á kostnað skuldarans í Lögbirtingablaði með minnst einnar viku fyrirvara, en í henni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      að samþykki hafi fengist með tilteknum atkvæðafjölda fyrir frumvarpi að nauðasamningi handa skuldaranum, en greina skal nafn hans, kennitölu og heimilisfang,
     2.      hvers efnis frumvarpið hafi verið,
     3.      áskorun til þeirra sem vilja koma fram mótmælum gegn staðfestingu nauðasamnings samkvæmt frumvarpinu um að mæta til þinghalds á tilteknum stað og tíma.
    Skuldaranum skal afhent eða sent eintak boðunar til þinghalds um kröfu sína á sannanlegan hátt.

56. gr.

    Ef ekki er sótt þing af hálfu skuldarans, þegar krafa hans um staðfestingu nauðasamnings er tekin fyrir, skal héraðsdómari kveða upp úrskurð þá þegar og hafna þar kröfunni.
    Ef sótt er þing af hálfu skuldarans og mótmæli koma ekki fram gegn kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings skal hún tekin til úrskurðar þá þegar, en héraðsdómari má þó gefa honum skamman frest til að leggja fram frekari gögn um hana ef eftir því er leitað. Við úrlausn um kröfuna gætir héraðsdómari ekki annarra atriða en þeirra sem eru talin í 57. gr.
    Ef sótt er þing af hálfu skuldarans og mótmæli koma fram gegn kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings skal farið með ágreininginn eftir ákvæðum 167. gr.

57. gr.

    Héraðsdómari skal hafna kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef:
     1.      synja hefði átt um heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu skv. 1. mgr. 38. gr. eða hún hefur þegar fallið niður skv. 41. gr.,
     2.      fyrir liggur að skuldarinn hafi boðið atkvæðismanni ívilnun til að fá ráðið atkvæði hans eða staðið að öðru misferli í því skyni,
     3.      staðið hefur verið svo ranglega að innköllun eða tilkynningum til lánardrottna, meðferð krafna þeirra, fundi um frumvarp að nauðasamningi eða atkvæðagreiðslu um það að það kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.
    Héraðsdómara er og rétt að hafna kröfu skuldarans ef verulegir gallar eru á málatilbúnaði hans varðandi kröfuna sem ekki hefur verið sinnt að bæta úr.

58. gr.

    Eftir kröfu þess sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta og mótmælir kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings getur héraðsdómari að auki hafnað þeirri kröfu skuldarans ef:
     1.      sú eftirgjöf sem skuldaranum yrði veitt er að mun meiri en sanngjarnt verður talið í ljósi efnahags hans,
     2.      skuldarinn hefur rýrt fjárhagsstöðu sína af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lánardrottnum til tjóns,
     3.      verulegar líkur eru færðar að því að skuldarinn eða annar á hans vegum hafi reynt að hafa áhrif á afstöðu atkvæðismanna til frumvarps að nauðasamningi með vilyrðum um ívilnanir þeim til handa,
     4.      atkvæðagreiðsla um frumvarp að nauðasamningi hefur ráðist af einu eða fleiri ágreiningsatkvæðum því til samþykkis skv. 4. mgr. 52. gr. og verulegar líkur eru færðar að því að krafa eða kröfur hlutaðeigenda hafi verið rangar eða þeim hafi ekki átt að fylgja atkvæði,
     5.      eitt eða fleiri ágreiningsatkvæði, sem féllu ekki til samþykkis frumvarpi að nauðasamningi, hafi verið virt að vettugi skv. 4. mgr. 52. gr., frumvarpið hefði ekki hlotið nægileg atkvæði til samþykkis ef þessi ágreiningsatkvæði hefðu verið talin með og verulegar líkur eru færðar að því að kröfur að baki þeim séu réttar og að þeim hefði átt að fylgja atkvæði um frumvarpið,
     6.      verulegar líkur eru færðar að því að skuldarinn muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur.

59. gr.

    Skjóta má úrskurði héraðsdómara um kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings til æðra dóms innan viku frá uppkvaðningu hans. Hafi málskot ekki átt sér stað innan þess frests verður niðurstaða héraðsdómara endanleg við lok hans.
    Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum skal auglýsa í Lögbirtingablaði niðurstöðu um staðfestingu nauðasamnings þegar endanleg úrlausn er fengin.

X. KAFLI

Réttaráhrif nauðasamnings.

60. gr.

    Nauðasamningur telst kominn á þegar krafa skuldarans um staðfestingu nauðasamningsins hefur verið tekin til greina með endanlegri dómsúrlausn.
    Þegar nauðasamningur er kominn á bindur hann lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra. Efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafa sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.
    Nauðasamningur hefur sömu áhrif og réttarsátt milli skuldarans og lánardrottna hans um þær samningskröfur þeirra sem koma fram í skrá skv. 1. mgr. 46. gr., að því leyti sem skuldarinn mótmælti þeim ekki.
    Nauðasamningur haggar ekki rétti lánardrottins skuldarans til að ganga að tryggingu sem þriðji maður kann að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu.

61. gr.

    Höfði skuldarinn mál til riftunar á ráðstöfun eftir að nauðasamningur kemst á, sbr. 32. gr., getur sá sem hann beinir greiðslukröfu að ekki krafist skuldajafnaðar við það sem hann kann að eiga rétt til eftir nauðasamningnum nema að því leyti sem það er þegar komið í gjalddaga.

62. gr.

    Meðan nauðasamningur hefur ekki verið efndur að fullu má ógilda hann með dómi í máli sem einhver sá, sem á samningskröfu, höfðar á hendur skuldaranum:
     1.      ef leitt er í ljós að sviksamlegt eða refsivert atferli skuldarans hafi stuðlað að því að nauðasamningurinn hafi komist á,
     2.      ef skuldarinn hefur greitt eða heitið að greiða einhverjum lánardrottni meira af samningskröfu hans en hann á tilkall til eftir nauðasamningnum,
     3.      ef skuldarinn vanefnir verulega skuldbindingar sínar samkvæmt nauðasamningnum.
    Nauðasamningur fellur sjálfkrafa úr gildi ef hann hefur ekki verið efndur að fullu og skuldarinn fær heimild til að leita nauðasamnings á ný eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta.

63. gr.

    Ef nauðasamningur fellur úr gildi skv. 62. gr. raknar við réttur lánardrottna skuldarans til að krefja hann um efndir samningskrafna eins og samningurinn hefði aldrei verið gerður.
    Ef nauðasamningur fellur úr gildi falla niður tryggingar eða ábyrgðir sem þriðji maður kann að hafa sett eða tekið á sig fyrir því að staðið yrði við nauðasamninginn nema samningurinn hafi verið ógiltur skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. og honum hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um þau atvik sem leiddu til ógildingar.

4. ÞÁTTUR


Gjaldþrotaskipti.


XI. KAFLI

Upphaf gjaldþrotaskipta.

64. gr.

    Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
    Skuldara, sem er bókhaldsskyldur, er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr.

65. gr.

    Lánardrottinn getur krafist að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldarinn hefur strokið af landi brott eða fer annars huldu höfði og ætla má að það sé sökum skulda, enda megi telja að hætta sé á að dráttur á gjaldþrotaskiptum geti bakað lánardrottninum tjón.
    Lánardrottinn getur annars krafist að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta að einhverju eftirtöldu fullnægðu, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma:
     1.      að kyrrsetning, löggeymsla eða fjárnám hafi verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans,
     2.      að skuldarinn hafi haft heimild til greiðslustöðvunar sem hefur lokið innan mánaðar áður en krafa hlutaðeigandi lánardrottins um gjaldþrotaskipti berst héraðsdómara,
     3.      að skuldarinn hafi haft heimild til að leita nauðasamnings sem hefur fallið niður skv. 41. eða 42. gr. innan mánaðar áður en krafa hlutaðeigandi lánardrottins um gjaldþrotaskipti berst héraðsdómara,
     4.      að skuldarinn lýsi yfir að fjárhagur hans sé slíkur sem segir í 1. mgr. 64. gr.
    Lánardrottinn getur þó ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldarans skv. 1. eða 2. mgr.:
     1.      ef krafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns,
     2.      ef þriðji maður býður fram greiðslu á kröfu hans eða ef krafan er ekki komin í gjalddaga að þriðji maður bjóði fram tryggingu fyrir henni sem verður talin nægileg.
    Að öðru leyti en leiðir af 2. tölul. 3. mgr. skiptir ekki máli um heimild lánardrottins til að krefjast gjaldþrotaskipta hvort krafa hans sé komin í gjalddaga.

66. gr.

    Krafa um gjaldþrotaskipti skal send héraðsdómara og vera gerð svo úr garði sem segir í 7. gr. Krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti og fylgigögn með henni skulu vera í tvíriti.
    Sá sem hefur krafist gjaldþrotaskipta ábyrgist greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins. Gildir þetta einnig þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr.
    Ef lánardrottinn hefur krafist gjaldþrotaskipta og skilyrði fyrir þeim reynast ekki fyrir hendi skal hann bæta skuldaranum fjártjón hans og miska ef lánardrottninum mátti vera ljóst að skilyrðin skorti eða hann ætti ekki þá kröfu á hendur skuldaranum sem hann byggði á. Bætur verða sóttar í einkamáli eftir almennum reglum, en þær má dæma þótt krafa um gjaldþrotaskipti hafi verið tekin til greina.

67. gr.

    Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um gjaldþrotaskipti skal hann kanna svo fljótt sem verða má hvort einhverjir gallar séu á henni eða málatilbúnaðinum að öðru leyti sem ljóst er að valdi því að henni verði hafnað af sjálfsdáðum. Ef slíkir ágallar eru uppi má héraðsdómari þegar vísa kröfunni á bug með bókun í þingbók þar sem ástæðu þess er getið. Slíkri ákvörðun héraðsdómara verður ekki skotið til æðra dóms, en hlutaðeiganda er heimilt að leggja kröfuna fyrir á ný og krefjast fyrirtöku hennar á dómþingi og úrskurðar um hvort henni verði hafnað. Héraðsdómari má hafna kröfunni með úrskurði án þess að aðrir eigi kost á að tjá sig um hana en sá sem hefur hana uppi.
    Ef framkomin gögn taka ekki af tvímæli um að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar, ef krafan yrði tekin til greina, skal héraðsdómari krefja þann sem hefur gert hana um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaðinum áður en krafan verður tekin fyrir, enda hafi henni ekki verið vísað á bug skv. 1. mgr. Héraðsdómari skal ákveða tiltekinn skamman frest til að leggja fram tryggingu og tilkynna það hlutaðeiganda á sannanlegan hátt, en komi trygging ekki fram innan frestsins skal krafan skoðast afturkölluð þá þegar. Rísi ágreiningur um skyldu til að setja tryggingu eða fjárhæð hennar getur sá sem er krafinn um hana krafist fyrirtöku málefnisins á dómþingi og úrskurðar héraðsdómara um það. Lengist þá frestur til að setja tryggingu meðan málefnið er óútkljáð, en héraðsdómari kveður upp úrskurð sinn án þess að aðrir þurfi að eiga kost á að tjá sig um málefnið en sá sem er krafinn tryggingar.
    Þegar staðreynt er að kröfu verði ekki vísað á bug skv. 1. mgr. og trygging hefur eftir atvikum verið sett skv. 2. mgr. skal héraðsdómari ákveða þinghald til að taka kröfuna fyrir, en það skal háð svo fljótt sem verða má. Hafi héraðsdómara borist fleiri kröfur en ein, framangreindum skilyrðum er fullnægt um þær báðar eða allar, en engin þeirra hefur enn verið tekin til greina, þá skal héraðsdómari ákveða þinghald til að taka hverja þeirra sjálfstætt fyrir. Það skal að jafnaði gert í þeirri röð sem kröfurnar bárust, en ef komið hefur fram krafa skuldarans um gjaldþrotaskipti á búi sínu skal hún þó fyrr tekin fyrir en krafa lánardrottins.
    Kröfu um gjaldþrotaskipti má afturkalla þar til úrskurður gengur um hana.

68. gr.

    Hafi skuldarinn krafist gjaldþrotaskipta á búi sínu skal héraðsdómari tilkynna honum um þinghald til að taka kröfu hans fyrir með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara.
    Ef skuldarinn sækir ekki þing þegar krafa hans er tekin fyrir skal hún talin afturkölluð.
    Ef skuldarinn sækir þing skal héraðsdómari leita svara hans við sérhverju því sem skiptir máli um kröfu hans og héraðsdómari telur óljóst eða ónógar upplýsingar komnar fram um. Héraðsdómari má veita skuldaranum skamman frest til að veita frekari upplýsingar, en slíkur frestur skal að jafnaði aðeins veittur einu sinni og ekki til lengri tíma en einnar viku.

69. gr.

    Hafi lánardrottinn krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldarans skal héraðsdómari rita á kröfuna ákvörðun sína um þinghald til að taka hana fyrir ásamt fyrirkalli til skuldarans, en láta síðan birta hana fyrir skuldaranum. Við birtingu skal skuldaranum eða þeim sem birt er fyrir í þágu hans látið í té samrit kröfunnar með áritun héraðsdómara og fylgigagna með henni.
    Birting skv. 1. mgr. skal fara fram með þeim fyrirvara sem héraðsdómari ákveður, en hann má þó ekki vera skemmri en einn sólarhringur. Að öðru leyti skal fylgt þeim reglum sem gilda um birtingu stefnu í einkamáli.
    Birting þarf ekki að fara fram skv. 2. mgr. ef skuldarinn sækir þing og mótmælir ekki að krafan verði tekin fyrir án birtingar.
    Héraðsdómari skal tilkynna hlutaðeigandi lánardrottni um þinghald til að taka beiðni hans fyrir með sannanlegum hætti og minnst sólarhrings fyrirvara.

70. gr.

    Ef ekki er sótt þing af hálfu lánardrottins þegar krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans er tekin fyrir skal hún talin afturkölluð. Ef skuldarinn sækir þing og krefst þess getur héraðsdómari ákveðið honum ómaksþóknun úr hendi hlutaðeigandi lánardrottins.
    Ef skuldarinn sækir ekki þing þegar krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti er tekin fyrir skal eftir atvikum líta svo á að skuldarinn viðurkenni fullyrðingar hans.
    Ef skuldarinn sækir þing og lánardrottinn sem krefst gjaldþrotaskipta á búi hans má héraðsdómari verða við sameiginlegri ósk þeirra um að fresta meðferð kröfunnar þótt mótmæli hafi ekki komið fram gegn henni. Slíka fresti má ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar.
    Ef skuldarinn sækir þing og mótmælir kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta skal farið með hana eftir ákvæðum 168. gr.

71. gr.

    Svo fljótt sem verða má eftir að krafa hefur verið tekin til úrskurðar skal héraðsdómari kveða upp úrskurð um hvort bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta, hvort sem kröfunni hefur verið mótmælt eða ekki. Hann skal gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu fyrir gjaldþrotaskiptum þótt ekki hafi verið móti því mælt.
    Ef héraðsdómari tekur til greina kröfu um gjaldþrotaskipti frestar það ekki framkvæmd þeirra þótt úrskurði hans um það sé skotið til æðra dóms. Þess skal þó gætt að aðgerðir raski ekki réttindum málsaðila meira en nauðsyn krefur meðan málið er enn óútkljáð.
    Ef krafa um gjaldþrotaskipti er fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi skal miða áhrif, sem ákvæði laga þessara tengja uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, við uppkvaðningu úrlausnar æðra dóms.
    Ef farið verður með dánarbú sem er til opinberra skipta eftir reglum þessa þáttar skal eftir því sem átt getur við miða áhrif, sem ákvæði laga þessara tengja uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, við uppkvaðningu úrskurðar um að dánarbúið sé tekið til opinberra skipta.

XII. KAFLI

Þýðing gjaldþrotaskipta.

72. gr.

    Þegar héraðsdómari kveður upp úrskurð um að bú skuldarans sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verður ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Ef um einstakling er að ræða má þrotamaðurinn þó halda þeim fjárhagslegu réttindum sem fjárnám verður ekki gert í eða verða undanþegin fjárnámi nema mælt sé sérstaklega á annan veg í lögum.
    Þrotabú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þrotamanni á því tímamarki sem getur í 1. mgr. nema réttarreglur eða löggerningur kveði á um annað eða það leiði af eðli skyldnanna.
    Þrotabú nýtur hæfis til að eiga og öðlast réttindi og hæfi þess til að bera og baka sér skyldur helst þar til skiptum þess lýkur endanlega eftir fyrirmælum laga þessara.

73. gr.

    Meðan á gjaldþrotaskiptum stendur eignast þrotabúið þau fjárhagslegu réttindi sem hefðu ella fallið til þrotamannsins, enda hefðu þau ekki verið undanþegin skv. 1. mgr. 72. gr. ef þau hefðu verið komin í eigu hans þegar héraðsdómari kvað upp úrskurð um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta gildir þó ekki um:
     1.      það sem þrotamaðurinn vinnur sér inn meðan á skiptunum stendur,
     2.      arf, dánargjöf, dánarbeðsgjöf eða lífsgjöf sem fellur eða kemur til framkvæmdar meðan á skiptunum stendur, ef arfleiðandi eða gefandi hefur ákveðið þá undanþágu á lögmætan hátt,
     3.      það sem þrotamaðurinn aflar sér með andvirði þess sem ákvæði 1. og 2. tölul. taka til. Meðan á gjaldþrotaskiptum stendur falla þær skuldbindingar á þrotabúið sem skiptastjóri bakar því eða einhver sá sem hann hefur heimilað að skuldbinda það.

74. gr.

    Við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta missir þrotamaðurinn rétt til að ráða yfir réttindum, sem falla til þrotabúsins eftir 72. og 73. gr., svo þýðingu hafi gagnvart því. Þetta gildir þó ekki um rétt þrotamannsins til að samþykkja að maki þess, sem hann á rétt til arfs eftir, fái leyfi til að sitja í óskiptu búi eða til að ákveða með bindandi hætti að láta hjá líða að vefengja ákvæði erfðaskrár sem leiða til brottfalls, skerðingar eða kvaðar á arfi sem hefði átt að koma í hans hlut.
    Við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta missir þrotamaðurinn rétt til að stofna til skuldbindinga svo þýðingu hafi gagnvart þrotabúinu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur sá, sem hvorki vissi né mátti vita um gjaldþrotaskiptin, unnið rétt á hendur þrotabúinu vegna ráðstöfunar þrotamannsins sem á sér stað áður en innköllun hefur birst vegna skiptanna.
    Ákvæði 1.–3. mgr. gilda ekki ef reglur um viðskiptabréf, þinglýsingu eða aðra skráningu leiða til annars.

XIII. KAFLI

Skiptastjórar.

75. gr.

    Þegar héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skipar hann skiptastjóra til að fara með skiptin með bókun í þingbók. Sé krafa um gjaldþrotaskipti fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi skipar héraðsdómari skiptastjóra svo fljótt sem þau úrslit verða honum kunn.
    Engan má skipa í starf skiptastjóra nema hann lýsi sig fúsan til að taka starfann að sér og:
     1.      sé orðinn 25 ára gamall,
     2.      sé lögráða og hafi ekki misst forræði á búi sínu,
     3.      sé svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt starfanum,
     4.      hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum,
     5.      hafi lokið embættisprófi í lögum,
     6.      yrði ekki vanhæfur sem dómari í einkamáli sem þrotamaðurinn eða sá sem á kröfu á hendur þrotabúinu ætti aðild að eða, ef félag eða stofnun er til gjaldþrotaskipta, í einkamáli sem stjórnarmenn eða starfsmenn sem hafa haft daglega stjórn félagsins eða stofnunarinnar með höndum ættu aðild að.
    Ef sýnt þykir að störf skiptastjóra verði umfangsmikil getur héraðsdómari skipað tvo menn eða fleiri til að gegna þeim og má þá víkja frá skilyrði 5. tölul. 2. mgr. um aðra en einn skiptastjórann. Skiptastjórarnir ákveða þá hvernig þeir skipta með sér verkum.
    Andist skiptastjóri áður en skiptum er lokið, biðji hann héraðsdómara um lausn frá starfanum eða víki héraðsdómari honum frá skv. 76. gr. skal héraðsdómari tafarlaust skipa annan mann í hans stað. Ef skiptastjórar eru fleiri en einn í þrotabúi og starf eins þeirra losnar má héraðsdómari þó láta ógert að skipa mann í staðinn, en áður skal hann leita afstöðu þess skiptastjóra eða þeirra sem gegna störfum áfram.
    Ef í ljós kemur eftir skipun skiptastjóra að hann sé vanhæfur til að leysa af hendi tiltekið verk í starfi sínu vegna fyrirmæla 6. tölul. 2. mgr. án þess að það verði talið varða neinu fyrir rækslu starfans að öðru leyti getur héraðsdómari að ósk hans skipað annan löghæfan mann til að leysa verkið af hendi.
    Héraðsdómara er rétt að krefja skiptastjóra um tryggingu eða skilríki um að hann sé ábyrgðartryggður vegna starfans og getur sett honum tiltekinn frest til að setja tryggingu eftir að skipun hefur átt sér stað.
    Ákvörðun héraðsdómara um skipun manns í starf skiptastjóra verður ekki skotið til æðra dóms.

76. gr.

    Þeim sem á kröfu á hendur búinu er meðan á gjaldþrotaskiptum stendur heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft aðfinnslur uppi á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Héraðsdómara er heimilt að kveðja fleiri á fund sinn af slíku tilefni.
    Telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar getur hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frests. Verði skiptastjóri ekki við því eða ef framferði hans í starfi hefur annars verið slíkt að ekki verði talið réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum, skal héraðsdómari víkja honum úr starfi þegar í stað með úrskurði. Héraðsdómari skal með sama hætti víkja skiptastjóra úr starfi ef hann setur ekki tryggingu skv. 5. mgr. 75. gr. innan tilskilins frests eða fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 75. gr.
    Fallist héraðsdómari ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi skv. 2. mgr. getur sá sem hafði uppi aðfinnslur um störf hans krafist úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóranum verði vikið frá. Með sama hætti getur sá sem á kröfu á hendur búinu og telur skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 75. gr. krafist að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum. Farið skal með slíkar kröfur eftir 169. gr.

77. gr.

    Skiptastjóri annast öll störf sem lúta að meðferð þrotabúsins, en honum er heimilt á kostnað þess að leita sér aðstoðar eða þjónustu til að leysa af hendi einstök verk á sína ábyrgð.
    Skiptastjóri á rétt til þóknunar fyrir störf sín sem greiðist af búinu eða þeim sem ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar skv. 2. mgr. 66. gr. Honum er heimilt að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun sína meðan á skiptum stendur, enda kynni hann ákvörðun um það á skiptafundi og það teljist tryggt að hann gangi ekki með þessu á hlut þeirra sem eiga rétthærri kröfur á hendur búinu.
    Sá sem hefur verið skipaður skiptastjóri telst opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum.
    Skiptastjóra ber að bæta tjón sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum.

78. gr.

    Skiptastjóri sér um reikningshald fyrir þrotabúið og gefur skýrslur til yfirvalda um fjármuni þess og rekstur eftir því sem þörf krefur.
    Hafi skiptum ekki verið lokið innan sex mánaða frá því úrskurður gekk um gjaldþrotaskiptin skal skiptastjóri gera yfirlit yfir efnahag og rekstur þrotabúsins, en upp frá því um hver áramót og mitt hvert ár þar til skiptum er lokið. Hver sá, sem hefur lýst kröfu í búið en hefur ekki fengið efndir hennar, getur krafist að fá að sjá reikninga búsins, enda hafi kröfu hans ekki áður verið hafnað. Skiptastjóra er heimilt á kostnað búsins að fela löggiltum endurskoðanda að gera reikninga þess eða endurskoða þá ef þess er krafist eða hann telur annars sérstaka ástæðu til.

79. gr.

    Skiptastjóri skal halda skiptafundi eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum.
    Skiptastjóri ákveður hvar skiptafundir verða haldnir og hvenær, með hverjum fyrirvara þeir verði boðaðir og hvert fundarefni verði, að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum þessum. Leitast skal þó við að skiptafundir verði haldnir á slíkum stað og tíma að ætla megi að sem flestir fundarmenn eigi hægt með að sækja þá.
    Í boðun til skiptafundar skal koma fram hvar og hvenær hann verði haldinn og hvert fundarefnið verði í meginatriðum. Sé ekki kveðið á um annað í lögum þessum getur skiptastjóri kosið hvort hann boði til fundar með auglýsingu sem hann fær birta með minnst viku fyrirvara í Lögbirtingablaði eða með tilkynningu til hvers og eins sem á rétt til fundarsóknar, sbr. 1. mgr. 125. gr. Ef boðað er til fundar með síðargreinda hættinum skal þess gætt að fundarboði sé komið þannig fram að sannað verði hvort fundarmanni hafi borist eða mátt berast fundarboð í tæka tíð, en fundarmenn skulu þó einir gjalda þess hafi þeir ekki veitt skiptastjóra nægar upplýsingar um hvar til þeirra verði náð. Misfarist slíkt fundarboð til eins eða fleiri fundarmanna getur skiptastjóri ákveðið að fresta fundi eða halda hann með áskilnaði um rétt þeirra sem voru ekki boðaðir til að hafa uppi athugasemdir síðar um það sem þar fer fram.
    Skiptastjóri stjórnar skiptafundum og atkvæðagreiðslum sem fara þar fram og ákveður í hverri röð málefni verði tekin fyrir og fundarmenn fái að tjá sig. Skiptastjóra er heimilt að vísa óviðkomandi mönnum af fundi, svo og fundarmönnum sem spilla þar starfsfriði.
    Skiptastjóri færir fundargerðir á skiptafundum og skal hann gæta þess að fundarmönnum sé kynnt efni þeirra áður en fundi verður slitið og gefinn kostur á að hafa uppi athugasemdir um það.

80. gr.

    Skiptastjóri tekur við skjölum sem hafa þýðingu fyrir gjaldþrotaskiptin og varðveitir þau um sinn eftir að hann lýkur störfum að því leyti sem þau hafa ekki áður verið lögð fram í dómi. Um afhendingu skjalanna til varðveislu á Þjóðskjalasafni skal farið eftir sömu reglum og eiga við um skjöl sem eru lögð fram í dómsmálum.
    Sá sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta getur krafist að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum.

81. gr.

    Þrotamanninum er skylt að verða við kvaðningu skiptastjóra um að mæta á fund hans og veita honum upplýsingar og láta honum í té gögn sem hann krefst vegna gjaldþrotaskiptanna. Ef bú félags eða stofnunar hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta hvílir sama skylda á stjórnarmönnum, endurskoðanda, framkvæmdastjóra, deildarstjóra og öðrum samsvarandi forráðamönnum félagsins eða stofnunarinnar, svo og þeim sem höfðu látið af slíkum störfum áður en til gjaldþrotaskipta kom. Sama skylda hvílir enn fremur á þeim sem eru nákomnir þrotamanni.
    Skiptastjóri getur skráð skýrslu manns, sem ákvæði 1. mgr. taka til, um atriði sem varða gjaldþrotaskiptin og krafist að hann undirriti hana að viðlögðum drengskap því til staðfestingar að efni hennar sé samkvæmt því sem hann viti sannast og réttast, enda hafi honum verið gefinn kostur á að staðreyna efni hennar og koma fram leiðréttingum sínum á henni.
    Verði einhver sá, sem getur í 1. mgr., ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Skal farið eftir reglum um meðferð einkamála í héraði um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við.

82. gr.

    Þeim sem hafa eignir þrotabús í umráðum sínum er skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Sama skylda hvílir á opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum og sýslunarmönnum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, svo og öðrum sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir þrotabús vegna viðskiptatengsla við þrotamanninn eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
    Neiti einhver sá, sem getur í 1. mgr., að verða við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri fara svo að sem segir í 3. mgr. 81. gr.
    Nú neitar þrotamaðurinn eða forráðamaður félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, að afhenda skiptastjóra eignir þrotabúsins eða synjar honum um aðgang að húsnæði þar sem ástæða væri til að ætla að eignir eða gögn búsins sé að finna og getur þá skiptastjóri krafist þess skriflega að héraðsdómari kveði upp úrskurð um skyldu hlutaðeiganda til að láta eign af hendi eða veita aðgang að húsnæði. Berist héraðsdómara slík krafa skal hann tafarlaust kveðja skiptastjóra og þann sem á hlut að máli fyrir dóm með sannanlegum hætti. Tekur héraðsdómari afstöðu til kröfunnar með úrskurði, en ef ágreiningur verður um hana skal farið með hann eftir ákvæðum 170. gr.
    Úrskurði skv. 3. mgr. má ef þörf krefur fullnægja með aðför án aðfararfrests. Málskot úrskurðarins frestar ekki aðför.

83. gr.

    Meðan á gjaldþrotaskiptum stendur má skiptastjóri krefjast úrskurðar héraðsdómara um að þrotamanninum verði bönnuð för úr landi um tiltekinn tíma ef nærvera hans verður talin nauðsynleg vegna athugunar á fjárreiðum þrotabúsins og ráðstöfunum þrotamannsins fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Ef bú félags eða stofnunar hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta getur skiptastjóri haft uppi sams konar kröfu varðandi framkvæmdastjóra eða þann sem hefur annars haft daglega stjórn félagsins eða stofnunarinnar með höndum, þótt starfsheiti hans hafi verið annað, svo og formann stjórnar félags eða stofnunar.
    Ef krafa kemur fram skv. 1. mgr. skal héraðsdómari tafarlaust kveðja skiptastjóra og þann sem krafan beinist að fyrir dóm með sannanlegum hætti. Héraðsdómari tekur afstöðu til kröfunnar með úrskurði, en ef ágreiningur verður um kröfuna skal farið með hann eftir ákvæðum 170. gr. Héraðsdómari skal gæta þess að bannið standi ekki lengur en þörf krefur.
    Banni eftir úrskurði héraðsdómara skv. 2. mgr. skal framfylgt með sama hætti og farbanni sem er lagt á eftir lögum um meðferð opinberra mála. Málskot úrskurðarins frestar ekki að hann komi til framkvæmdar.
    Þeim sem ákvæði 1. mgr. taka til er skylt að tilkynna skiptastjóra fyrir fram um breytingu á heimilisfangi sínu.

84. gr.

    Ef skiptastjóri fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telur geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal hann tilkynna það ríkissaksóknara. Skiptastjóra er óskylt að leita eftir slíkri vitneskju umfram það sem leiðir af upplýsingaöflun hans starfa sinna vegna.

XIV. KAFLI

Fyrstu aðgerðir við gjaldþrotaskipti.

85. gr.

    Skiptastjóri skal án tafar eftir skipun sína gefa út og fá birta innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna þar sem eftirfarandi skal koma fram:
     1.      nafn þrotamannsins, kennitala og eftir atvikum lögheimili hans, dvalarstaður, aðsetur, starfsstöð eða skráð varnarþing,
     2.      heiti og kennitala firma eða félags, ef þrotamaðurinn hefur borið ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess,
     3.      hvenær úrskurður héraðsdómara gekk um töku bús til gjaldþrotaskipta og hver frestdagur sé við gjaldþrotaskiptin,
     4.      áskorun til lánardrottna og annarra, sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess, um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests sem hefur verið ákveðinn eftir 2. mgr.,
     5.      staður og stund sem skiptafundur verður haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur, en sá fundur skal haldinn innan mánaðar frá lokum kröfulýsingarfrests.
    Kröfulýsingarfrestur skal að jafnaði ákveðinn tveir mánuðir, en ef sérstaklega stendur á má skiptastjóri ákveða að fresturinn verði tiltekinn mánaðarfjöldi frá þremur til sex mánaða. Hver sem lengd kröfulýsingarfrests verður ákveðin skal hann ávallt byrja að líða við fyrri birtingu innköllunar og skal þess skýrlega getið í henni.
    Í innköllun má skiptastjóri kveða á um að þeim lánardrottnum sé óþarft að lýsa kröfum sínum sem hafi lýst þeim við undanfarandi nauðasamningsumleitan þrotamannsins og æski ekki að koma fram breyttum kröfum.
    Hafi skiptastjóri þegar við útgáfu innköllunar ákveðið að halda skiptafund til að fjalla um ráðstöfun hagsmuna búsins má hann boða til slíks fundar í innkölluninni.
    Innköllun skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði.

86. gr.

    Jafnframt því að gefa út innköllun skv. 85. gr. er skiptastjóra rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá, sem kann að telja til kröfu á hendur þrotabúinu, sé búsettur erlendis. Komi fram vitneskja um slíkt er skiptastjóra rétt að tilkynna hlutaðeiganda svo fljótt sem verða má um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins.
    Ef skiptastjóri telur ástæðu til að ætla að lánardrottnar kunni að vera búsettir erlendis, sem ekki er vitað hverjir séu eða hvar verði náð til, er honum rétt að fá birta auglýsingu erlendis með sama efni og tilkynning skv. 1. mgr.
    Skiptastjóra er rétt að fá birta auglýsingu með sama efni og tilkynning skv. 1. mgr. í dagblaði hér á landi eða á annan hátt sem hann kýs, ef sérstök ástæða þykir til.

87. gr.

    Skiptastjóri skal þegar eftir skipun sína leita vitneskju um hverjar eignir eða réttindi tilheyri þrotabúinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra eða hafi umsjón með þeim. Skiptastjórinn skal tafarlaust gera ráðstafanir til að svipta þrotamanninn umráðum eigna eða koma í veg fyrir að hann fari með þær á óheimilan hátt og til að draga úr hættu á að nokkur geti unnið rétt á hendur þrotabúinu vegna ákvæða 3. og 4. mgr. 74. gr. Skiptastjórinn skal eftir þörfum taka við umráðum eigna þrotabúsins eða umsjón með þeim, en heimilt er honum að láta þær vera áfram í vörslum annarra sem lýsa sig fúsa til að gæta þeirra á eigin áhættu.
    Skiptastjóri skal þegar eftir skipun sína gera ráðstafanir til að tryggja að hann fái bókhaldsgögn þrotamannsins í hendur.

88. gr.

    Skiptastjóri skal, svo fljótt sem verða má, ákveða hvernig staðið verði að atvinnurekstri þrotabúsins, gagnkvæmum samningum þess og öðrum mikilsverðum atriðum sem þola ekki bið, og gera þær ráðstafanir í þeim efnum sem hann telur nauðsynlegar fyrir hagsmuni búsins. Um ráðstöfun á eignum og réttindum búsins fer eftir ákvæðum XIX. kafla.

XV. KAFLI

Gagnkvæmir samningar.

89. gr.

    Ákvæðum þessa kafla skal ekki beita ef annað leiðir af öðrum lagaákvæðum eða eðli réttarsambandsins.

90. gr.

    Ef þrotamaðurinn hefur gert gagnkvæman samning áður en úrskurður gekk um að bú hans væri tekið til skipta en ekki innt greiðslu sína af hendi getur viðsemjandi hans haldið sinni greiðslu eftir eða, ef hann hefur sent greiðsluna, varnað því að hún sé afhent þrotabúinu þar til nægileg trygging er sett fyrir greiðslu frá þrotabúinu á gjalddaga. Þetta á einnig við þó gjalddagi á greiðslu viðsemjandans sé kominn.

91. gr.

    Þrotabúi er heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamannsins eftir gagnkvæmum samningi.
    Viðsemjandi þrotamannsins getur krafist að þrotabúið taki afstöðu til þess innan hæfilegs frests hvort það muni nýta heimild sína skv. 1. mgr.
    Ef samningur mælir fyrir um greiðslur frá þrotabúinu smátt og smátt nýtur krafa viðsemjandans til greiðslna, sem falla til eftir að úrskurður gekk um að búið væri tekið til skipta, rétthæðar skv. 3. tölul. 110. gr.

92. gr.

    Ef lausnardagur á greiðslu viðsemjandans er kominn og þrotabúið hefur nýtt heimild sína skv. 1. mgr. 91. gr. skal þrotabúið eftir kröfu viðsemjandans inna sína greiðslu af hendi eða, ef gjalddagi er ekki kominn, setja tryggingu fyrir greiðslu. Hafi viðsemjandinn greitt á hann sama rétt ef hann gæti fengið greiðslunni skilað ef þrotabúið hefði ekki nýtt heimild sína.
    Ef samningurinn mælir fyrir um greiðslur smátt og smátt af beggja hálfu skal trygging sú, sem þrotabúið setur fyrir ógreiddum kröfum, jafnan vera fyrir þeim kröfum viðsemjandans sem fyrst urðu til eftir að úrskurður gekk um að búið væri tekið til skipta.
    Ef það er talið sanngjarnt vegna hagsmuna viðsemjandans er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. Ef samningsákvæði um þær tryggingar, sem þrotabúinu er gert að setja, eru talin ósanngjörn í garð þess er heimilt að fella þau úr gildi í heild eða að hluta eða breyta þeim.

93. gr.

    Ef þrotabú nýtir ekki heimild sína skv. 1. mgr. 91. gr. eða setur ekki tryggingu innan hæfilegs frests getur viðsemjandi slitið samningnum. Það sama á við þegar viðsemjandinn hefði öðlast riftunarrétt ef ekki hefði komið til gjaldþrotaskipta.
    Ef viðsemjandi hefur innt greiðslu sína af hendi eða hluta hennar getur hann einungis slitið samningnum og krafist endurgreiðslu frá þrotabúinu ef reglur um samninga eins og þá sem um ræðir heimila slíkt.

94. gr.

    Ef þrotabúið nýtir ekki heimild sína skv. 1. mgr. 91. gr. getur viðsemjandinn krafið það um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann verður fyrir við samningsslitin, sbr. þó 96. gr.

95. gr.

    Ef þrotabúið nýtir ekki heimild sína skv. 1. mgr. 91. gr., en fær í hendur greiðslu frá viðsemjandanum eftir að úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta, skal það skila henni.

96. gr.

    Þrotabúið getur sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti.
    Viðsemjandinn getur einnig sagt samningnum upp gagnvart þrotabúinu með venjulegum eða sanngjörnum fresti nema þrotamaðurinn hafi mátt framselja rétt sinn samkvæmt honum eða fyrirmæli annarra laga standa því í vegi.
    Þegar sérstaklega stendur á má gera þeim sem segir upp samningi með heimild í 1. eða 2. mgr. að greiða hinum skaðabætur vegna tjóns sem leiðir af uppsögninni. Um rétthæð slíkrar skaðabótakröfu á hendur þrotabúi fer skv. 113. gr.

97. gr.

    Ef þrotamaðurinn hefur haft fasteign á leigu til atvinnurekstrar síns og þrotabúið getur ekki, þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta, tekið afstöðu til þess hvort það nýtir heimild sína skv. 1. mgr. 91. gr. öðlast viðsemjandinn rétt til leigugreiðslna frá því úrskurðurinn var kveðinn upp og til þess tíma sem þrotabúið gefur yfirlýsingu um afstöðu sína. Um rétthæð kröfu viðsemjandans til leigugreiðslna fer eftir 3. tölul. 110. gr.

98. gr.

    Þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta skal ákveða hvort þrotabúið taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra manna sem starfa við atvinnurekstur þrotamannsins.
    Starfsmenn eiga rétt til launa frá því úrskurður var kveðinn upp og til þess tíma sem þrotabúið tekur afstöðu sína. Um rétthæð slíkra launakrafna fer eftir 3. tölul. 110. gr.
    Ef gjaldþrotaskiptin leiða til breyttra aðstæðna og brýnir hagsmunir starfsmanns krefjast þess getur hann þó slitið ráðningarsamningi sínum. Honum er þá skylt að veita þrotabúinu hæfilegan frest til að leita annars starfsmanns í sinn stað, enda setji þrotabúið tryggingu fyrir greiðslu launa þann tíma sem hann sinnir starfi af þessum sökum ef þess er krafist.

XVI. KAFLI

Kröfur á hendur þrotabúi.

99. gr.

    Allar kröfur á hendur þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
    Kröfur á hendur þrotabúi um annað en peningagreiðslu sem verða ekki efndar eftir aðalefni sínu skulu metnar til verðs eftir þeim reglum sein gilda um slíkt mat við aðför.
    Kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðli skulu færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta að því leyti sem þeim verður ekki fullnægt skv. 109.–111. gr.

100. gr.

    Hver sá, sem skuldar þrotabúinu, getur dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
    Þær kröfur, sem eru taldar í 114. gr., verða ekki notaðar til skuldajafnaðar nema að því leyti sem eignir þrotabúsins hrökkva til greiðslu þeirra við úthlutun.
    Ekki má framselja viðskiptabréf í eigu þrotabúsins fyrr en kröfulýsingarfresti er lokið og ekki síðar ef gagnkröfu er lýst þannig að fyrirgert sé með því gagnkröfurétti. Sé þetta gert ber búinu að greiða bætur, en um rétthæð þeirrar bótakröfu fer eftir 3. tölul. 110. gr.

101. gr.

    Skuldajafna má skilyrtri kröfu við kröfu þrotabúsins þegar skilyrðið er uppfyllt. Hafi krafa þrotabúsins verið greidd áður en skilyrðið var uppfyllt fer um rétthæð endurkröfu á hendur þrotabúinu eftir 3. tölul. 110. gr. Ef enn er óvíst við úthlutun úr þrotabúinu hvort skilyrðið verði uppfyllt skal taka frá fé til endurgreiðslu kröfunnar skv. 1. mgr. 157. gr.

102. gr.

    Ef þrotabú greiðir hluta kröfu vegna veðs eða annarra tryggingarréttinda skal við úthlutun úr búinu aðeins miða við afgang kröfunnar.

103. gr.

    Ef fleiri en þrotamaðurinn ábyrgjast kröfu með óskiptri ábyrgð skal við úthlutun úr þrotabúinu miða við heildarfjárhæð kröfunnar enda þótt:
     1.      annar skuldari hafi greitt hluta kröfunnar og hann hafi mátt endurkrefja þrotamanninn,
     2.      hluti kröfunnar hafi verið greiddur úr búi annars skuldara,
     3.      annar skuldari hafi greitt hluta kröfunnar á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag.
    Ef annar skuldari hefur þegar fengið endurgreiðslu frá þrotamanninum vegna greiðslu þess fyrrnefnda á hluta kröfunnar og þrotabúið riftir ekki þeirri endurgreiðslu skal þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. miða við afgang kröfunnar við úthlutun.

104. gr.

    Kröfuhafa, sem hefur fengið greiðslur frá fleirum en þrotabúinu, skal ekki greiða meira samtals en nemur kröfu hans með vöxtum og málskostnaði. Ef greiðsla sem hann ætti að fá úr þrotabúinu leiðir til þess að hann fengi hærri greiðslu skal skipta mismuninum milli samskuldara þrotabúsins eftir réttarsambandi þeirra.

105. gr.

    Ef kröfu er lýst í þrotabúið og einnig endurgreiðslukröfu vegna sömu kröfu skal miða við samtölu þessara krafna við úthlutun. Upp í endurgreiðslukröfuna skal það aðeins greitt sem er umfram fjárhæð aðalkröfunnar. Ef fleiri en einn gera endurgreiðslukröfur skal skipta úthlutunarfjárhæð eftir reglu 104. gr.

106. gr.

    Ef kröfu er lýst í þrotabúið og endurgreiðslukrafa samskuldara er tryggð með veði eða öðrum tryggingarréttindum í eignum þess skal lækka þá fjárhæð sem samskuldari getur krafist á grundvelli tryggingarréttarins um þá fjárhæð sem kemur upp í aðalkröfuna við úthlutun.
    Eigi samskuldarinn rétt til skuldajafnaðar skal beita reglum 1. mgr.

107. gr.

    Samskuldari sem á endurkröfurétt á þrotamanninn og hefur greitt skuld þeirra á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag á sama rétt til greiðslu úr hendi þrotabúsins og lánardrottinn þeirra hefði átt ef hann hefði ekki fengið greiðsluna frá samskuldaranum. Samskuldarinn á þó ekki rétt á hærri fjárhæð úr hendi þrotabúsins en hann hefði getað krafið þrotamanninn um ef ekki hefði komið til gjaldþrotaskipta.
    Hafi fleiri samskuldarar en einn greitt skuldina skal því fé sem þeir fá við úthlutun skipt milli þeirra eftir reglu 104. gr.

108. gr.

    Beita skal ákvæðum 104.–107. gr. þegar krafa á hendur þrotabúinu er tryggð með veði eða öðrum tryggingarréttindum í eign þriðja manns.

XVII. KAFLI

Rétthæð krafna á hendur þrotabúi.

109. gr.

    Afhenda skal eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til.
    Hafi þrotabúið selt eign eða réttindi sem þriðji maður sannar síðar að hafi tilheyrt sér getur hann krafist greiðslu þess sem þrotabúið fékk í hendur við söluna, eftir atvikum að frádregnum kostnaði sem búið hefur haft af varðveislu og sölu eignarinnar. Slík krafa skal greidd á undan öllum öðrum kröfum á hendur búinu.

110. gr.

    Næstar kröfum skv. 109. gr. ganga eftirtaldar kröfur í þeirri röð sem hér segir, sbr. þó 3. mgr. 111. gr.:
     1.      kostnaður af útför þess látna ef farið er með dánarbú hans eftir reglum þessa þáttar,
     2.      kostnaður af skiptunum,
     3.      kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum,
     4.      kröfur sem hafa orðið til eftir frestdag með ráðstöfunum skuldara sem voru samþykktar af aðstoðarmanni hans við greiðslustöðvun eða umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum hans, enda hafi ráðstafanirnar verið heimilar skv. 19.–21. gr.

111. gr.

    Næstar kröfum skv. 109. og 110. gr. ganga kröfur sem njóta veðréttar eða annarra tryggingarréttinda í eign þrotabúsins að því leyti sem þeim verður fullnægt af andvirði eignarinnar og arði eða öðrum tekjum sem þrotabúið hefur fengið greitt af henni.
    Ef tveir lánardrottnar eða fleiri eiga veðrétt eða tryggingarréttindi í sömu eign fer um rétthæð þeirra eftir almennum reglum. Óþinglýst réttindi á grundvelli almenns lögveðs ganga þó á eftir réttindum annarra samkvæmt þessari grein.
    Kröfur skv. 2.–4. tölul. 110. gr. ganga aðeins fyrir kröfum samkvæmt þessari grein að því leyti sem þær varða þá eign sem veðréttur eða tryggingarréttindi eru í.

112. gr.

    Næstar kröfum skv. 109.–111. gr. ganga að réttri tiltölu við fjárhæð hverrar kröfu:
     1.      kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag,
     2.      kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag,
     3.      kröfur um orlofsfé eða orlofslaun sem réttur hefur unnist til á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag,
     4.      kröfur um gjöld til lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og orlofsheimilasjóða sem þrotamanninum hefur borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag, svo og gjöld til stéttarfélaga sem honum bar að standa skil á vegna sama tímabils,
     5.      kröfur um bætur vegna örorku eða dauðsfalls manns sem starfaði í þjónustu þrotamannsins og varð þar fyrir slysi sem olli örorku eða dauðsfalli og átti sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag,
     6.      kröfur maka, fyrrverandi maka eða barns þrotamannsins um lífeyri eða meðlag vegna þess tímabils sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag, ef kröfurnar styðjast við yfirvaldsákvörðun eða skilnaðarsamning og greiðast ekki af almannatryggingum eða með sambærilegum hætti,
     7.      kröfur til eða vegna meðferðar fjár sem þrotamaðurinn hefur haft í vörslum sínum sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu,
     8.      kröfur um þóknun aðstoðarmanns við greiðslustöðvun og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum ásamt nauðsynlegum kostnaði sem þeir hafa lagt út fyrir eftir frestdag.
    Kröfur skv. 1.–6. tölul. skulu enn fremur njóta rétthæðar samkvæmt þessari grein þótt þær séu eldri en þar segir ef mál hefur verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hefur gengið um þær á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag eða síðar.
    Hvorki njóta þeir sem eru nákomnir þrotamanni réttar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. fyrir kröfum sínum né þeir sem hafa átt sæti í stjórn eða haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem er til gjaldþrotaskipta.

113. gr.

    Næstar kröfum skv. 109.–112. gr. ganga allar aðrar kröfur á hendur þrotabúi að réttri tiltölu við fjárhæð hverrar, nema þær sem eru taldar í 114. gr.

114. gr.

    Að baki öllum kröfum skv. 109.–113. gr. koma eftirtaldar kröfur í þeirri röð sem hér segir:
     1.      kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu skv. 112. eða 113. gr. sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta,
     2.      kröfur um févíti einkaréttarlegs eðlis nema að því leyti sem skaðabætur felast í þeim,
     3.      kröfur um gjafir,
     4.      kröfur sem um hefur verið samið að víki fyrir öllum öðrum kröfum,
     5.      kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu skv. 2.–4. tölul. sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta.

115. gr.

    Við framsal eða önnur aðilaskipti að kröfu fylgja réttindi á hendur þrotabúi skv. 109.–114. gr.
    Nú greiðir samskuldari þrotabús kröfu, og fer þá um framkröfu hans á hendur þrotabúinu með sama hætti og kröfuna sem var greidd, en þó rýrir það ekki sjálfstæð tryggingarréttindi sem samskuldarinn kann að eiga.

XVIII. KAFLI

Meðferð krafna á hendur þrotabúi.

116. gr.

    Dómsmál verður ekki höfðað í héraði gegn þrotabúi nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um opinbert mál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem má ákveða á hendur þrotabúi. Má þá höfða málið í því umdæmi þar sem skiptin fara fram.
    Halda má máli til dóms ef það hefur verið höfðað á hendur þrotamanninum og dómur ekki gengið í því áður en úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda tilkynni stefnandi þess skiptastjóra um það. Tekur þá þrotabúið við aðild málsins ef þær skyldur, sem málið varða, falla á það, en ella má halda því til dóms á hendur þrotamanninum ef um einstakling er að ræða. Ef mál sem má halda til dóms á hendur þrotabúinu hefur verið dómtekið vegna útivistar þrotamannsins eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús hans til gjaldþrotaskipta má þrotabúið krefjast endurupptöku þess eftir reglum um lögmæt forföll.
    Kröfu um aðför, kyrrsetningu, lögbann eða löggeymslu verður ekki komið fram gegn þrotabúi.
    Kröfu um nauðungarsölu á eign þrotabús verður ekki komið fram á fyrstu sex mánuðum eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta nema að kröfu eða með samþykki skiptastjóra. Eftir það getur sá sem hefur heimild til að krefjast nauðungarsölu án frekari dóms, sáttar eða aðfarar komið henni fram á eign þrotabúsins ef krafa hans hefði verið komin í gjalddaga án tillits til 1. mgr. 99. gr.

117. gr.

    Sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi og getur ekki fylgt henni eftir skv. 116. gr. skal lýsa henni fyrir skiptastjóra.
    Kröfulýsing skal vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í henni skulu kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna.
    Þau gögn skulu fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við.
    Skiptastjóri skal staðfesta móttöku kröfulýsingar ef eftir því er leitað.
    Krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti, sem hefur verið tekin til greina, telst nægileg lýsing kröfu á hendur þrotabúinu ef hún fullnægir ákvæðum 2. og 3. mgr.
    Kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgja sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berst honum.

118. gr.

    Ef kröfu á hendur þrotabúi er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., þá fellur hún niður gagnvart búinu nema:
     1.      kröfunni sé lýst áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu og samþykki fáist fyrir að krafan komist að hjá 3/ 4hlutum þeirra kröfuhafa sem færu á mis við greiðslu af þeim sökum, talið bæði eftir höfðatölu kröfuhafanna og fjárhæðum krafna þeirra,
     2.      kröfuhafinn sé búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
     3.      krafan sé höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins að fullnægðum skilyrðum 100. gr.,
     4.      um kröfu sé að ræða skv. 109. gr.,
     5.      um kröfu sé að ræða skv. 1.–3. tölul. 110. gr. eða hún hafi annars fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og henni er lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
     6.      um kröfu sé að ræða sem hefur raknað við vegna riftunar, sbr. 143. gr., og henni er lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.

119. gr.

    Þegar kröfulýsingarfresti er lokið skal skiptastjóri tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafa komið fram, þar sem hann lætur í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Í skránni skal getið hvers efnis kröfurnar séu, fjárhæða þeirra og umkrafinnar stöðu í skuldaröð, ef því er að skipta. Skiptastjóra er þó óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja má fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin.
    Ef skiptastjóri fellst ekki á að viðurkenna kröfu að öllu leyti, eins og henni hefur verið lýst, skal hann tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína til hennar með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur verður haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Tilkynningin skal send með sannanlegum hætti og tekið skýrlega fram í henni hverjar afleiðingar það hafi ef afstöðu skiptastjóra verður ekki mótmælt á skiptafundinum, sbr. 3. mgr. 120. gr. Í stað tilkynningar getur skiptastjóri þó sent hlutaðeiganda eintak kröfuskrár, enda komi þá þar fram það sem ella hefði verið í tilkynningunni.
    Skiptastjóri skal láta eintak kröfuskrár liggja fyrir á starfsstofu sinni í að minnsta kosti viku fyrir skiptafund til sýnis fyrir þá sem þangað koma og hafa lýst kröfu í þrotabúið. Þá ber skiptastjóra að láta þeim í té eintak kröfuskrár sem hafa lýst kröfu á hendur þrotabúinu og leita eftir því, en honum er heimilt að krefjast greiðslu til búsins fyrir kostnaði af gerð eintaksins. Þrotamaðurinn eða forráðamaður félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, skal eiga sama aðgang að kröfuskrá, en aðrir ekki nema skiptastjóri telji sýnt að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af því.

120. gr.

    Kröfuhafi, sem vill ekki una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sinnar á hendur þrotabúinu, skal lýsa yfir mótmælum sínum á skiptafundi, sem er haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur, eða tilkynna það skiptastjóra með bréfi sem berst honum ekki síðar en á þeim fundi. Með sama hætti er kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin.
    Skiptastjórinn leggur fyrir kröfuskrá og kröfulýsingar á skiptafundinum ásamt mótmælum sem kunna að hafa borist skv. 1. mgr. Þar skal hann eftir föngum veita fundarmönnum þær skýringar sem þeir æskja um efni einstakra krafna, ástæður fyrir afstöðu sinni til viðurkenningar þeirra og framkomin mótmæli gegn þeim, en um rétt til fundarsóknar skal farið eftir ákvæðum 125. gr. Komi fram mótmæli á fundinum gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu og þeir eru staddir þar báðir eða allir sem hafa mótmælt og mótmæli beinast eftir atvikum gegn, skal skiptastjóri reyna að jafna ágreininginn, en annars skal hann boða þá sem eiga hlut að máli sem fyrst til sérstaks fundar í því skyni. Verði ágreiningur ekki leystur með þeim hætti skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr.
    Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.

121. gr.

    Ef kröfu er lýst eftir að kröfulýsingarfresti er lokið, en ekki er víst að hún sé fallin niður fyrir þær sakir, skal skiptastjóri svo fljótt sem verða má taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig hann telji eiga að viðurkenna hana. Hann skal síðan boða til skiptafundar til að fjalla um afstöðu sína til kröfunnar. Um rétt til mótmæla gegn afstöðu skiptastjóra, meðferð mótmæla sem kunna að koma fram og þýðingu þess að engum mótmælum sé hreyft gilda ákvæði 120. gr.

XIX. KAFLI

Bústjórn og ráðstöfun hagsmuna þrotabús.

122. gr.

    Meðan á gjaldþrotaskiptum stendur fer skiptastjóri með forræði þrotabúsins og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, sbr. þó 130. gr. Hann kemur fram af hálfu búsins fyrir dómi og gerir samninga og aðra löggerninga í nafni þess.
    Skiptastjóri skal einkum gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, að allar eignir og öll réttindi þrotabúsins komi fram og verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt, að kröfur þess og innstæður verði heimtar inn, að engin þau réttindi þess fari forgörðum sem geta haft verðgildi og gripið verði til þeirra aðgerða sem verða annars taldar nauðsynlegar til að varna tjóni. Hann skal og gæta þess að peningaeign þrotabúsins beri sem hagkvæmasta vexti á reikningi við banka eða sparisjóð með tilliti til þess um hve langan tíma megi ætla að hann hafi hana undir höndum.

123. gr.

    Skiptastjóri skal, svo fljótt sem tök eru á eftir skipun sína, hefjast handa um ráðstöfun á þeim eignum og réttindum sem telja má sýnt að tilheyri þrotabúinu, enda þyki honum ekki hagkvæmara fyrir hagsmuni þess að ráðstöfun verði frestað um sinn. Ef þrotamaðurinn leitar nauðasamnings skv. 21. kafla skal skiptastjóri þó ekki ráðstafa eignum eða réttindum þannig að fari í bága við þær umleitanir nema hann telji það nauðsynlegt til að varna tjóni eða verulegum kostnaði eða sá fjöldi lánardrottna greiði atkvæði gegn frestun ráðstafana á skiptafundi sem mundi nægja til að nauðasamningsumleitanir bæru ekki árangur. Skiptastjóri skal heldur ekki ráðstafa eignum eða réttindum frekar en þörf krefur eða nauðsynlegt er til að varna tjóni eða verulegum kostnaði ef hann telur sennilegt að skiptunum kunni að ljúka eftir 2. mgr. 154. gr.
    Ef eign er í vörslum þrotabúsins og óvissa er um réttindi yfir henni eða vitað er að hún tilheyri því ekki, en enginn gefur sig fram innan kröfulýsingarfrests til að krefjast hennar, má skiptastjóri ráðstafa henni að undangenginni birtingu áskorunar í Lögbirtingablaði til eigandans um að gefa sig fram. Ef eignin liggur undir skemmdum eða meiri kostnaður væri af varðveislu hennar á kröfulýsingarfresti en ætla má að andvirði hennar nemi má skiptastjóri þó ráðstafa henni á kröfulýsingarfresti að undangenginni áskorun samkvæmt áðursögðu. Fé sem fæst fyrir slíka eign rennur til þrotabúsins ef enginn kallar eftir því.
    Nú stendur ekki svo á sem í 2. mgr. segir, skiptastjóri selur eða ráðstafar eign eða réttindum sem þriðji maður var með réttu eigandi að og skiptastjóri vissi eða mátti vita um rétt hans, og getur þá þriðji maður krafið þrotabúið um bætur ef hann fær ekki tjón sitt bætt með kröfu skv. 2. mgr. 109. gr. Slík bótakrafa nýtur stöðu skv. 3. tölul. 110. gr. Hafi sala eða ráðstöfun átt sér stað eftir lok kröfulýsingarfrests og þriðji maður hefur ekki lýst tilkalli sínu áður en hún fór fram getur hann ekki haft uppi kröfu á hendur kaupanda sem hvorki vissi né mátti vita um réttindi hans.

124. gr.

    Skiptastjóri tekur ákvarðanir um hvernig eignum og réttindum þrotabúsins verði ráðstafað, þar á meðal hvernig og hverjum þær verði seldar og gegn hverju verði, sbr. þó 129. gr., og hvort kröfu verði haldið uppi, mál verði höfðað um hana eða hún gefin eftir.
    Skiptastjóri heldur skiptafundi eftir því sem honum þykir henta til að kynna ráðstafanir sem hann hefur gert, leita eftir atvikum tillagna eða ákvarðana um ráðstafanir sem eru enn ógerðar og gefa kost á að slíkar tillögur verði settar fram. Skiptastjóra er þó skylt að taka þessi málefni á dagskrá á skiptafundi sem er haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur og honum er jafnframt skylt að boða til skiptafundar í þessu skyni ef þess er krafist skriflega af þeim sem færu að minnsta kosti með fimmtung atkvæða á fundinum. Ákvarðanir skiptafundar um ráðstafanir, sem eru enn ógerðar, binda skiptastjóra samkvæmt því sem segir í 127. gr.
    Þótt skiptastjóri boði ekki til skiptafundar um einstakar ráðstafanir sínar er honum rétt að ráðfæra sig áður en þær verða gerðar við kröfuhafa sem þær varða sérstaklega eða hafa annars hagsmuni umfram aðra af þeim.

125. gr.

    Kröfuhafi á rétt á að sækja skiptafundi ef hann hefur lýst kröfu sinni fyrir skiptastjóra og henni hefur ekki endanlega verið hafnað.
    Skiptastjóri getur heimilað öðrum fundarsókn, þar á meðal þrotamanni eða forráðamanni félags eða stofnunar sem er til gjaldþrotaskipta, ef fundarefnið varðar hagsmuni þeirra, vera þeirra á fundinum gæti orðið til hagræðis eða enginn sem á rétt til fundarsóknar hreyfir athugasemdum við að þeir séu viðstaddir. Slíkir menn njóta ekki málfrelsis eða tillöguréttar á fundinum nema að því leyti sem skiptastjóri ákveður.

126. gr.

    Að því leyti sem þarf að ákveða atkvæði á skiptafundum ráðast þau af fjárhæðum krafna þeirra sem eiga rétt til fundarsóknar skv. 1. mgr. 125. gr. og hafa lýst kröfum um peningagreiðslu. Ef skiptastjóri hefur ekki enn tekið afstöðu til viðurkenningar kröfu eða hún er tryggð að hluta, ógjaldfallin, umdeild eða skilyrt, skal skiptastjóri ákveða henni atkvæði til bráðabirgða.
    Ef skiptastjóri telur ljóst að krafa fáist greidd að fullu eða að engu greidd hvernig sem atkvæðagreiðsla kynni að fara á skiptafundi nýtur lánardrottinn ekki atkvæðisréttar á grundvelli hennar.
    Séu atkvæði greidd um málefni sem varða sérstaka hagsmuni einstaks lánardrottins skulu atkvæði hlutaðeiganda falla niður.

127. gr.

    Skiptafundur er ályktunarfær ef hann er sóttur af þeim sem fara með minnst þriðjung atkvæða skv. 126. gr.
    Skiptastjóri er bundinn af ákvörðun ályktunarfærs skiptafundar ef allir fundarmenn hafa verið á einu máli. Telji skiptastjóri slíka ákvörðun þó andstæða lögum, óheiðarlega, óframkvæmanlega eða bersýnilega fara í bága við hagsmuni lánardrottna sem sóttu ekki fundinn eða geta enn gefið sig fram má hann virða ákvörðunina að vettugi og annaðhvort leggja málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráða því sjálfur til lykta.
    Greini fundarmenn á um ákvörðun á ályktunarfærum skiptafundi er skiptastjóra að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktun meiri hlutans. Það skal þó ekki gert ef efni eru til að víkja frá henni vegna þeirra atvika sem eru talin í 2. mgr. eða ætla má að meirahlutavaldi sé misbeitt minni hlutanum til tjóns. Telji skiptastjóri ekki fært að fara að ályktun meiri hlutans getur hann lagt málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráðið því sjálfur til lykta.
    Falli atkvæði jöfn á ályktunarfærum skiptafundi skal skiptastjóri ráða málefninu til lykta á þann veg sem hann telur best eiga við, nema hann kjósi fremur að boða til nýs fundar um það.

128. gr.

    Skiptastjóri skal kynna ákvarðanir sínar um fundarefni skv. 127. gr. jafnharðan á skiptafundum nema hann telji nauðsynlegt að fresta ákvörðun til nýs fundar.
    Mæti ekki lánardrottinn til skiptafundar sem hann hefur verið boðaður til glatar hann rétti til að hafa uppi mótmæli eða kröfur vegna ákvarðana og ráðstafana sem hafa verið teknar þar eða kynntar.
    Lánardrottinn sem á atkvæði um málefni búsins og telur ákvörðun eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta getur mótmælt henni þegar á þeim fundi sem hún er kynnt, en ella á næsta fundi sem hann er boðaður til hafi hann ekki glatað rétti til þess skv. 2. mgr. Komi slík mótmæli fram skal skiptastjóri leitast við að jafna ágreininginn, en takist það ekki skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. Meðan ágreiningur hefur ekki verið leiddur til lykta skulu ekki gerðar frekari ráðstafanir um málefnið nema nauðsynlegt sé til að réttindi eða munir fari ekki forgörðum eða rýrni að mun.

129. gr.

    Ef ráðstafa á eign þrotabúsins sem er bundin veðréttindum eða öðrum tryggingarréttindum og skiptastjóri telur að hún verði ekki seld gegn því verði að allir hlutaðeigendur fái fullnustu krafna sinna skal hann boða þá sem eiga réttindi yfir eigninni til veðhafafundar. Um boðun og önnur atriði varðandi framkvæmd veðhafafundar skal farið eftir sömu reglum og gilda um skiptafundi að því leyti sem ekki er mælt hér á annan veg, en atkvæði verða þar ekki greidd svo bindandi sé fyrir minni hluta.
    Skiptastjóri skal kynna ráðagerðir sínar um ráðstöfun veðbundinnar eignar á veðhafafundi. Hann skal leita þar heimildar fundarmanna til að ráðstafa eigninni með þeim áhrifum að þeir fundarmenn, sem kunna að fara á mis við fullnustu af söluverði eignarinnar, glati þeim tryggingarréttindum sem þeir kunna að njóta.
    Ef eigninni er ekki ráðstafað með nauðungarsölu og skiptastjóra berst boð í hana, sem hann telur viðunandi en nægir þó ekki til að fullnægja réttindum allra hlutaðeigenda, skal hann boða þá sem færu á mis við fullnustu á ný til fundar, enda hafi þeir ekki áður veitt heimild skv. 2. mgr. Í fundarboði skal koma skýrlega fram hvert verð sé boðið í eignina og mat skiptastjóra á því hversu langt það muni hrökkva til að fullnægja kröfum þeirra sem eiga réttindi yfir henni.
    Á veðhafafundi skv. 3. mgr. skal skiptastjóri gefa þeim fundarmönnum, sem færu á mis við fullnustu ef boði væri tekið, kost á að ganga inn í boðið eða gera hærra boð. Ef fleiri slíkir fundarmenn en einn lýsa yfir vilja á fundinum til að ganga inn í boð og sammæli verða ekki um annað skal þeim gefinn kostur á að gera hærra boð. Skiptastjóri skal ákveða á fundinum hverju boði verði tekið nema hann telji efni til að fresta ákvörðun eða leita frekari boða í hana.
    Þegar skiptastjóri ráðstafar eign skv. 4. mgr. falla sjálfkrafa niður þau tryggingarréttindi yfir eigninni sem fást ekki fullnægt af söluverði hennar. Að kröfu skiptastjóra skulu slík réttindi afmáð ef þeim hefur verið þinglýst, enda leggi hann fyrir fundargerðir, fundarboð og önnur gögn því til staðfestingar að skilyrðum fyrir því sé fullnægt.
    Veðhafi eða annar sá sem á réttindi yfir eign, sem er farið með eftir ákvæðum þessarar greinar, getur haft uppi mótmæli vegna meðferðar hennar með þeim hætti sem segir í 3. mgr. 128. gr.

130. gr.

    Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur lánardrottinn, sem hefur lýst kröfu á hendur búinu sem hefur ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Sá sem vill gera slíkt skal tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og bera sjálfur kostnað og áhættu af aðgerðum sínum en hann getur krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem búinu áskotnast fé af þeim.
    Grípi enginn lánardrottinn til aðgerða skv. 1. mgr. má þrotamaðurinn gera það ef um einstakling er að ræða.
    Hafi lánardrottinn eða þrotamaðurinn tekið að sér hagsmuni þrotabúsins skv. 1. eða 2. mgr. getur skiptastjóri hvenær sem er tekið við þeim á ný, enda greiði þá þrotabúið hlutaðeiganda um leið þann kostnað sem hefur fallið til af þessum sökum.

XX. KAFLI

Riftun ráðstafana þrotamanns o.fl.

131. gr.

    Krefjast má riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.
    Krefjast má riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag.
    Ekki verður krafist riftunar venjulegra tækifærisgjafa, svipaðra gjafa eða styrkveitinga ef gerningar sem þessir voru ekki kostnaðarsamari en svaraði til aðstöðu þrotamannsins.

132. gr.

    Ef þrotamaðurinn hefur afsalað sér arfi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag má krefjast riftunar á þeirri ráðstöfun. Hafi arfinum verið úthlutað áður en úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta skal beina kröfu að þeim sem hefur fengið arf eða aukinn arf vegna arfsafsalsins.
    Krefjast má riftunar á arfsafsali sem hefur verið gefið sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir arfsafsalið.
    Hafi fjárslit farið fram milli þrotamannsins og maka hans eða sambýlismanns, og hann hefur afsalað sér rétti við þau, má krefjast riftunar eftir reglum 1. og 2. mgr. á þeirri ráðstöfun að því leyti sem fyrrum maki þrotamannsins eða sambýlismaður hefur fengið meira í sinn hlut við fjárslitin en honum hefði borið.

133. gr.

    Krefjast má riftunar á greiðslu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag frá þrotamanninum til nákominna á launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu eða eftirlaunum, ef greiðslan var bersýnilega hærri en sanngjarnt var miðað við vinnuna, tekjur af atvinnurekstrinum og önnur atvik. Aðeins verður rift að því leyti sem greiðslan var hærri en sanngjarnt var.
    Sama gildir um greiðslu sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

134. gr.

    Krefjast má riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
    Krefjast má riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

135. gr.

    Ef þrotamaðurinn hefur greitt víxil eða tékka verður þeirri ráðstöfun ekki rift gagnvart þeim sem varð að taka við greiðslu til að halda víxil- eða tékkarétti á hendur öðrum nema þrotabúið sanni að ekki hafi verið unnt að fá greiðslu hjá þeim. Hins vegar ber þeim að greiða fjárhæðina sem að lokum hefði beðið tjón ef þrotamaðurinn hefði ekki greitt, enda hefðu verið skilyrði til að rifta ef þrotamaðurinn hefði greitt honum.

136. gr.

    Ákvæði um riftun greiðslu gilda einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr.

137. gr.

    Krefjast má riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. Það sama á við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.
    Krefjast má riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem hafa verið sett til hagsbóta fyrir nákomna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag og ákvæði 1. mgr. eiga að öðru leyti við, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna.

138. gr.

    Kyrrsetning í eign þrotamannsins fellur sjálfkrafa niður við uppkvaðningu úrskurðar um töku bús hans til gjaldþrotaskipta ef eignin rennur til þrotabúsins. Eins fer um löggeymslu og fjárnám sem hefur verið gert í eign þrotamannsins á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef eignin rennur til þrotabúsins.
    Sama gildir um löggeymslu og fjárnám sem hefur verið gert sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag að kröfu einhvers sem er nákominn þrotamanni, nema sá leiði í ljós með málsókn að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir fullnustugerðina.

139. gr.

    Krefjast má riftunar á greiðslu skuldar ef greitt var eftir frestdag nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.
    Krefjast má riftunar annarra ráðstafana sem hafa verið gerðar eftir frestdag nema ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamannsins, eðlileg af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum. Ekki verður rift gagnvart þeim sem mátti líta svo á að ráðstöfunin hafi verið þess eðlis sem á undan segir eða hvorki vissi né mátti vita um beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða kröfu um gjaldþrotaskipti.
    Ef aðstoðarmaður skuldarans við greiðslustöðvun eða umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hans hefur samþykkt greiðslu eða ráðstöfun, verður ekki rift nema samþykkið hafi bersýnilega verið gefið í andstöðu við heimildir laga þessara til ráðstafana.

140. gr.

    Ef það er skilyrði riftunar að ráðstöfun eða fullnustugerð fari fram á tilteknum tíma telst það skilyrði uppfyllt ef þinglýsing eða önnur tryggingarráðstöfun, sem er nauðsynleg til að hindra að betri réttur fáist með fullnustugerð, fer fram á þeim tiltekna tíma.

141. gr.

    Krefjast má riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

142. gr.

    Ef riftun fer fram með stoð í 131.–138. gr. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Hafi hann fengið peninga greidda eða hafi greiðsla þrotamannsins verið seld og greiðsla fengist fyrir hana í peningum skiptir notkun peninganna engu um kröfu þrotabúsins. Ef ljóst er að viðsemjanda var kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar skal þó dæma hann til greiðslu tjónsbóta.
    Hagnað sem fæst eftir að riftunarmál er höfðað skal greiða þrotabúinu.
    Ef riftun fer fram skv. 139. eða 141. gr. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum.

143. gr.

    Þeim sem er gert að sæta riftun og greiða þrotabúi fé skv. 142. gr. eða öðrum ákvæðum þessara laga eða afhenda þrotabúinu verðmæti skv. 144. gr. skal skylt að inna sína greiðslu af hendi til þrotabúsins án tillits til þess hvenær úthlutun fari fram úr búinu. Honum skal heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafa jafnréttháar kröfur.

144. gr.

    Ef annar hvor aðila krefst skal skila greiðslum í þeim mæli sem þær eru enn til, enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Jafna skal greiðslur eftir því sem þarf með peningagreiðslum.

145. gr.

    Ef sérstaklega stendur á má lækka eða fella niður kröfu á þann sem hafði hag af ráðstöfun eða fullnustugerð ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiða til þess sama.

146. gr.

    Ef sá sem fékk verðmæti hefur framselt þau þriðja manni á þrotabúið kröfu á þriðja mann eftir reglum 142.–145. gr. ef hann vissi eða mátti vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggist á.
    Ef þriðji maður er nákominn þrotamanni á þrotabúið kröfu á hann í þeim mæli sem greinir í 1. og 2. mgr. 142. gr. og 143. gr., sbr. 144. og 145. gr., þó að hann hafi verið í góðri trú.

147. gr.

    Ef þriðji maður hefur sett tryggingu eða gengið í ábyrgð fyrir skuldum þrotamanns en losnað frá skuldbindingu sinni vegna riftanlegrar greiðslu eða fullnustugerðar á þrotabúið kröfu á þriðja mann eftir reglunum í 142. og 143. gr., sbr. 145. gr., ef þriðji maður vissi eða mátti vita um aðstæðurnar sem riftunarkrafa byggist á þegar hann losnaði frá skuldbindingu sinni. Þrotabúið getur krafist veðtryggingar á ný ef unnt er að setja hana.
    Ef þriðji maður er nákominn þrotamanni á þrotabúið kröfu á hann skv. 1. og 2. mgr. 142. gr. og 143. gr., sbr. 145. gr., þó að hann hafi verið í góðri trú.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. koma ekki í veg fyrir riftun gagnvart þriðja manni eftir 2. mgr. 134. gr., 2. mgr. 139. gr. eða 141. gr.

148. gr.

    Ef höfða þarf dómsmál til að koma fram riftun skal það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.
    Frestur skv. 1. mgr. gildir ekki um mótmæli gegn kröfu sem er lýst í þrotabúið.

XXI. KAFLI

Nauðasamningar við gjaldþrotaskipti.

149. gr.

    Frá því úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta og þar til frumvarp er gert til úthlutunar úr búinu getur þrotamaðurinn leitað nauðasamnings í því skyni að gjaldþrotaskiptum ljúki með því að samningur komist á.
    Ákvæði 3. þáttar gilda um nauðasamning, sem þrotamaðurinn leitar skv. 1. mgr., með þeim frávikum sem mælt er fyrir um í þessum kafla eða leiða af eðli máls.
    Skiptastjóri gegnir þeim störfum sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gegnir að öðrum kosti. Skiptastjóri fer eftir sem áður með forræði á málefnum þrotabúsins eftir almennum reglum þótt nauðasamnings sé leitað.
    Að því leyti sem reglur 3. þáttar miða tiltekin áhrif við þann dag sem úrskurður gengur um heimild til að leita nauðasamnings skal varðandi nauðasamning skv. 1. mgr. miða þau við þann dag sem úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta.

150. gr.

    Ef þrotamaðurinn vill leita nauðasamnings skal hann tilkynna skiptastjóra það skriflega. Í tilkynningunni skal greint frá því á hverjum forsendum samningsboðið sé reist og hvernig þrotamaðurinn rökstyðji að hann muni geta staðið við það. Þar skulu enn fremur koma fram þær skýringar við frumvarp að nauðasamningi sem þrotamaðurinn telur þörf.
    Með tilkynningu skv. 1. mgr. skulu fylgja frumvarp að nauðasamningi sem er gert eftir fyrirmælum 36. gr. og skriflegar yfirlýsingar frá að minnsta kosti fjórðungi þeirra sem ættu atkvæðisrétt um nauðasamninginn, bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum, um að þeir mæli með nauðasamningi eftir frumvarpi þrotamannsins.
    Skiptastjóri skal ákveða svo fljótt sem verða má hvort frumvarp þrotamannsins að nauðasamningi verði borið undir atkvæði. Það skal ekki gert ef einhver þau atvik, sem eru talin í 1. mgr. 38. gr. og hefðu valdið synjun um heimild til að leita nauðasamnings án gjaldþrotaskipta, eru fyrir hendi að mati skiptastjóra. Ef skiptastjóri neitar að bera frumvarpið undir atkvæði og þrotamaðurinn fellir sig ekki við þá neitun skal skiptastjóri leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið eftir ákvæðum 171. gr.

151. gr.

    Nú ákveður skiptastjóri að bera megi frumvarp þrotamannsins að nauðasamningi undir atkvæði og boðar hann þá til sérstaks skiptafundar í því skyni með auglýsingu sem hann fær birta í Lögbirtingablaði með minnst tveggja vikna fyrirvara, þar sem tekið skal fram að frumvarp þrotamannsins og skrá skv. 2. mgr. munu liggja frammi til sýnis fyrir lánardrottna á starfsstöð skiptastjórans síðustu tvær vikurnar fyrir fundinn. Slíkur fundur skal þó ekki haldinn fyrr en að afstöðnum skiptafundi þar sem fjallað er um skrá um lýstar kröfur í þrotabúið.
    Skiptastjóri skal gera skrá um atkvæðisrétt um frumvarp þrotamannsins að nauðasamningi. Í skránni skulu aðeins greindar þær kröfur sem hafa hlotið viðurkenningu við gjaldþrotaskiptin og atkvæðisréttur fylgir að mati skiptastjóra, en tiltekið skal hver atkvæði fylgi hverri kröfu, bæði að höfðatölu og eftir kröfufjárhæð. Skiptastjóri þarf ekki að tilkynna lánardrottnum um hvort eða hvernig kröfur þeirra séu taldar í skránni nema að því leyti sem hann telur að viðurkenndri samningskröfu fylgi ekki atkvæði.

152. gr.

    Á skiptafundi sem haldinn er til atkvæðagreiðslu um frumvarp þrotamannsins að nauðasamningi skal skiptastjóri lýsa eftir athugasemdum um ákvörðun atkvæðisréttar í skrá sinni skv. 2. mgr. 151. gr., þar á meðal hvort einhver lánardrottinn telji sig eiga atkvæðisrétt sem ekki er getið í skránni. Þeim atriðum verður ekki mótmælt í skrá skiptastjórans sem byggja á því sem þegar er útkljáð við gjaldþrotaskiptin, sbr. 3. mgr. 120. gr. Nýjum kröfum verður heldur ekki komið fram nema að því leyti sem þeim verður um leið komið að við gjaldþrotaskiptin skv. 118. gr.
    Um atkvæðafjölda til samþykkis á frumvarpi að nauðasamningi og atkvæðagreiðsluna um það gilda ákvæði 49.–52. gr., að öðru leyti en því að ef úrslit atkvæðagreiðslu geta ráðist af ágreiningsatkvæði skal skiptastjóri fá leyst úr ágreiningnum eftir ákvæðum 2. mgr. 120. gr. Frestast þá að fá niðurstöðu atkvæðagreiðslu þar til úrlausn er fengin um ágreininginn.

153. gr.

    Ekki er skylt að tilkynna eða auglýsa það sérstaklega ef frumvarp þrotamannsins hefur ekki hlotið samþykki nægilegs fjölda atkvæðismanna eða kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings er hafnað.
    Hafi frumvarpið hlotið samþykki skal farið svo að um staðfestingu nauðasamnings sem segir í IX. kafla eftir því sem átt getur við. Þó er það skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings að kröfur skv. 109.–112. gr. séu áður greiddar, fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða hlutaðeigendur samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess. Ef krafa þrotamannsins um staðfestingu nauðasamnings er tekin til greina skal skiptastjóri auglýsa þau lok gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 162. gr.

XXII. KAFLI

Úthlutun og lok gjaldþrotaskipta.

154. gr.

    Gjaldþrotaskiptum skal þegar lokið ef nauðasamningur kemst á samkvæmt fyrirmælum XXI. kafla.
    Eins skal skiptum lokið ef þrotamaðurinn leggur fram eftir lok kröfulýsingarfrests yfirlýsingar allra þeirra sem hafa lýst kröfum um að þeir afturkalli þær eða þrotamaðurinn sannar að þær séu fallnar niður.
    Ef skiptum lýkur skv. 1. eða 2. mgr. skal skiptastjóri afhenda þrotamanninum þær eignir þrotabúsins sem hann hefur undir höndum, enda sé kostnaður af skiptunum áður greiddur. Skiptastjóri skal gera skriflegt yfirlit um þær greiðslur sem hann hefur tekið við og innt af hendi vegna þrotabúsins og láta það þrotamanninum í té ef hann leitar eftir því.
    Ef ágreiningur rís um heimild til að ljúka skiptum skv. 2. mgr. skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr.

155. gr.

    Ef fram kemur eftir lok kröfulýsingarfrests að þrotabúið eigi ekki eignir umfram það sem þarf til að efna kröfur skv. 109. gr. og 1. og 2. tölul. 110. gr. skal skiptum lokið, eftir atvikum með greiðslu þeirra krafna, á skiptafundi sem er haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur eða skiptafundi sem skiptastjóri boðar síðar til sérstaklega í því skyni. Skiptastjóri getur þó ákveðið að skiptum verði fram haldið þótt þannig standi á ef hann telur að þrotabúið geti unnið til frekari réttinda með málshöfðun eða öðrum aðgerðum og sá sem ber ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar eða annar lánardrottinn í hans stað lýsir sig reiðubúinn til að bera kostnað af frekari aðgerðum og leggur eftir atvikum fram tryggingu fyrir honum.
    Ef skiptastjóri ákveður að ljúka skiptum skv. 1. mgr. skal hann kynna það á skiptafundi og leggja þar fyrir yfirlit um þær greiðslur sem hann hefur tekið við og innt af hendi vegna þrotabúsins. Ef ágreiningur rís um ákvörðun skiptastjóra skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr.

156. gr.

    Ef skiptum er ekki lokið skv. 154. eða 155. gr. skal skiptastjóri, svo fljótt sem unnt er, efna þær kröfur á hendur þrotabúinu sem hafa þegar hlotið viðurkenningu og fást efndar að fullu eftir stöðu sinni í skuldaröð. Þetta skal þó ekki gert nema fé sé jafnframt tekið frá til fullrar greiðslu á skilyrtum eða umdeildum kröfum sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð, en greiðsla þeirra skal þá eftir atvikum innt af hendi um leið og skilyrði er komið fram eða ágreiningur er til lykta leiddur.
    Að loknum greiðslum skv. 1. mgr. má skiptastjóri greiða öllum þeim sem næstir koma í skuldaröð upp í væntanlega úthlutun til þeirra, en þess skal þá enn gætt að fé sé tekið frá fyrir skilyrtum eða umdeildum kröfum sem gætu notið sömu stöðu í skuldaröð.

157. gr.

    Skiptastjóri getur ákveðið að ljúka skiptum þótt kröfu hafi verið lýst sem er háð ókomnu skilyrði eða dómsmál er rekið um ef fyrirséð þykir að nokkur bið verði enn eftir málalokum. Fé skal tekið frá til að efna slíkar kröfur eftir þeirri stöðu sem þær kynnu að njóta í skuldaröð, en um varðveislu fjárins og endurupptöku skipta til úthlutunar á því fer eftir 163. gr.
    Ef þrotabúið telur til réttinda sem eru umdeild eða vænta má að teljandi bið verði eftir að megi koma í verð eða komi til greiðslu, getur skiptastjóri ákveðið að ljúka skiptum án tillits til þeirra. Hann skal þó fylgja réttindunum eftir og taka skiptin upp á ný skv. 164. gr. þegar þrotabúið getur ráðstafað þeim. Skiptastjóra er rétt að taka frá fé til að mæta útgjöldum af þessum sökum en um meðferð þess skal farið eftir sömu reglum að því leyti sem það nýtist ekki til fulls.

158. gr.

    Nú hefur eignum þrotabúsins verið komið í verð, kröfur þess innheimtar og ágreiningsmálum ráðið til lykta að öðru leyti en leiðir af 157. gr. og skal þá skiptastjóri gera frumvarp til úthlutunar úr búinu, en í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram eftir því sem tilefni er til:
     1.      yfirlit yfir eignir búsins þannig að ráða megi hvað hafi verið til í reiðufé, fengist fyrir einstaka muni, innheimst af kröfum, unnist í arð eða vexti o.s.frv.,
     2.      yfirlit yfir kostnað af skiptunum og önnur útgjöld sem búið hefur þurft að bera, en síðan hvað hefur verið greitt af kröfum eftir 1. mgr. 156. gr.,
     3.      yfirlit yfir eignir sem koma ekki enn til skipta og fé sem er tekið frá um sinn, sbr. 157. gr., 4. hversu mikið greiðist hverjum lánardrottni sem hefur ekki þegar fengið fulla greiðslu og hversu mikið hver þeirra kann áður að hafa fengið upp í kröfu sína skv. 2. mgr. 156. gr.
    Skiptastjóri má ákveða í frumvarpinu að við úthlutun verði ekki tekið tillit til krafna sem mjög lítið mundi fást greitt af, en kröfur sem þannig er farið með skulu þá taldar þar upp.

159. gr.

    Þegar frumvarp hefur verið gert til úthlutunar skal skiptastjóri boða til skiptafundar til að fjalla um það með auglýsingu sem hann fær birta í Lögbirtingablaði með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í auglýsingunni skal koma fram í hverju skyni fundurinn verði haldinn, að frumvarpið verði til sýnis fyrir lánardrottna og aðra sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta á starfsstofu skiptastjórans síðustu tvær vikurnar fyrir fundinn og að vænta megi að frumvarpið verði lagt óbreytt til grundvallar sem úthlutunargerð ef engin andmæli koma fram gegn því.
    Um rétt til að fá aðgang að frumvarpi til úthlutunar eða eintak af því skal beitt ákvæðum 3. mgr. 119. gr.

160. gr.

    Á skiptafundi sem er boðað til skv. 1. mgr. 159. gr. skal skiptastjóri leggja fram frumvarp til úthlutunar og veita þær upplýsingar sem fundarmenn æskja, en um rétt til fundarsóknar skal farið eftir ákvæðum 125. gr. Skiptastjóri skal verða eftir föngum við óskum fundarmanna um aðgang að gögnum um reikningshald búsins sem hann hefur undir höndum.
    Ef þeir sem hafa gert kröfur á hendur þrotabúinu hafa ekki uppi mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar á skiptafundinum skal það talið endanlega samþykkt af þeirra hendi, hvort sem þeir hafa sótt fundinn eða ekki. Skiptastjóri skal þá rita á frumvarpið að það hafi verið samþykkt sem úthlutunargerð úr búinu og gjaldþrotaskiptunum sé þar með lokið.
    Komi fram mótmæli gegn frumvarpinu á skiptafundinum og þau varða atriði sem hlutaðeigandi hefur ekki þegar glatað rétti til að mótmæla skv. 3. mgr. 120. gr. eða 2. mgr. 128. gr. skal skiptastjóri krefja þann sem hefur mótmælin uppi svara um hverjar breytingar hann telji eiga gera á frumvarpinu.
    Ef aðeins er krafist breytinga sem skiptastjóri telur efni til að fallast á getur hann breytt frumvarpinu samkvæmt því og lokið skiptum, ef eingöngu eru leiðréttar augljósar eða óverulegar skekkjur eða fundurinn er sóttur af hálfu allra sem breytingin varðar og þeir samþykkja hana. Verði það ekki gert skal skiptastjóri boða til nýs fundar eftir 1. mgr. 159. gr. um frumvarpið svo breytt.
    Verði mótmælum ekki sinnt með þeim hætti sem segir í 4. mgr. skal skiptastjóri kveðja þá sem mótmælin varða til fundar, séu þeir ekki staddir á skiptafundinum, og leitast við að jafna ágreininginn. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. Þegar ágreiningurinn hefur verið leiddur til lykta skal skiptastjóri gera nýtt frumvarp til úthlutunar og boða til fundar um það, nema forsendur fyrra frumvarpsins standi óhaggaðar og það telst þannig endanlega samþykkt.

161. gr.

    Þegar gjaldþrotaskiptum er lokið skv. 160. gr. skal skiptastjóri tafarlaust senda þeim greiðslur sem eiga rétt til þeirra eftir úthlutunargerð.
    Verði greiðslu ekki komið til skila skv. 1. mgr., svo sem vegna þess að lánardrottinn hefur ekki veitt skiptastjóra upplýsingar um hvar til hans verði náð, skal skiptastjóri varðveita greiðsluna handa hlutaðeiganda á sérstökum reikningi við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur er. Gefi sá sem á rétt til greiðslunnar sig ekki fram við skiptastjóra innan árs frá því auglýsing birtist um skiptalok skv. 2. mgr. 162. gr. skal skiptastjóri greiða féð í ríkissjóð.
    Ef lánardrottinn afsalar sér rétti til greiðslu eða skilar henni eftir að gjaldþrotaskiptum er lokið skal skiptastjóri ráðstafa henni eftir 164. gr.

162. gr.

    Þegar gjaldþrotaskiptum er lokið skal skiptastjóri tilkynna það héraðsdómara skriflega. Þeirri tilkynningu skal fylgja endurrit fundargerðar af skiptafundi þar sem skiptum var lokið nema það hafi verið gert utan funda, sbr. 154. gr. Eftir því sem við á skal enn fremur fylgja yfirlit skiptastjóra skv. 3. mgr. 154. gr. eða 2. mgr. 155. gr. eða úthlutunargerð úr búinu.
    Skiptastjóri skal tafarlaust eftir skiptalok fá birta auglýsingu um þau í Lögbirtingablaði. Í auglýsingunni skal getið nafns og kennitölu þrotamannsins, hvenær búið var tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum lauk, hvað greiddist upp í kröfur í einstökum flokkum og hverrar fjárhæðar þær kröfur hafi verið sem fengust að engu greiddar. Hafi gjaldþrotaskiptum lokið með nauðasamningi skal getið hvers efnis hann sé í meginatriðum.

163. gr.

    Hafi skiptastjóri lokið skiptum en tekið frá fé til að mæta skilyrtri eða umdeildri kröfu skal féð lagt á sérgreindan reikning við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur er. Skiptastjóri varðveitir skilríki fyrir slíkum reikningi.
    Þegar komið er í ljós um skilyrði fyrir kröfu eða ágreiningur um hana er leiddur endanlega til lykta skal skiptastjóri taka skiptin upp á ný og greiða kröfuna hafi málalok orðið á þann veg. Ef féð sem var tekið frá nýtist með öllu til þeirra þarfa skal skiptastjóri tilkynna og auglýsa skiptalokin skv. 162. gr., en standi eitthvað eftir af því skal því ráðstafað eftir 164. gr.

164. gr.

    Hafi skiptum verið lokið án tillits til eignar sem búið gat þá ekki ráðið yfir skal skiptastjóri tafarlaust og ótilkvaddur taka skiptin upp á ný ef eignin stendur búinu til ráðstöfunar. Þegar henni hefur eftir atvikum verið komið í verð skal skiptastjóri gera frumvarp til viðbótarúthlutunar og fara annars svo að sem segir í 158.–162. gr. Skiptastjóri má þó fresta viðbótarúthlutun ef fyrirsjáanlegt er að frekari eignir komi til ráðstöfunar og hentugra þykir að úthluta andvirði þeirra allra í senn. Ef sú fjárhæð, sem kæmi til viðbótarúthlutunar, er óveruleg og ekki er að vænta frekari eigna til ráðstöfunar má skiptastjóri ljúka skiptum á ný með greiðslu hennar í ríkissjóð, en þau málalok skulu tilkynnt og auglýst eftir 162. gr.
    Komi fram eign eftir lok gjaldþrotaskipta sem hefði átt að falla til þrotabúsins skal farið eftir fyrirmælum 1. mgr.
    Eftir því sem nauðsyn krefur skal halda skiptafundi eða grípa til annarra aðgerða eftir fyrri köflum þessa þáttar við endurupptöku skv. 1. og 2. mgr.

165. gr.

    Gjaldþrotaskipti verða ekki endurupptekin að öðru leyti en heimilað er í 163. og 164. gr.
    Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst.

5. ÞÁTTUR


Meðferð ágreiningsmála fyrir dómstólum.


XXIII. KAFLI

Hver ágreiningsefni verða lögð fyrir héraðsdóm og hvernig það verður gert.

166. gr.

    Ef ágreiningur rís á dómþingi um beiðni skuldara um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar, sbr. 16. gr., skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Skuldarinn skal vera sóknaraðili málsins en sá sem hefur uppi mótmæli gegn beiðni hans verður varnaraðili. Ef mótmæli koma fram gegn beiðni skuldarans af hendi fleiri en eins skal leyst úr ágreiningi um hana í einu máli þótt mótmælin séu ekki byggð á sama grunni, en þeir sem hafa þau uppi skulu þá báðir eða allir taldir varnaraðilar málsins.
         Ef ágreiningur rís á dómþingi um kröfu lánardrottins um að heimild skuldara til greiðslustöðvunar verði felld niður, sbr. 4. mgr. 26. gr., skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Sá sem hefur uppi kröfu um að heimild til greiðslustöðvunar verði felld niður verður sóknaraðili máls en skuldarinn verður varnaraðili.
    Í máli sem rís skv. 1. eða 2. mgr. skal héraðsdómari gefa aðilum þess kost á að leggja fram gögn sem þeir hafa þegar undir höndum við þingfestingu og tjá sig stuttlega um málið áður en það verður tekið til úrskurðar. Ef annar aðilinn eða þeir báðir eða allir óska eftir því skal héraðsdómari þó fresta málinu til aðalflutnings þar sem aðilum gefst báðum eða öllum í senn kostur á að leggja fram skriflegar greinargerðir og sönnunargögn, en slíkur frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en þrír sólarhringar. Að öðru leyti fer um málið eftir almennum reglum XXIV. kafla.

167. gr.

    Ef ágreiningur rís á dómþingi um kröfu um að heimild skuldara til að leita nauðasamnings verði felld niður, sbr. 4. mgr. 42. gr., skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Sá sem krefst að heimildin verði felld niður skal vera sóknaraðili málsins en skuldarinn verður varnaraðili.
    Ef ágreiningur rís á dómþingi um kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 3. mgr. 56. gr., skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Skuldarinn skal vera sóknaraðili málsins en sá sem mótmælir kröfu hans verður varnaraðili. Ef mótmæli koma fram gegn kröfu skuldarans af hendi fleiri en eins skal leyst úr ágreiningi um hana í einu máli þótt mótmælin séu ekki byggð á sama grunni, en þeir sem hafa þau uppi skulu þá báðir eða allir taldir varnaraðilar málsins.
    Um meðferð máls sem rís skv. 1. eða 2. mgr. fer að öðru leyti eftir 3. mgr. 166. gr., en þó má veita fresti í máli skv. 2. mgr. í allt að tvær vikur.

168. gr.

    Ef mótmæli koma fram á dómþingi af hálfu skuldara við kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 4. mgr. 70. gr. skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Hlutaðeigandi lánardrottinn skal vera sóknaraðili máls en skuldarinn verður varnaraðili.
    Um meðferð máls sem rís skv. 1. mgr. fer að öðru leyti eftir 3. mgr. 166. gr., en þó má veita fresti í slíku máli í allt að tvær vikur.

169. gr.

    Sá sem krefst úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra verði vikið úr starfi skv. 3. mgr. 76. gr. skal beina skriflegri kröfu sinni um það til héraðsdóms þar sem skiptastjórinn var skipaður til starfans. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      nafn þess sem hefur kröfuna uppi, kennitala hans og heimilisfang, ásamt skýringu á því hvernig hann telji sig eiga aðild að slíkri kröfu,
     2.      hver sá skiptastjóri sé sem krafist er að verði vikið úr starfi og til hverra starfa hann hafi verið skipaður,
     3.      röksemdir fyrir kröfunni ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.
    Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem hún er studd við.
    Héraðsdómari fer með kröfu skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XXIV. kafla. Sá sem krefst frávikningar skiptastjórans skal vera sóknaraðili máls en skiptastjórinn varnaraðili.

170. gr.

    Ef ágreiningur rís á dómþingi um kröfu skiptastjóra skv. 3. mgr. 82. gr. eða 1. mgr. 83. gr. skal héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verður úr ágreiningnum. Hlutaðeigandi þrotabú skal vera sóknaraðili máls en sá sem krafan beinist að verður varnaraðili.
    Um meðferð máls sem rís skv. 1. fer að öðru leyti eftir 3. mgr. 166. gr., en því verður þó ekki frestað til málflutnings nema eftir sameiginlegri ósk aðilanna.

171. gr.

    Ef ágreiningur rís um atriði við gjaldþrotaskipti sem mælt er fyrir í lögum þessum að skiptastjóri skuli beina til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem koma upp við gjaldþrotaskipti, skal hann beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      hver þau gjaldþrotaskipti séu þar sem ágreiningur hefur risið,
     2.      nöfn þeirra, sem eiga aðild að ágreiningnum, kennitölur þeirra og heimilisföng,
     3.      um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi,
     4.      hvort skiptastjóri telji hlutaðeigandi þrotabú þurfa að eiga aðild að máli um ágreininginn.
    Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem varða ágreiningsefnið.
    Héraðsdómari fer með ágreiningsmál skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XXIV. kafla. Ef ágreiningsefni málsins varðar hvort krafa á hendur þrotabúi verði viðurkennd skal sá sem hefur kröfuna uppi að öðru jöfnu verða sóknaraðili málsins en búið eða sá sem andmælir kröfunni varnaraðili. Ef ágreiningsefni málsins er annað skal héraðsdómari ákveða eftir eðli þess hvernig aðild verði háttað.

172. gr.

    Nú telur þrotabú til réttinda á hendur öðrum, sem mætti sækja í einkamáli í héraði eftir almennum reglum, og getur þá skiptastjóri leitað úrlausnar héraðsdómara um réttindin eftir ákvæðum XXIV. kafla ef sá eða þeir sem kröfur beinast að lýsa sig samþykka því. Skal skiptastjóri þá senda þeim héraðsdómstól, þar sem hann var skipaður til starfa, stefnu og önnur sóknargögn sem eru gerð úr garði eftir reglum laga um meðferð einkamála í héraði, að öðru leyti en því að í stefnu skal ekki geta þess dómþings þar sem málið verður þingfest. Með gögnum þessum skal fylgja skrifleg beiðni um þessa málsmeðferð þar sem rökstutt er eftir þörfum að skilyrðum sé fullnægt fyrir henni.
    Þegar héraðsdómara berst beiðni ásamt sóknargögnum skv. 1. mgr. skal hann kanna hvort skilyrðum sé fullnægt til að verða við henni. Telji hann það ekki getur hann neitað að fara með málið með skriflegri ákvörðun, en vilji skiptastjóri ekki una henni getur hann krafist úrskurðar héraðsdómara um neitunina. Ella fer héraðsdómari með málið eftir ákvæðum XXIV. kafla, en ekki er hann bundinn af þeirri afstöðu ef síðar er krafist frávísunar málsins.

173. gr.

    Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla verður ekki leyst úr um skyldur þriðja manns í málum sem fara eftir ákvæðum XXIV. kafla, nema um sé að ræða:
     1.      skyldu til greiðslu málskostnaðar eða réttarfarssektar vegna máls sem er rekið eftir XXIV. kafla,
     2.      skyldu til greiðslu gagnkröfu hvort sem er til skuldajafnaðar eða sjálfstæðrar dómsúrlausnar, ef hlutaðeigandi hefur sjálfur lýst kröfu um réttindi sín við gjaldþrotaskipti, ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir ákvæðum XXIV. kafla, skilyrði væru til að höfða gagnsök um gagnkröfuna eða hafa hana uppi til skuldajafnaðar í einkamáli um kröfu hans og hann hefur sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dómi,
     3.      skyldu til greiðslu kostnaðar varðandi muni sem hlutaðeigandi hefur krafist að fá afhenta við gjaldþrotaskipti ef ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir XXIV. kafla, en aðeins verður þá kveðið á um slíka skyldu sem skilyrði fyrir afhendingu.

XXIV. KAFLI

Málsmeðferð fyrir héraðsdómi.

174. gr.

    Þegar ágreiningsmál hefur borist héraðsdómara til úrlausnar með þeim hætti sem segir í 169., 171. eða 172. gr. og hann hefur eftir atvikum staðreynt að skilyrði séu til að fara með það eftir ákvæðum þessa kafla ákveður hann stað og stund til þinghalds, þar sem málið verður þingfest, og sendir öllum aðilum málsins tilkynningu um það, þar sem eftirfarandi skal koma fram:
     1.      hver hafi krafist úrlausnar hans,
     2.      hverjir séu aðilar að málinu til sóknar og varnar ásamt kennitölum þeirra og heimilisföngum,
     3.      hvert ágreiningsefnið sé sem krafist er úrlausnar um og hverjar kröfur sóknaraðili málsins hafi gert, að því leyti sem þegar er kunnugt um þær,
     4.      hvar og hvenær málið verði þingfest,
     5.      hverjar afleiðingar það hafi ef aðilar til sóknar og varnar sækja ekki þing.
    Með tilkynningunni skal fylgja samrit þess skjals sem var beint til héraðsdómara samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla í því skyni að leita úrlausnar hans. Sé um mál að ræða skv. 172. gr. skal samrit stefnu einnig fylgja tilkynningunni. Héraðsdómara er þó heimilt þess í stað að taka upp í tilkynningu sína texta þess eða þeirra skjala sem hefðu ella fylgt henni.

175. gr.

    Tilkynning skv. 174. gr. skal birt málsaðila eða þeim sem væri hæfur til að taka við birtingu stefnu fyrir hans hönd með þeim fyrirvara sem héraðsdómari hefur metið hæfilegan.
    Birting skv. 1. mgr. skal fara fram með sama hætti og stefna verður birt í einkamáli.

176. gr.

    Mál samkvæmt þessum kafla telst höfðað við þingfestingu þess, en þá leggur héraðsdómari fram þau gögn um málið sem honum hafa borist og hann telur hafa þýðingu fyrir úrlausn þess, ásamt tilkynningum skv. 174. gr. með gögnum um birtingu þeirra.
    Ef sóknaraðili mætir ekki við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal málið fellt niður, en héraðsdómari má þá úrskurða varnaraðila ómaksþóknun ef hann sækir þing og krefst hennar. Hafi gagnkröfur verið hafðar uppi í málinu skv. 4. mgr. 177. gr. skal þó aðeins fella niður aðalsök en leyst skal þá úr gagnkröfunum á hendur sóknaraðila eftir reglu 3. mgr.
    Ef varnaraðili sækir ekki þing við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal farið með málið eftir almennum reglum um útivist stefnda í einkamáli, en sóknaraðila skal þá gefinn kostur á að leggja fram greinargerð og frekari gögn samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 177. gr.

177. gr.

    Ef sótt er þing af hálfu beggja eða allra aðila við þingfestingu og ekki verður sátt í málinu skal héraðsdómari gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð þar sem jafnframt komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Heimilt er þó að veita sóknaraðila skamman frest í þessu skyni ef ekki er um mál að ræða sem 172. gr. tekur til, þar sem stefna og sóknargögn hafa þegar komið fram.
    Að framkomnum gögnum sóknaraðila skv. 1. mgr. skal varnaraðila gefinn kostur á skömmum fresti til að leggja fram greinargerð af sinni hendi, þar sem fram komi kröfur hans um formhlið og efnishlið máls, ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við.
    Komi fram krafa af hendi varnaraðila um frávísun málsins skal farið með hana eftir almennum reglum um meðferð einkamála í héraði.
    Ef sótt er þing af hálfu sóknaraðila getur varnaraðili haft uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi um úrlausn sakarefnisins í greinargerð og skal þá farið með þær sem gagnkröfur í málinu. Gagnkröfu verður þó því aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla, sbr. þó 2. tölul. 173. gr. Sóknaraðila skal gefinn kostur á að skila stuttu skriflegu svari við gagnkröfum, en málið skal rekið í einu lagi um kröfur á báða vegu.

178. gr.

    Héraðsdómari leysir úr málum samkvæmt lögum þessum með úrskurðum. Forsendur skulu fylgja ályktunarorði úrskurðar.
    Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt þessum kafla.

XXV. KAFLI

Málskot til æðra dóms.

179. gr.

    Að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum sæta úrskurðir og ákvarðanir héraðsdómara samkvæmt þeim kæru til Hæstaréttar. Þó verða ekki kærðir úrskurðir sem eru kveðnir upp eða ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða heldur ekki kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli.
    Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum.
    Að því leyti sem ekki er kveðið á annan veg í lögum þessum hefur kæra sömu áhrif á meðferð máls í héraði og ef um almennt einkamál væri að ræða.

6. ÞÁTTUR


Ýmis ákvæði.


XXVI. KAFLI

Gildistaka, brottfallin lög o.fl.

180. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

181. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi lög og ákvæði laga:
     1.      Gjaldþrotalög, nr. 6 5. maí 1978.
     2.      Lög um nauðasamninga, nr. 19 4. júní 1924.
     3.      82.–87. gr. laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum, o.fl., nr. 3 12. apríl 1878.
     4.      8. mgr. 4. gr. laga um veð, nr. 18 4. nóvember 1887.
     5.      5. mgr. 21. gr. laga um verzlanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42 13. nóvember 1903.
     6.      3. mgr. 106. gr. vatnalaga, nr. 15 20. júní 1923.
     7.      60. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20 20. júní 1923.
     8.      Í 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um tékka, nr. 94 19. júní 1933, orðin „fyrir skiptarétti“.
     9.      2. málsl. 3. mgr. 53. gr. og 3. málsl. 3. mgr. 54. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936.
     10.      2. tölul. 1. mgr. 21. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973.
     11.      8. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55 9. júní 1980.

182. gr.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirtalin ákvæði laga sem hér segir:
     1.      Í 2. tölul. 2. mgr. 43. gr. víxillaga, nr. 9319. júní 1933, falla niður orðin „skiptaréttur hefir tekið til greina beiðni hans um aðstoð við tilraun til nauðasamnings“, en í stað þeirra kemur: honum hefur verið veitt heimild til að leita nauðasamnings.
                  Í 3. tölul. 2. mgr. 43. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaréttur hefir tekið til greina beiðni hans um aðstoð við tilraun til nauðasamninga“, en í stað þeirra kemur: honum hefur verið veitt heimild til að leita nauðasamnings.
                  Í 1. málsl. 6. mgr. 44. gr. sömu laga falla niður orðin „taki skiptaréttur til greina beiðni hans um aðstoð við tilraun til nauðasamnings“, en í stað þeirra kemur: honum veitt heimild til að leita nauðasamnings. Síðar í sama ákvæði fellur niður orðið „nauðasamningstilraunirnar“, en í stað þess kemur: heimildina til að leita nauðasamnings.
                  Í 2. málsl. 6. mgr. 44. gr. sömu laga falla niður orðin „aðstoð til tilrauna um nauðasamning verður tekin til greina af skiptarétti“, en í stað þeirra kemur: heimild til að leita nauðasamnings verður tekin til greina.
                  Í 1. málsl. 1. mgr. 71. gr. sömu laga falla niður orðin „fyrir skiptarétti“.
     2.      Í 3. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 12. febrúar 1940, falla niður orðin „eftir að tilraunir til nauðasamninga án gjaldþrotameðferðar á búi hans eru byrjaðar“, en í stað þeirra kemur: meðan hann hefur heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings án undanfarandi gjaldþrotaskipta.
     3.      Í 1. málsl. 28. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20 8. mars 1954, falla niður orðin „boði hann til nauðasamninga“, en í stað þeirra kemur: fái hann heimild til að leita nauðasamnings.
     4.      Í 9. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 43 16. maí 1977, falla niður orðin „Verði prentsmiðja eða fjölföldunarfyrirtæki gjaldþrota eða hætti störfum“, en í stað þeirra kemur: Hætti prentsmiðja eða fjölföldunarfyrirtæki störfum. Í sama ákvæði falla síðan niður orðin „þrotabúinu eða“.
     5.      Í 15. gr. laga um hlutafélög, nr. 32 12. maí 1978, falla niður orðin „tilkynna það skiptarétti, sem ákveður að félagi skuli slitið og búi þess skipt eða tekið til gjaldþrotaskipta, ef það telst vera gjaldþrota“, en í stað þeirra kemur: krefjast fyrir héraðsdómi að félagi verði slitið.
                  Í 1. mgr. 113. gr. sömu laga falla niður orðin „samkvæmt ákvæðum 14. gr. gjaldþrotalaga“, en í stað þeirra kemur: eftir því sem mælt er fyrir í ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.
                  Í 2. mgr. 113. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“.
                  Í 1. mgr. 115. gr. sömu laga falla niður orðin „Skiptaráðandi skal taka bú hlutafélags“, en í stað þeirra kemur: Bú hlutafélags skal tekið.
                  Í 2. mgr. 115. gr. sömu laga falla niður orðin „Skiptaráðandi skal taka bú hlutafélags“, en í stað þeirra kemur: Bú hlutafélags skal tekið.
                  Í 3. mgr. 115. gr. sömu laga falla niður orðin „Skiptaráðandi skal taka bú hlutafélags“, en í stað þeirra kemur: Bú hlutafélags skal tekið.
                  1. mgr. 116. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 1. eða 2. mgr. 115. gr. skal hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.
                  2. mgr. 116. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Héraðsdómari skal kveða upp úrskurð um hvort orðið verði við kröfu um að bú hlutafélags verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum þess látna, að öðru leyti en því að hluthafar njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.
                  3. og 4. mgr. 116. gr. sömu laga falla niður.
                  Í 4. mgr. 119. gr. sömu laga falla niður orðin „VI. og VII. kafla gjaldþrotalaga“, en í stað þeirra kemur: XV. og XVI. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
                  Í 3. mgr. 120. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 2. málsl. 5. mgr. 120. gr. sömu laga falla niður orðin „Skiptaráðandi skal auglýsa“, en í stað þeirra kemur: Skal þá auglýst.
                  Í 3. málsl. 5. mgr. 120. gr. sömu laga fellur niður orðið „gjaldþrotalaga“, en í stað þess kemur: laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
                  2. mgr. 122. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Rísi ágreiningur við meðferð skilanefndar sem farið yrði með við gjaldþrotaskipti eftir sérreglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal skilanefnd tafarlaust beina ágreiningsefninu til héraðsdómara sem kveður upp úrskurð um ágreininginn. Um málskot slíkra úrskurða gilda almennar reglur.
                  Í 2. mgr. 125. gr. sömu laga falla niður orðin „beina því til skiptaráðanda á varnarþingi því sem félagið hafði að hann annist um framhaldsskiptin í stað skilanefndar“, en í stað þeirra kemur: löggilda án tilnefningar einn eða fleiri menn í sérstaka skilanefnd til að annast framhaldsskiptin.
                  Í 141. gr. sömu laga falla niður orðin „svo og skiptarétti, þar sem útibúið á varnarþing, sem tekur bú útibúsins til meðferðar og annast þær skiptagerðir, sem hér fara fram“, en í stað þeirra kemur: og krefjast fyrir héraðsdómi á varnarþingi útibúsins að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipta, nema gjaldþrotaskiptin á búi erlenda félagsins nái einnig til útibúsins.
                  2. málsl. 1. mgr. 143. gr. sömu laga fellur niður.
     6.      Í lokamálslið 5. mgr. 7. gr. laga um lífeyrissjóð bænda, nr. 501. júní 1984, falla niður orðin „sama forgangsréttar og launakröfur, enda hafi fénu ekki verið haldið aðskildu frá öðrum fjármunum þrotabúsins“, en í stað þeirra kemur: sömu stöðu í skuldaröð og kröfur á hendur vinnuveitanda um iðgjöld til lífeyrissjóðs.
     7.      Í 1. mgr. 46. gr. laga um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985, falla niður orðin: „að hætti III. kafla gjaldþrotalaga“, en í stað þeirra kemur: eftir almennum reglum.
                  Í 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 2. málsl. 1. mgr. 47. gr. sömu laga falla niður orðin „Eru ákvæði 2. tölul. 13. gr. gjaldþrotalaga“, en í stað þeirra kemur: Bann í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. við því að bú opinberrar stofnunar verði tekið til gjaldþrotaskipta er.
                  Í 2. mgr. 47. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 3. mgr. 47. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“, en í stað þess kemur: héraðsdómari.
                  4. mgr. 47. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Í innköllun í bú viðskiptabanka skal tekið fram hvort það hafi verið tekið til skipta að hætti 1. eða 2. mgr.
                  Í 1. mgr. 48. gr. sömu laga falla niður orðin „ákvæði IV.–XIX. kafla gjaldþrotalaga eftir því sem við á að því undanteknu að ákvæði VIII. kafla þeirra“, en í stað þeirra kemur: almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana.
                  Í 2. mgr. 48. gr. sömu laga falla niður orðin „ákvæði gjaldþrotalaga, sem vísað er til í 1. mgr.“, en í stað þeirra kemur: ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í sama ákvæði fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
     8.      Í 1. mgr. 62. gr. laga um sparisjóði, nr. 87 4. júlí 1985, falla niður orðin „að hætti III. kafla gjaldþrotalaga“, en í stað þeirra kemur: eftir almennum reglum.
                  Í 1. mgr. 63. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 2. mgr. 63. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.                   Í 3. mgr. 63. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“, en í stað þess kemur: héraðsdómari.
                  4. mgr. 63. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Í innköllun í bú sparisjóðs skal tekið fram hvort það hafi verið tekið til skipta að hætti 1. eða 2. mgr.
                  Í 1. mgr. 64. gr. sömu laga falla niður orðin „ákvæði IV.–XIX. kafla gjaldþrotalaga eftir því sem við á að því undanteknu að ákvæði VIII. kafla þeirra“, en í stað þeirra kemur: almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana.
                  Í 2. mgr. 64. gr. sömu laga falla niður orðin „ákvæði gjaldþrotalaga, sem vísað er til í 1. mgr.“, en í stað þeirra kemur: „ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Í sama ákvæði fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: héraðsdómara.
     9.      Í 2. málsl. 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8 18. apríl 1986, falla niður orðin „snúið sér til skiptaráðanda og óskað eftir greiðslustöðvun sveitarsjóðs í allt að þrjá mánuði í samræmi við II. kafla gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, eftir því sem við á“, en í stað þeirra kemur: óskað eftir að sveitarfélaginu verði veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eftir almennum reglum.
     10.      Í 1. málsl. 3. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 55 30. mars 1987, falla niður orðin „til meðferðar vegna nauðasamninga“.
                  Í 2. málsl. 3. mgr. 104. gr. sömu laga fellur niður orðið „greiðslustöðvun“, en í stað þess kemur: heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
     11.      Í 1. gr. laga um ríkisábyrgð á launum, nr. 88 19. júlí 1990, falla niður orðin „með dánarbú hans er farið sem skuldafrágöngubú“, en í stað þeirra kemur: dánarbú hans er til opinberra skipta og erfingjar hans ábyrgjast ekki skuldbindingar þess.
                  Í 1. mgr. 4. gr. sömu laga falla niður orðin „skv. 84. gr. laga nr. 3/1878 (sbr. 1. gr. laga nr. 23/1979)“.
                  Í 1. málsl. 4. mgr. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „þrotabúi“, en í stað þess kemur: búi.
                  Í 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „gjaldþrotaskipti“, en í stað þess kemur: skipti.
                  Í 1. mgr. 8. gr. sömu laga falla niður orðin „Sá sem fer með skipti á þrotabúi“, en í stað þeirra kemur: Skiptastjóri í þrotabúi eða dánarbúi.
                  Í 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“, en í stað þess kemur: skiptastjóri.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: skiptastjóra.
                  1. mgr. 9. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Nú hefur skiptum á dánarbúi vinnuveitandans verið lokið vegna eignaleysis án þess að það hafi verið tekið til opinberra skipta, og verður greiðslukrafa á hendur ríkissjóði þá að berast félagsmálaráðherra innan 6 mánaða frá þeim málalokum.
                  Í 3. mgr. 9. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðanda, er með bú vinnuveitandans fór“, en í stað þeirra kemur: sýslumanns, sem skiptin áttu undir.
                  Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: skiptastjóra. Sama breyting verður á 3. málsl. sama ákvæðis.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. sömu laga falla niður orðin „skilyrðum 172. gr. laga nr. 85 frá 1936“, en í stað þeirra kemur: almennum skilyrðum.
                  Í 1. mgr. 13. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: skiptastjóra.
                  Í 2. mgr. 13. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“, en í stað þess kemur: skiptastjóra.

XXVII. KAFLI

Ákvæði til bráðabirgða.

183. gr.

    Beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og kröfur um gjaldþrotaskipti sem hafa borist skiptaráðendum, en úrskurðir ekki gengið um fyrir gildistöku laga þessara skulu upp frá því sæta áframhaldandi meðferð fyrir þeim héraðsdómstólum sem þeim yrði beint til eftir fyrirmælum 8. gr. Skal leyst úr slíkum beiðnum og kröfum eftir ákvæðum þessara laga, sbr. þó 1. mgr. 186. gr.

184. gr.

    Hafi heimild verið veitt til greiðslustöðvunar fyrir gildistöku laga þessara og greiðslustöðvunartíminn er þá ekki á enda stendur heimildin óhögguð, en um þýðingu hennar og aðgerðir í tengslum við hana fer upp frá því eftir fyrirmælum laga þessara.
    Ákvæðum 24.–26. gr. verður beitt þótt heimild til greiðslustöðvunar hafi verið veitt fyrir gildistöku laga þessara.
    Ef skuldari hefur heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku laga þessara og æskir áframhaldandi heimildar til hennar eftir þann tíma skal hann beina beiðni um hana til þess héraðsdómstóls sem hún ætti undir skv. 8. gr. Um aðdraganda að því að slík beiðni verði sett fram, efni og meðferð hennar og skilyrði fyrir að verða við henni fer þá eftir fyrirmælum laga þessara, að öðru leyti en því að héraðsdómari ákveður þinghald til að taka beiðnina fyrir fyrsta sinni þegar hún berst honum og aðstoðarmaður skuldarans má áfram gegna starfi sínu þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 3. mgr. 10. gr.
    Úrskurði sem hefur verið kveðinn upp um heimild til greiðslustöðvunar fyrir gildistöku laga þessara verður ekki skotið til æðra dóms eftir þann tíma nema það væri heimilt eftir þessum lögum. Hafi kæra átt sér stað fyrir gildistöku laga þessara fer um meðferð málsins og úrlausn þess eftir eldri lögum.

185. gr.

    Ef úrskurður hefur gengið um tilraun til nauðasamnings fyrir skuldara án undanfarandi gjaldþrotaskipta og málefninu hefur ekki verið lokið við gildistöku laga þessara fer um atkvæðisrétt, skilyrði og áhrif samningsins eftir fyrirmælum eldri laga. Standi slík tilraun yfir og fyrirsjáanlegt er að úrskurður gangi ekki um hvort nauðasamningur verði staðfestur fyrir gildistöku laga þessara skal skiptaráðandi ekki síðar en 30. júní 1992 krefja skuldarann um tryggingu skv. 4. tölul. 1. mgr. 35. gr. Verði hún ekki sett fellur nauðasamningstilraunin sjálfkrafa niður við gildistöku laga þessara, en ella skal skiptaráðandi skipa mann til að gegna starfi umsjónarmanns við áframhaldandi nauðasamningsumleitanir, sbr. 2. mgr. 39. gr. Tekur þá skipun umsjónarmannsins gildi um leið og lög þessi, en upp frá því fer um frekari meðferð málsefnisins, réttarstöðu umsjónarmannsins og skuldarans, önnur réttaráhrif samningsumleitana og niðurfellingu heimildar til þeirra eftir því sem segir í lögum þessum.
    Um innköllun sem hefur verið gefin út fyrir gildistöku laga þessara vegna tilraunar til nauðasamnings og meðferð lýstra krafna fer eftir ákvæðum 188. gr.
    Að því leyti sem þarf að leita atbeina héraðsdómara vegna nauðasamningsumleitana sem hófust fyrir gildistöku laga þessara skal málefninu beint til þess dómstóls sem það heyrir undir eftir 8. gr.
    Úrskurði sem hefur verið kveðinn upp fyrir gildistöku laga þessara um heimild til nauðasamningstilraunar, niðurfellingu hennar eða staðfestingu nauðasamnings verður ekki skotið til æðra dóms eftir þann tíma nema það væri heimilt eftir þessum lögum. Hafi kæra átt sér stað fyrir gildistöku laga þessara fer um meðferð og úrlausn málsins eftir eldri lögum.
    Höfða má mál til ógildingar á nauðasamningi skv. 62. gr. þótt hann hafi verið gerður fyrir gildistöku laga þessara.

186. gr.

    Krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti verður ekki tekin til greina á grundvelli 2. eða 3. tölul. 2. mgr. 65. gr. nema heimild skuldara til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hafi lokið eða fallið niður eftir gildistöku laga þessara.
    Ef úrskurður hefur ekki gengið við gildistöku laga þessara um kröfu um gjaldþrotaskipti sem kom fram fyrir þann tíma skal héraðsdómari krefja þann sem hefur kröfuna uppi um tryggingu fyrir skiptakostnaði skv. 2. mgr. 67. gr. áður en hún verður tekin fyrir á dómþingi. Verði trygging ekki sett skal farið eftir því sem segir í nefndu ákvæði.

187. gr.

    Nú hefur bú verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrir gildistöku laga þessara en skiptum á því er ekki lokið þá, ráðinn var bústjóri til bráðabirgða eða skiptastjóri kjörinn að hætti eldri laga, og skal þá bústjórinn eða skiptastjórinn sjálfkrafa teljast skipaður til starfa skiptastjóra eftir lögum þessum. Á það einnig við þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 5. eða 6. tölul. 2. mgr. 75. gr.
    Nú er þrotabú til skipta 1. júní 1992, sem skiptaráðandi fer sjálfur með, ekki þykir víst að skiptunum verði lokið áður en lög þessi taka gildi en þrotabúið á eignir sem nægja fyrir kostnaði af skiptum samkvæmt ákvæðum þessara laga. Ef þá þegar hefur verið boðað til skiptafundar sem verður haldinn fyrir 1. júlí 1992 skal skiptastjóri kjörinn á þeim fundi, en ella skal skiptaráðandi ráða bústjóra til bráðabirgða fyrir þann tíma hvort sem kröfulýsingarfresti er lokið eða ekki. Ákvæði 1. mgr. taka þá til skiptastjóra sem þannig er kjörinn og bústjóra sem þannig er ráðinn.
    Nú er þrotabú til skipta þann 1. júní 1992, sem skiptaráðandi fer sjálfur með, ekki þykir víst að skiptunum verði lokið áður en lög þessi taka gildi og ekki sýnt að þrotabúið eigi eignir sem nægja fyrir kostnaði af skiptum samkvæmt ákvæðum þessara laga. Hafi trygging ekki verið sett fyrir skiptakostnaði að hætti eldri laga sem verður talin nægja eftir fyrirmælum þessara laga skal skiptaráðandi, hvort sem kröfulýsingarfresti er lokið eða ekki, krefja þann sem krafðist gjaldþrotaskiptanna um tryggingu fyrir kostnaði af áframhaldandi skiptum, en fáist hann ekki til að setja tryggingu innan skamms frests skal skiptaráðandi halda skiptafund til að gefa öðrum lánardrottnum kost á því. Fáist engin trygging sett skal skiptum lokið eftir 120. gr. eldri laga ekki síðar en 30. júní 1992, hvort sem kröfulýsingarfresti er þá lokið eða ekki, en fé búsins sem skiptaráðandi kann að hafa í vörslum sínum skal þá greitt í ríkissjóð. Ef trygging er sett skal farið svo að sem segir í 2. mgr.
    Ef þrotabú kemur til gjaldþrotaskipta eftir 1. júní 1992 en fyrir gildistöku laga þessara skal ákvæðum 2. og 3. mgr. beitt.
    Ákvæði laga þessara um störf og stöðu skiptastjóra gilda um þá sem teljast skipaðir til starfa eftir þessari grein að öðru leyti en því að skylda til að gera yfirlit eftir 2. mgr. 78. gr. kemur ekki til framkvæmdar fyrr en í árslok 1992. Ef kröfuhafanefnd hefur verið kjörin að hætti eldri laga lýkur störfum hennar við gildistöku laga þessara.

188. gr.

    Hafi kröfulýsingarfresti í þrotabú verið lokið fyrir gildistöku laga þessara en afstaða ekki verið tekin til viðurkenningar lýstra krafna skal farið eftir ákvæðum þessara laga í þeim efnum.
    Hafi innköllun við gjaldþrotaskipti verið birt fyrir 1. júlí 1992 en kröfulýsingarfresti lýkur eftir þann dag telst kröfulýsing réttilega komin fram hvort sem hún berst skiptastjóra eða þeim skiptaráðanda sem gaf hana út innan kröfulýsingarfrests. Fer þá eftir ákvæðum þessara laga um meðferð lýstra krafna og heimildir til að koma fram kröfu eftir lok kröfulýsingarfrests.
    Hafi innköllun verið gefin út en ekki verið birt í fyrsta sinn fyrir 1. júlí 1992 skal hún metin ógild.

189. gr.

    Frestdagur við gjaldþrotaskipti getur því aðeins ráðist af ákvæðum 2.–4. mgr. 2. gr. að þeir atburðir sem þar greinir hafi átt sér stað eftir gildistöku laga þessara.
    Ef úrskurður hefur gengið um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta fyrir 1. júlí 1992 skal beitt ákvæðum eldri laga um þau atriði sem reglur XVI. og XVII. kafla og 129. gr. laga þessara taka til.
    Þótt úrskurður gangi um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta eftir 1. júlí 1992 njóta kröfur sem hafa orðið til eftir frestdag ekki stöðu í skuldaröð skv. 4. tölul. 110. gr. nema heimild þrotamannsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga hafi verið veitt eftir gildistöku laga þessara.

190. gr.

    Um heimild til riftunar ráðstafana og fullnustugerða sem áttu sér stað fyrir 1. júlí 1992 fer eftir eldri lögum án tillits til þess hvenær úrskurður gengur um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta.

191. gr.

    Ef dómsmál hefur verið þingfest í skiptarétti fyrir gildistöku laga þessara um ágreining í tengslum við nauðasamningstilraun eða gjaldþrotaskipti en úrskurður ekki gengið í því fyrir 1. júlí 1992 skal málinu sjálfkrafa fram haldið fyrir þeim héraðsdómstól sem tekur við lögsögu í hlutaðeigandi umdæmi þann dag. Ákvæðum XXIII. og XXIV. kafla skal beitt upp frá því um meðferð málsins, en það sem þegar hefur verið gert í því skal standa óhaggað.
    Hafi úrskurður gengið í skiptarétti fyrir 1. júlí 1992 sem hefði sætt áfrýjun til æðra dóms eftir eldri lögum og aðili að málinu vill skjóta honum til Hæstaréttar eftir gildistöku laga þessara skal það gert með kæru, enda hafi áfrýjunarstefna ekki þegar verið tekin út, almennur áfrýjunarfrestur ekki verið á enda og öðrum skilyrðum áfrýjunar verið fullnægt. Telst kærufrestur eftir lögum þessum þá byrja að líða 1. júlí 1992.
    Hafi úrskurði skiptaréttar þegar verið áfrýjað fyrir 1. júlí 1992 skal málinu lokið fyrir Hæstarétti eftir reglum um meðferð áfrýjunarmála.
    Hafi ákvörðun eða athöfn skiptaráðanda, sem átti sér stað fyrir 1. júlí 1992, verið kærð til Hæstaréttar fyrir þann tíma skal málinu lokið þar fyrir rétti eftir ákvæðum eldri laga þótt héraðsdómari hafi ekki með höndum vald til slíkrar ákvörðunar eða athafnar eftir reglum þessara laga. Slíkar ákvarðanir og athafnir verða einnig kærðar eftir gildistöku laga þessara ef kærufrestur er ekki liðinn þá.
    Skiptagerð við gjaldþrotaskipti sem var lokið fyrir 1. júlí 1992 verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar eftir gildistöku laga þessara þótt áfrýjunarfrestur hafi ekki verið liðinn þá. Hafi skiptagerð verið áfrýjað fyrir þann tíma skal málinu lokið fyrir Hæstarétti eftir ákvæðum eldri laga.

192. gr.

    Ef ágreiningur hefur risið við nauðasamningstilraun eða gjaldþrotaskipti fyrir gildistöku laga þessara en mál hefur ekki verið þingfest í skiptarétti til að leiða ágreininginn til lykta, má leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið eftir ákvæðum laga þessara.
    Leysa má úr kröfum í dómsmálum skv. 173. gr. þótt gjaldþrotaskipti hafi byrjað fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Hefur verið unnið að gerð, þess í samráði við réttarfarsnefnd, en jafnframt voru drög að því kynnt stjórnum Lögmannafélags Íslands, Dómarafélags Íslands og Sýslumannafélags Íslands og leitað tillagna þeirra og ábendinga.
    Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi gjaldþrotalög, nr. 6 5. maí 1978, og lög um nauðasamninga, nr. 19 4. júní 1924, auk ákvæða um svonefnda skuldaröð í 8. kapítula laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum, o.fl., nr. 3 12. apríl 1878. Frumvarpið geymir þannig reglur um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti, en með því að meginefni þess varðar gjaldþrotaskipti hefur sú leið verði farin að láta heiti frumvarpsins ráðast af því.
    Frumvarpið er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds ríkisins í héraði og er sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989. Ákvæði laga nr. 6/1978 og 19/1924 miðast við þá skipan dómstóla og réttarfars, sem líður undir lok við gildistöku laga nr. 92/1989 1. júlí 1992, og er því þegar af þeirri ástæðu óhjákvæmilegt að umrædd lög verði endurskoðuð fyrir þann tíma til samræmis við breytta skipan. Í frumvarpinu eru þó einnig gerðar tillögur um breytingar frá núgildandi lögum, sem eiga ekki beinlínis rætur að rekja til breyttrar dómstólaskipunar eftir lögum nr. 92/1989, en ýmsar ástæður búa þar að baki og þykir rétt að geta nú þegar þeirra helstu.
    Í fyrsta lagi má nefna í þessu sambandi að reglur um gjaldþrotaskipti í lögum nr. 6/1978 fólu í sér verulegar breytingar frá eldri löggjöf, en þessar nýju reglur voru í flestum atriðum teknar upp eftir danskri fyrirmynd. Gekk erfiðlega framan af eftir gildistöku laganna að hrinda ýmsum nýmælum þeirra í framkvæmd, en þetta hefur eflaust átt stóran þátt í því að sumum markmiðum laganna, sem nánar var lýst í athugasemdum með frumvarpi að þeim, hefur aldrei verið náð, t.d. að draga úr óhóflegri beitingu gjaldþrotaskipta í tilvikum þar sem þau þjóna engum tilgangi. Enn fremur hefur reynslan af framkvæmd leitt í ljós að betur geti farið á því að skipa vissum atriðum á annan veg en gert er í lögum nr. 6/1978, auk þess að skýrari reglur hefur þótt vanta þar um ýmis álitaefni. Af þessum ástæðum eru gerðar tillögur í frumvarpinu um breytingar á reglum um gjaldþrotaskipti frá núgildandi lögum, ýmist til að stuðla frekar að því að upphaflegum markmiðum laga nr. 6/1978 verði náð eða til að bæta úr atriðum sem framkvæmd eftir lögunum hefur gefið til kynna að þurfi að haga á annan veg en þar er gert.
    Í öðru lagi skal þess getið að í II. kafla laga nr. 6/1978 voru í fyrsta sinn lögfest hér á landi ákvæði um greiðslustöðvun. Með þeim átti í senn að veita mönnum sérstakt úrræði til að leitast við að koma nýrri skipan á fjármál sín og stuðla um leið að því að fyrr kæmi til kasta gjaldþrotaskipta en áður hafði verið, væntanlega með því að greiðslustöðvun gæti gefið hlutaðeigendum tóm til að komast að raun um að tilgangslaust væri að verja frekari tíma í viðleitni til að komast hjá gjaldþrotaskiptunum. Þessar reglur laga nr. 6/1978 hafa reynst vel í ýmsum atriðum, en þær hafa þó verið misnotaðar í nokkrum mæli og því markmiði þeirra, að flýta fyrir að til gjaldþrotaskipta komi, hefur varla verið náð. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á reglum um greiðslustöðvun, sem byggja aðallega á fenginni reynslu af þessu úrræði hér á landi, en að nokkru er tekið mið af nýlegum breytingum á reglum um þetta efni í danskri löggjöf.
    Í þriðja lagi má nefna að fram kom í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 6/1978, að þá hafi staðið til að gera sérstakt frumvarp um breytingar á lögum um nauðasamninga nr. 19/1924. Í þessum athugasemdum var þess þó getið að umrædd lög hafi ekki haft mikla raunhæfa þýðingu og var sú tilgáta sett þar fram um ástæður þess, að gerð nauðasamninga eftir lögunum hafi verið of flókin og torveld. Ekki varð af því að breytingar yrðu gerðar á lögum nr. 19/1924, en eftir setningu laga nr. 6/1978 hefur komið til þess í stórauknum mæli að nauðasamningar hafi verið gerðir eftir reglum laga nr. 19/1924. Reynslan af beitingu þeirra reglna hefur vissulega leitt í ljós ýmsa vankanta, en úrræðið sem þær bjóða upp á hefur reynst eiga fullan rétt á sér. Er því gert ráð fyrir nýjum reglum um nauðasamninga í þessu frumvarpi, en þær eru jöfnum höndum byggðar á fenginni reynslu í framkvæmd hér á landi á þessu sviði og dönskum reglum um þetta efni. Þess má geta að í Danmörku eru reglur um nauðasamninga í löggjöf um gjaldþrotaskipti, eins og ráðgert er í frumvarpinu, en núgildandi danskar reglur eiga rætur að rekja til endurskoðunar á eldri löggjöf sem svipaði mjög til laga nr. 19/1924 hér á landi.
    Loks má geta þess í fjórða lagi að samhliða gerð þessa frumvarps hefur verið samið heildarfrumvarp til nýrra laga um skipti á dánarbúum o.fl., sem er einkum ætlað að leysa af hólmi fyrrnefnd lög nr. 3/1878, og hefur verið gengið út frá að frumvörpin tvö verði lögð fyrir Alþingi um líkt leyti. Framkvæmd opinberra skipta á dánarbúum byggist í mjög mörgum atriðum á sömu grundvallarreglum og framkvæmd gjaldþrotaskipta. Í því ljósi hefur þótt rétt að stefna að því að ákvæði þessara tveggja frumvarpa verði hliðstæð í sem flestum atriðum, enda ætti slík tilhögun að stuðla að verulegu hagræði í framkvæmd á báðum sviðum. Þessi stefna hefur í för með sér að vissar breytingar verða óhjákvæmilegar á reglum um framkvæmd gjaldþrotaskipta, en rétt er að benda á að þessar samræmdu reglur frumvarpanna tveggja bera stórum meiri keim af núgildandi reglum laga nr. 6/1978 en af ákvæðum laga nr. 3/1878.
    Þrátt fyrir að frumvarpið geymi þannig ýmsar tillögur um breytingar þá eru fjölmörg ákvæði þess um gjaldþrotaskipti og greiðslustöðvun efnislega þau sömu og í gildandi lögum. Þess gætir hins vegar í nokkrum mæli að reglur komi fram í annarri röð í frumvarpinu en í lögum nr. 6/1978. Stafar þetta einkum af því að í frumvarpinu er leitast við að setja reglur fram í þeirri röð sem má ætla að samsvari atburðarás í framkvæmd, en í núgildandi lögum hefur því viðhorfi ekki verið fylgt, sem hefur leitt til talsverðra óþæginda í framkvæmd. Þá á þetta einnig að nokkru leyti rætur að rekja til þess að leitast hefur verið við að samræma efnisröð einstakra reglna í þessu frumvarpi og áðurnefndu frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl.
    Áður en fjallað verður nánar um einstök ákvæði frumvarpsins þykir rétt að gera grein fyrir helstu breytingunum sem eru lagðar til frá núgildandi reglum og ýmsum almennum atriðum varðandi efni þess. Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að við samningu eftirfarandi athugasemda hefur verið gengið út frá því að áðurnefnt frumvarp til laga um skipti á dánarbúum o.fl. verði lagt fyrir Alþingi samhliða þessu frumvarpi. Í athugasemdum við það frumvarp er fjallað talsvert um ýmis atriði sem eiga sér samsvörun í þessu frumvarpi, bæði atriði almenns eðlis og einstök ákvæði frumvarpsins. Sú leið er því farin hér að leitast við að komast hjá endurtekningum á slíkri umfjöllun, á köflum með því að vísa beinlínis um tiltekin atriði til athugasemda við umrætt frumvarp.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.
I.

    Eins og áður sagði eru ákvæði þessa frumvarps samin með það fyrir augum að þau falli að breyttri skipan dómstóla og réttarfars samkvæmt lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum kom fram að með ákvæðum þess væri stefnt að þeirri breytingu frá eldri skipan að dómstólar hefðu hvorki með höndum framkvæmdarvaldsstörf né umsýslustörf, heldur kæmi aðeins í hlut þeirra að fást við svokölluð eiginleg dómstörf. Meðferð framkvæmdarvalds ríkisins í héraði yrði hins vegar falin sýslumönnum, að því leyti sem héraðsdómarar höfðu gegnt slíkum störfum, og umsýslustörf, sem dómstólar hafa haft með höndum eftir eldri skipan, yrðu ýmist falin sýslumönnum eða öðrum en handhöfum ríkisvalds.
    Í lögum nr. 19/1924 og 6/1978 er ekki um það að ræða að héraðsdómurum séu falin umboðsstörf í þágu framkvæmdarvaldsins, en á hinn bóginn gætir þess talsvert að þeim sé ætlað að annast ýmsa umsýslu við gerð nauðasamninga og gjaldþrotaskipti. Í lögum nr. 19 1924 er héraðsdómurum ekki aðeins falið að hafa með höndum dómsvald til að leysa úr um hvort manni verði heimilað að leita nauðasamnings að hætti laganna, heldur einnig að gefa út innköllun til skuldheimtumanna þess sem leitar samningsins, yfirfara kröfur sem koma fram, ákveða skuldheimtumönnum atkvæði um nauðasamning og halda fundi með þeim til að leiða í ljós hvort samningsfrumvarp fáist samþykkt. Því til viðbótar er héraðsdómurum síðan ætlað að leysa úr ágreiningsmálum sem rísa í tengslum við gerð nauðasamnings. Af þessum verkefnum verður aðeins sagt að um eiginleg dómstörf sé að ræða þegar héraðsdómari úrskurðar í öndverðu um heimild til að leita nauðasamnings og þegar hann þarf að leysa úr ágreiningsmálum meðan á samningsumleitunum stendur. Eftir lögum nr. 6/1978 eiga héraðsdómarar ekki aðeins að kveða upp dómsúrskurði um hvort bú séu tekin til gjaldþrotaskipta og leysa síðan úr ágreiningi sem rís við framkvæmd skipta, heldur er þeim falið að annast fjölmörg umsýsluverkefni við gjaldþrotaskiptin. Þótt ráðgert sé í lögum nr. 6/1978 að sérstakir bústjórar og skiptastjórar annist margvísleg umsýslustörf við gjaldþrotaskipti, er héraðsdómurum samt sem áður ætlað að gefa út innköllun til skuldheimtumanna, taka við kröfum þeirra og halda síðan skiptafundi þar sem bústjórar eða skiptastjórar láta uppi afstöðu sína til krafna skuldheimtumanna og kynna ráðstafanir sínar á hagsmunum þrotabúa. Þá ber einnig að líta til þess að eftir lögum nr. 6/1978 verða bústjórar almennt ekki ráðnir eða skiptastjórar kjörnir nema eignir séu að einhverju marki fyrir hendi í þrotabúum, en ef forsendur eru ekki að þessu leyti til að ráða eða kjósa bústjóra eða skiptastjóra verða héraðsdómarar að annast þau umsýslustörf sem þeim hefðu ella verið falin. Líkt og nefnt var um ákvæði laga nr. 19/1924 er hér ekki um eiginleg dómstörf að ræða, nema að því leyti sem héraðsdómarar kveða á um hvort til gjaldþrotaskipta komi og leysa úr ágreiningsefnum sem rísa við framkvæmd skipta.
    Í frumvarpinu er sú leið farin til samræmis við stefnu laga nr. 92/1989 að leggja til að umrædd umsýslustörf verði færð úr höndum héraðsdómara. Er þetta gert annars vegar með því að lagt er til í 3. þætti frumvarpsins að héraðsdómari skipi hverju sinni sérstakan umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum, ef heimild er veitt til þeirra í dómsúrskurði, og umsjónarmaðurinn annist síðan alla umsýslu á þessu sviði á kostnað skuldarans, en héraðsdómari komi ekki að öðru leyti við sögu nema til að leysa úr vissum ágreiningsefnum í tengslum við samningsumleitanir og kveða upp úrskurð um hvort nauðasamningur verði staðfestur. Hins vegar er lagt til í 4. þætti frumvarpsins að héraðsdómarar hafi aldrei með höndum framkvæmd gjaldþrotaskipta, heldur skipi þeir ávallt skiptastjóra til að gegna slíkum störfum og skiptastjórar annist síðan alla umsýslu við gjaldþrotaskiptin gegn þóknun, sem greiðist af eignum þrotabúa. Héraðsdómurum er því ætlað að kveða upp úrskurði um kröfur um gjaldþrotaskipti og skipa skiptastjóra ef slíkar kröfur eru teknar til greina. en að því búnu komi héraðsdómarar ekki nærri gjaldþrotaskiptunum nema til að leysa úr ágreiningsefnum sem rísa í tengslum við þau. Þessi skipan 4. þáttar frumvarpsins er sú sama og byggt er á í ákvæðum um framkvæmd opinberra skipta á dánarbúum í frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl.

II.


    Í 2. þætti frumvarpsins er að finna reglur þess um greiðslustöðvun sem er ætlað að koma í stað ákvæða II. kafla laga nr. 6/1978. Þessar reglur frumvarpsins byggja um margt á núgildandi reglum, en eins og áður var nefnt eru þó lagðar til ýmsar breytingar sem tilefni þykir til af fenginni reynslu í framkvæmd, auk þess hefur hliðsjón verið höfð hér af reglum danskrar löggjafar um þetta efni eins og þeim var breytt með lögum nr. 187/1984 þar í landi. Skal vikið hér nánar að helstu breytingunum sem eru lagðar til í þessu sambandi.
     1.      Í II. kafla laga nr. 6/1978 er það skilyrði sett fyrir heimild til greiðslustöðvunar að skuldarinn ráði sér lögmann eða löggiltan endurskoðanda til aðstoðar í tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál sín. Ákvæði laganna eru óljós um það hverju hlutverki aðstoðarmaðurinn eigi að gegna og hefur því ríkt óvissa í framkvæmd í þessum efnum, auk þess að ósamræmis hefur gætt í því hvernig staðið hafi verið að verki að þessu leyti í einstökum tilvikum. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur til úrbóta í þessum efnum með því að tiltaka nánar til hvers sé ætlast af aðstoðarmanni. Helstu nýmælin að þessu leyti koma fram í IV. kafla frumvarpsins, þar sem tekið er af skarið um að aðstoðarmaður verði að taka virkan þátt í öllum fjárhagslegum ráðstöfunum skuldarans sem máli skipta meðan á greiðslustöðvun stendur, en með þessu er aðstoðarmaðurinn í reynd gerður ábyrgur gagnvart lánardrottnum fyrir því að ekkert verði hafst að við greiðslustöðvun þeim til tjóns. Þá er aðstoðarmanninum einnig ætlað að hafa talsvert samráð við lánardrottna meðan á greiðslustöðvun stendur, en það kæmi einkum til vegna skyldna aðstoðarmanns til að halda fundi með lánardrottnum eftir einstökum reglum III. kafla frumvarpsins.
     2.      Eins og áður var nefnt voru ákvæði II. kafla laga nr. 6/1978 á sínum tíma nýmæli í íslenskri löggjöf því þar var í fyrsta sinn mælt fyrir um heimild til greiðslustöðvunar í því skyni að endurskipuleggja fjárhag skuldara svo komast mætti hjá gjaldþrotaskiptum á búi hans, en meðan á greiðslustöðvun stendur er lánardrottnum óheimilt að koma fram fullnustugerðum fyrir kröfum sínum. Minnst hefur verið á að nokkuð hafi borið á að þetta úrræði hafi verið misnotað í framkvæmd, en einkum var um það að ræða á fyrstu árunum eftir gildistöku umræddra laga. Var þá ekki síst um það að ræða að leitað hafi verið heimildar til greiðslustöðvunar gagngert til að fyrirbyggja að fullnustugerðir næðu fram að ganga án þess að neinn ásetningur hafi búið að baki til að reyna að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans með samningum við lánardrottna hans. Í II. kafla laga nr. 6/1978 er lánardrottnum veittur mjög takmarkaður réttur til afskipta af því hvort heimild til greiðslustöðvunar verði veitt í byrjun eða eftir atvikum framlengd, en greiðslustöðvun getur staðið yfir í allt að fimm mánuði og þannig fyrirbyggt aðgerðir lánardrottna um þann tíma. Sú skipan laganna átti sér nokkra hliðstæðu í þágildandi reglum danskrar löggjafar, en ein helsta breytingin sem var gerð í Danmörku við setningu áðurnefndra laga þar á árinu 1984 beindist einmitt að því að bæta stöðu lánardrottna að þessu leyti. Reynslan af framkvæmd hér á landi hefur leitt í ljós að full þörf sé á sambærilegum breytingum hér og eru þær lagðar til í ákvæðum III. kafla og að nokkru V. kafla frumvarpsins. Í stuttu máli felast þessar breytingar í því að gert er ráð fyrir að í byrjun verði skuldara veitt heimild til greiðslustöðvunar í skamman tíma án afskipta lánardrottna, eða til allt að þriggja vikna. Eftir það er lánardrottnum hins vegar tryggður afskiptaréttur af framvindu mála, því aðstoðarmanni skuldarans er ætlað að boða þá til fundar við sig og kynna þeim ráðagerðir sínar áður en hann getur leitað framlengingar á heimild til greiðslustöðvunar, sbr. 13., 14. og 18. gr. frumvarpsins, og lánardrottnum er heimilað beinlínis í 16. gr. að mæta á dómþingi þegar beiðni skuldara um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar yrði tekin fyrir og hafa þar uppi mótmæli gegn því að hún verði tekin til greina. Enn fremur er lánardrottnum tryggður réttur í 26. gr. til að hafa uppi kröfu fyrir héraðsdómi um að heimild til greiðslustöðvunar verði felld niður áður en greiðslustöðvunartíminn væri runninn út. Með þessum hætti má ætla að ekki sé aðeins verið að veita lánardrottnum úrræði til að fyrirbyggja að greiðslustöðvun verði misnotuð, heldur sé einnig verið að girða fyrir að skuldari freistist til að verða sér úti um heimild til greiðslustöðvunar án eðlilegs tilgangs. Að auki má telja að þessi skipan geti stuðlað að því að líklegra verði að greiðslustöðvun beri árangur með því að lánardrottnar verði virkari þátttakendur í viðleitni til að koma nýrri skipan á fjármál skuldara og vinni þannig fremur með honum að því en nú er.
     3.      Ákvæði II. kafla laga nr. 6/1978 um skilyrði fyrir greiðslustöðvun eru um margt óákveðin og láta ósvarað ýmsum spurningum um það hvenær eigi að veita heimild til hennar. Leiddi þetta til þess að á fyrstu árunum eftir gildistöku laganna gætti verulegs ósamræmis í framkvæmd og var oft gengið óhæfilega langt í því að heimila greiðslustöðvun í tilvikum þar sem bersýnilegt mátti vera að hún gæti engan árangur borið. Var það fyrst á árabilinu 1983–1985 sem einhverrar festu för að gæta í þessum efnum í framkvæmd og má heita að á allra síðustu árum hafi loks farið að gæta samræmis í flestum umdæmum landsins um það hverjum skilyrðum þurfi að fullnægja fyrir heimild til greiðslustöðvunar. Þessi langi aðlögunartími hefur ekki átt minnstan þátt í því í hverjum mæli heimild til greiðslustöðvunar hefur verið misnotuð í framkvæmd. Til að tryggja frekar í sessi þau viðhorf, sem hafa verið lögð til grundvallar í þessum efnum á undanförnum árum, eru gerðar tillögur í 10., 12. og 17. gr. frumvarpsins um miklu mun nákvæmari talningu skilyrða fyrir greiðslustöðvun í lögum, en reglur þessara ákvæða eru að mestu byggðar á ríkjandi venjum í framkvæmd.
     4.      Eins og minnst hefur verið á er gert ráð fyrir því í ákvæðum II. kafla laga nr. 6/1978 að greiðslustöðvun geti staðið yfir í allt að fimm mánuði, en eftir 7. gr. laganna er almenna reglan sú að heimild sé veitt til greiðslustöðvunar í þrjá mánuði, sem má síðan framlengja um tvo mánuði ef sérstaklega stendur á, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna. Framkvæmd hefur þokast inn á þá braut að heimildin sé ekki endilega veitt til þriggja mánaða í öndverðu, heldur til skemmri tíma, en hún sé síðan framlengd í fleiri en einum áfanga upp í umræddan fimm mánaða hámarkstíma. Reynslan hefur verið sú í framkvæmd að yfirleitt hafi mátt leiða í ljós á skömmum tíma hvort greiðslustöðvun muni geta borið árangur og sá hámarkstími sem hér um ræðir hefur að jafnaði nægt til að ljúka tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál skuldara. Undantekningar hafa þó verið frá þessu, en víða erlendis eru heimildir til að sambærileg úrræði geti náð yfir lengri tíma en ráðgert er í íslenskum lögum, til dæmis allt að einu ári í Danmörku. Ekki verður talið að ástæða sé til að ganga svo langt hér, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðslustöðvun geti þó staðið yfir í allt að sex mánuði og þrjár vikur, sbr. 12., 17. og 18. gr.
     5.      Í 8. gr. laga nr. 6/1978 koma fram meginfyrirmælin um réttaráhrif greiðslustöðvunar, bæði um það hvað skuldari megi gera varðandi fjárhagsleg málefni sín meðan hún stendur yfir og til hverra aðgerða lánardrottnar geti gripið í garð skuldarans á þeim tíma. Reglur umræddrar 8. gr. eru ekki langorðar í þessum efnum og hafa gefið tilefni til vafa um ýmis atriði í framkvæmd. Í IV. kafla frumvarpsins eru gerðar tillögur um mun nánari reglur um áhrif greiðslustöðvunar, en þær byggjast að verulegu leyti á ríkjandi skoðunum í framkvæmd um skýringu 8. gr. laga nr. 6/1978.
6.     Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 6/1978 kom fram að nýmæli um heimild til greiðslustöðvunar hafi meðal annars átt að þjóna þeim tilgangi að bú kæmu fyrr til gjaldþrotaskipta en eftir eldri reglum og þar með að lánardrottnar fengju meira í sinn hlut ef ekki tækist að koma nýrri skipan á fjármál skuldara með þessu úrræði. Það er háð miklum vandkvæðum að leggja mat á hvort greiðslustöðvun hafi almennt leitt til þess að skuldurum hafi tekist að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum því eftir ákvæðum laga nr. 6/1978 er ekki ætlast til neinnar skýrslugjafar um þetta þegar greiðslustöðvunartími er á enda og þótt greiðslustöðvun leiði ekki til árangurs er hvorki skuldara frekar skylt en ella að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta né hafa lánardrottnar neinar sérstakar heimildir til að knýja á um gjaldþrotaskipti af því tilefni. Hefur verið mjög breytilegt í hverjum mæli gjaldþrotaskipti hafi fylgt í kjölfar greiðslustöðvunar, en því virðist þó mega slá föstu af fenginni reynslu í framkvæmd að reglur II. kafla laga nr. 6/1978 hafi haft mjög lítil áhrif í þá átt að gjaldþrotaskipti komi fyrr til en ella. Má ætla að þetta stafi helst af því annars vegar að fyrirmæli 14. gr. laganna um skyldu skuldara til að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar fjárhagsörðugleikar hans eru komnir á tiltekið stig hafa verið stórlega vanvirt í framkvæmd, og hins vegar að lánardrottnar skuldarans hafa ekki neinar sérstakar heimildir til að knýja á um gjaldþrotaskipti þótt greiðslustöðvun ljúki án árangurs. Í frumvarpinu er gerð tillaga til að ráða hér nokkra bót á með því að í 2. mgr. 65. gr. er mælt fyrir um heimild lánardrottna til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldara ef hann hefur haft heimild til greiðslustöðvunar sem hefur runnið út innan mánaðar áður en gjaldþrotaskipta er krafist, enda sýni skuldarinn þá ekki fram á að hann sé fær um að standa í skilum. Með þessum hætti er vænst að ráðagerðir að baki ákvæðum II. kafla laga nr. 6/1978 geti fremur orðið að veruleika en reyndin hefur orðið.

III.


    Núgildandi reglur um nauðasamninga koma fram í lögum nr. 19/1924 og er þar greint milli nauðasamninga sem eru gerðir í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi skuldara, sem ákvæði II. kafla laganna taka til, og nauðasamninga sem eru gerðir án undanfarandi gjaldþrotaskipta, en ákvæði um þá eru í III. kafla laganna. Lög nr. 19/1924 eru þannig uppbyggð að meginfyrirmælin um nauðasamninga koma fram í II. kafla þeirra, en reglur III. kaflans um samningsgerð án tengsla við gjaldþrotaskipti geyma um margt tilvísanir til tiltekinna ákvæða II. kaflans.
    Eins og vikið var að hér í upphafi þessara athugasemda er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að reglur um nauðasamninga verði felldar inn í löggjöf um gjaldþrotaskipti. Þessu er þannig hagað á sama veg og í danskri löggjöf, en fyrir þessu eru þau rök að reglur um nauðasamningsumleitanir eru um margt tengdar reglum um gjaldþrotaskipti og greiðslustöðvun, enda býr sú hugmynd að baki þessum reglum í heild að þegar fjárhagsörðugleikar steðji að geti skuldari aflað sér heimildar til greiðslustöðvunar til að reyna að greiða úr málum sínum, en ef greiðslustöðvunin ein út af fyrir sig nægi ekki til að ráða bót á örðugleikunum blasi þeir tveir kostir við að skuldarinn leiti annaðhvort nauðasamnings eða gefi bú sitt upp til gjaldþrotaskipta. Þessari efnisskipan frumvarpsins er þannig ætlað að geyma samfellda mynd af þeirri rás atburða sem mætti ætla að sé dæmigerð í framkvæmd.
    Reglur frumvarpsins um nauðasamninga koma fram í tvennu lagi, annars vegar í 3. þætti þess þar sem mælt er fyrir um gerð nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta og hins vegar í XXI. kafla þar sem gert er ráð fyrir að gjaldþrotaskiptum geti lokið með því að nauðasamningur komist á fyrir þrotamann. Aðalreglurnar í þessum efnum koma fram í 3. þætti, en ákvæði XXI. kafla vísa meira eða minna til þeirra reglna og geyma aðeins fáeinar sérreglur um nauðasamninga við gjaldþrotaskipti, sem eru nauðsynlegar af tilliti til þess eðlismunar sem er milli þessara tveggja afbrigða nauðasamninga. Er því gert ráð fyrir gagnstæðri skipan í þessum efnum frá þeirri sem er byggt á í lögum nr. 19/1924 og áður var nefnd. Kemur þetta til af því að í miklum meirihluta tilvika þar sem nauðasamningar eru gerðir á það sér stað án tengsla við gjaldþrotaskipti og verður því að telja óeðlilegt að aðalreglur löggjafar um þessi efni komi fram í fyrirmælum um tilvik sem heyri til undantekninga, líkt og er í núgildandi lögum. Þessi efnisskipan á sér jafnframt hliðstæðu í danskri löggjöf.
    Ákvæðum 3. þáttar frumvarpsins er ekki ætlað að leiða til teljandi breytinga frá þeirri framkvæmd við gerð nauðasamninga sem nú tíðkast á grundvelli laga nr. 19/1924 ef frá er talið að sérstakur umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum færi með þau umsýslustörf sem héraðsdómarar annast nú eftir umræddum lögum. Hefur þó verið leitast við að gera reglur um nauðasamninga aðgengilegri og einfaldari, en hliðsjón hefur verið höfð af dönskum reglum í þessu sambandi. Er vænst að ef frumvarpið verður að lögum geti það leitt til nokkurrar aukningar í beitingu þessa úrræðis, bæði fyrir félög eða menn í atvinnurekstri og fyrir menn sem eiga í fjárhagsörðugleikum af öðrum sökum. Þess má geta í þessu sambandi að hugað var sérstaklega að því við gerð frumvarpsins hvort ástæða væri til að gera tillögur um að taka upp sambærilegar reglur og fram koma í 4. þætti dönsku löggjafarinnar um gjaldþrotaskipti, þar sem mælt er fyrir um svokallað „gældssanering“. Þar er um úrræði að tefla sem svipar mjög til nauðasamninga og er fyrst og fremst ætlað mönnum sem hafa ekki með höndum atvinnurekstur, en ákvæði danskrar löggjafar um nauðasamninga eru á hinn bóginn þá fremur ætluð félögum og mönnum í atvinnurekstri. Varð niðurstaðan sú að sérreglur eftir þessari danskri fyrirmynd yrðu óþarfar, einkum með því að ákvæði frumvarpsins um nauðasamninga hafa verið gerð þannig úr garði að þau geti jöfnum höndum tekið til þeirra sem leggi stund á atvinnurekstur og þeirra sem það gera ekki.

IV.


    Í 4. þætti frumvarpsins er að finna reglur þess um gjaldþrotaskipti, en eins og áður sagði eru þau byggð að miklu leyti á ákvæðum laga nr. 6/1978. Af einstökum breytingum sem eru hér lagðar til í þessum efnum má telja þá þýðingarmestu felast í því að ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að sérstakir skiptastjórar muni að öllu leyti og í öllum tilvikum annast framkvæmd gjaldþrotaskipta og umsýslu í sambandi við þau, en með þessu er lagt til að algerlega verði afnumin sú tilhögun að héraðsdómarar hafi störf sem þessi með höndum. Hér er engan veginn um alger nýmæli að ræða, enda var stigið þýðingarmikið skref í þessa átt með setningu laga nr. 6/1978 þegar teknar voru upp heimildir til að fela bústjórum og skiptastjórum að gegna störfum á þessum vettvangi. Í frumvarpinu er hins vegar gengið mun lengra í þessu sambandi því ætlast er til að skiptastjórar verði ávallt skipaðir við gjaldþrotaskipti, en ekki að það verði aðeins gert ef vitað er að einhverjar eignir séu fyrir hendi í þrotabúi.
    Fjölmargar röksemdir má færa fyrir þeirri skipan sem er lögð til að þessu leyti í frumvarpinu. Má í fyrsta lagi nefna að það fengi ekki samrýmst þeirri stefnu laga nr. 92/1989, sem áður hefur verið nefnd, að héraðsdómarar gegni þeim umsýslustörfum við gjaldþrotaskipti sem þeir hafa með höndum eftir lögum nr. 6/1978. Heyrir og til undantekninga að dómarar gegni störfum sem þessum eftir löggjöf annarra rikja. Má einnig benda sérstaklega á það í þessu sambandi að afskipti dómara af framkvæmd gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum nr. 6/1978 geta gefið réttmæt tilefni til að draga óhlutdrægni þeirra í efa, ef leysa þarf úr ágreiningi í tengslum við skiptin, en með lögum nr. 92/1989 var einmitt gagngert stefnt að því að koma almennt í veg fyrir að slík aðstaða geti komið upp. Í öðru lagi fara gjaldþrotaskipti fram í þágu lánardrottna þrotamanns, en í því ljósi er nærtækt að skiptin fari þá fram á kostnað þeirra, með því að sérstaklega ráðinn maður framkvæmi skiptin og fái þóknun greidda af fjármunum sem hefðu ella komið í hlut lánardrottna. Fást ekki séð þau rök, sem geta réttlætt þá skipan, sem nú leiðir af fyrirmælum laga nr. 6/1978, að þessar aðgerðir í þágu lánardrottna séu unnar að einhverju eða öllu leyti án útláta af þeirra hendi af starfsmanni ríkisins sem þarf að launa og kosta vinnuaðstöðu fyrir af almannafé. Í þriðja lagi hefur reynslan af störfum bústjóra og skiptastjóra orðið sú í framkvæmd að fjárhagslegur árangur af störfum þeirra að gjaldþrotaskiptum hefur að jafnaði orðið stórum betri en þegar héraðsdómarar hafa orðið að leysa slík störf af hendi, auk þess að skiptin hafi yfirleitt tekið skemmri tíma.
    Til viðbótar því sem nú hefur verið nefnt, en engan veginn síst, má líta til þess að telja má sýnt að sú breytta skipan sem hér um ræðir leiði óbeint til þess að það dragi mjög úr tíðni gjaldþrotaskipta hér á landi. Eins og áður var minnst á var þetta eitt af markmiðum laga nr. 6/1978 samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að þeim lögum, en það hefur ekki náðst sem sést á því að á síðustu árum hefur árlegur fjöldi gjaldþrotaúrskurða verið um það bil sjöfaldur sá sem hann var fyrir setningu laganna. Ætla má að fjöldi gjaldþrotaúrskurða hér á landi eigi sér hvergi hliðstæðu í öðrum ríkjum og það jafnvel þótt það yrði einhverju leyti látið hjá líða að taka tillit til mannfjölda. Þessi sérstaða hér á landi stafar fráleitt af því að óskilvísi eða fjárhagsleg bágindi séu stórum algengari hér en í öðrum ríkjum, heldur býr hér að baki að erlendis heyrir til undantekninga að krafist sé gjaldþrotaskipta ef fyrir fram er vitað að engar eignir séu fyrir hendi til skiptanna. Þótt nákvæmar tölulegar upplýsingar liggi ekki fyrir f þeim efnum frá síðustu árum þykir mega slá því föstu með hliðsjón af framkvæmd í Reykjavík að í 85–90% tilvika komi engar eignir fram við gjaldþrotaskipti, þannig að skiptum verði lokið án þess að lánardrottnar fái greiðslur upp í kröfur sínar. Undanfarinn að slíkum gjaldþrotaskiptum er með fáum undantekningum sá að reynt hafi verið að gera aðför fyrir peningakröfu hjá skuldaranum, en hann hafi lýst sig eignalausan við aðfarargerðina og henni hefur því verið lokið án árangurs. Í þessum tilvikum má almennt vera ljóst að gjaldþrotaskipti þjóni engum tilgangi, enda áskotnast ekki skuldaranum eignir við það eitt að úrskurður gangi um gjaldþrotaskipti á búi hans. Rótin að þessari einkennilegri tilhögun hér á landi virðist aðallega vera sú að ekki hafi verið talið við hæfi að afskrifa kröfur á hendur skuldara, þótt árangurslaus aðför hafi farið fram hjá honum, heldur verði gjaldþrotaskipti að fylgja í kjölfarið áður en það verði gert, en þetta á þó einkum við um innheimtu opinberra gjalda. Í öðrum ríkjum virðist hins vegar árangurslaus aðfarargerð þykja fyllilega nægjanlegt tilefni til að lánardrottinn láti af frekari viðleitni til að innheimta kröfu sína hjá eignalausum skuldara. Ætlað er að frumvarpið muni leiða til breytinga í þessum efnum með þeim óbeina hætti að skiptastjórar verði ávallt skipaðir til að hafa framkvæmd gjaldþrotaskipta með höndum. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins yrði sá sem krefðist gjaldþrotaskipta að bera kostnað af störfum skiptastjóra og af skiptunum að öðru leyti, ef eignir kæmu ekki fram til að standa undir þeim útgjöldum, en hér er um verulega breytingu að ræða frá núgildandi reglum sem leiða til þess að ríkið beri meginhluta kostnaðarins í tilvikum sem þessum. Þótt hér yrði ekki um neinar teljandi fjárhæðir að ræða hverju sinni, þá ætti þessi aðstaða ein út af fyrir sig að leiða til þess að lánardrottinn gefi því sérstakan gaum, áður en hann gerði kröfu um gjaldþrotaskipti, hvort sú aðgerð þjóni neinum hagsmunum hans í ljósi kostnaðarins sem hann yrði að bera. Má ætla að ef árangurslaus aðför hefði þegar farið fram hjá hlutaðeigandi skuldara og lánardrottinn hans hefði enga ástæðu til að ráðgera að eignir kunni að koma fram við gjaldþrotaskipti þá sæi lánardrottinn sér almennt engan hag í því að krefjast skipta. Rétt er að benda hér til viðbótar á það að ekki verður séð að þessi skipan geti stefnt hagsmunum lánardrottna í hættu, því sérstök nýmæli koma fram í VIII. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, um skilyrði fyrir því að ljúka aðfarargerð án árangurs. Samkvæmt þeim mætti gera flestar þær ráðstafanir við framkvæmd aðfarargerðar til að ganga úr skugga um hvort skuldara tilheyri einhverjar eignir eins og nú verða gerðar við gjaldþrotaskipti í því skyni. Má þannig ætla að árangurslaus aðfarargerð eftir VIII. kafla laga nr. 90/1989 muni geta talist nægilega traustverðug heimild um eignastöðu skuldara til að lánardrottnar hans telji sig ekki þurfa að krefjast að auki gjaldþrotaskipta til að taka af tvímæli um hana.
    Aðrar ráðagerðir í frumvarpinu um breytingar frá núgildandi reglum um gjaldþrotaskipti eru ekki sambærilegar að umfangi við þá sem hér hefur verið fjallað um, en hafa verður í huga að sú skipan, að skiptastjórar annist ýmis umsýslustörf sem héraðsdómarar hafa áður haft með höndum, setur mark sitt á fjölmörg ákvæði frumvarpsins. Hér má þó nefna eftirfarandi atriði í frumvarpinu sem fela einnig í sér tillögur um breytingar frá reglum um gjaldþrotaskipti í lögum nr. 6/1978.
     1.      Í XI. kafla frumvarpsins eru reglur um heimildir til að krefjast gjaldþrotaskipta og um meðferð slíkra krafna fyrir héraðsdómi einfaldaðar nokkuð frá því sem mælt er fyrir um í lögum nr. 6/1978. Flestar þessar breytingar eru litlar út af fyrir sig, en ættu að leiða til greiðari og fljótlegri málsmeðferðar. Þær byggja um margt á venjum sem hafa mótast í framkvæmd á þessu sviði á undanförnum árum.
     2.      Í XIII. kafla frumvarpsins koma fram ítarlegri almennar reglur um hæfi og störf skiptastjóra en nú gilda. Þessar reglur eru ekki síst nauðsynlegar með tilliti til aukins hlutverks skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, en þær eiga sér að mestu hliðstæður í V. kafla frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., sem fjallar um skiptastjóra við opinber skipti dánarbúa. Af öðrum atriðum XIII. kafla frumvarpsins má vekja athygli á því að þar er ráðgert að héraðsdómari skipi skiptastjóra þegar við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og skiptastjórinn hafi síðan með höndum alla umsýslu við skiptin. Með þessu er stefnt að breytingu frá núgildandi reglum því eftir ákvæðum laga nr. 6/1978 á héraðsdómari að ráða bústjóra til bráðabirgða við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, ef eignastaða þrotabúsins þykir gefa tilefni til þess, en skiptastjóri er síðan kjörinn af lánardrottnum nokkrum mánuðum síðar á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu eftir lok kröfulýsingarfrests. Ýmsar ástæður búa að baki tillögu um breytingu á þessari skipan, en af þeim helstu má í fyrsta lagi nefna að mjög óljós greinarmunur hefur verið gerður á valdsviði bústjóra til bráðabirgða og skiptastjóra í núgildandi lögum, sem ekki verður séð að tilefni sé til að halda við. Í öðru lagi hefur sú staða verið uppi eftir núgildandi lögum að bústjórar til bráðabirgða þurfa að standa að ýmsum aðgerðum á kröfulýsingarfresti í þágu allra lánardrottna í sameiningu, sem kunna að geta bakað bústjórum óvild einhverra þeirra. Bústjórar standa hins vegar frammi fyrir því að þurfa að hljóta kosningu lánardrottna í starf skiptastjóra á síðari stigum, sem gæti gefið tilefni til að óttast um hvort þeim kunni að hætta til að haga störfum sínum þannig að þeir spilli ekki fylgi sínu meðal lánardrottna með því að halda fast um hagsmuni þrotabúa gagnvart lánardrottnunum. Í þriðja lagi má loks nefna að í framkvæmd eftir núgildandi lögum virðast lánardrottnar ekki hafa séð tilefni til að fella bústjóra til bráðabirgða í kosningu í starf skiptastjóra, en þetta bendir ótvírætt til þess að þeir felli sig almennt við val héraðsdómara á mönnum til þessara starfa. Þykir samkvæmt þessu til einföldunar og aukins öryggis að skipun skiptastjóra eigi sér stað að hætti frumvarpsins fremur en að haldið verði í reglur núgildandi laga að þessu leyti.
     3.      Í XVII. kafla frumvarpsins koma fram reglur um innbyrðis rétthæð krafna við gjaldþrotaskipti, eða svokallaða skuldaröð, en núgildandi reglur í þessum efnum er að finna í 8. kapítula laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum, o.fl., nr. 3/1878. Eins og fjallað er um í athugasemdum með frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl. reynir mjög lítið á þessar reglur á þeim vettvangi, en fyrst og fremst hafa þær þýðingu við gjaldþrotaskipti. Tillögur eru ekki gerðar um veigamiklar breytingar á þessum reglum, en einstök atriði í þeim efnum eru nánar skýrð í athugasemdum við 109.–115. gr. þessa frumvarps.
     4.      Í XIV. og XVIII. kafla frumvarpsins er að finna mun nánari reglur en í lögum nr. 6/1978 um efni og áhrif innköllunar til skuldheimtumanna við gjaldþrotaskipti, kröfulýsingar þeirra og meðferð krafna. Þessar reglur frumvarpsins taka mið af þeirri framkvæmd sem hefur mótast eftir núgildandi lögum, auk þess að leitast er við að taka af tvímæli um ýmis atriði á þessu sviði sem óvissa hefur þótt standa um.
     5.      Reglur XIX. kafla frumvarpsins um ráðstöfun hagsmuna þrotabúa fela að ýmsu leyti í sér tillögur um breytingar frá núgildandi reglum til einföldunar og hagræðingar, m.a. með því að draga nokkuð úr nauðsyn þess að ákvarðanir í þessum efnum verði teknar á skiptafundum með lánardrottnum, en þessi breyting er lögð til með hliðsjón af þróuninni sem hefur orðið í framkvæmd að þessu leyti. Þá felst enn fremur í XIX. kafla tillaga um afnám reglna um kosningu sérstakra kröfuhafanefnda, en heimildum laga nr. 6/1978 til þess hefur aldrei verið beitt í framkvæmd svo vitað sé. Loks má nefna að í 129. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sérreglu um aðra ráðstöfun en nauðungarsölu á eignum þrotabúa, sem hafa verið veðsettar fyrir hærri fjárhæðum en megi ætla að þær seljist fyrir, en sambærileg regla er ekki í núgildandi lögum sem hefur þótt valda verulegum erfiðleikum í framkvæmd.

V.


    Í 5. þætti frumvarpsins koma fram sérreglur um hvernig verði leyst úr ágreiningsmálum, sem rísa í tengslum við greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir eða gjaldþrotaskipti. Þessar reglur eru um margt mótaðar með hliðsjón af framkvæmd á grundvelli núgildandi laga, en nýmæli eru þó óhjákvæmileg um ýmis atriði vegna breyttrar dómstólaskipunar á grundvelli laga nr. 92/1989 og vegna breytts hlutverks dómara við framkvæmd greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana og gjaldþrotaskipta eftir öðrum ákvæðum frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–3. gr.


    Í þessum ákvæðum koma fram skýringar á nokkrum sérhugtökum sem byggt er á í öðrum reglum frumvarpsins. Er þannig í 1. gr. skýrt hvað átt sé við með orðunum skuldari og þrotamaður, en sambærileg skýring kemur ekki fram á þessum hugtökum í núgildandi lögum þótt þau séu notuð þar í sömu merkingu og hér um ræðir.
    Í 2. gr. er hugtakið frestdagur skilgreint, en samkvæmt þessari skilgreiningu ræðst frestdagur af því hvenær héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana eða krafa um gjaldþrotaskipti þótt slík beiðni eða krafa sé afturkölluð eða henni hafnað, ef ný beiðni eða krafa berst innan mánaðar frá því það gerðist. Skilgreining hugtaksins er hér sú sama og fram kemur í 1. gr. laga nr. 6/1978 að öðru leyti en því að í þeirri reglu getur eldri beiðni eða krafa því aðeins ráðið frestdegi að ný beiðni eða krafa komi fram innan þriggja vikna. Þessi lenging tímans úr þremur vikum í einn mánuð er lögð hér til af tilliti til reynslu af framkvæmd í þessu sambandi því hann hefur þótt full skammur til að þjóna tilgangi.
    Í 3. gr. er afmarkað hvað átt sé við með hugtakinu nákomnir, en efnislega er þetta ákvæði það sama og nú kemur fram í 2. gr. laga nr. 6/1978.

Um 4.–6. gr.


    Í 4.–6. gr. koma fram reglur sem er ætlað að afmarka til hverra manna og félaga aðgerðir geti tekið samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, en reglurnar eru settar fram í einu lagi með þeim hætti að þær taki í senn til heimilda til greiðslustöðvunar og nauðasamningsumleitana og til gjaldþrotaskipta.
    Í fyrsta lagi er að finna almennar reglur í 4. gr. um það hvernig maður, félag eða stofnun þurfi að tengjast íslenska ríkinu með búsetu eða starfsemi hér á landi til að dómstólar hér á landi verði taldir hafa lögsögu til að beita ákvæðum frumvarpsins gagnvart hlutaðeiganda, en í þessu sambandi er vert að vekja athygli á að 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins geyma frekari reglur af þessum meiði varðandi útibú íslenskra félaga erlendis og útibú erlendra félaga sem kynnu að vera starfrækt hér á landi. Sambærilegar reglur koma ekki fram í lögum nr. 6/1978, en ætla má að sömu niðurstöður yrðu fengnar af almennum lagaviðhorfum án beinna lagafyrirmæla. Nefna má að sérreglur í þessu sambandi um útibú erlendra hlutafélaga koma nú að nokkru fram í XVII. kafla laga um hlutafélög, nr. 32/1978, en í 5. tölul. 182. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á þeim, m.a. til samræmis við 2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr.
    Í öðru lagi koma fram reglur í 5. gr. sem er ætlað að útiloka að ákvæði frumvarpsins geti tekið sjálfstætt til tiltekinna félaga, útibúa félaga, firma eða stofnana, ef aðrir bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þeirra, en þess í stað yrðu aðgerðir eftir atvikum að ná í senn til hlutaðeigandi lögpersónu og þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum hennar. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. eiga sér að nokkru hliðstæðu í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 6/1978, en eru að öðru leyti, líkt og 2. mgr. 5. gr., í samræmi við kenningar sem hefur verið stuðst við í framkvæmd. Ákvæði 3. mgr. 5. gr. eru með áþekkum hætti sambærileg þeim sem nú koma fram í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 6/1978.
    Í þriðja lagi má vekja athygli a því að í 1. mgr. 6. gr. er mælt fyrir um heimild dómsmálaráðherra til að gera samninga við önnur ríki um áhrif þess að heimild sé veitt í öðru eða einu samningsríkinu til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana eða að úrskurður gangi þar um gjaldþrotaskipti. Sambærileg almenn heimild er ekki nú fyrir hendi í lögum, en hún er lögð hér til í ljósi þess að unnið hefur verið á undanförnum árum að gerð alþjóðasamnings um þessi efni, m.a. með nokkurri þátttöku af hálfu íslenska ríkisins. Eins og sakir standa á íslenska ríkið aðeins þátt að einum milliríkjasamningi um þessi efni, Norðurlandasamningi um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 21/1934.

Um 7.–9. gr.


    Í 7.–9. gr. koma fram almenn fyrirmæli um efni beiðna og krafna um aðgerðir samkvæmt frumvarpinu, til hvaða héraðsdómstóls slíkum erindum yrði beint hverju sinni, hvernig upplýsingum yrði haldið til haga um þau við dómstólana og hverjir ættu rétt til aðgangs að þeim.
    Í 7. gr. er í einu lagi mælt fyrir um hvers efnis beiðni skuldara um heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana þurfi að vera eða krafa hans eða lánardrottins um gjaldþrotaskipti, auk þess að fram kemur hvað þurfi að fylgja slíku erindi til héraðsdóms. Nánari reglur koma að nokkru fram um efni þessara erinda eða fylgigögn með þeim í 10. gr. varðandi greiðslustöðvun, 34.–36. gr. varðandi nauðasamningsumleitanir og 66. gr. varðandi gjaldþrotaskipti. Almennu reglurnar um þetta í 7. gr. eru að nokkru sama efnis og ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 6/1978, en í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir að ítarlegri upplýsingar komi fram í beiðni, kröfu eða fylgigögnum en nú er mælt fyrir um. Er þetta gert í ljósi reynslu af framkvæmd, enda hafa dómarar orðið að hlutast til um öflun gagna eða upplýsinga um ýmis þau atriði, sem hér er lagt til að sá sem hafi uppi erindi láti í té, þar sem núgildandi lög hafa ekki boðið að slíkt þurfi að koma fram í beiðni eða kröfu eða að fylgja henni.
    Í 8. gr. er að finna reglur um það til hvers héraðsdómstóls skuli leita hverju sinni með beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar og nauðasamningsumleitana og kröfur um gjaldþrotaskipti, svo og með málefni sem þessu tengjast. Aðalreglan í þessum efnum kemur fram í 1. mgr. 8. gr., þar sem lagt er til grundvallar að þetta verði gert á heimilisvarnarþingi skuldarans, sem ræðst af reglum 73.–75. gr. laga nr. 85/1936, en þetta er í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/1978. Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir undantekningu fra umræddri aðalreglu varðandi þau tilvik, þar sem greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir eða gjaldþrotaskipti yrðu að fylgjast að hjá lögpersónu og þeim sem bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum hennar, sbr. 1. mgr. 5. gr., en líkt og nú er heimilað í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/1978 er hér mælt fyrir um að dómsmálaráðherra geti ákveðið að aðgerðir varðandi alla hlutaðeigendur fari fram í sama dómumdæmi þótt þeir eigi þar ekki allir heimilisvarnarþing. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram hvernig héraðsdómari eigi að bregðast við ef honum berst erindi sem ætti ekki undir hann að fara með, en með sama hætti og mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 6/1978 er gert ráð fyrir að héraðsdómari framsendi erindið á réttan stað. Í niðurlagi 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir að frestdagur skuli ráðast af því hvenær beiðni eða krafa hafi borist héraðsdómara þótt í röngu umdæmi hafi verið, en í framkvæmd hefur verið gengið út frá að þessi regla gildi. Loks koma fram reglur í 4. og 5. mgr. 8. gr. um það hvar verði farið með beiðnir eða kröfur eftir fyrirmælum frumvarpsins ef skuldarinn flyst milli dómumdæma eftir að málefni hans hafa komið til kasta héraðsdómstóls. Þessar reglur eru lagðar til í því skyni að taka af tvímæli í þessum efnum, en sambærileg ákvæði eru ekki í lögum nr. 6/1978, sem hefur leitt til óvissu í framkvæmd þau fáu skipti sem hefur reynt á þetta.
    Í 1. og 2. mgr. 9. gr. er dómsmálaráðherra heimilað að setja fyrirmæli í reglugerð um skrár, sem héraðsdómstólum er ætlað að halda um beiðnir, kröfur og dómsmál samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, þingbækur, aðra skráningu upplýsinga og veitingu vottorða. Hliðstæð heimild til að setja reglugerð um þessi efni kemur ekki fram í núgildandi lögum þótt mælt sé fyrir um skráningu vissra upplýsinga við héraðsdómstóla í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 6/1978. Ætti setning reglugerðar um þessi efni að leiða til samræmingar í framkvæmd milli einstakra umdæma, sem ekki er tryggð við núverandi aðstæður, en ástæðulaust þykir að mæla beinlínis fyrir um þessi atriði í lögum.
    Loks er mælt fyrir í 3. mgr. 9. gr. um það hverjir geti notið aðgangs að upplýsingum úr skrám héraðsdómstóla skv. 1. mgr. ákvæðisins, svo og aðgangs að beiðnum, kröfum eða fylgigögnum með þeim. Þessi fyrirmæli eru að efni til áþekk þeim sem nú koma fram í 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 6/1978.

Um 10. gr.


    Þessi grein er upphafsákvæði 2. þáttar frumvarpsins sem fjallar um greiðslustöðvun. Þættinum er skipt í þrjá kafla, en sá fyrsti þeirra, III. kafli frumvarpsins, geymir reglur um heimild til greiðslustöðvunar, í IV. kafla er kveðið á um réttaráhrif greiðslustöðvunar og í V. kafla er mælt fyrir um lok hennar.
    Í 1. mgr. 10. gr. kemur fram að skuldari, sem eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum, geti leitað heimildar til greiðslustöðvunar í því skyni að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda sem hann hafi ráðið til þess verks. Þessi regla er efnislega sú sama og kemur fram í 1. málsl. 7. gr. laga nr. 6/1978 og verður því ekki séð að hún þarfnist sérstakra skýringa hér. Þó má vekja athygli á því annars vegar að áðurgreind ákvæði 4.–6. gr. frumvarpsins takmarka að nokkru leyti hverjir skuldarar í skilningi 1. mgr. 1. gr. geti leitað heimildar til greiðslustöðvunar þótt ekki sé beinlínis vísað til þess í 1. mgr. 10. gr. Hins vegar má benda hér á að þótt 1. mgr. 10. gr. feli í sér viss grundvallarskilyrði fyrir að heimild verði veitt til greiðslustöðvunar, þ.e. að skuldarinn eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum eða sjái fram á þá, að hann vilji koma nýrri skipan á fjármál sín og að hann hafi ráðið sér lögmann eða löggiltan endurskoðanda til aðstoðar, þá er hér engan veginn um tæmandi talningu skilyrða að ræða því í 2. mgr. 12. gr. er nánar mælt fyrir um atvik sem yrðu því til fyrirstöðu að slík heimild væri veitt. Eru ákvæði frumvarpsins í þessum efnum þannig talsvert ítarlegri en fyrirmæli laga nr. 6/1978 um skilyrði greiðslustöðvunar, sem eru tæmandi talin í 7. gr. þeirra.
    Í 2. mgr. 10. gr. er gert ráð fyrir að skuldari verði að gera ítarlega greinargerð um ástæður og eðli fjárhagsörðugleika sinna og hvernig hann ætli að leysa úr þeim með greiðslustöðvun, en sú greinargerð komi annað tveggja fram í beiðni hans eða í sérstöku fylgiskjali með henni. Í greinargerðinni ætti enn fremur að tiltaka hvern skuldarinn hafi ráðið sér til aðstoðar við greiðslustöðvun. Í lögum nr. 6/1978 er ekki mælt fyrir um nauðsyn slíkrar greinargerðar, en í framkvæmd hefur nú um árabil verið gengið út frá að þessar upplýsingar verði að koma fram í sambærilegu horfi og miðar þetta ákvæði frumvarpsins því að lögfestingu þeirrar venju. Í 2. mgr. 10. gr. er enn fremur ráðgert að skuldarinn verði að leggja fram með beiðni sinni yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um að bókhald skuldarans sé í því formi sem mælt er fyrir um í lögum um bókhald nr. 51/1968. Sambærilegur áskilnaður er ekki gerður í lögum nr. 6/1978, en þetta er lagt hér til í því skyni að tryggja að hægt verði að ganga út frá að þær upplýsingar megi vera áreiðanlegar sem ætlast er til að skuldarinn láti af hendi í tengslum við greiðslustöðvunarbeiðni og styðjast við upplýsingar úr bókhaldi hans.
    Í ákvæðum laga nr. 6/1978 er hvergi mælt fyrir um það að aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun þurfi að fullnægja öðrum skilyrðum en að vera lögmaður, þ.e. að hafa réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, eða löggiltur endurskoðandi. Er þannig ekkert sem beinlínis útilokar að til dæmis lögmaður eða löggiltur endurskoðandi verði aðstoðarmaður félags við greiðslustöðvun þótt hann eigi verulegan hluta í því. Sú aðstaða verður að teljast mjög óheppileg því augljóst er að hún geti leitt til tortryggni af hendi lánardrottna skuldarans. Til að fyrirbyggja að þetta geti gerst er lagt til í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins að aðstoðarmaður skuldarans verði að vera lögmaður eða löggiltur endurskoðandi og auk þess verði hann að fullnægja tilteknum hæfisskilyrðum sem í flestum atriðum eru hliðstæð ákvæðum 75. gr. frumvarpsins um hæfi skiptastjóra við gjaldþrotaskipti.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er kveðið á um aðgerðir héraðsdómara þegar honum hefur borist beiðni skuldara um heimild til greiðslustöðvunar. Er gert ráð fyrir að héraðsdómari boði skuldarann til þinghalds af þessu tilefni eða setji eftir atvikum þing þegar komið er með beiðnina og taki hana formlega fyrir. Ef ekki yrði mætt til þinghalds sem héraðsdómari boðaði til í þessu skyni af hálfu skuldara yrði beiðni hans talin afturkölluð, sbr. 3. mgr. 11. gr. Ef hins vegar yrði mætt þar af hálfu skuldarans er ætlast til þess í 2. mgr. 11. gr. að héraðsdómari leiti upplýsinga um atriði sem koma ekki nægilega fram í beiðninni eða fylgigögnum með henni en gætu haft þýðingu við mat á henni eftir ákvæðum 2. mgr. 12. gr. Þá er einnig ráðgert í 2. mgr. 11. gr. að héraðsdómari geti veitt skuldaranum skamman frest til að leggja fram frekari gögn eða veita nánari upplýsingar um málefnið eða til að ráða aðstoðarmann sem fullnægir hæfisskilyrðum 3. mgr. 10. gr. ef annmarkar eru á hæfi þess sem var upphaflega ráðinn. Svipuð heimild til frestunar á meðferð beiðni um heimild til greiðslustöðvunar kemur nú fram í 5. gr. laga nr. 6/1978, en að öðru leyti eiga ákvæði 11. gr. frumvarpsins sér ekki hliðstæður í núgildandi lögum þótt almennt hafi verið farið svo að í framkvæmd sem ráðgert er í þeim.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. 12. gr. kemur fram að héraðsdómari verði að taka afstöðu til beiðni um heimild til greiðslustöðvunar í úrskurði sem honum er ætlað að kveða upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun um beiðnina skv. 11. gr. er lokið. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 6/1978 og þarfnast því ekki frekari skýringa.
    Í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins eru talin atriði í átta töluliðum sem héraðsdómari yrði að taka tillit til við mat á því hvort heimild til greiðslustöðvunar verði veitt og gætu leitt til þess að honum bæri að synja um heimildina af sjálfsdáðum. Að frátöldu því að ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. eiga sér hliðstæðu í síðari málslið 7. gr. laga nr. 6/1978 er ekki að finna sambærilega talningu hindrana við heimild til greiðslustöðvunar í umræddum lögum. Reglurnar sem eru lagðar til í þessum efnum í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins eiga sér hins vegar að mestu fyrirmyndir í venjum sem hafa myndast í framkvæmd á undanförnum árum og er þeim því ekki ætlað að leiða til neinna verulegra breytinga frá því sem nú gildir.
    Í 3. mgr. 12. gr. er breyting lögð til frá núgildandi reglum, með því að ef héraðsdómari telur skilyrði til að veita heimild til greiðslustöðvunar þá er ætlast til að heimildin standi aðeins til bráðabirgða, eða til allt að þriggja vikna, en skuldarinn geti síðan leitað framlengingar á heimildinni eftir að hafa kynnt lánardrottnum stöðu mála og gefið þeim kost á að koma fram viðhorfum sínum, sbr. 13.–18. gr. Ákvæði 3. mgr. 12. gr., sem eiga sér fyrirmynd í ákvæðum danskrar löggjafar eins og þeim var breytt á árinu 1984, eru þáttur í þeirri viðleitni að baki ýmsum reglum III. kafla frumvarpsins, sem vikið var að í almennum athugasemdum hér áður, að auka afskiptarétt lánardrottna skuldarans af veitingu heimildar til greiðslustöðvunar. Eftir ákvæðum 7. og 10. gr. laga nr. 6/1978 eiga lánardrottnar ekki afskipti sem þessi af veitingu heimildar til greiðslustöðvunar, heldur er héraðsdómara ætlað að taka afstöðu til beiðni um slíka heimild og veita hana í allt að þrjá mánuði í einum áfanga án þess að honum verði kynnt annað í þeim efnum en viðhorf skuldarans sjálfs. Í ákvæðum 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að héraðsdómari marki lengd þessa bráðabirgðatímabils greiðslustöðvunar með ákvörðun um þinghald, þar sem skuldaranum gæfist kostur á að leggja fram beiðni um framlengingu heimildarinnar til allt að þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 4. mgr. 17. gr. Fyrsta tímabil greiðslustöðvunar stæði þannig þar til umrætt þinghald yrði háð, en ef beiðni um framlengingu heimildarinnar kæmi þar fram er gert ráð fyrir að upphaflegi greiðslustöðvunartíminn lengist sjálfkrafa þar til héraðsdómari tæki afstöðu til beiðninnar í úrskurði, en þó ekki lengur en um eina viku, sbr. 1. mgr. 17. gr. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. er héraðsdómari bundinn við það að umrætt þinghald verði háð innan þriggja vikna frá því hann kveður upp úrskurð sinn um upphaflega beiðni skuldarans, en héraðsdómari hefur þar hins vegar frjálsar hendur til ákvörðunar um lengd tímans innan þessara marka. Má þó ætla að yfirleitt yrði að haga þessari ákvörðun þannig að skuldarinn og aðstoðarmaður hans hefðu sem næst þrjár vikur til ráðstöfunar, enda gæti annars orðið örðugt fyrir þá að sinna þeim viðfangsefnum á þessu fyrsta tímabili sem þeim eru lagðar á herðar í 13. og 14. gr.
    Í 4. mgr. 12. gr. er mælt svo fyrir að úrskurður héraðsdómara, þar sem hann tæki afstöðu til upphaflegrar beiðni skuldarans um heimild til greiðslustöðvunar geti ekki sætt kæru til Hæstaréttar og gildir einu hvort úrskurðurinn kvæði á um höfnun beiðninnar eða að hún væri tekin til greina. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 6/1978 verður úrskurði héraðsdómara, þar sem beiðni um heimild til greiðslustöðvunar er hafnað, ekki skotið til æðra dóms, en gagnstæð regla gildir um úrskurði þar sem heimildin er veitt. Er því varðandi síðarnefnda atriðið gert ráð fyrir breytingu frá núgildandi reglum í 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Tillaga er gerð um þessa breytingu í ljósi þess að greiðslustöðvunartími samkvæmt úrskurði héraðsdómara, sem 4. mgr. 12. gr. tæki til, yrði aldrei lengri en þrjár vikur, sbr. 3. mgr. 12. gr., þannig að ósennilegt væri að Hæstiréttur gæti fellt dóm í slíku máli áður en sá tími væri á enda og væru þá ekki neinir hagsmunir tengdir því að fá leyst úr málinu eftir það. Að auki bjóðast lánardrottnum skuldarans úrræði í 16. og 26. gr. til að gæta hagsmuna sinna varðandi greiðslustöðvunarheimild fyrir héraðsdómi, sem verður að telja nærtækara úrræði en að heimila málskot úrskurðar sem hefur áhrif jafn skamman tíma og hér um ræðir.

Um 13. og 14. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins koma fram reglur sem er ætlað að stuðla að því að lánardrottnar skuldarans eigi kost á að koma á framfæri viðhorfum sínum til ráðagerða hans um aðgerðir til að koma nýrri skipan á fjármál sín og eiga þá eftir atvikum óbeinan þátt í ákvörðunartöku um hvernig verði staðið að þeim. Þessar reglur eiga sér nokkra fyrirmynd í ákvæðum danskrar löggjafar eins og þeim var breytt á árinu 1984.
    Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins hvílir sú skylda á aðstoðarmanni skuldarans að tilkynna öllum lánardrottnum, sem vitað er um, tafarlaust um veitingu heimildar til greiðslustöðvunar og boða þá um leið til fundar við sig, sem ber að halda að minnsta kosti þremur sólarhringum áður en þinghald verður háð við lok upphaflegs greiðslustöðvunartíma, sbr. 3. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ber aðstoðarmanninum að senda þetta fundarboð í útbornu ábyrgðarbréfi, símskeyti eða á annan sannanlegan hátt, með fyrirvara sem verður talinn hæfilegur til að lánardrottnar geti komið við að sækja fund um málefni skuldarans eða að senda umboðsmann fyrir sína hönd. Í þessu ákvæði er ætlast til að fram komi í fundarboði hvar og hvenær fundurinn verði haldinn, hvenær heimild hafi verið veitt til greiðslustöðvunar og hvenær héraðsdómari taki málefnið aftur fyrir á dómþingi við lok upphaflegs greiðslustöðvunartíma, sbr. 3. mgr. 12. gr. Með síðastnefndu atriði tilkynningarinnar er leitast við að tryggja að lánardrottnum berist vitneskja um það hvenær umrætt dómþing verði háð, til þess að þeir geti eftir atvikum mætt þar og haldið uppi andmælum gegn því að skuldaranum verði veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar, sbr. 16. gr., en réttur lánardrottna til að koma fram slíkum andmælum yrði óháður því hvort þeir mættu til fundar sem aðstoðarmaður skuldarans boðar til eftir ákvæðum 13. gr.
    Ákvæði koma síðan fram í 14. gr. um það hvað verði fjallað um á fundi sem væri boðað til skv. 13. gr. Er ætlast þar til að aðstoðarmaður skuldarans geri ítarlegar skrár um eignir og skuldir skuldarans áður en kæmi að fundinum, en þessar skrár yrðu lagðar þar fram til upplýsinga fyrir lánardrottna og sem grundvöllur frekari umræðna. Enn fremur kemur fram í 1. mgr. 14. gr. að á fundinum beri aðstoðarmanninum að kynna lánardrottnum hvernig ætlunin sé að reyna að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans, hvað hafi þegar verið gert í því skyni og hvort leitað verði heimildar til framlengingar á greiðslustöðvun. Aðstoðarmanninum er og ætlað að leita afstöðu lánardrottna til þessara atriða og tillagna þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. á aðstoðarmaður skuldarans að stjórna þessum fundi og færa fundargerð, en í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að aðstoðarmanninum beri að gæta að því að viðhorf lánardrottna komi skýrlega fram í fundargerð. Þessi áskilnaður á rætur að rekja til þess að skv. 2. mgr. 15. gr. ber að leggja fundargerð þessa fyrir héraðsdómara ef skuldarinn æskir áframhaldandi heimildar til greiðslustöðvunar að loknum upphaflega greiðslustöðvunartímanum, en með þessum hætti ætti héraðsdómari aðgang að upplýsingum um viðhorf lánardrottna skuldarans í þessum efnum.
    Ástæða er til að taka hér fram að ekki er ætlast til að lánardrottnar taki ákvarðanir um hagsmuni skuldarans á fundi sem þessum eða að þeir greiði atkvæði eða álykti um fylgi við áframhaldandi heimild handa honum til greiðslustöðvunar. Er þannig aðeins stefnt að því að fundurinn fari fram til að lánardrottnar eigi þess kost að fá upplýsingar um hag skuldarans og fyrirhugaðar aðgerðir og greiði eftir atvikum fyrir um framhald mála með því að láta þar uppi hvernig þeir yrðu fáanlegir til að koma til móts við þarfir skuldarans. Ef lánardrottnar teldu þær ráðagerðir athugaverðar, sem þeim yrðu kynntar á þessum fundi, ættu þeir kost á að mæta á dómþingi þar sem skuldarinn legði fram beiðni um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar og mótmæla því að hún yrði tekin til greina, sbr. 16. gr. Af þessum sökum má væntanlega sjá að ekki er ætlast hér til að fundartíma verði varið til langvarandi umræðna, t.d. um hvort áframhaldandi greiðslustöðvun geti átt rétt á sér, því á fundinum yrði ekkert aðhafst til að taka af skarið um hvort til slíks áframhalds komi, heldur yrði lánardrottinn sem ekki vildi sætta sig við það að láta uppi andstöðu sína fyrir dómi.
    Að endingu er rétt að nefna í tengslum við ákvæði 13. og 14. gr. að þau leggja öneitanlega þýðingarmikið starf í hendur aðstoðarmannsins sem skuldarinn hefur sjálfur valið til starfans. Aðstoðarmanninum er hér lagt í hendur að boða lánardrottna til fundar sem hann stjórnar síðan sjálfur og þar sem hann færir fundargerð til að lýsa viðhorfum þeirra. Því verður ekki neitað að aðstoðarmanninum geti orðið á mistök í þessum efnum eða að hann hreinlega sinni ekki sínu hlutverki sem skyldi. Staða lánardrottna er þó tryggð gagnvart slíkri aðstöðu, því skv. 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. getur vanræksla aðstoðarmannsins varðað synjun um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar og skv. 26. gr. getur lánardrottinn krafist fyrir héraðsdómi að heimild til greiðslustöðvunar verði felld niður af þessum sökum. Þá ber einnig að hafa í huga að skv. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 17. gr. gætir héraðsdómari að því, ef óskað er áframhaldandi heimildar til greiðslustöðvunar, hvort staðið hafi verið eðlilega að störfum og hvort heimildin muni þjóna eðlilegum tilgangi, en þessi athugun héraðsdómara tæki þá eftir eðli sínu til atriða sem sérstaklega varða hagsmuni lánardrottna skuldarans þótt hún beindist reyndar aðeins að þeim gögnum sem skuldarinn legði sjálfur fram með beiðni sinni ef enginn lánardrottinn mótmælti henni.

Um 15.–17. gr.


    Í 15. gr. er fjallað um hvernig skuldarinn eigi að bera sig að ef hann æskir framlengingar á heimild sinni til greiðslustöðvunar þegar upphaflega heimild hans, eins og héraðsdómari hefur ákveðið lengd hennar skv. 3. mgr. 12. gr., er að enda komin. Í 1. mgr. 15. gr. kemur fram að skuldarinn eigi þá að leggja skriflega beiðni um þetta fyrir héraðsdómara í því þinghaldi sem áður var ákveðið til að marka lok greiðslustöðvunartímans. Með beiðninni eiga að fylgja tiltekin gögn, sem eru nánar talin í 2. mgr. 15. gr., en þessum gögnum er ætlað að leiða öðru fremur í ljós hvort forsendur geti verið fyrir áframhaldandi greiðslustöðvun. Er því vert að leggja áherslu á að þessi gögn verði að vera vandlega úr garði gerð og þá ekki síst sú greinargerð aðstoðarmanns skuldarans, sem ráðgert er í ákvæðinu að verði lögð fram, en þar er ætlast til að fram komi í senn frásögn af því sem hefur þegar verið gert við greiðslustöðvun og af því sem stendur fyrir dyrum að gera til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans.
    Í tengslum við ákvæði 15. gr. er rétt að vekja athygli á því að ef skuldarinn mætir ekki til þess þinghalds sem markar lok upphaflegs greiðslustöðvunartíma eða ef hann leggur þar ekki fram beiðni um áframhaldandi heimild þá lýkur greiðslustöðvuninni þar með sjálfkrafa, sbr. 1. mgr. 23. gr. Héraðsdómari yrði að setja þing þótt skuldarinn mætti ekki undir þessum kringumstæðum, en þar þyrfti ekki annað að gera en að bóka að ekki væri mætt af hálfu skuldarans og að heimild hans væri þar með á enda.
    Í 16. gr. er að finna heimild, sem hefur verið minnst á hér áður, handa lánardrottnum skuldarans, einum eða fleiri, til að mæta á dómþinginu sem markar lok upphaflegs greiðslustöðvunartíma og koma þar fram mótmælum gegn því að beiðni skuldarans um framlengingu heimildarinnar verði tekin til greina. Er ætlast til þess í 16. gr. að lánardrottinn, sem vill neyta þessa réttar, leggi fram í þinghaldinu skrifleg og rökstudd mótmæli sín, en ef hvorki hann né skuldarinn falla frá kröfum sínum verði héraðsdómari að fara með málefnið eftir reglum 166. gr. og XXIV. kafla frumvarpsins og kveða þá upp úrskurð um hvort áframhald verði á heimild til greiðslustöðvunar að teknu tilliti til framkominna mótmæla. Ákvæði 16. gr. eiga sér ekki hliðstæðu í lögum nr. 6/1978 og hafa því lánardrottnar, sem vilja ekki una við heimild skuldara til greiðslustöðvunar, þannig orðið að kæra úrskurð um heimildina til Hæstaréttar til að leitast við að fá henni hnekkt. Tilhögun 16. gr. frumvarpsins ætti að leiða til töluverðrar einföldunar og létta um leið óþarfa álagi af æðra dómstiginu.
    Um heimildir 16. gr. er að öðru leyti rétt að vekja athygli á því að þargreind réttindi til mótmæla eru veitt lánardrottnum skuldarans. Með hugtakinu lánardrottni er hér eftir bókstaflegum skilningi átt við þá sem eiga peningakröfu á hendur skuldaranum og má því almennt ganga Lít frá því að þeir sem eigi annars konar kröfur á hendur honum njóti ekki þessa réttar. Þannig yrði til dæmis maður, sem teldi sig eiga tilkall til hlutar í vörslum skuldarans, ekki talinn lánardrottinn í þessum skilningi þótt hann kynni vissulega að eiga kröfu á hendur skuldaranum. Í þessum efnum verður almennt að gefa því gaum að greiðslustöðvun fyrirbyggir fullnustu á peningakröfum gagnvart skuldaranum, sbr. 22. gr., en ekki á kröfum annars efnis, og hlýtur því að leiða af sjálfu sér að kröfuhafar, sem hafa uppi tilkall til annars en peningagreiðslu, leiti fullnustu á þeim réttindum eftir almennum reglum en hafi ekki afskipti af heimild skuldarans til greiðslustöðvunar sem takmarkar ekki rétt þeirra. Annað álitaefni getur einnig varðað lánardrottinshugtakið í 16. gr., en það er nánar tiltekið hvernig brugðist verði við ef maður hefði uppi mótmæli gegn áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar og bæri því við að hann ætti peningakröfu á hendur skuldaranum, sem skuldarinn kannast ekki við að eigi við rök að styðjast. Um þessa aðstöðu er rétt að taka fram að regla 16. gr. áskilur ekki að sá einn verði talinn lánardrottinn sem fari með óumdeilda peningakröfu á hendur skuldaranum. Er því ljóst að héraðsdómari gæti orðið að taka afstöðu til þess í úrskurði um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar hvort peningakrafa þess, sem hefur mótmælt veitingu heimildarinnar, eigi við rök að styðjast og hann njóti þannig réttar til að hafa uppi mótmælin. Ef peningakrafa hans þætti ekki eiga við rök að styðjast yrði um aðildarskort að ræða af hans hendi til að hafa uppi mótmæli gegn veitingu áframhaldandi heimildar til greiðslustöðvunar og yrði því ekki unnt að taka frekara tillit til mótmæla hans. Ef hins vegar þætti nægilega sýnt fram á að peningakrafan væri réttmæt yrði að leysa úr mótmælum hlutaðeiganda eins og hann hefði farið með óumdeilda kröfu á hendur skuldaranum.
    Í 17. gr. er fjallað um hvernig héraðsdómari leysi úr um hvort skuldaranum verði veitt áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar, en þessi ákvæði geta átt jafnt við hvort sem lánardrottinn hefði uppi mótmæli gegn óskum skuldarans skv. 16. gr. eða ekki.
    Í 1. mgr. 17. gr. kemur fram sú regla að ef skuldarinn mætir á dómþingi, sem markar lok upphaflegs greiðslustöðvunartíma, og leggur þar fram beiðni um áframhaldandi heimild, þá framlengist greiðslustöðvunartíminn sjálfkrafa þar til héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um beiðnina, þó aldrei lengur en í eina viku. Þessi sjálfvirka framlenging kæmi jafnt til hvort sem mótmæli væru höfð uppi gegn veitingu áframhaldandi heimildar eða ekki, en hún hefði hins vegar engin áhrif á heildarlengd greiðslustöðvunartímans ef beiðni skuldarans yrði tekin til greina, því í úrskurði héraðsdómara yrði kveðið á um framlengingu greiðslustöðvunar frá því þinghaldi að telja þar sem beiðni var lögð fram um hana, sbr. 4. mgr. 17. gr. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að ef héraðsdómara tækist ekki að kveða upp úrskurð um beiðni skuldarans um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar innan þeirrar viku, sem um ræðir í 1. mgr. 17. gr., þá félli heimild skuldarans sjálfkrafa úr gildi við lok hennar, sbr. 3. mgr. 23. gr.
    Í 2. mgr. 17. gr. eru talin upp atriði í fimm töluliðum sem geta valdið að héraðsdómara beri að synja um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar. Reglur þessa efnis eiga sér ekki samsvörun í núgildandi lögum, en í flestum atriðum má segja að hér sé verið að leggja til að lögfest verði viðhorf sem hefur verið beitt um árabil í framkvæmd. Ætla má að einstök atriði í 1.–5. tölul. 2. mgr. 17. gr. skýri sig sjálf, en rétt er að benda sérstaklega á það að orðalagið í upphafi málsgreinarinnar ber með sér að héraðsdómara sé skylt að synja um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar við þessar aðstæður, þannig að honum bæri að huga að þessum atriðum af sjálfsdáðum eftir því sem framkomin gögn gefa tilefni til. Fyrst og fremst gæti reynt á slíka sjálfsdáðarskoðun dómara í tilvikum þar sem lánardrottinn hefur ekki mótmælt veitingu áframhaldandi heimildar til greiðslustöðvunar samkvæmt ákvæðum 16. gr., en jafnvel þótt slík mótmæli kæmu fram væri héraðsdómari ekki háður því í úrlausn sinni hvort mótmæli gegn veitingu heimildarinnar hafi byggst á tiltekinni reglu 2. mgr. 17. gr. sem kynni að geta átt við um fyrirliggjandi aðstæður.
    Í 3. mgr. 17. gr. er mælt fyrir um að úrskurði héraðsdómara um höfnun áframhaldandi heimildar til greiðslustöðvunar verði ekki skotið til æðra dóms, en þetta ákvæði á sér hliðstæðu í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 6/1978. Gagnályktun frá þessu ákvæði frumvarpsins leiðir þannig til þess að lánardrottinn skuldarans gæti kært úrskurð héraðsdómara um framlengingu greiðslustöðvunarheimildar til Hæstaréttar, hvort sem hann hafði uppi mótmæli gegn óskum skuldarans um það skv. 16. gr. eða ekki. Hér er hins vegar ástæða til að vekja sérstaka athygli á því að þótt slíkt málskot væri heimilt þá yrði að telja það óeðlilegt og að nokkru í andstöðu við ætlan annarra reglna frumvarpsins að lánardrottinn kærði úrskurð héraðsdómara ef hann hefði ekki haft uppi mótmæli gegn veitingu heimildarinnar skv. 16. gr. Væri þá nærtækara að lánardrottinn brygðist þannig við aðstæðum sem þessum að krefjast niðurfellingar heimildar skuldarans eftir ákvæðum 26. gr., en úrskurði héraðsdómara um höfnun slíkrar kröfu mætti skjóta til Hæstaréttar.
    Í 4. mgr. 17. gr. er mælt fyrir um hvernig ákvörðun héraðsdómara um framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar eigi að koma fram í úrskurði hans, en þetta yrði gert með þeim hætti að tiltekið væri að heimildin sé framlengd til þinghalds sem verði háð á tilteknum tíma innan þriggja mánaða frá því beiðni um framlenginguna var lögð fram skv. 1. mgr. 15. gr. Hér væri annað tímabil greiðslustöðvunar því afmarkað með sambærilegum hætti og ætlast er til að yrði gert í öndverðu eftir reglu 3. mgr. 12. gr. Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. er héraðsdómari bundinn af því að framlenging geti ekki orðið lengri en þar er mælt fyrir um, en hins vegar væri honum í lófa lagið að kveða á um skemmri framlengingu, t.d. ef fyrir liggur að niðurstaða ráðist um hvort ný skipan komist á fjármál skuldarans innan mánaðar frá því óskað er framlengingar á heimildinni. Tíðkast hefur um árabil í framkvæmd að framlengja heimild til greiðslustöðvunar um skemmri tíma en nemur hámarksfresti eftir ákvæðum II. kafla laga nr. 6/1978, en að veita þá framlengingu oftar en einu sinni ef þörf krefur. Í 4. mgr. 18. gr. frumvarpsins eru tekin af tvímæli um að þetta megi gera ef efni þykja til og gæti því héraðsdómari t.d. framlengt heimild til greiðslustöðvunar þrívegis um einn mánuð í senn í stað þess að framlengja einu sinni um þriggja mánaða hámark 4. mgr. 17. gr.
    Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ber aðstoðarmanni skuldara að tilkynna lánardrottnum tafarlaust um úrskurð héraðsdómara um beiðni um framlengingu greiðslustöðvunar á sannanlegan hátt og er hér ekki gerður greinarmunur á því hvort héraðsdómari taki beiðnina til greina eða ekki, sbr. einnig 5. mgr. 23. gr.

Um 18. gr.


    Í 18. gr. kemur fram heimild handa skuldaranum til að æskja frekari framlengingar á greiðslustöðvun en mælt er fyrir um í 17. gr., en eins og ráðið verður af orðalagi 1. og 2. mgr. 18. gr. er ætlast til að slík framlenging verði ekki veitt nema sýnt sé fram á veruleg líkindi fyrir að hún leiði til árangurs sem ekki mátti vænta að fengist á þeim tíma sem áður er liðinn. Þetta skilyrði fyrir frekari framlengingu heimildarinnar er í samræmi við þann skilning sem hefur verið lagður í ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/1978 í framkvæmd.
    Aðferðirnar til að afla aukinnar framlengingar greiðslustöðvunar eftir 18. gr. eru í reynd þær sömu og mælt er fyrir um í 13.–17. gr. og áður hefur verið lýst. Þannig yrði aðstoðarmaðurinn að boða lánardrottna skuldarans á ný til fundar við sig og leggja þar fram ný gögn og veita þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 14. gr., sbr. tilvísun til þess ákvæðis í niðurlagi 1. mgr. 18. gr. Skuldarinn yrði síðan að leggja fram skriflega beiðni um framlengingu heimildar sinnar í því þinghaldi, sem héraðsdómari hefði áður ákveðið og hefði annars markað lok greiðslustöðvunartímans, sbr. 4. mgr. 17. gr. Lánardrottnum gæfist sem fyrr kostur á að hafa uppi mótmæli gegn beiðni skuldarans eftir reglum 16. gr., en héraðsdómari legði síðan mat á það hvort skilyrði væru til að verða við henni eftir reglum 2. mgr. 17. gr. hvort sem mótmæli kæmu fram eða ekki. Undir þessum kringumstæðum yrði héraðsdómari þó að auki að huga sérstaklega að því hvort almennum skilyrðum 1. og 2. mgr. 18. gr. til frekari framlengingar heimildarinnar væri fullnægt. Ef svo væri, yrði enn kveðið á um það í úrskurði að heimildin væri framlengd, en skv. 3. mgr. 18. gr. mætti greiðslustöðvun þó aldrei standa til lengri tíma en alls sex mánuði frá þinghaldi við lok fyrsta greiðslustöðvunartímabilsins, sbr. 3. mgr. 12. gr. Ef greiðslustöðvun væri framlengd innan umrædds sex mánaða hámarks 3. mgr. 18. gr. yrði héraðsdómari að marka lok hennar með ákvörðun nýs þinghalds, enda væri enn ekki útilokað að skuldarinn kynni að geta leitað eftir framlengingu upp í hámarkstímann. Ef greiðslustöðvunin væri hins vegar ákveðin upp í þennan hámarkstíma kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að þinghald yrði ekki ákveðið við lok hans, heldur yrði þá héraðsdómari að mæla fyrir um það í úrskurði sínum að heimildin til greiðslustöðvunar væri veitt til tiltekins dags við lok sex mánaða frestsins.
    Í 4. mgr. 18. gr. eru tekin af tvímæli um að framlengja megi greiðslustöðvun oftar en einu sinni innan hámarkstíma 3. mgr. 18. gr., en fjallað var um helstu atriði þessa ákvæðis í athugasemdum við 4. mgr. 17. gr. hér á undan, sem hér má vísa til.

Um 19.–22. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins koma fram reglur um réttaráhrif heimildar til greiðslustöðvunar, en í þeim kemur annars vegar fram hvernig þessi heimild takmarki kosti skuldarans til að ráðstafa hagsmunum sínum og hins vegar hvernig hún hafi áhrif á rétt lánardrottna skuldarans til að ganga að honum. Ákvæðum 19.–22. gr. er ætlað að koma í stað 8. gr. laga nr. 6/1978, en rétt er að taka fram að hér er gert ráð fyrir afnámi 9. gr. nefndra laga, sem felur aðeins í sér tilvísun til þess að reglur 39.–41. gr. kaupalaga, nr. 39/1922, gildi um greiðslustöðvun, enda verður að telja þær reglur sýnilega eiga við undir þessum kringumstæðum án sérstakrar tilvísunar.
    Í heild má segja um ákvæði 19.–22. gr. frumvarpsins að þeim sé ekki ætlað að leiða til teljandi breytinga frá reglu 8. gr. laga nr. 6/1978 nema um þau atriði, sem hér verður vikið sérstaklega að. Ákvæði 19.–22. gr. eru hins vegar sett fram með þeim hætti að reynt er að taka af meiri nákvæmni á einstökum atriðum en beinlínis er gert í núgildandi lögum, en í þeim efnum er að mestu byggt á viðhorfum sem hafa verið ríkjandi í framkvæmd.
    Af breytingartillögum í þessum ákvæðum má í fyrsta lagi benda á að í 19. gr. er gert ráð fyrir stórum meiri afskiptum aðstoðarmanns af ráðstöfunum á hagsmunum skuldarans en nú er mælt beinlínis fyrir um í lögum, en eins og nefnt var hér áður í almennum athugasemdum hafa verulega skiptar skoðanir verið uppi í framkvæmd um hvernig eigi að skýra ákvæði laga nr. 6/1978 að þessu leyti. Í 19. gr. frumvarpsins kemur fram að aðstoðarmaðurinn verði í reynd að samþykkja sérhverja ráðstöfun sem gripið verði til varðandi fjárhagsleg málefni skuldarans, en eftir atvikum geti aðstoðarmaðurinn þó gefið skuldaranum eða starfsmanni hans almenna heimild með skriflegri yfirlýsingu til vissra minni háttar ráðstafana innan marka tiltekinnar fjárhæðar, sbr. 2. mgr. 19. gr. Er með þessu verið að stefna að því að gera aðstoðarmanninn ábyrgan gagnvart lánardrottnum skuldarans fyrir því að ekkert verði gert við greiðslustöðvun til að rýra hag þeirra, enda leiðir af ákvæðum 3. mgr. 19. gr. að aðstoðarmanninum beri að gæta af sjálfsdáðum að því að skuldarinn fari ekki út fyrir heimildir sínar. Þetta er lagt hér til í því skyni að draga úr misnotkun heimildar til greiðslustöðvunar í þessu tilliti, en finna má nokkur dæmi um það í framkvæmd á liðnum árum að stórfellt undanskot eigna hafi átt sér stað undir greiðslustöðvun. Í tengslum við þessa skipan 19. gr. er rétt að benda á að aðstoðarmanninum gefst kostur á að firra sig ábyrgð á athöfnum skuldarans, ef hann telur ástæðu til, með því að neyta heimildar 24. eða 25. gr. til að færast undan frekari störfum. Þá er og rétt að nefna það sérstaklega í þessu sambandi að þessi breytta skipan er afgerandi forsenda fyrir þeim nýmælum sem eru lagðar til í 4. tölul. 110. gr. um stöðu þeirra krafna í skuldaröð, sem hafa orðið til á greiðslustöðvunartíma, en að þeim nýmælum verður vikið nánar hér á eftir.
    Í öðru lagi má geta þess að í 20. gr. frumvarpsins er tekið af skarið um það að skuldaranum sé heimilt að ráðstafa eignum sínum í nánar tilteknu skyni þótt hann hafi heimild til greiðslustöðvunar, en skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvernig eigi að skýra 1. mgr. 8. gr. laga nr. 6/1978 varðandi þetta. Í dómaframkvæmd hefur það viðhorf hlotið viðurkenningu að skuldaranum geti verið nauðsynlegt að koma eignum sínum í verð til að greiðslustöðvun geti borið árangur og er sú leið farin í 20. gr. frumvarpsins að mæla m. a. beinlínis fyrir um slíka heimild.
    Í þriðja lagi er ástæða til að nefna að regla 3. mgr. 8. gr. laga nr. 6/1978, þar sem segir að ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda taki ekki gildi meðan á greiðslustöðvun standi, getur eftir bókstaflegri skýringu gefið tilefni til að álykta m.a. að lánardrottinn njóti ekki réttar til að krefjast dráttarvaxta af peningakröfu vegna þess tímabils sem greiðslustöðvun varir. Þrátt fyrir það virðist sem gengið hafi verið út frá því gagnstæða í þessum efnum í framkvæmd allar götur frá gildistöku laganna. Til að taka af tvímæli í þessum efnum er gert ráð fyrir nokkuð breyttu orðalagi umræddrar reglu í 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er berum orðum tekið fram að lánardrottinn njóti réttar til dráttarvaxta, dagsekta eða févítis vegna vanefnda skuldarans án tillits til heimildar til greiðslustöðvunar.
    Loks má nefna í fjórða lagi að í 3. mgr. 22. gr. er tekin afstaða til þess í hverjum mæli heimild til greiðslustöðvunar geti staðið í vegi fyrir að stjórnvöld neyti þvingunarúrræða gagnvart skuldaranum vegna vanefnda hans, en skýr svör koma ekki fram við spurningum um þetta í núgildandi lögum. Hefur þetta m.a. leitt til óvissu um hvort gjaldheimtur og innheimtumenn ríkissjóðs geti neytt heimilda til að loka atvinnustarfsemi vegna vanskila á staðgreiðsluskatti og virðisaukaskatti, svo eitthvað sé nefnt. Reglan sem er lögð til í þessum efnum er í samræmi við þær skoðanir sem virðast fremur hafa verið ríkjandi í framkvæmd.

Um 23.–26. gr.


    Í 23.–26. gr. er að finna fyrirmæli um hvernig greiðslustöðvun ljúki. Almennar reglur um þetta koma fram í 23. gr., sem eiga sér að nokkru hliðstæður í 12. gr. laga nr. 6/1978. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um þá nánast sjálfgefnu reglu í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins að greiðslustöðvun falli niður við lok þess tíma, sem héraðsdómari hefur markað henni með úrskurði sínum, enda komi þá ekki fram beiðni skuldarans um áframhald hennar og hámarkstíma greiðslustöðvunar skv. 3. mgr. 18. gr. hefur ekki enn verið náð. Í öðru lagi eru talin upp í 2. mgr. 23. gr. fimm atriði sem leiða sjálfkrafa til þess að heimild til greiðslustöðvunar falli niður þótt tími hennar sé ekki runnin út, en tvö fyrsttöldu atriðin í þessu sambandi eiga sér fyrirmyndir í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 6/1978, meðan almennt hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að hin atriðin þrjú hafi sömu afleiðingar í för með sér þótt þeirra sé ekki berum orðum getið í núgildandi lögum. Í þriðja lagi kemur síðan fram í 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins að greiðslustöðvun falli þegar niður við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara, þar sem annað tveggja væri hafnað beiðni um áframhaldandi heimild til hennar eða heimildin væri felld niður eftir reglum 24., 25. eða 26. gr. Þá er þess og getið að heimildin falli sjálfkrafa niður að liðnum þeim vikufresti, sem um ræðir í 1. mgr. 17. gr., hafi héraðsdómari ekki framlengt hana með úrskurði innan frestsins. Þótt það sé ekki tekið beinlínis fram í 3. mgr. 23. gr. hefði dómur Hæstaréttar um niðurfellingu greiðslustöðvunarheimildar eða um höfnun framlengingar hennar vitanlega sömu áhrif, ef gagnstæðum úrskurði héraðsdómara væri skotið til æðra dóms og sætti þar slíkri breytingu. Loks kemur fram í 4. mgr. 23. gr. að öll áður boðuð þinghöld eða fundir með lánardrottnum falli sjálfkrafa niður ef heimild til greiðslustöðvunar fellur niður eftir einhverri áðurtalinni reglu, en skv. 5. mgr. ákvæðisins hvílir sú skylda ávallt á aðstoðarmanni skuldarans að tilkynna öllum þekktum lánardrottnum um lok greiðslustöðvunar án tillits til þess hvernig þau hafa borið að höndum.
    Í 24.–26. gr. frumvarpsins koma fram sérreglur um atvik sem geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðslustöðvunar, sem má ætla í ljósi reynslu að fremur sjaldan geti reynt á í framkvæmd. Er í fyrsta lagi mælt fyrir um það í 24. gr. hvernig staðið verði að verki ef annaðhvort aðstoðarmaður skuldarans getur ekki eða vill ekki sinna því verkefni lengur, sbr. 1. mgr., eða skuldarinn telur aðstoðarmann sinn ekki sinna störfum sínum sem skyldi, sbr. 2. mgr. Sambærilegar reglur er ekki finna um þessa aðstöðu í núgildandi lögum, en á hana hefur þó reynt einhver skipti í framkvæmd. Í 3. mgr. 24. gr. er það úrræði boðið í þessum efnum að berist héraðsdómara tilkynning frá aðstoðarmanninum eða skuldaranum þess efnis sem um er rætt í 1. eða 2. mgr. ákvæðisins þá boði hann til þinghalds af þessum sökum og kanni hvort fyrirliggjandi atvik séu þess eðlis að þau valdi að heimild til greiðslustöðvunar verði felld niður þegar í stað með úrskurði. Ef slík atvik þykja ekki uppi og skuldarinn sækir umrætt þinghald er ráðgert að héraðsdómari gefi honum kost á að tilnefna þá þegar annan mann sér til aðstoðar, en að því gerðu stæði heimild skuldarans óhögguð án sérstaks úrskurðar dómarans. Sambærileg leið og hér um ræðir hefur verið farin í framkvæmd þegar aðstæður sem þessar hafa komið upp.
    Í öðru lagi er að finna ákvæði í 25. gr. um skyldu aðstoðarmanns skuldarans til að tilkynna héraðsdómara ef hann telur reynt að greiðslustöðvun muni ekki bera árangur eða ef skuldarinn starfar ekki eðlilega að viðleitni til að koma nýrri skipan á fjármál sín eða hefur gert ráðstafanir í andstöðu við heimildir 19.–21. gr. frumvarpsins. Er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 25. gr. að héraðsdómari boði þegar í stað til þinghalds ef honum berst slík tilkynning frá aðstoðarmanninum og felli niður greiðslustöðvunarheimildina með úrskurði ef fyrirliggjandi vitneskja hefði leitt til að skuldaranum yrði synjað um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar vegna ákvæða 2. mgr. 17. gr., ef beiðni um slíka heimild væri þá fyrirliggjandi. Ef ábendingar aðstoðarmannsins þykja hins vegar ekki þess eðlis að þau eigi að hafa þessar afleiðingar í för með sér, er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 25. að héraðsdómari bóki ákvörðun sína um að heimild skuldarans standi óbreytt. Undir þeim kringumstæðum mætti almennt ætla að grundvöllur væri brostinn fyrir frekara samstarfi aðstoðarmannsins og skuldarans þannig að nærtækt væri að ráðgera að aðstöðu sem þessari mundi fylgja ráðning nýs aðstoðarmanns að hætti 2. og 3. mgr. 24. gr. sem áður var getið. Ákvæði 1. mgr. og að nokkru 2. mgr. 25. gr. eru sambærileg reglum 11. gr. laga nr. 6/1978.
    Í þriðja lagi er svo loks að finna heimild í 26. gr. frumvarpsins handa einum eða fleiri lánardrottnum skuldarans til að krefjast þess að heimild hans til greiðslustöðvunar verði felld niður áður en komið er að lokum áður ákveðins tíma hennar. Þessi regla á sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum, en eins og áður var nefnt í athugasemdum við 3. mgr. 17. gr. stendur lánardrottnum það eina úrræði nú almennt til boða til að fá greiðslustöðvunarheimild hnekkt að kæra úrskurð héraðsdómara um hana til Hæstaréttar. Sú tilhögun hefur um sumt leitt til óþarfrar íþyngingar fyrir Hæstarétt, auk þess að hún hefur verið í nokkurri andstöðu við almennar reglur að því leyti að hlutaðeigandi lánardrottni hefur þá fyrst gefist kostur á að gera grein fyrir mótmælum sínum gegn heimild til greiðslustöðvunar fyrir Hæstarétti, sem leysir þannig úr um réttmæti þeirra á fyrsta og eina dómstigi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ef lánardrottinn hefur ekki neytt heimildar 16. gr. til að hafa uppi mótmæli gegn greiðslustöðvun fyrir héraðsdómi þá fari hann fremur þá leið að notfæra sér ákvæði 26. gr. til að fá henni hrundið fyrir héraðsdómi en að kæra úrskurð héraðsdómara um hana til Hæstaréttar, en eftir ákvæðum frumvarpsins stæðu þó bæði úrræðin til boða.
    Í 26. gr. er gert ráð fyrir að lánardrottinn geti krafist þess skriflega við héraðsdómara að heimild skuldarans til greiðslustöðvunar verði felld niður ef hann telur atvikum þannig háttað að héraðsdómara bæri að synja skuldaranum um áframhaldandi greiðslustöðvun af þeim sökum skv. 2. mgr. 17. gr. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. ber lánardrottni að tiltaka í kröfu sinni hver þau atvik séu, sem hann telji þessa eðlis, og rökstyðja þar að þau eigi að hafa þessar afleiðingar. Í 26. gr. er héraðsdómara ekki gert skylt að taka kröfu sem þessa til formlegrar úrlausnar því að skv. 3. mgr. ákvæðisins gæti dómarinn ákveðið með bókun í þingbók að vísa henni á bug ef hún þætti bersýnilega tilefnislaus, henni væri efnislega áfátt eða svo skammt stæði þá eftir af greiðslustöðvunartímanum að það tæki því ekki að leysa úr kröfunni. Fram kemur að ákvörðun um þetta yrði ekki skotið til Hæstaréttar, en þetta úrræði handa héraðsdómara þykir nauðsynlegt til að girða fyrir að lánardrottnar baki honum og eftir atvikum skuldaranum óþarfa erfiði með tilefnislausri kröfugerð í þessum efnum. Ef kröfugerð lánardrottins yrði ekki vísað á bug eftir umræddri heimild 3. mgr. 26. gr. er ráðgert í 4. mgr. ákvæðisins að héraðsdómari boði skuldarann, aðstoðarmann hans og þann lánardrottinn, sem hefur krafist niðurfellingar heimildarinnar, til þinghalds til að taka kröfuna fyrir. Eftir atvikum yrði þá að leysa úr ágreiningi milli skuldarans og lánardrottins um kröfu sem þessa eftir ákvæðum 166. gr. og XXIV. kafla frumvarpsins.
    Í lokamálsgreinum 24., 25. og 26. gr. kemur fram að í engu þessara tilvika verði úrskurði héraðsdómara um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar skotið til æðra dóms, en sú skipan er í samræmi við áðurnefndar reglur í 4. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 17. gr. frumvarpsins og 1. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 6/1978. Af þessum ákvæðum frumvarpsins, svo og 1. mgr. 179. gr. þess, verður hins vegar ályktað á þann veg að kæra megi til Hæstaréttar þá niðurstöðu héraðsdómara að hafna því að fella niður heimild til greiðslustöðvunar. Í tengslum við þetta er þó vert að nefna að varla verði séð hverjir gætu átt aðild að kæru slíkra niðurstaðna í þeim tilvikum, sem um ræðir í 24. og 25. gr., þannig að hér má nánast segja að aðeins gæti komið til málskots sem þessa af hendi lánardrottins ef héraðsdómari hafnaði kröfu hans um niðurfellingu greiðslustöðvunar með úrskurði skv. 4. mgr. 26. gr.

Um 27. gr.


    Eins og áður hefur komið fram fjallar 3. þáttur frumvarpsins um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta, en til hans heyra ákvæði 27.–63. gr. Þessum ákvæðum er skipað í kafla með þeim hætti að í VI. kafla, 27.–33. gr., koma fram ýmsar almennar reglur um nauðasamninga, í VII. kafla, 34.–42. gr., er mælt fyrir um hvernig heimild verði fengin til að leita nauðasamnings og hver atvik geti leitt til að slík heimild falli niður, í VIII. kafla, 43.–53. gr., er kveðið á um hvernig staðið verði að nauðasamningsumleitunum, í IX. kafla, 54.–59. gr., er greint frá því hvernig nauðasamningur komist á með uppkvaðningu dómsúrlausnar um staðfestingu hans að umleitunum loknum, og loks er í X. kafla, 60.–63. gr., mælt fyrir um réttaráhrif nauðasamnings. Þessum ákvæðum frumvarpsins er sem áður segir ætlað að koma í stað reglna laga nr. 19/1924, einkum í III. kafla þeirra.
    Í 27. gr. frumvarpsins kemur fram skilgreining á því hvað sé átt við með nauðasamningi, en efnislega er skilgreiningin á þann veg að þetta sé samningur um greiðslu skulda eða eftirgjöf af þeim sem kemst á milli skuldarans og nægilegs fjölda lánardrottna hans og hlýtur staðfestingu fyrir dómi, en samningurinn bindi þá alla lánardrottna skuldarans að því leyti sem kröfur þeirra verða ekki undanþegnar áhrifum samningsins eftir einstökum ákvæðum frumvarpsins. Þessi skilgreining á nauðasamningi er sama efnis og sú sem kemur fram í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1924. Hún felur í sér að verulegu leyti skírskotun til atriða sem ráðast nánar af öðrum ákvæðum 3. þáttar frumvarpsins, þannig að einstök atriði hennar verða tæplega skýrð hér frekar að gagni nema með ótímabærri umfjöllun um fjölmargar aðrar reglur. Rétt er þó að nefna það hér að lagahugtakið nauðasamningur getur á engan hátt tekið til annarra samninga um skuldaskil en þeirra sem beinlínis er kveðið hér á um, enda er sú nauð, sem hugtakið er dregið af, fólgin í því lögbundna eðli þessara samninga að þeir bindi minnihluta lánardrottna algerlega án tillits til vilja þeirra. Er því um alranga notkun þessa hugtaks að ræða þegar það er notað um samninga sem skuldari nær um skuldaskil með öðrum hætti hvað þá þegar slíkir samningar eru nefndir „frjálsir nauðasamningar“ til aðgreiningar eins og stundum virðist vera gert.

Um 28. gr.


    Í 28. gr. frumvarpsins er afmarkað til hverra skuldbindinga nauðasamningur geti tekið, en meginreglan í þessum efnum kemur fram í 1. mgr. þar sem byggt er á því að nauðasamningur taki til allra skuldbindinga skuldarans, sem þar eru ekki sérstaklega taldar upp og eru undanþegnar áhrifum hans, sbr. 1. mgr. 29. gr. Þessi meginregla felur þannig í sér að nauðasamningur leiði almennt til sömu ívilnunar handa skuldaranum úr hendi allra lánardrottna hans, en vissar kröfur haggist þó ekki af nauðasamningi og standi því óbreyttar án tillits til gerðar hans.
    Í ljósi þess háttar sem er hafður á skilgreiningu þess í 28. gr., til hverra skuldbindinga nauðasamningur taki, skiptir upptalningin í 1.–6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins á þeim kröfum, sem standa óháðar nauðasamningi, að sjálfsögðu miklu máli. Þótt þessi upptalning eigi sér um margt samsvörun í ákvæðum laga nr. 19/1924 þykir rétt að geta hér nánar helstu atriðanna í þessu sambandi.
    Í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins er tiltekið að þær kröfur standi óhaggaðar af nauðasamningi, sem hafa orðið til eftir að úrskurður gengur fyrir héraðsdómi um heimild skuldarans til að leita hans, sbr. 1. mgr. 39. gr., eða kveðið væri á um hana með dómi Hæstaréttar, sbr. 2. mgr. 38. gr. Ástæða þess að stofnunartími skuldbindingar sé látinn hafa þýðingu með þessum hætti er öðru fremur að sú aðstaða væri óviðunandi fyrir viðsemjanda skuldarans, sem öðlast kröfu á hendur honum eftir upphaf nauðasamningsumleitana, að honum yrði gert að þola skerðingu samkvæmt nauðasamningi á kröfu sinni, eftir atvikum án þess að honum hafi verið kunnugt um yfirstandandi samningsumleitanir, en slík aðstaða byði upp á augljósa hættu á misferli af hendi skuldarans. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1924.
    Í 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins kemur fram að kröfur um annað en peningagreiðslu séu undanþegnar áhrifum nauðasamnings ef þeim verður fullnægt eftir aðalefni sínu. Þessi regla byggir á því viðhorfi að nauðasamningar eigi eftir eðli sínu og tilgangi aðeins að taka til peningakrafna, enda er um úrræði að tefla til að ráða bót á fjárhagslegri stöðu skuldara. Fjölbreytilegar kröfur um annað en peningagreiðslu geta hvílt á skuldaranum, sem óeðlilegt væri að skertust af nauðasamningi svo ekki sé meira sagt, t.d. krafa um ómerkingu ummæla hans, krafa nágranna um umferðarrétt um lóð hans o.s.frv. Ef kröfum sem þessum verður fullnægt í samræmi við hljóðan sína, eða eftir aðalefni sínu eins og segir í umræddu ákvæði, eftir atvikum með aðför eftir 72.–75. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, leiðir af 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins að gerð nauðasamnings varði þær ekki. Ef kröfum sem þessum yrði hins vegar ekki fullnægt með þessum hætti yrði óhjákvæmilegt að þeim yrði umbreytt í peningakröfur eftir reglum 77. gr. aðfararlaga, sbr. 2. mgr. 99. gr. frumvarpsins, en í því horfi mundu þær þá skerðast af nauðasamningi. Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. eiga sér ekki beina hliðstæðu í lögum nr. 19/1924, en regla 3. mgr. 43. gr. laganna leiðir í reynd til sömu aðstöðu og hér hefur verið lýst.
    Í 3. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að þær kröfur standi óhaggaðar af nauðasamningi, sem yrði skipað í skuldaröð eftir 109., 110. og 112. gr. frumvarpsins ef úrskurður hefði gengið um töku bús skuldarans til gjaldþrotaskipta á þeim degi sem úrskurður gekk um heimild hans til að leita nauðasamnings. Þessi regla byggir á því hefðbundna viðhorfi að nauðasamningur eigi ekki að hagga stöðu þess sem nyti forgangsréttar fyrir kröfu sinni við gjaldþrotaskipti, en umrædd ákvæði frumvarpsins kveða einmitt á um slíkan forgangsrétt fyrir tilteknum tegundum krafna. Þetta ákvæði frumvarpsins er sama efnis og regla 2. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924.
    Í 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins eru þær kröfur undanþegnar áhrifum nauðasamnings, sem eru tryggðar með veðrétti eða sambærilegum tryggingarréttindum í eignum skuldarans, en hér er um kröfur að ræða sem yrði skipað í forgangsstöðu eftir 111. gr. frumvarpsins við gjaldþrotaskipti. Þeir fyrirvarar eru þó gerðir í ákvæðinu að annars vegar eigi þetta aðeins við að því leyti sem slíkum kröfum verði fullnægt af andvirði þeirra eigna skuldarans, sem standi til tryggingar, en af þessu leiðir t.d. að ófullnægðar veðkröfur mundu skerðast eftir efni nauðasamnings. Hins vegar er tekið fram að þessi undanþága frá áhrifum nauðasamnings eigi því aðeins við að viðkomandi tryggingarréttindi falli ekki niður vegna samningsins. Með þessu er skírskotað til þess að skv. 1. mgr. 32. gr. gilda ákvæði um riftun ráðstafana í XX. kafla frumvarpsins við gerð nauðasamnings, en skv. 137. og 138. gr., sem heyra til umrædds XX. kafla, getur ýmist komið til riftunar á tryggingarréttindum eða þess að þau falli sjálfkrafa niður. Ef riftun ætti sér þannig stað á tryggingarrétti skv. 137. gr. eða hann félli niður af sjálfu sér skv. 138. gr. vegna nauðasamnings, tæki samningurinn til þeirrar kröfu sem tryggingin stöð áður fyrir. Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. eru hliðstæð reglu 1. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924, en rétt er að taka fram að í frumvarpinu er með sama hætti og í umræddri reglu núgildandi laga aðeins mælt fyrir um þessa undanþágu vegna krafna, sem njóta tryggingar í eignum skuldarans, en samkvæmt því mundi tryggingarréttur í eign þriðja manns fyrir kröfu á hendur skuldaranum ekki breyta því að samningurinn hefði áhrif á kröfuna gagnvart skuldaranum.
    Í 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins kemur fram að nauðasamningur hafi ekki áhrif á þær kröfur á hendur skuldaranum, sem mætti fá fullnægt með skuldajöfnuði ef bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi regla vísar til skuldajafnaðarheimilda 100. gr. frumvarpsins, en hún er hliðstæð ákvæðum 5. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924.
    Í 6. tölul. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins er loks mælt fyrir um að ef kveðið er sérstaklega á um það í nauðasamningi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 36. gr., sbr. 3. mgr. 29. gr., að lágar kröfur innan tiltekinnar fjárhæðar verði greiddar að fullu, þá séu þær undanþegnar áhrifum samningsins. Ráðagerð um þessa heimild á sér fyrirmynd í danskri löggjöf og tekur mið af þeirri aðstöðu sem kemur að jafnaði upp í framkvæmd að einhverjar kröfur á hendur skuldaranum séu upp á óverulegar fjárhæðir, t.d. vegna áskriftargjalds að dagblaði o.s.frv. Bæði er til mikilla þyngsla að þurfa að taka tillit til slíkra skuldbindinga við gerð nauðasamnings og yfirleitt til lítilla bóta fyrir kröfueigandann að fá skuldina greidda að til dæmis 1/ 5 hluta fremur en að engu. Þykir því til verulegrar einföldunar að heimila að skuldir fái að standa óhaggaðar af samningnum ef þær eru innan vissrar fjárhæðar sem yrði ákveðin hverju sinni í frumvarpi að nauðasamningi. Sambærilega reglu er ekki að finna í lögum nr. 19/1924.
    Þótt það sem nú er komið fram afmarki í aðalatriðum til hverra skuldbindinga nauðasamningur geti tekið, verður að gefa því gaum að ákvæði 2. og 3. mgr. 28. gr. frumvarpsins hafi einnig áhrif í þessum efnum. Er þannig mælt fyrir um það í umræddri 2. mgr. að lánardrottinn skuldarans geti kallað yfir sig áhrif nauðasamnings, þótt hann hefði annars verið í þeirri aðstöðu að samningurinn hefði ekki snert kröfu hans, með því að gefa yfirlýsingu þess efnis við undirbúning að öflun heimildar til að leita nauðasamnings eða síðar. Er sérstaklega ráðgert að yfirlýsing sem þessi megi vera skilyrt á þann hátt að hún teljist aðeins bindandi ef nauðasamningur komist á. Með þessum reglum er haft í huga að lánardrottinn, sem nýtur t.d. veðréttar fyrir kröfu sinni í eign skuldarans, kunni að telja hag sínum betur borgið með því að eiga hlut að nauðasamningi og falla frá veðrétti sínum, eða að forgangskröfuhafi sé reiðubúinn að falla frá forréttindum sínum ef það gæti stuðlað að því að nauðasamningur komist á. Í ljósi þess að lánardrottinn tæki væntanlega afstöðu sem þessa í því skyni að greiða fyrir að nauðasamningur komist á væri óeðlilegt að setja það skilyrði að hann yrði að afsala sér réttindum sínum fyrir fullt og allt án tillits til afdrifa nauðasamningsumleitana. Er fyrrnefnd heimild í niðurlagi 2. mgr. til að skilyrða yfirlýsingu sem þessa ráðgerð til að koma í veg fyrir slíka niðurstöðu.
    Í 3. mgr. 28. gr. er mælt fyrir um tilvik þar sem gerð nauðasamnings hefði ekki áhrif til samningsbundinnar skerðingar á kröfum, heldur beinlínis til þess að vissar kröfur falli með öllu niður. Hér er nánar tiltekið um þær kröfur að ræða, sem yrði skipað í skuldaröð við gjaldþrotaskipti skv. 1.–3. og 5. tölul. 114. gr. frumvarpsins. Þessi regla á sér að mestu fyrirmynd í danskri löggjöf, en ákvæði 6. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924 ganga að mun skemur í þessum efnum en hér um ræðir. Rétt er að taka fram að eftir 3. mgr. 28. gr. mundi nauðasamningur ekki leiða til brottfalls krafna, sem ættu undir 4. tölul. 114. gr., heldur mundu þær kröfur skerðast eftir almennum ákvæðum samningsins. Hér er um að ræða kröfur, sem samið hefur verið um að víki fyrir kröfum allra annarra við gjaldþrotaskipti, eða svokölluð víkjandi lán sem slíkar kröfur virðast oft vera nefndar. Þykir gagnstætt tilgangi og eðli þeirra samninga, sem leiða til sérstöðu þessara krafna í skuldaröð, að nauðasamningur hefði í för með sér brottfall krafnanna eða að þær stæðu óhaggaðar af samningnum.

Um 29. gr.


    Í 1. mgr. 29. gr. kemur fram sú hugtakaskilgreining að þær kröfur, sem nauðasamningur getur haft áhrif á eftir áðurgreindri afmörkun 28. gr., nefnist samningskröfur. Þetta hugtak er notað með sama hætti í lögum nr. 19/1924, sbr. 3. mgr. 1. gr. þeirra.
    Í 2.–5. mgr. 29. gr. koma fram almennar reglur um það, hvers efnis ákvæði nauðasamnings geti orðið um meðferð eða afdrif samningskrafna. Í 2. mgr. segir þannig að í nauðasamningi megi mæla fyrir um algert brottfall samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða einungis greiðslufrest á þeim eða breytt form á greiðslu þeirra, en þrennt það síðastnefnda megi þó fara saman. Hefur reyndar verið algengast í framkvæmd hér á landi að mælt sé í senn fyrir um hlutfallslega lækkun samningskrafna og tiltekinn greiðslufrest. Í upphafsorðum 3., 4. og 5. mgr. er áréttuð sú grundvallarregla um nauðasamninga að við samningsgerðina verði að hafa í heiðri jafnræði lánardrottna þannig að eitt gangi yfir þá alla. Segir þannig í 3. mgr. að ekki megi kveða á um mismikla eftirgjöf á samningskröfum í 4. mgr. að ekki megi kveða á um mismikla lengingu greiðslufrests á þeim nema gjalddagi þeirra allra verði sá sami, og í 5. mgr. að ekki megi bjóða greiðslur í mismunandi formi. Þótt þetta séu grundvallarreglurnar á þessum vettvangi eru þó ráðgerðar undantekningar frá þeim í 3.–5. mgr., en beiting þessara undantekninga leiðir til þess að vikið yrði frá reglum um jafnræði lánardrottna og væri háð því að þeir sem gjaldi fyrir frávikin lýsi sig reiðubúna til að sæta því. Af þessum sökum gæti komið til þess að í frumvarpi til nauðasamnings verði ráðgert að lánardrottnar, sem fari með hærri kröfur en nemi tiltekinni fjárhæð, gefi hlutfallslega meira eftir af sínum kröfum en aðrir og að þannig verði neytt heimildar til að víkja frá meginreglu 3. mgr. Eins er heimilað í 3. mgr. að lánardrottnar sem fari með mjög lágar samningskröfur fái notið þeirrar sérstöðu að hlutfallsleg eftirgjöf þeirra verði minni en annarra, en sú heimild er afmörkuð nánar í 2. mgr. 36. gr. Þá gæti verið ákveðið í nauðasamningi að tilteknir lánardrottnar veiti gjaldfrest á greiðslum meðan aðrir fengju staðgreitt og að þeir sem veiti gjaldfrestinn njód vaxta og trygginga eftir að aðrir hafa fengið greitt, en þannig yrði notfærð heimild í 4. mgr. til að víkja frá meginreglu ákvæðisins. Þá gæti enn komið til þess að neytt yrði heimildar í 5. mgr. til að víkja frá meginreglunni um að allir verði að fá greiðslur í sama formi með því að almennt yrðu samningskröfur greiddar með peningum, en þeir lánardrottnar sem samþykki það fái til dæmis greiðslu með því að eignast hlut í rekstri skuldarans sem yrði metin verðminni að gangverði en almenna peningagreiðslan til annarra.
    Með því að ákvæði 3.–5. mgr. 29. gr. heimila að vikið verði í nauðasamningi frá meginreglunni um jafnræði lánardrottna til íþyngingar gagnvart þeim sem það samþykkja og í undantekningartilvikum til hagsbóta fyrir þá sem fara með mjög litlar kröfur verður að taka af skarið um það hver áhrif slík frávik hafi, einkum varðandi framkvæmd nauðasamningsumleitana. Er það gert í 6. mgr. 29. gr. með því að tiltaka að þótt þessar heimildir 3.–5. mgr. séu nýttar þá breyti það því ekki að almenna ívilnunin samkvæmt nauðasamningnum verði lögð til grundvallar þar sem máli skiptir, en með almennri ívilnun er hér átt við þau kjör sem lánardrottnum standa til boða án þess að samþykkja að taka á sig að veita frekari ívilnun en aðrir. Þetta hefur fyrst og fremst þýðingu til ákvörðunar á því hvern atkvæðafjölda þurfi til samþykkis á nauðasamningi skv. 49. gr. frumvarpsins. Í þessu sambandi er rétt að benda á það að eftir 3. mgr. 36. gr. verður að koma greinilega fram í frumvarpi skuldara að nauðasamningi hver almenna ívilnunin í þessum skilningi sé og hvernig þau lakari kjör, sem einstakir lánardrottnar verða að samþykkja að þiggja, séu henni frábrugðin.
    Ákvæði 2.–5. mgr. 29. gr. frumvarpsins eru til muna sveigjanlegri en reglur laga nr. 19/1924 þar sem ekki er ráðgert þar berum orðum að fara megi ýmsar þær leiðir í þessum efnum sem umrædd ákvæði frumvarpsins leyfa. Má ætla að þetta gæti stuðlað að aukinni beitingu nauðasamninga í framkvæmd.

Um 30. gr.


    Sú meðferð á samningskröfum, sem má kveða á um í nauðasamningi samkvæmt reglum 29. gr., er beinlínis háð því sem fram kæmi í samningnum sjálfum. Gagnstætt þessu eru frekari reglur um áhrif nauðasamnings á samningskröfur í 30. gr. frumvarpsins settar fram með þeim hætti að þær ættu við þótt ekkert yrði tekið fram um það í samningnum, en eftir atvikum mætti þó víkja frá vissum reglum 30. gr. með gagnstæðum samningsákvæðum eftir því sem nánar er þar heimilað.
    Í 1. mgr. 30. gr. kemur þannig fram sú regla að nauðasamningur hafi í för með sér að allar samningskröfur falli sjálfkrafa í gjalddaga, án tillits til þess gjaldfrests sem hefði ella gilt, nema kveðið sé berum orðum á um annað í samningnum. Samkvæmt þessu hefði nauðasamningur í för með sér gjaldfellingu krafna nema tiltekið væri í honum t.d. að áður ákveðinn gjaldfrestur haldist óbreyttur, að greiðslufrestur á öllum kröfum lengist um tiltekinn tíma eða að þær komi allar í gjalddaga á tilteknum degi, en þessara áhrifa nauðasamnings mundi vitanlega því aðeins gæta að hann hafi komist á, sbr. 1. mgr. 60. gr., og leiddu nauðasamningsumleitanir einar út af fyrir sig því ekki til gjaldfellingar krafna. Í 2. málsl. 1. mgr. 30. gr. er tekið fram að fjárhæð samningskrafna verði ekki færð niður þótt þær falli í gjalddaga af þessum sökum, en með öðrum orðum hefur þetta í för með sér að gjaldfelling vegna ákvæðisins leiði ekki til þess að samningskröfur verði lækkaðar um fjárhæð sem nemi afföllum eða vaxtahagnaði lánardrottins. Ekki er heimilað að víkja frá þessari síðastgreindu reglu í ákvæðum 1. mgr. 30. gr.
    Í 2. mgr. 30. gr. er kveðið á um að nauðasamningur hafi þau áhrif á samningskröfur í erlendum gjaldmiðli að þær verði færðar í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi viðeigandi gjaldmiðils á þeim degi sem úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings. Þessi regla, sem á sér ekki hliðstæðu í lögum nr. 19/1924, er lögð hér til í samræmi við reglu um sömu áhrif gjaldþrotaúrskurðar á kröfur í erlendum gjaldmiðli í 3. mgr. 99. gr. frumvarpsins. Með þessu er leitast við að tryggja að jafnræði haldist með lánardrottnum án tillits til gengisbreytinga sem kynnu að eiga sér stað fram að greiðslu samningskrafna, en breytingar á gengi mundu ella leiða til þess að samningskröfur í erlendri mynt fengjust ýmist greiddar með hærri eða lægri fjárhæð í íslenskum krónum en ráðgert hefði verið í upphafi. Ekki er heimilað að víkja frá reglu 2. mgr. 30. gr. með ákvæðum þess efnis í nauðasamningi.
    Í 3. mgr. 30. gr. kemur fram hvernig reikna eigi fjárhæðir samningskrafna með tilliti til vaxta, verðbóta, gengisálagi, innheimtukostnaðar og fleiri áþekkra liða, en sú ófrávíkjanlega regla er sett í þessum efnum að þessir liðir verði lagðir við höfuðstól samningskrafna miðað við stöðuna á þeim degi sem dómsúrlausn gekk um heimild til nauðasamningsumleitana. Hér er um að ræða sömu reglu og leiðir af ákvæðum 1. tölul. 114. gr. um útreikning krafna við gjaldþrotaskipta. Þessu til viðbótar er tekið fram í 3. mgr. 30. gr. að samningskröfur beri ekki vexti eftir gerð nauðasamnings nema beinlínis hafi verið mælt fyrir um það í samningnum, en undantekning er þó gerð um dráttarvexti ef vanefudir verða á greiðslum samkvæmt samningnum.
    Í 4. mgr. 30. gr. er mælt fyrir um hvernig fari um stöðu lánardrottins sem á fleiri samningskröfur en eina á hendur skuldaranum eða hefur átt þær innan þriggja mánaða fyrir frestdag og aðilaskipti hafa orðið að einni þeirra eða fleirum eftir þann tíma. Samkvæmt ákvæðinu teljast kröfurnar samanlagðar ein samningskrafa, án tillits til uppruna þeirra eða annarra atvika og gildir það einnig þótt aðilaskipti hafi orðið að einhverri þeirra eða þeim öllum áður en nauðasamningur komst á, en þá teldist heildarkrafan vera í sameign hlutaðeigenda í þeim hlutföllum sem fjárhæð hverrar kröfu leiddi til. Þessar reglur hafa fyrst og fremst þýðingu varðandi ákvörðun á atkvæðisrétti um nauðasamningsfrumvarp skuldarans, en þær eiga sér að nokkru marki hliðstæðu í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 19/1924.

Um 31. gr.


    Vikið var að því hér áður í athugasemdum við 27. gr. frumvarpsins að það sé eitt helsta einkenni nauðasamninga að þeir taki til samningskrafna allra lánardrottna án tillits til vilja hvers þeirra til að fallast á samningsskilmála, ef nægilegur meiri hluti lánardrottna samþykkir skilmálana og samningurinn hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Í samræmi við fræðikenningar eru þó tekin af tvímæli í 31. gr. frumvarpsins um enn víðtækari þýðingu nauðasamnings, þar sem fram kemur að hann sé bindandi án tillits til þess hvort samningskrafan hafi verið þekkt við gerð nauðasamnings eða henni hafi verið lýst við samningsumleitanir og einnig án tillits til þess hvort krafan hafi verið skilyrt eða umdeild, en þá verður samningurinn bindandi um kröfuna að fullnægðu skilyrði fyrir henni eða leystum ágreiningi um hana, ef hún er þá að einhverju leyti fyrir hendi. Þessar sömu reglur hafa talist gilda eftir lögum nr. 19/1924 þótt almennt megi aðeins ráða um tilvist þeirra með óbeinum hætti af dreifðum fyrirmælum laganna.

Um 32. gr.


    Í 1. mgr. 32. gr. er mælt fyrir um að ef nauðasamningur komist á þá verði reglum XX. kafla frumvarpsins um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti beitt með nánar tilteknum frávikum til riftunar á ráðstöfunum skuldarans og öðrum þargreindum aðgerðum, en þetta ákvæði er tekið hér upp eftir fyrirmynd í danskri löggjöf. Röksemdir fyrir beitingu riftunarreglna að gerðum nauðasamningum eru í aðalatriðum þær sömu og búa að baki riftunarheimildum við gjaldþrotaskipti, þ.e. viðleitnin til að tryggja jafnræði meðal lánardrottna skuldarans. Þá mætti einnig nefna að tilvist heimilda til riftunar að gerðum nauðasamningi kynni að geta komið í veg fyrir að lánardrottnar leitist við að knýja á um gjaldþrotaskipti til þess eins að aðgangur fáist að riftunarheimildum og að þeir verði þannig frekar en ella tilleiðanlegir til að ljá máls á stuðningi við nauðasamningsumleitanir.
    Í 1. mgr. 32. gr. koma fram fyrirmæli sem víkja frá almennum reglum XX. kafla frumvarpsins þegar leita ætti riftunar að gerðum nauðasamningi. Nánar tiltekið felast þau í fyrsta lagi í því að frestur til að höfða riftunarmál byrjar alltaf að líða þegar nauðasamningur er kominn á og stendur síðan aðeins í þrjá mánuði, en með þessu er bæði vikið frá reglum 148. gr. um upphafsmörk málshöfðunarfrestsins og lengd hans. Í öðru lagi er kveðið beinlínis á um að miða eigi fresti í sambandi við riftunarheimildir við uppkvaðningu úrskurðar um heimild til að leita nauðasamnings í þeim tilvikum, sem ákvæði XX. kafla taka mið af uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, en það heyrir reyndar mjög til undantekninga að reglur umrædds kafla séu settar fram með þeim hætti. Loks kemur það þýðingarmikla frávik fram í 1. mgr. 32. gr. frá almennum reglum um riftun að skuldarinn höfði sjálfur mál til riftunar að gerðum nauðasamningi, en við gjaldþrotaskipti er heimildin til málshöfðunar að meginreglu í höndum skiptastjóra í nafni þrotabúsins sem slíks og í undantekningartilvikum í höndum einstakra kröfuhafa eða þrotamannsins til hagsbóta fyrir þrotabúið, sbr. 130. gr. Þessi tilhögun í 32. gr. á rætur að rekja til þess að þótt nauðasamningur hafi verið gerður þá fer skuldarinn með óheft forræði á hagsmunum sínum og njóta lánardrottnar hans engra heimilda til að taka réttindi hans í sínar hendur af þessum sökum, en hér er um algerlega gagnstæða aðstöðu að ræða við þá sem ríkir við gjaldþrotaskipti og býr þar að baki reglum um aðild að riftunarkröfum. Væri því andstætt almennum lagaviðhorfum ef lánardrottnum væri veittur réttur til að standa að riftun að gerðum nauðasamningi því skorta mundi öll almenn skilyrði til aðildar þeirra að slíkum aðgerðum, auk þess að örðugt væri að tryggja að sá eða þeir lánardrottnar, sem stæðu að málshöfðun til riftunar, mundu gera það af nægilegu tilliti til vilja eða hagsmuna annarra lánardrottna og enn örðugra væri að tryggja að allir lánardrottnar fengju notið fjárhagslegs ábata af riftuninni. Með því hins vegar að skuldarinn standi sjálfur að riftun mundi áhættan af árangri aðgerðanna færast á herðar hans og sá árangur sem fengist ætti að auki að koma öllum lánardrottnum hans jafnt til góða, enda mætti ganga út frá því að ef lánardrottnar væru almennt þeirrar skoðunar að tilefni væri til riftunar á tiltekinni ráðstöfun þá yrðu þeir ófáanlegir til að sætta sig við samningsboð af hendi skuldarans nema þar væri m.a. gert ráð fyrir að þeir fengju notið ábata af riftuninni.
    Í 2. mgr. 32. gr. kemur fram að nauðasamningur taki til kröfu, sem kynni að verða til eða rakna við á hendur skuldaranum í kjölfar riftunar, ef krafan hefði að öðrum kosti verið talin samningskrafa eftir almennum reglum 28. gr. Ákvæði 2. mgr. 32. gr. hafa þannig í för með sér að sá sem riftun beinist að verði eins settur í kjölfarið og ef riftanlega ráðstöfunin hefði aldrei átt sér stað og standi þá jafnt að vígi við aðra þá sem eiga sambærilegar kröfur á hendur skuldaranum. Tekið er sérstaklega fram í niðurlagi 2. mgr. 32. gr. að krafa, sem kann að verða til vegna riftunar og yrði þá talin samningskrafa, verði talin skilyrt krafa við nauðasamningsumleitanir nema hlutaðeigandi fallist þá þegar á riftun, en þessi regla hefur fyrst og fremst þýðingu til að taka af skarið um hvort atkvæðisréttur um nauðasamningsfrumvarp geti fylgt þessari hugsanlegri kröfu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 33. gr. Rétt er að nefna að endingu í þessu sambandi að frekari reglur koma fram í 61. gr. um réttarstöðu þess sem riftunarkröfu yrði beint að á grundvelli 32. gr.

Um 33. gr.


    Eins og fram kom í athugasemdum við 28. og 29. gr. er á því byggt að nauðasamningur taki til flestra þeirra fjárskuldbindinga, sem kunna að hvíla á skuldara, eða til samningskrafna eins og þær eru skilgreindar í þessum ákvæðum. Með því að þeir lánardrottnar, sem fara með samningskröfur, þurfi almennt einir að gjalda fyrir þær ívilnanir, sem nauðasamningur kann að kveða á um, gefur væntanlega augaleið að þeir eigi einir að njóta réttar til að eiga hlut að ákvörðun um hvort samningurinn komist á. Á þessum grundvelli er sú meginregla sett fram í upphafi 1. mgr. 33. gr. að lánardrottnar, sem fara með samningskröfur og hafa lýst þeim við nauðasamningsumleitanir, sbr. 4. mgr. 45. gr., eigi atkvæðisrétt um nauðasamning, en af henni verður sú sjálfsagða ályktun dregin að ef lánardrottinn fer með kröfu, sem haggast ekki af nauðasamningi, þá eigi hann ekki atkvæði um hvort samningurinn verði gerður. Í tengslum við þetta er þó rétt að benda á að eftir 3. mgr. 28. gr. falla vissar kröfur með öllu niður þegar nauðasamningur kemst á, en þær teljast ekki til samningskrafna, sbr. 1. mgr. 29. gr. Eftir upphafsorðum 1. mgr. 33. gr. njóta þannig þeir sem eiga slíkar kröfur ekki atkvæðisréttar um hvort nauðasamningur komist á þótt þeir verði að gjalda meira fyrir gerð hans en aðrir lánardrottnar. Þótt þetta sé á vissan hátt andstætt áðurlýstum grundvelli að baki meginreglunni í upphafi 1. mgr. 33. gr., þá ber að taka hér tillit til þess að þær kröfur, sem hér um ræðir og falla niður án þess að atkvæði fylgi þeim, eru réttlægstu kröfurnar ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi skuldarans, en af reynslunni í framkvæmd má telja sýnt að hverfandi líkindi standi til að slíkar kröfur fáist greiddar við gjaldþrotaskipti. Væri því óeðlilegt að veita þeim lánardrottnum, sem fara með þessar réttlægstu kröfur, afskiptarétt af því hvort nauðasamningur komist á, enda hefðu þeir almennt engan hag af því að koma í veg fyrir nauðasamning og stuðla þannig með óbeinum hætti að gjaldþrotaskiptum á búi skuldarans. Nefna má í þessu sambandi að útilokun þessara lánardrottna frá atkvæðisrétti um nauðasamning á sér fyrirmynd í danskri löggjöf, en hún kemur einnig fram með óbeinum hætti í 3. tölul. og 2. mgr. 6. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924.
    Þótt meginreglan sé samkvæmt þessu sú að samningskröfum fylgi atkvæðisréttur um hvort nauðasamningur komist á getur sú regla ekki staðið með öllu án undantekninga. Annars vegar væri ófært að veita til dæmis nánum skyldmennum skuldarans atkvæði um nauðasamning, þótt þeir segist eiga samningskröfur á hendur honum sem hann viðurkenni sem réttar, enda gæfi slík skipan augljóst tilefni til misferlis af hendi skuldarans. Hins vegar væri óeðlilegt að lánardrottinn nyti atkvæðisréttar á grundvelli skilyrtrar kröfu, sem háð væri ókomnum atvikum hvort greiða ætti. Af þessum sökum er mælt fyrir um undantekningar í tveimur töluliðum við 1. mgr. 33. gr. frá þeirri meginreglu að samningskröfu fylgi atkvæði um nauðasamning, en í þeirri fyrri eru þeir lánardrottnar útilokaðir frá atkvæði, sem eru nákomnir skuldaranum í skilningi 3. gr., og í þeirri síðari eru lánardrottnar útilokaðir sem fara með skilyrtar kröfur. Sams konar undantekningar koma fram í 4. og 8. tölul. 12. gr. laga nr. 19/1924.
    Samkvæmt þessu er á því byggt í 1. mgr. 33. gr. frumvarpsins að þeir lánardrottnar, sem eiga samningskröfur á hendur skuldaranum, eigi atkvæði um nauðasamning að þeim frátöldum sem reglur 1. og 2. tölul. ákvæðisins taka til. Með sama hætti og gert er í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1924 er sú leið farin til einföldunar í 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins að gefa þeim lánardrottnum, sem njóta atkvæðisréttar samkvæmt þessu, heitið atkvæðismenn.
    Þótt ákvæði 1. og 2. mgr. 33. gr. afmarki hverjir verði taldir geta orðið atkvæðismenn um nauðasamning þá er ekki vikið þar að því hvert verði talið vægi atkvæðis hvers þeirra. Eins og nánar kemur fram í 49. gr. og að nokkru í 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. er atkvæðagreiðsla um nauðasamning tvíþætt. Annars vegar eru atkvæði greidd um frumvarp að nauðasamningi eftir höfðatölu atkvæðismanna og hins vegar eftir kröfufjárhæðum þeirra og verður tiltekið hlutfall atkvæða að falla til samþykkis á frumvarpi á báða vegu, en hér er um sömu tilhögun að ræða og gildir eftir ákvæðum laga nr. 19/1924. Af þessum sökum er kveðið á um það í 3. og 4. mgr. 33. gr. frumvarpsins hvert atkvæði fylgi samningskröfu hvers atkvæðismanns í þessu tilliti, en ástæða er til að víkja mun nánar að reglum hvorrar málsgreinarinnar um sig.
    Í 3. mgr. 33. gr. kemur sú meginregla fram að við atkvæðagreiðslu eftir höfðatölu fari hver atkvæðismaður með eitt atkvæði, en ekki skiptir máli í þessu sambandi hver fjárhæð kröfu hvers þeirra sé. Frá þessari meginreglu eru þó gerðar tvær undantekningar. Annars vegar verður að hafa hér í huga að skv. 4. mgr. 30. gr. getur komið til þess að samningskröfum tveggja eða fleiri atkvæðismanna verði steypt saman í eina samningskröfu, ef báðar eða allar kröfurnar tilheyrðu einum og sama lánardrottninum þremur mánuðum fyrir frestdag og aðilaskipti urðu síðar að þeim þannig að þær dreifðust á fleiri hendur. Af þessum sökum gæti farið svo að tveir eða jafnvel fleiri atkvæðismenn teljist eiga eina samningskröfu í sameiningu, en það væri í andstöðu við tilgang reglu 4. mgr. 30. gr. ef hver þessara atkvæðismanna um sig færi með eitt höfðatöluatkvæði, enda er gert ráð fyrir þessari reglu gagngert til að koma í veg fyrir að krafa verði framseld til málamynda til tveggja eða fleiri manna til að búa beinlínis til mörg höfðatöluatkvæði um nauðasamning. Ef til þess kæmi að samningskröfum tveggja eða fleiri lánardrottna væri steypt saman í eina að hætti 4. mgr. 30. gr. leiðir af fyrirmælum þess ákvæðis að hver þessara lánardrottna færi með það hlutfall af einu höfðatöluatkvæði, sem svaraði til hlutdeildar hans í sameiginlegu samningskröfunni. Hins vegar kemur sú undantekning fram í 3. mgr. 33. gr. frá þeirri meginreglu að hver atkvæðismaður fari með eitt höfðatöluatkvæði að ef tveir eða fleiri lánardrottnar eiga samningskröfu saman af öðrum sökum en hér áður var getið þá fari þeir til samans með eitt atkvæði. Í báðum þeim undantekningarreglum, sem hér um ræðir, kemur fram að þótt tveir eða fleiri atkvæðismenn fari til samans með eitt höfðatöluatkvæði um nauðasamning þá njóti hver þeirra um sig sjálfstæðan atkvæðisrétt fyrir sínu hlutfalli af samningskröfunni. Af þessum sökum yrði ekki farin sú leið ef t.d. þrír atkvæðismenn ættu eina samningskröfu saman að láta höfðatöluatkvæðið á grundvelli hennar falla í heild sinni á annan hvorn veginn eftir því sem tveir atkvæðismannanna vildu í andstöðu við þann þriðja, heldur ætti hver þessara þriggja rétt á að greiða 1/3 hluta af höfðatöluatkvæði eftir eigin höfði.
    Í 4. mgr. 33. gr. kemur síðan fram hvernig reikna eigi atkvæði hvers atkvæðismanns þegar til atkvæðagreiðslu kemur um frumvarp að nauðasamningi eftir fjárhæðum samningskrafna þeirra. Segir í ákvæðinu að þetta skuli gert með þeim hætti að fjárhæðir allra samningskrafna atkvæðismanna verði fyrst lagðar saman, en síðan verði reiknað út hvern hundraðshluta hver atkvæðismaður eigi af heildinni. Atkvæðismenn fari þá hver um sig með atkvæði í þessu tilliti sem svari til hundraðshluta hvers þeirra af heildinni. Til frekari skýringa á þessu má taka sem dæmi að fjórar kröfur komi fram við nauðasamningsumleitanir, frá A að fjárhæð 216.000 kr., frá B 284.000 kr., frá C 300.000 kr. og frá D 200.000 kr. Eftir 4. mgr. 33. gr. yrði þá hafist handa með því að leggja fjárhæðir þessara krafna saman, en útkoman yrði 1.000.000 kr. Því næst bæri að reikna út hvert hlutfall hver þessara fjögurra atkvæðismanna ætti af heildinni, en þannig ætti A 21,6%, B 28,4%, C 30,0% og D 20,0%. Þessar hundraðstölur ráða síðan stærð hvers atkvæðis í þessu tilliti, en af þeim 100 atkvæðum sem yrðu greidd um nauðasamning eftir kröfufjárhæðum færi þá A með 21,6 atkvæði, B 28,4 atkvæði, C 30,0 atkvæði og D 20,0 atkvæði.

Um 34.–36. gr.


    Hér er um að ræða fyrstu ákvæðin í VII. kafla frumvarpsins, sem fjallar um heimild til að leita nauðasamnings, en líkt og eftir reglum laga nr. 19/1924, og reyndar einnig skipaninni víða í erlendri löggjöf, er byggt á því í frumvarpinu að sá aðdragandi verði að gerð nauðasamnings að skuldarinn afli sér heimildar dómstóla til að leita samningsins með því að láta af hendi formlega beiðni þess efnis ásamt nánar tilgreindum gögnum, en héraðsdómari kveði upp úrskurð um þessa heimild eða eftir atvikum æðri dómur. Ákvæði 34.–36. gr. lýsa fyrstu skrefunum á þessum ferli með því að tiltaka hvers efnis beiðni skuldarans þurfi að vera og hver gögn þurfi að fylgja henni til héraðsdóms. Þykir rétt að víkja hér nánar að hverju þessara ákvæða.
    Í 34. gr. er talið upp hvað þurfi að koma fram í beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings eða eftir atvikum í sérstakri greinargerð með henni, en auk þeirra almennu atriða, sem þarf að greina skv. 7. gr. í beiðnum og kröfum um ráðstafanir eftir ákvæðum frumvarpsins, er áskilið í 1.–4. tölul. 34. gr. að beiðnin eða greinargerð með henni geymi tilteknar upplýsingar um atriði sem gagngert varða skilyrði fyrir heimild til nauðasamningsumleitana og eftir atvikum framkvæmd þeirra. Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 19/1924 koma ekki fram beinar reglur um það hvers efnis beiðni sem þessi þurfi að vera, en ákvæði 34. gr. frumvarpsins taka um margt mið af því hvernig þessu hefur verið hagað í framkvæmd eftir núgildandi lögum og gera að auki ráð fyrir að ýmis atriði komi fram í beiðninni eða greinargerð með henni, sem ráðgert er í 2. mgr. 31. gr. nefndra laga að komi fram í sérstökum fylgiskjölum með beiðninni. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist frekari skýringa.
    Í 35. og 36. gr. frumvarpsins kemur síðan fram hvað þurfi að fylgja beiðni skuldarans um heimild til að leita nauðasamnings, en þessum ákvæðum er ætlað að koma í stað núgildandi reglna 2. mgr. 31. gr. laga nr. 19/1924. Af gögnum, sem ætlast er til í 35. gr. frumvarpsins að fylgi beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana, má í fyrsta lagi nefna að skv. 2. tölul. 1. mgr. ákvæðisins þurfa skriflegar yfirlýsingar að koma fram um meðmæli með nauðasamningi af hendi að minnsta kosti fjórðungs þeirra atkvæðismanna, sem skuldarinn greinir frá í yfirliti um skuldir sínar skv. 3. tölul. 34. gr., bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 8. tölul. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 19/1924. Í öðru lagi verður síðasta skattframtal skuldarans að fylgja beiðni hans, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 35. gr. frumvarpsins, og einnig, ef hann er bókhaldsskyldur, síðustu ársreikningar hans og uppgjörsreikningar sem kunna síðar að hafa verið gerðir, ásamt álitsgerð löggilts endurskoðanda um hvort bókhald skuldarans sé í lögboðnu horfi og reikningar hans gefi raunhæfa mynd af efnahag hans, sbr. 2. mgr. 35. gr. Þessar reglur eru að nokkru sambærilegar við ákvæði 2. og 5. tölul. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 19/1924. Í þriðja lagi kemur fram í 4. tölul. 1. mgr. 35. gr. frumvarpsins að skuldarinn þurfi að láta tryggingu fylgja beiðni sinni fyrir greiðslu kostnaðar af nauðasamningsumleitunum, en sú trygging þyrfti m.a. að ná til útgjalda vegna starfa umsjónarmanns með samningsumleitunum, sem yrði skipaður af héraðsdómara skv. 2. mgr. 39. gr. Loks skal getið að í 1. tölul. 2. mgr. 35. gr. er mælt fyrir um að skuldarinn þurfi að láta af hendi frumvarp sem hann gerir að nauðasamningi, en nánari ákvæði um efni þess koma fram í 36. gr.
    Síðastnefnda fylgigagnið með beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings, frumvarp hans að nauðasamningi, er tvímælalaust þeirra þýðingarrnest. Frumvarpið á að geyma tillögur skuldarans um efni væntanlegs nauðasamnings, eða eins konar samningsboð hans til atkvæðismanna, en frumvarpið er á síðari stigum borið undir atkvæði og ef það hlýtur nægilegt fylgi atkvæðismanna og staðfestingu dómstóla að atkvæðagreiðslu lokinni þá verður efni þess í reynd að þeim nauðasamningi sem kemst á milli skuldarans og lánardrottna sem fara með samningskröfur á hendur honum. Þessi tilhögun er sú sama og gildir eftir ákvæðum laga nr. 19/1924 og á sér jafnframt hliðstæður í löggjöf annarra ríkja.
    Áðurnefnd aðstaða, að frumvarp skuldarans geti nánast verið lagt óbreytt til grundvallar sem nauðasamningur fyrir hann ef það hlýtur nægilegt fylgi og staðfestingu, setur eðlilega mark sitt á það hvað þurfi að koma fram í frumvarpinu. Skiptir þar ekki síst máli að frumvarpið þarf að vera nægilega ákveðið til þess að ekki orki tvímælis á síðari stigum hvers efnis nauðasamningurinn sé. Ákvæðum 1. mgr. 36. gr. er ætlað að tryggja að frumvarpið verði nægilega ákveðið með því að áskilið er að þar þurfi að taka af skarið um það hversu hátt hlutfall skuldarinn bjóðist til að greiða af samningskröfum, hvort greitt verði í peningum eða öðru formi, hvort staðgreitt verði eða ætlast sé til gjaldfrests til ákveðins tíma, hvort vextir eigi að greiðast og þá hverjir og um hvern tíma, og hvort veð eða önnur trygging verði sett fyrir greiðslum sem gjaldfrestur yrði á og þá eftir atvikum hver sú trygging yrði. Eins og minnst var á í athugasemdum við 29. gr. er gert ráð fyrir því að skuldarinn geti að vissu marki boðið lánardrottnum mismunandi kjör, t.d. með því að þeir sem fallist á lengri gjaldfrest fái vexti af greiðslum eða að þeir sem samþykki fái greiðslu í verðminna formi en aðrir. Að þessu er vikið nánar í 3. mgr. 36. gr. þar sem fram kemur að sækist skuldarinn eftir því í frumvarpi sínu að fá frekari ívilnanir hjá sumum lánardrottnum sínum með samþykki þeirra en hjá öðrum þá verði að koma þar afdráttarlaust fram í hverju sú aukna ívilnun felist og í hverju sé þá vikið frá þeim almennum skilmálum sem séu ætlaðir öðrum. Í frumvarpi sínu gæti skuldarinn hvort heldur tiltekið að hann æski slíkrar aukinnar ívilnunar hjá tilteknum lánardrottnum eða hjá hverjum lánardrottni sem kynni að ljá máls á henni.
    Í 2. mgr. 36. gr. eru lögð til nýmæli, sem var vikið nokkuð að í athugasemdum við 6. tölul. 1. mgr. 28. gr., en samkvæmt þeim má skuldarinn tiltaka í frumvarpi sínu að allar kröfur innan tiltekinnar fjárhæðar, sem hefðu ella talist til samningskrafna, verði greiddar að fullu þótt áskilið sé að aðrir lánardrottnar veiti ívilnun af samningskröfum sínum. Fyrir þessu eru þó sett tvö skilyrði. Annars vegar verður sú fjárhæð, þar sem skuldarinn dregur mörkin í þessum efnum, að teljast óveruleg í ljósi efnahags hans. Örðugt er að tiltaka einhver almenn sjónarmið um það hvenær fjárhæð verði talin óveruleg í ljósi efnahags skuldarans í þessum skilningi, enda verður að ætla að þetta yrði metið sjálfstætt hverju sinni með hliðsjón af heildarfjárhæð samningskrafna, andvirði eigna skuldarans, fjölda þeirra lánardrottna sem mætti vænta að fengju fulla greiðslu samkvæmt þessu í samanburði við þann fjölda sem fengju hana ekki og síðast en ekki síst hvort aðstaðan í heild sinni bæri keim af óhæfilegri mismunun lánardrottna. Hins vegar er það skilyrði sett fyrir því að ákvæði sem þetta standi í samningsfrumvarpi að allar samningskröfur verði að minnsta kosti að fást greiddar með þeirri fjárhæð, sem markar þar skilin milli krafna sem greiðast að fullu og þeirra sem gefið verður eftir af. Þessum áskilnaði mætti fullnægja á annan af tvo vegu, sem skýra verður frekar með tveimur dæmum þar sem ráðgert væri í frumvarpi að nauðasamningi að kröfur að fjárhæð 20.000 kr. og lægri verði greiddar að fullu, en fjórðungur verði greiddur af samningskröfum. Í fyrra dæminu mætti fullnægja umræddu skilyrði 2. mgr. 36. gr. með því að allar samningskröfur á bilinu frá 20.001 kr. til og með 79.999 kr. verði greiddar með umræddum 20.000 kr., þótt hlutaðeigendur séu þannig að fá meira en fjórðung í sinn hlut, en allar kröfur frá og með 80.000 kr. verði greiddar með réttum fjórðungi. Í síðara dæminu yrði skilyrðinu einnig fullnægt með því að hver og ein krafa að fjárhæð 20.001 kr. og hærri verði greidd með umræddum 20.000 kr. og því til viðbótar yrði greiddur fjórðungur af hverri. Fengi þá hver lánardrottinn í reynd meira en fjórðung í sinn hlut, en eftir því sem kröfur væru hærri yrði raunverulega greiðsluhlutfallið lægra. Þessi síðarnefnda tilhögun mundi ekki breyta því að samningsfrumvarpið þyrfti allt að einu að fá það fylgi til að teljast samþykkt í atkvæðagreiðslu, sem verður ákveðið af tilliti til þess að fjórðungsgreiðsla sé boðin. Í ljósi þess sem áður sagði um að efni samningsfrumvarps þurfi að vera skýrt og ákveðið þá yrði að sjálfsögðu að tiltaka þar hvor af þessum tveimur leiðum verði farin. Í síðari málslið 2. mgr. 36. gr. er sett ákvæði í varúðarskyni til að fyrirbyggja að lánardrottinn, sem ætti margar litlar kröfur á hendur skuldaranum, gæti hagnast af því að fá fulla greiðslu á hverri þeirra eða meira greitt upp í hverja en annars hefði orðið. Eftir þessu ákvæði ber að leggja kröfurnar saman og ákveða hvernig þær standi samanlagðar gagnvart frumvarpsákvæði sem þessu, en eftir sömu leið yrði farið með litlar kröfur sem lánardrottinn hefði átt þremur mánuðum fyrir frestdag eða síðar og aðilaskipti hefðu orðið að með þeim afleiðingum að þær dreifðust á hendur tveggja eða fleiri.

Um 37. gr.


    Í 37. gr. er mælt fyrir um fyrstu aðgerðir héraðsdómara þegar honum hefur borist beiðni um heimild til að leita nauðasamnings, en þessar aðgerðir eru sambærilegar þeim sem mælt er fyrir um í 11. gr. og 1. mgr. 12. gr. varðandi fyrstu aðgerðir að framkominni beiðni um heimild til greiðslustöðvunar. Þykir því mega láta við það sitja að vísa hér til athugasemda við þau ákvæði frumvarpsins.

Um 38. og 39. gr.


    Í þessum ákvæðum er einkum mælt fyrir um úrskurð sem héraðsdómara er ætlað að kveða upp um hvort beiðni skuldarans um heimild til að leita nauðasamnings verði tekin til greina. Í 1. mgr. 38. gr. eru talin upp atvik í fimm töluliðum sem mundu valda að héraðsdómara bæri að synja af sjálfsdáðum um þessa heimild í úrskurði sínum. Hér er ekki í öllum atriðum um sambærilegar reglur að ræða við þær sem nú koma fram um sama efni í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 19/1924,.en telja verður að þessar reglur frumvarpsins skýri sig sjálfar. Ef þessi ákvæði 1. mgr. 38. gr. standa því ekki í vegi þá er gert ráð fyrir því í fyrri málslið 1. mgr. 39. gr. að héraðsdómari kveði upp úrskurð um veitingu heimildar til að leita nauðasamnings. Í 2. mgr. 38. gr. og síðari málslið 1. mgr. 39. gr. er mælt fyrir um verulegar takmarkanir á heimildum til að skjóta úrskurðum héraðsdómara um þessi efni til æðra dóms, en ekki verður séð að þær reglur þarfnist hér sérstakra skýringa.
    Ef héraðsdómari tekur til greina í úrskurði sínum beiðni skuldarans um að sér verði veitt heimild til að leita nauðasamnings, segir í 2. mgr. 39. gr. að héraðsdómari skuli tafarlaust skipa umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum með bókun um skipunina í þingbók. Í almennum athugasemdum hér á undan var vikið nokkuð að rökum fyrir og markmiðum með þeirri skipan að sérstaklega ráðnum manni verði falið að hafa umsjón með framkvæmd nauðasamningsumleitana, sem hér má vísa til. Umsjónarmaður sem yrði skipaður samkvæmt 2. mgr. 39. gr. ætti að gegna svipuðu hlutverki við framkvæmd nauðasamningsumleitana og ákvæði laga nr. 19/1924 fela nú héraðsdómara. Þannig ætti umsjónarmaður m.a. að rannsaka og hafa eftirlit með fjárreiðum skuldarans, gefa út innköllun til atkvæðismanna og taka við kröfum þeirra, gera skrá þar sem atkvæði hvers þeirra væri ákveðið og halda síðan fund með þeim og láta greiða þar atkvæði um nauðasamningsfrumvarp, en um þessi atriði eru nánari fyrirmæli í VIII. kafla. Eins og þessi stutta lýsing á helstu verkefnum umsjónarmanns gefur þegar til kynna er umsjónarmanninum ætlað að gegna slíku hlutverki við nauðasamningsumleitanir að annað væri ófært en að lánardrottnar geti jafnt sem skuldari treyst á óhlutdrægni hans. Væri af þessum ástæðum ófært að haga reglum um val á manni í hlutverk umsjónarmanns með sama hætti og gert er í III. kafla, þar sem skuldara er falið að ráða sér aðstoðarmann við greiðslustöðvun. Þá verður að ætlast til að umsjónarmaður hafi þá þekkingu á viðfangsefni sínu og aðra kosti sem þurfi til að geta leyst það af hendi. Af þessum ástæðum þykir bæði nærtækast og helst til hagræðis að sömu reglur gildi um umsjónarmanninn og skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, en í 2. mgr. 39. gr. er einmitt vísað í þessum tilgangi til reglna XIII. kafla frumvarpsins um ýmis almenn atriði varðandi umsjónarmanninn eftir því sem þær reglur geti átt við. Samkvæmt þessu ættu ákvæði 2., 4. og 6. mgr. 75. gr. að gilda um hæfi umsjónarmannsins, lausn hans frá starfi og tryggingu sem hann yrði að setja vegna rækslu þess, reglur 76. gr. ættu við um frávikningu umsjónarmanns, ákvæði 77. gr. mundu taka til réttar hans til þóknunar og eftir atvikum til að leita þjónustu annarra vegna starfa við nauðasamningsumleitanir á kostnað skuldarans, stöðu umsjónarmannsins í starfi og bótaábyrgð, og regla 80. gr. ætti við um viðtöku og varðveislu gagna vegna nauðasamningsumleitana.

Um 40. gr


    Í 1. og 2. mgr. 40. gr. er mælt fytir um áhrif nauðasamningsumleitana á heimildir skuldarans til að ráðstafa hagsmunum sínum og lánardrottna til að fylgja kröfum sínum eftir á tímabilinu frá því skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings fyrir dómi og þar til nauðasamningur kemst á eða heimildin fellur niður skv. 41. eða 42. gr. Reglur 1. og 2. mgr. 40. gr. fela í sér að í nær öllum atriðum hefðu nauðasamningsumleitanir sömu áhrif í þessum efnum og greiðslustöðvun hefði eftir ákvæðum IV. kafla, en umsjónarmaðurinn mundi gegna sama hlutverki og aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun varðandi eftirlit og veitingu heimilda til ráðstafana af hendi skuldarans. Skipanin sem hér er mælt fyrir um er um margt áþekk þeirri sem leiðir af ákvæðum 35. og 36. gr. laga nr. 19/1924.
    Í 3. mgr. 40. gr. frumvarpsins kemur fram sérregla til takmörkunar á heimildum skuldarans til að framselja kröfur sínar meðan á nauðasamningsumleitunum stendur, en tilgangur hennar er að vernda hagsmuni þess sem kynni að eiga kost á að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfur skuldarans, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. Reglu sama efnis er nú að finna í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1924.

Um 41. og 42. gr


    Í 41. gr. er mælt fyrir um atvik sem ráðgert er að hafi sjálfkrafa í för með sér að heimild til að leita nauðasamnings teljist fallin niður. Hér er ýmist um að ræða atriði sem gætu leitt til loka nauðasamningsumleitana áður en reyndi á atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarp skuldarans, sbr. 1.–3. tölul. 41. gr., eða atriði sem marka lok samningsumleitana á síðari stigum með því að samningsfrumvarp hafi ekki hlotið samþykki nægilegs fjölda atkvæðismanna, sbr. 4. tölul. 41. gr., skuldarinn hafi ekki leitað staðfestingar héraðsdómara á samþykktu samningsfrumvarpi í tæka tíð, sbr. 5. tölul. 41. gr., eða kröfu um staðfestingu nauðasamnings hafi verið endanlega hafnað fyrir dómi, sbr. 6. tölul. 41. gr. Sambærileg upptalning kemur ekki fram í lögum nr. 19/1924, en í framkvæmd yrði tvímælalaust gengið út frá því að sömu atvik leiði til loka samningsumleitana.
    Í 42. gr. er mælt fyrir um sérstaka heimild handa hvort heldur lánardrottni sem fer með samningskröfu eða umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum til að krefjast fyrir héraðsdómi að heimild skuldarans verði felld niður meðan hún hefur ekki enn liðið undir lok eftir ákvæðum 41. gr. eða með því að nauðasamningur hafi verið staðfestur. Í þremur töluliðum 1. mgr. 42. gr. eru þau atvik talin sem gætu orðið tilefni til kröfu sem þessarar, en þessi ákvæði þykja skýra sig sjálf. Reglur 2.–4. mgr. 42. gr. um efni kröfu um niðurfellingu heimildar til nauðasamningsumleitana og meðferð hennar fyrir héraðsdómi eru samsvarandi ákvæðum 26. gr. um kröfu lánardrottins um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar og má því vísa hér til athugasemda við þau. Í 5. mgr. 42. gr. er kveðið á um rétt skuldarans til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um niðurfellingu heimildar til að leita nauðasamnings innan mjög skamms kærufrests, eins sólarhrings, og eigi kæra sér stað innan þess tíma stendur heimild skuldarans án tillits til úrskurðarins þar til dómur gengur í málinu í Hæstarétti. Með þessum reglum er tekið tillit til þess að skuldarinn getur haft verulega hagsmuni af því að fá reynt til fullnaðar á það hvort hann eigi rétt til að halda samningsumleitunum sínum áfram, enda gæti stöðvun þeirra leitt til hættu á gjaldþrotaskiptum og það sem þegar væri að baki í vinnu við samningsumleitanir yrði honum ónýtt. Þykir því nauðsynlegt að gefa skuldaranum kost á að leita úrlausnar æðra dóms í þessari aðstöðu og tryggja um leið að heimildin til nauðasamningsumleitana standi óhögguð meðan beðið yrði úrlausnarinnar, þannig að samningsumleitanir geti haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist ef niðurstaða æðra dóms yrði á annan veg en héraðsdómara. Kærufrestur er hins vegar hafður mjög skammur hér til að girða fyrir að skuldari geti vísvitandi dregið að kæra og notið þannig verndar 40. gr. fyrir lánardrottnum um óþarflega langan tíma ef réttmætt væri að fella heimild hans til samningsumleitana niður, en skuldarinn mundi glata rétti sínum til kæru að liðnum þeim sólarhringsfresti sem kveðið er á um í 5. mgr. 42. gr. Í niðurlagi umrædds ákvæðis kemur fram að almennar reglur gildi að öðru leyti um málskot úrskurða héraðsdómara skv. 4. mgr. 42. gr., en með þessum fyrirmælum er umsjónarmanni eða lánardrottni, sem hefur krafist niðurfellingar heimildar skuldarans, veittur réttur til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara, þar sem kröfunni hefði verið hafnað, eftir reglum 179. gr. frumvarpsins.

Um 43. gr.


    Í 43.–53. gr., sem heyra til VIII. kafla frumvarpsins, er fjallað um það hvernig nauðasamningsumleitanirnar fari fram, en þær hefjast þegar í stað við uppkvaðningu dómsúrlausnar um heimild skuldarans til þeirra og ef heimildin fellur ekki niður samkvæmt ákvæðum 41. eða 42. gr. má segja að í bókstaflegum skilningi ljúki samningsumleitunum sem slíkum við lok atkvæðagreiðslu þar sem samningsfrumvarp fæst samþykkt og þá taki við lokaaðgerðin við samningsgerðina að fá nauðasamning staðfestan þótt réttaráhrif nauðasamningsumleitana skv. 40. gr. standi allt þar til staðfesting fæst.
    Í 43. gr. er mælt fyrir um ýmsar sérstakar starfsskyldur umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum og úrræði sem honum eru veitt til að geta gegnt þeim. Þannig er í fyrsta lagi að finna reglur í 1. mgr. um fyrstu aðgerðir umsjónarmanns eftir að hann hefur tekið til starfa, en hann á þegar í stað að gera athugun á því hvort þær upplýsingar skuldarans hafi verið réttar, sem voru látnar af hendi við öflun heimildar til samningsumleitana. Umsjónarmaðurinn á einnig að gera nauðsynlegar ráðstafanir strax eftir skipun sína til að koma á því eftirliti og þeirri umsjón sem honum er ætlað að hafa með höndum varðandi fjármál skuldarans skv. 40. gr. Þá eru í öðru lagi ákvæði í 1. mgr. 43. gr. sem er ætlað að tryggja umsjónarmanni aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, bæði til að gera fyrrnefnda athugun á áreiðanleika upplýsinga skuldarans og halda uppi eftirliti sínu og umsjón með fjárreiðum. Í þessu skyni er annars vegar kveðið á um skyldu skuldarans til að veita umsjónarmanninum upplýsingar og aðgang að gögnum og hins vegar skyldu annarra til upplýsingagjafar ef þeim væri slíkt skylt vegna gjaldþrotaskipta á búi skuldarans, en hér er um þá að ræða sem er getið í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. Umsjónarmanninum er heimilað sérstaklega að neyta úrræða 81. og 82. gr. til að fylgja því eftir að þessum skyldum verði sinnt. Loks er í þriðja lagi í 2. mgr. 43. gr. mælt fyrir um skyldu umsjónarmannsins til að hafa sérstakar gætur á því hvort einhver atvik komi upp sem valdi annaðhvort að heimild skuldarans til samningsumleitana falli sjálfkrafa niður, sbr. 41. gr., eða að heimildin geti verið felld niður, sbr. 1. mgr. 42. gr.

Um 44.–46. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er fjallað um hvernig lýst verði eftir samningskröfum við nauðasamningsumleitanir, hvernig lánardrottnar komi kröfum sínum á framfæri og hverja afgreiðslu kröfurnar hljóti í kjölfarið.
    Í 44. gr. eru ákvæði um það atriði, sem hér var fyrst talið, en skv. 1. mgr. er meginleiðin til að kalla eftir samningskröfum sú að umsjónarmaðurinn gefur út og fær birta tvívegis í Lögbirtingablaði áskorun til þeirra sem telja sig eiga slíkar kröfur að lýsa þeim fyrir sér innan fjögurra vikna frá fyrri birtingu innköllunarinnar. Í innkölluninni eiga tiltekin atriði að koma fram til að taka af tvímæli um hver skuldarinn sé, tilgreina verður að um innköllun sé að ræða vegna nauðasamningsumleitana, sem skuldarinn hafi fengið heimild til með tiltekinni dómsúrlausn, fram þarf að koma hvert kröfulýsingar skuli sendar og hvar og hvenær fundur verði haldinn skv. 48. gr. til að greiða atkvæði um samningsfrumvarp. Auk þess að gefa út innköllun með þessum hætti hvílir skylda skv. 2. mgr. 44. gr. á umsjónarmanninum til að senda öllum þekktum lánardrottnum skuldarans tilkynningu þar sem sömu atriði komi fram og í innköllun ásamt eintaki af samningsfrumvarpinu, en þessi gögn þarf að senda í ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggan hátt. Ákvæði 44. gr. eru nánast þau sömu og nú koma fram í 1., 3. og 4. mgr. 37. gr.laga nr. 19/1924. Líkt og í nefndum ákvæðum núgildandi laga býr það sjónarmið að baki reglum frumvarpsins um skemmri kröfulýsingarfrest handa lánardrottnum en við gjaldþrotaskipti að nauðsynlegt er að niðurstaða fáist á sem skemmstum tíma um hvort nauðasamningur komist á, en til mótvægis við þennan stutta kröfulýsingarfrest kemur skyldan til að vekja athygli þekktra lánardrottna á samningsumleitunum og kröfulýsingarfresti með tilkynningu til hvers þeirra.
    Í 45. gr. eru fyrirmæli um kröfulýsingar lánardrottna, en skv. 1. mgr. eiga þær að vera gerðar eins úr garði og við gjaldþrotaskipti, sbr. 2. og 3. mgr. 117. gr. Áhrif kröfulýsingar við þessar aðstæður eru hins vegar ekki þau sömu og við gjaldþrotaskipti, því skv. 6. mgr. 117. gr. telst kröfulýsing í þrotabú ígildi málshöfðunar og hún veitir jafnframt lánardrottni rétt til að hafa afskipti af framkvæmd skipta og fá kröfu sinni fullnægt við skiptin ef hún verður viðurkennd og fjárhagur búsins leyfir. Við nauðasamningsumleitanir hefur kröfulýsing á hinn bóginn þau áhrif að hún leiðir í fyrsta lagi til slita á fyrningu, sbr. 2. mgr. 45. gr., í öðru lagi veitir hún lánardrottninum rétt til að greiða atkvæði um samningsfrumvarpið, sbr. 4. mgr. 45. gr., enda sé um samningskröfu að ræða sem atkvæðisréttur fylgir, í þriðja lagi veitir hún lánardrottni rétt til afskipta af því hverjir fái notið atkvæðisréttar, sbr. 3. mgr. 48. gr., og í fjórða lagi getur hún leitt til þess að lánardrottinn verði eins settur að gerðum nauðasamningi og ef hann hefði gert réttarsátt við skuldarann um kröfu sína, sbr. 3. mgr. 60. gr. Kröfulýsing veitir hins vegar lánardrottni engan rétt til að fá fullnustu á kröfu sinni þegar um nauðasamningsumleitanir er að ræða.
    Rétt er að vekja hér athygli á því að ákvæði 45. gr. fela einnig í sér reglur sem leiða til þess að innköllun við nauðasamningsumleitanir hafi ekki sömu áhrif og við gjaldþrotaskipti. Þetta kemur nánar fram með þeim hætti í 3. mgr. 45. gr. að vanlýsing kröfu við nauðasamningsumleitanir hefur ekki í för með sér kröfumissi gagnstætt því sem á að jafnaði við um vanlýsingu við gjaldþrotaskipti, sbr. 118. gr. Ákvæði 3. og 4. mgr. 45. gr. leiða þannig sameiginlega í ljós að tilgangur innköllunar við nauðasamningsumleitanir sé fyrst og fremst sá að gefa þeim lánardrottnum kost á að gefa sig fram sem geti átt rétt til að greiða atkvæði um samningsfrumvarp og að sama skapi að tilgangur kröfulýsingar lánardrottins sé öðru fremur að fá að neyta atkvæðisréttar síns um frumvarpið.
    Að öðru leyti skal þess getið um 45. gr. að í 4. mgr. kemur fram að þeir atkvæðismenn, sem hafa lýst kröfum sínum fyrir umsjónarmanni innan kröfulýsingarfrests, eigi einir rétt til að greiða atkvæði um samningsfrumvarp. Lánardrottinn nýtur þannig ekki atkvæðisréttar að öðrum kosti og skiptir þá ekki máli hvort kunnugt hafi verið um kröfu hans eða hvort honum hafi verið send tilkynning að hætti 2. mgr. 44. gr. Þá er heldur ekki heimild til að koma kröfu að eftir lok kröfulýsingarfrests til að fá að njóta atkvæðisréttar, gagnstætt því sem er um að ræða við gjaldþrotaskipti, sbr. 1.–6. tölul. 118. gr.
    Í 46. gr. er mælt fyrir um hvernig umsjónarmaðurinn fari með kröfulýsingar lánardrottna, en skv. 1. mgr. ákvæðisins á hann að gera skrá um framkomnar samningskröfur, sem hann telur atkvæðisrétt fylgja um samningsfrumvarp, þegar í stað að loknum kröfulýsingarfresti eða eftir atvikum jafnharðan og kröfurnar berast meðan á frestinum stendur. Í þessari skrá, sem svipar mjög til kröfuskrár við gjaldþrotaskipti skv. 119. gr., á að tiltaka þau atriði sem eru talin í 1.–3. tölul. 1. mgr. 46. gr., þ.e. frá hverjum krafa stafi og hvenær hún hafi borist, fjárhæð hverrar kröfu og hver atkvæði fylgi henni í atkvæðagreiðslu eftir höfðatölu atkvæðismanna og kröfufjárhæðum. Verklag umsjónarmanns við gerð þessarar skrár yrði hins vegar ekki það sama og við gerð kröfuskrár í þrotabúi því ráða má af ákvæðum 1. og 2. mgr. 46. gr. að umsjónarmanninum sé ekki ætlað að leggja mat á réttmæti framkominna krafna. Á hinn bóginn á hann að gæta þess af sjálfsdáðum skv. 2. tölul. 1. mgr. 46. gr. að fjárhæð hverrar kröfu sé reiknuð í skránni af tilliti til reglna 3. mgr. 28. gr. og 2. og 3. mgr. 30. gr. þannig að hann yrði að lækka kröfufjárhæð frá því sem kæmi fram í kröfulýsingu til samræmis við þær reglur ef því væri að skipta, en eftir almennum reglum réttarfars mætti hann hins vegar ekki reikna lánardrottni t.d. vexti sem ekki hefur verið krafist í kröfulýsingu. Á grundvelli niðurstöðu sem fengist á þennan hátt um kröfufjárhæðir á umsjónarmaðurinn síðan að ákvarða hverjum atkvæðismanni atkvæði á grundvelli kröfufjárhæðar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 46. gr., og um leið eftir höfðatölu. Skyldur umsjónarmannsins til að huga að kröfum að sjálfsdáðum koma helst fram við ákvörðun hans á atkvæðisrétti að öðru leyti en áður getur því skv. 2. mgr. 46. gr. á hann að kanna hvort lýst krafa teljist samningskrafa og hann á einnig að gæta að því hvort lánardrottinn, sem hefur lýst samningskröfu, njóti atkvæðisréttar á grundvelli hennar, sbr. 1. mgr. 33. gr. Ef hann telur að framkominni kröfu fylgi ekki atkvæði af þessum sökum á hann að láta hjá líða að taka hana upp í skrá sína, en skv. síðari málslið 2. mgr. 46. gr. ber honum að tilkynna hlutaðeigandi lánardrottni um slíka afstöðu sína með sannanlegum hætti og tilteknum fyrirvara, þannig að hlutaðeiganda gæfist eftir atvikum kostur á að halda rétti sínum til atkvæðis til streitu, sbr. 3. mgr. 48. gr. Rétt er að ítreka hér að endingu að umsjónarmanninum er ekki ætlað að kanna réttmæti lýstra krafna við gerð skrár sinnar skv. 1. mgr. 46. gr., hvorki með því að bera þær t.d. saman við bókhaldsgögn skuldarans né með því að leita afstöðu skuldarans til þeirra, og á umsjónarmaðurinn því að leggja kröfulýsingarnar til grundvallar í skrá sinni að gættum þeim atriðum varðandi ákvörðun fjárhæða og atkvæðisréttar sem hér var getið.
    Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. á umsjónarmaðurinn að gefa skuldaranum kost á að kynna sér skrá skv. 1. mgr. 46. gr., kröfulýsingar og fylgigögn með þeim með hæfilegum fyrirvara fyrir fund skv. 48. gr., en með þessu er verið að tryggja að skuldarinn eigi kost á að kynna sér stöðu mála áður en komið er að atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarpið, bæði til að athuga hvort kröfur hafi komið fram, sem tilefni gæti verið til að mótmæla, og til að gera ráðstafanir til að tryggja sér fylgi með samningsfrumvarpi hjá atkvæðismönnum.

Um 47. gr.


    Í 47. gr. kemur fram heimild handa skuldaranum til að breyta frumvarpi sínu að nauðasamningi allt fram að því að atkvæðagreiðslu ljúki endanlega um það skv. 50. eða 51. gr. Ef skuldarinn hyggst breyta frumvarpi sínu sér til aukinnar ívilnunar er heimild hans til þess þó háð því að hann afli meðmæla með frumvarpinu í breyttri mynd frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna, talið bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 35. gr., en af þessu verður ályktað að engra meðmæla sé þörf ef skuldarinn hækkar greiðsluboð sitt eða breytir öðrum skilmálum frumvarps til hagsbóta fyrir lánardrottna.
    Sambærilega heimild til breytinga á samningsfrumvarpi má finna í 2. mgr. 38. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 19/1924, en þar er þó ekki áskilið að meðmæli þurfi að koma fram á ný frá lánardrottnum þótt frumvarpi sé breytt skuldara í hag. Þykir eðlilegt að breyta reglum um þetta í það horf, sem lagt er til með frumvarpinu, enda eru meðmæli lánardrottna ein frumforsendan fyrir heimild til nauðasamningsumleitana og lakara greiðsluboð eftir breyttu frumvarpi gæti þannig eðlilega leitt til brostinna forsendna fyrir samningsumleitunum ef lánardrottnar væru því ekki samþykkir.
    Í framkvæmd hefur lítið sem ekkert reynt á þær heimildir skuldara sem hér um ræðir, en þær geta þó þjónað raunhæfum tilgangi, t.d. ef kæmi í ljós við lok kröfulýsingarfrests að frekari kröfur hafi komið fram en skuldarinn vænti, þannig að hann gæti ekki staðið undir fyrra greiðsluboði sínu.

Um 48. gr.


    Í þessum 48.–52. gr. frumvarpsins koma fram reglur um atkvæðagreiðslu atkvæðismanna um samningsfrumvarp skuldarans, en hún fer fram á fundi sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum heldur með lánardrottnum eftir lok kröfulýsingarfrests. Þessi tilhögun er sambærileg þeirri sem mælt er fyrir um í ákvæðum 3. mgr. 37. gr., 41. gr. og 1. og 4. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1924, að öðru leyti en því að samkvæmt þeim ákvæðum fara fundir um samningsfrumvarp fram fyrir dómi og undir stjórn héraðsdómara.
    Í 48. gr. frumvarpsins koma fram almennar reglur um fundinn sem er haldinn með lánardrottnum til atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarp skuldarans. Í 1. mgr. 48. gr. er að mestu vísað til ákvæða 4. þáttar frumvarpsins varðandi skiptafundi við gjaldþrotaskipti um það hvernig staðið verði að framkvæmd fundarins með þeirri athugasemd að umsjónarmaður með samningsumleitunum gegni því hlutverki í þessum efnum sem skiptastjóri gegnir við gjaldþrotaskipti. Í upphafi 1. mgr. er þó tiltekið sérstaklega að halda beri þennan fund til atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarpið innan tveggja vikna frá lokum kröfulýsingarfrests, en með þessari reglu er tekið tillit til þess að nauðsynlegt sé að því verði ráðið sem fyrst til lykta hvort nauðasamningur komist á. Ekki er mælt fyrir um sérstakar afleiðingar af broti gegn því að fylgja skyldu til að halda fundinn innan umrædds tíma, en vanræksla umsjónarmanns í þessum efnum gæti varðað áminningu eða frávikningu eftir 76. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr.
    Í 2. mgr. 48. gr. eru tiltekin atriði talin upp sem umsjónarmanninum er ætlað að gera grein fyrir í byrjun fundar með lánardrottnum, en að þeirri greinargerð lokinni er mælt svo fyrir í 3. mgr. að umsjónarmanninum beri að gefa fundarmönnum kost á að hreyfa mótmælum gegn þeim grundvelli atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarpið sem kemur fram í skrá hans skv. 46. gr. Í 3. mgr. 48. gr. kemur fram að atkvæðismenn og skuldarinn eigi rétt á að hafa uppi mótmæli, sem geti eftir atvikum beinst að réttmæti kröfu, sem væri að finna í skránni, ákvörðun kröfufjárhæðar eða atkvæðis í skjóli kröfu samkvæmt skránni, eða því að umsjónarmaður hafi ekki tekið lýsta kröfu upp í skránni vegna ákvæða 2. mgr. 46. gr. Að sama skapi gæti lánardrottinn, sem hefur lýst kröfu en hefur ekki verið ákveðið atkvæði í skránni, mótmælt því að hann fái ekki að njóta atkvæðis. Þótt mótmæli kæmu fram með þessum hætti er ekki ætlast til þess að gengið verði lengra á þessu stigi en að umsjónarmaðurinn bóki í fundargerð að þau hafi komið fram og reyni áð jafna ágreininginn, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 48. gr. Þótt kröfu á skrá umsjónarmannsins hefði verið mótmælt mundi atkvæðisréttur allt að einu fylgja henni, en lánardrottinn sem teldi sig ranglega útilokaðan frá atkvæði í skránni fengi að njóta atkvæðisréttar að framkomnum mótmælum af hendi hans. Atkvæði sem væru greidd með þessum hætti undir mótmælum verða hins vegar talin ágreiningsatkvæði, sbr. 3. mgr. 50. gr., en áhrif þeirra á niðurstöður um samningsfrumvarp fara eftir sérstökum reglum í 52. gr. Ágreiningur um þessi atriði yrði því ekki lagður sérstaklega fyrir héraðsdómara til úrlausnar, en reynt gæti á hann með óbeinum hætti á síðari stigum við úrlausn um hvort samþykkt samningsfrumvarp verði staðfest, sbr. 4. og 5. tölul. 58. gr.
    Samkvæmt 4. mgr. 48. gr. á umsjónarmaðurinn að gefa fundarmönnum kost á að tjá sig um samningsfrumvarpið að framangreindum aðgerðum afstöðnum og eftir atvikum að koma fram fyrirspurnum um frumvarpið eða fjármál skuldarans. Að þeim umræðum loknum er svo komið að atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarpið, sem nánar er mælt fyrir um í reglum 49.–52. gr.

Um 49. gr.


    Í 49. gr. koma fram reglur um það hvert fylgi frumvarp að nauðasamningi þurfi að fá í atkvæðagreiðslu til að það teljist samþykkt. Með sama hætti og í ákvæðum 15. gr. laga nr. 19 1924 ræðst nauðsynlegt fylgi með samningsfrumvarpi til samþykkis þess af því um hverja eftirgjöf eða ívilnun sé þar að ræða handa skuldaranum, og á sama hátt og í umræddum ákvæðum verður viðeigandi atkvæðafjöldi að koma fram til samþykkis bæði eftir talningu höfðatöluatkvæða og kröfufjárhæðaatkvæða. Reglur 49. gr. frumvarpsins eru hins vegar frábrugðnar ákvæðum nefndrar 15. gr. um það hversu mikið fylgi samningsfrumvarp þurfi að fá til samþykkis, en þau nýmæli sem hér um ræðir eiga sér fyrirmyndir í danskri löggjöf.
    Um þann atkvæðafjölda sem þarf til samþykkis nauðasamningsfrumvarpi er gerður greinarmunur á því í 49. gr. hvort ráðgert sé í frumvarpinu að skuldarinn fái hlutfallslega, eftir atvikum algera, eftirgjöf af samningskröfum eða hvort engin ráðagerð sé uppi um slíka lækkun krafna. Ef um það síðarnefnda er að ræða, t.d. með því að skuldarinn leiti aðeins eftir gjaldfresti á samningskröfum en muni greiða þær að fullu, verður frumvarpið að hljóta 60% atkvæða til að teljast samþykkt, bæði eftir höfðatölu og kröfufjárhæðum. Ef skuldarinn æskir hins vegar lækkunar á samningskröfum, hvort sem því fylgja síðan ákvæði um gjaldfrest eða önnur efni sem heimilt væri, er mælt fyrir um aðrar reglur. Nánar tiltekið verður skuldarinn þá að fá sama hundraðshluta fylgis með samningsfrumvarpi og nemur hundraðshluta eftirgjafarinnar sem hann æskir af samningskröfum þó aldrei minna en 60% atkvæða. Þetta táknar með öðrum orðum að ef skuldarinn býðst t.d. til að greiða 30% af samningskröfum þá er um að ræða 70% eftirgjöf af þeim, en þá yrði samningsfrumvarpið samþykkt ef það fengi 70% atkvæða við atkvæðagreiðslu eftir bæði höfðatölu og kröfufjárhæðum. Boð um 31% greiðslu fæli í sér 69% eftirgjöf og þyrfti þá frumvarpið að fá 69% atkvæða. Ef skuldarinn býður hins vegar t.d. greiðslu á 50% og æskir þar með 50% eftirgjafar verður frumvarpið allt að einu að fá 60% atkvæða til að teljast samþykkt, en þetta er afleiðing af fyrrgreindu ákvæði 49. gr. um lágmarksfylgi til samþykktar á nauðasamningsfrumvarpi.
    Rétt er að taka fram að umrædd atkvæðahlutföll þurfa að fást fyrir samþykki samningsfrumvarps miðað við heildarfjölda atkvæða, en ekki er nóg að viðeigandi hlutfall náist af greiddum atkvæðum.

Um 50. gr.


    Í 50. gr. koma fram nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar um samningsfrumvarp skuldarans. Gengið er út frá þeirri aðalreglu að atkvæðamenn mæti á fundi skv. 48. gr. til að greiða þar atkvæði, en í 1. mgr. er þó kveðið á um undantekningu frá því með því að ráðgert er að atkvæðismönnum verði heimilt að greiða atkvæði skriflega, sem yrði þá að gera í nánar tilteknu formi. Í 2. mgr. er síðan mælt fyrir um greiðslu atkvæðis eftir umboði á fundi skv. 48. gr. Þessar reglur þykja skýra sig sjálfar.
    Í 3. mgr. 50. gr. er fjallað um ágreiningsatkvæði, sem minnst var á hér áður í tengslum við 3. mgr. 48. gr., en til þeirra teljast atkvæði greidd á grundvelli kröfu, sem annaðhvort er talin á skrá umsjónarmanns skv. 46. gr. og hefur verið mótmælt, eða sem hefur ekki verið talin í skránni og hlutaðeigandi lánardrottinn hefur sótt fundinn og krafist að fá að njóta atkvæðis fyrir. Tekið er fram í 3. mgr. 50. gr. að ef ágreiningur stendur aðeins um hluta kröfu þá skuli atkvæði á grundvelli hennar greitt í tvennu lagi þannig að annars vegar lægi fyrir almennt atkvæði, sem væri greitt í skjóli þess hluta kröfunnar sem væri óumdeildur, og hins vegar ágreiningsatkvæði sem styddist við umdeildan hluta kröfunnar. Eins og fram kemur í niðurlagi 4. mgr. 50. gr. á umsjónarmaðurinn að halda ágreiningsatkvæðum aðgreindum frá öðrum atkvæðum, enda koma sérreglur fram í 52. gr. um hvort þau verði talin með og þá eftir atvikum hvernig.
    Í 4. mgr. 52. gr. er mælt fyrir um að umsjónarmaðurinn eigi að færa nánar tiltekin atriði um atkvæðagreiðsluna í fundargerð, en ákvæðin um þetta þykja skýra sig sjálf.

Um 51. gr.


    Í 51. gr. felst heimild handa umsjónarmanni til að ákveða að ósk skuldara að atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarp verði fram haldið á sérstökum fundi með atkvæðismönnum, sem yrði að halda innan tveggja vikna frá fundi eftir 48. gr. Meginskilyrðið fyrir því að þessarar heimildar verði neytt er að ónóg þátttaka hafi verið í atkvæðagreiðslu á fundi skv. 48. gr. þannig að frumvarpið hafi hvorki fengist samþykkt né hafi það fallið. Þetta gæti t.d. gerst við þær aðstæður að greiða hafi átt atkvæði um frumvarp, sem þyrfti 70% atkvæða til samþykkis, en á fundi skv. 48. gr. hafi komið fram 62% atkvæða fylgjandi frumvarpinu og 12% atkvæða gegn því. Undir þessum kringumstæðum gæti aukin þátttaka í atkvæðagreiðslu hvort heldur nægt til að frumvarpið yrði samþykkt eða beinlínis fellt með nægilega mörgum mótatkvæðum. Ef nægilega mörg mótatkvæði kæmu hins vegar þegar fram á fundi skv. 48. gr. til að fella frumvarpið, hvort sem væri bæði við talningu eftir höfðatölu og kröfufjárhæðum eða aðeins á annan hvorn veginn, væri samningsumleitunum þar með lokið og yrði þá ekki um það að ræða að framhaldsfundur yrði haldinn skv. 51. gr. Það skilyrði er að auki sett í 1. mgr. 51. gr. fyrir því að framhaldsfundur verði haldinn að skuldarinn óski eftir þessu við umsjónarmanninn áður en fundi skv. 48. gr. er slitið.
    Ef þeim tveimur skilyrðum, sem nú hefur verið getið, væri fullnægt fyrir því að framhaldsfundur fari fram til að reyna að ná fram frekari þátttöku í atkvæðagreiðslu, er gert ráð fyrir því í 1. mgr. 51. gr. að umsjónarmaðurinn verði við ósk skuldarans um að halda slíkan fund. Þetta yrði umsjónarmaðurinn að tilkynna fundarmönnum áður en fundi skv. 48. gr. væri slitið, en beinlínis er tekið fram í 1. mgr. 51. gr. að umsjónarmaðurinn þurfi ekki að boða frekar til framhaldsfundarins en með umræddri tilkynningu á fyrri fundinum. Væri það þannig verk skuldarans að reyna að fá aukna fundarsókn á síðari fundinum.
    Samkvæmt 51. gr. er ætlast til að framhaldsfundur fari fram með sama hætti og fundur skv. 48. gr., en mælt er þó fyrir um frávik frá þessu að tvennu leyti. Annars vegar kemur fram í niðurlagi 1. mgr. 51. gr. að mótmæli að hætti 3. mgr. 48. gr. verði ekki höfð uppi á framhaldsfundi og hins vegar kemur fram í 2. mgr. 51. gr. að atkvæði greidd á upphaflega fundinum teljist standa óhögguð nema annaðhvort að hlutaðeigandi atkvæðismaður mæti á framhaldsfundinn og greiði þar atkvæði á ný eða að samningsfrumvarpinu hafi verið breytt frá því atkvæðið var greitt. Skiptir ekki máli í því tilliti hvort breyting hafi verið gerð til aukinnar ívilnunar fyrir skuldarann eða honum til íþyngingar.
    Ætlunin með framhaldsfundi eftir heimild í 51. gr. er að sjálfsögðu sú að þar verði reynt til þrautar á það hvort samningsfrumvarp fáist samþykkt. Aðeins er heimilt að halda framhaldsfund eitt skipti, svo sem ráða má af ákvæðum 51. gr. og 1. mgr. 52. gr., þannig að samningsumleitanir gætu ekki aðeins farið út um þúfur með því að frumvarpið verði beinlínis fellt, heldur einnig með því að þátttaka í atkvæðagreiðslu á framhaldsfundi væri enn ónóg til að hrein niðurstaða fáist, en þetta má sjá af orðalagi 4. tölul. 41. gr. Mundi heldur engu breyta þótt nægileg atkvæði hefðu komið fram til samþykkis á frumvarpi við talningu eftir höfðatölu atkvæðismanna ef eitthvað vantaði upp á nægileg atkvæði talin eftir kröfufjárhæðum, og öfugt.

Um 52. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. á umsjónarmaður að kunngera niðurstöður atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarp áður en þeim fundi er slitið þar sem henni lýkur endanlega, en þetta gæti annaðhvort verið fyrsti og eini fundurinn sem yrði haldinn til atkvæðagreiðslu, sbr. 48. gr., eða framhaldsfundur eftir 51. gr. Þessi fyrirmæli hafa í för með sér að atkvæðatalning fari fram á fundinum að viðstöddum atkvæðismönnum sem vilja fylgjast með henni. Er þetta lagt til í því skyni að tvímælalaust verði hvenær atkvæðagreiðslu hafi verið lokið þannig að víst verði hvenær annaðhvort heimild til samningsumleitana hefur fallið niður með því að frumvarp hafi ekki fengist samþykkt, sbr. 4. tölul. 41. gr., eða frestur skuldarans til að krefjast staðfestingar fyrir dómi á samþykktu frumvarpi byrji að líða, sbr. 1. mgr. 54. gr.
    Í framkvæmd hefur verið sjaldgæft að ágreiningur standi um atkvæðisrétt eða umfang einstakra atkvæða við nauðasamningsumleitanir og er ástæðulaust að vænta að nein breyting verði þar á þótt þetta frumvarp verði að lögum. Þegar enginn ágreiningur er uppi í þessum efnum er talning atkvæða tiltölulega einfalt verk þótt atkvæðatölur geti óneitanlega verið nokkuð óvenjulegar í ljósi þess að þær reiknist sem hlutfallstölur. Af þessum ástæðum þykir ekkert tilefni vera til að gera ráð fyrir sérstökum reglum um talningu atkvæða um nauðasamningsfrumvarp ef ágreiningur er ekki uppi um þau.
    Öðru máli gegnir ef ágreiningur stendur um atkvæði og er óhjákvæmilegt að sérstök fyrirmæli komi fram í frumvarpi þessu um talningu við þær aðstæður. Eftir ákvæðum 13. gr. laga nr. 19/1924 er leitast við að komast hjá töfum á að fá niðurstöðu um samningsumleitanir með því að reyna á það hvort samningsfrumvarp teljist annaðhvort samþykkt eða fallið án tillits til ágreinings um atkvæði, en ef sú staða er uppi verður ekki hugað frekar að ágreiningnum. Að öðrum kosti tefst að fá niðurstöður samningsumleitana þar til dómsúrlausn gengur um ágreiningsefni. Reglur 2.–4. mgr. 52. gr. frumvarpsins byggja að nokkru á svipuðum grunni með því að reynt er með sambærilegum hætti að komast hjá frekari athugun á ágreiningsatriðum ef þau skipta ekki máli fyrir niðurstöður atkvæðagreiðslu, en umræddar reglur frumvarpsins eru hins vegar frábrugðnar núgildandi reglum um það hvað verði gert ef ágreiningsatkvæði gæti skipt sköpum um niðurstöður.
    Nánar tiltekið fela ákvæði 2.–4. mgr. 52. gr. í sér að hafi eitt eða fleiri ágreiningsatkvæði komið fram skv. 3. mgr. 50. gr., þá á umsjónarmaðurinn að byrja atkvæðatalningu eftir fyrirmælum 2. mgr. 52. gr. með því að telja öll atkvæði, þar á meðal þau sem ágreiningur er um, en kanna síðan hvort óumdeild atkvæði nægi til að niðurstaða fáist á annan hvorn veginn. Ef svo er þarf hann ekki að huga frekar að ágreiningsefnum, enda hefðu þau enga þýðingu um lyktir samningsumleitana. Fáist ekki málalok með þessum hætti vegna þess að ágreiningsatkvæði gætu ráðið hvort frumvarp teldist samþykkt, þá verður umsjónarmaðurinn að stíga annað skrefið á þessari braut, en skv. 3. mgr. 52. gr. felst það í því að hann reyni frekar að jafna þann ágreining sem er uppi um atkvæði, hvort sem ágreiningurinn stendur milli tveggja lánardrottna, skuldarans og lánardrottins eða hans sjálfs og lánardrottins. Af 3. mgr. 52. gr. leiðir að ef ágreiningsefni leysast að einhverju leyti eða öllu á þennan hátt þá verði atkvæði talin á ný með fyrrgreindum hætti. Ef niðurstaða fæst í þetta sinn um afdrif samningsfrumvarpsins þarf ekki meira til jafnvel þótt enn sé óleystur ágreiningur um atkvæði sem mundi engu skipta um niðurstöðuna. Fáist hins vegar ekki málalok með þessu móti verður umsjónarmaðurinn að grípa til þriðja og síðasta úrræðisins til að ná fram niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Samkvæmt 4.mgr. 52. gr. felst þetta úrræði í því að umsjónarmaðurinn telji atkvæðin enn á ný og þessu sinni með því að taka óumdeild atkvæði og ágreiningsatkvæði til samþykkis á frumvarpinu með, en sleppa öllum öðrum ágreiningsatkvæðum hvort sem þau voru greidd gegn frumvarpinu, lánardrottinn tók ekki afstöðu til frumvarpsins eða atkvæðisréttar á grundvelli þeirra var ekki neytt. Við talningu eftir þessari aðferð breytist innbyrðis vægi atkvæða nokkuð því ágreiningsatkvæði, sem hafa fallið gegn frumvarpinu eða voru ekki greidd, verða afmáð með öllu úr atkvæðaskrá. Við það fækkar höfðatöluatkvæðum og að sama skapi hækkar vægi allra annarra atkvæða í talningu eftir kröfufjárhæðum þannig að samningsfrumvarp gæti talist samþykkt með atbeina færri atkvæðismanna en ella. Niðurstaðan sem fæst við beitingu þessa síðasta kosts um atkvæðatalningu telst endanleg samkvæmt niðurlagsorðum 4. mgr. 52. gr. þannig að annaðhvort hefur frumvarpið verið samþykkt eða ekki.
    Munurinn milli þeirrar skipunar, sem leiðir af reglum 2.–4. mgr. 52. gr., og þeirrar sem gildir eftir ákvæðum laga nr. 19/1924, felst í því að samningsumleitanir verða hér ekki stöðvaðar um óákveðinn tíma til að fá leyst úr ágreiningi um einstök atkvæði fyrir dómstólum. Þess í stað leiða ákvæði 52. gr. frumvarpsins til þess að ágreiningur verði virtur að vettugi til hagsbóta því að samningsfrumvarp teljist samþykkt. Ástæðan fyrir þessu er sú að þótt samningsfrumvarp hafi fengist samþykkt, þá hefur nauðasamningur ekki komist á, því enn á eftir að bera málefnið undir dómstól til að fá samninginn staðfestan eftir fyrirmælum IX. kafla. Í 58. gr. er beinlínis gert ráð fyrir því að halda megi uppi andófi gegn staðfestingu nauðasamnings á þeim forsendum að samningsfrumvarpið hafi fengist samþykkt með styrk ágreiningsatkvæðis eða vegna þess að tillit hafi ekki verið tekið til ágreiningsatkvæðis sem féll því ekki til samþykkis. Er þannig tryggt að leita megi úrlausnar dómstóla um réttmæti ágreiningsatkvæðis, en í stað þess að tefja fyrir að niðurstaða fáist í samningsumleitunum með því að leita þeirrar úrlausnar þegar í stað þá er það geymt þangað til málefnið þarf hvort eð er að koma til kasta dómstóla af öðrum sökum. Má þannig ætla að þessi skipan geti bæði leitt til nokkurrar einföldunar frá núgildandi reglum og til þess að endanlega niðurstaða fáist með skjótari hætti en ella um það hvort nauðasamningur komist á.

Um 53. gr.


    Í 53. gr. er mælt fyrir um skyldur umsjónarmanns til tilkynninga og auglýsinga ef nauðasamningsumleitunum lýkur með öðrum hætti en þeim að samningsfrumvarp hafi verið samþykkt. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist skýringa.

Um 54. og 55. gr.


    Í IX. kafla frumvarpsins, sem 54.–59. gr. heyra til, er eins og í lögum nr. 19/1924 gert ráð fyrir að nauðasamningur hafi ekki komist á þótt samningsfrumvarp skuldara hafi verið samþykkt af nægilegum fjölda atkvæðismanna, heldur þurfi að auki að koma til þess að krafa um staðfestingu samningsins verði tekin til greina í sérstakri dómsúrlausn. Í lögum nr. 19/1924 er sem áður segir gert ráð fyrir að samningsumleitanirnar sem slíkar fari meira eða minna fram fyrir dómi, en ætlast er til þess að hafist sé handa um aðgerðir í tengslum við staðfestingu samnings fyrir sama dómi í beinu framhaldi af samþykki frumvarps. Með því hins vegar að ákvæði þessa frumvarps miða að því að færa nauðasamningsumleitanir úr höndum héraðsdómara og í hendur sérstaks umsjónarmanns er augljóst að reglur um staðfestingu samningsins þurfi að vera með nokkuð öðrum hætti, einkum varðandi aðdragandann að henni. Þótt sá munur sé þannig óhjákvæmilegur á reglum IX. kafla frumvarpsins og núgildandi reglum, eru þær allt að einu svipaðar að ýmsu leyti.
    Í 54. gr. frumvarpsins er kveðið á um að skuldarinn verði sjálfur að eiga frumkvæði að öflun staðfestingar á nauðasamningi innan viku frá því niðurstaða atkvæðagreiðslu um samningsfrumvarp hans var kynnt á fundi, sbr. 1. mgr. 52. gr. Gerist þetta ekki innan þess frests fellur heimild skuldarans til samningsumleitana sjálfkrafa niður, sbr. 5. tölul. 41. gr., en þannig mundu allar fyrri aðgerðir við samningsumleitanir ónýtast, þar á meðal úrskurður um heimild til þeirra, innköllun til lánardrottna, kröfulýsingar og samþykki samningsfrumvarps. Þótt hér sé vissulega um harðar afleiðingar að ræða verður þessi tilhögun að teljast óhjákvæmileg til að koma íveg fyrir að skuldarinn dragi þetta að ófyrirsynju ef til vill ívissu um að samningurinn muni ekki fást staðfestur, en haldi þó allt að einu vernd fyrir aðgerðum lánardrottna vegna ákvæða 40. gr. Skuldarinn þarf hins vegar lítið að hafa fyrir því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum af sinni hendi innan þessa frests því nægilegt er skv. 1. mgr. 54. gr. að skrifleg krafa hans um staðfestingu nauðasamnings komi í hendur héraðsdómara innan frestsins. Með þessari kröfu þurfa að fylgja þau gögn frá umsjónarmanninum, sem eru talin í 2. mgr. 54. gr. Verður ekki séð að einstök atriði í því sambandi þarfnist sérstakra skýringa.
    Í 55. gr. kemur fram að héraðsdómara beri að ákveða þinghald til að taka fyrir kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings sem fyrst eftir að hún berst honum. Kveðið er á um hvernig verði boðað til þessa þinghalds, en annars vegar kemur fram í 1. mgr. 55. gr. að birta verði boðun tiltekins efnis í Lögbirtingablaði með minnst viku fyrirvara og hins vegar er ráðgert í 2. mgr. 55. gr. að skuldaranum verði tilkynnt um þinghaldið með því að héraðsdómari afhendi honum eða umboðsmanni hans boðun eða sendi honum hana með sannanlegum hætti. Tilgangurinn með opinberri birtingu boðunar eftir ákvæðum 1. mgr. er sá að tryggja að öllum þeim, sem kynnu að telja sig hafa hagsmuni af því að varna staðfestingu nauðasamnings, gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna, en ekki er útilokað að þeir standi utan þess hóps lánardrottna sem lýsti kröfum við samningsumleitanir og þannig er kunnugt um. Þess má geta að þinghald til að fjalla um staðfestingu nauðasamnings á sér áþekkan aðdraganda eftir ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laga nr. 19/1924.

Um 56. gr.


    Í 56. gr. er mælt fyrir um þær þrenns konar aðstæður sem geta komið upp þegar héraðsdómari tekur kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings fyrir á dómþingi að undangengnum boðunum skv. 55. gr. Í fyrsta lagi kynni að fara svo að skuldarinn hefði ekki meiri hug á að fá samning sinn staðfestan en svo að hann láti hjá líða að mæta eða láta mæta fyrir sig á dómþingi. Í slíku tilviki bæri héraðsdómara að kveða upp úrskurð um höfnun kröfu skuldarans þá þegar, sbr. 1. mgr. 55. gr. Í öðru lagi gæti farið svo að skuldarinn mætti til þinghaldsins eða umboðsmaður hans, en enginn hafi þá uppi mótmæli gegn kröfu hans um staðfestingu nauðasamningsins. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. yrði krafa skuldarans þá að öðru jöfnu tekin til úrskurðar þegar í stað, en ef nauðsyn krefði mætti héraðsdómari þó veita honum skamman frest til að leggja fram frekari gögn til stuðnings kröfunni. Í úrskurði sem héraðsdómari kvæði upp í kjölfarið um kröfu skuldarans tæki hann aðeins tillit til þess hvort einhverjar þær hindranir, sem eru taldar í 57. gr., kynnu að standa í vegi fyrir að krafan verði tekin til greina. Í þriðja lagi gæti verið mætt af hálfu skuldarans við þinghaldið og einnig af hálfu lánardrottna eða annarra, sem hefðu hagsmuni af staðfestingu nauðasamningsins, og mótmæli kæmu fram af hendi þeirra síðarnefndu gegn kröfu skuldarans. Undir þeim kringumstæðum leiðir af ákvæðum 3. mgr. 56. gr. að héraðsdómari tæki ágreiningsmálið til sérstakrar meðferðar eftir reglum 167. gr. og XXIV. kafla þar sem leyst yrði úr hvort krafa um staðfestingu nauðasamningsins verði tekin til greina að teknu tilliti til akvæða 57. gr. og mótmæla sem byggðu á ákvæðum 58. gr.

Um 57. og 58. gr.


    Í 57. og 58. gr. koma fram reglur um þau atriði sem geta staðið í vegi fyrir að krafa skuldarans um staðfestingu nauðasamnings verði tekin til greina. Þessar reglur eru að nokkru áþekkar ákvæðum 20. gr. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1924 sem eru þó um margt úreltar og verða því ekki teknar upp í óbreyttu horfi svo vel fari. Svipar ákvæðum 57. og 58. gr. hins vegar fremur til reglna í danskri löggjöf.
    Sá munur er milli reglna 57. og 58. gr. frumvarpsins að í fyrri greininni eru talin atvik sem héraðsdómara er ætlað að gæta af sjálfsdáðum og gætu leitt til höfnunar kröfu um staðfestingu nauðasamnings, hvort sem mótmæli hafi komið fram gegn kröfunni eða ekki og án tillits til þess hvort mótmæli hafi verið reist á slíkum grunni. Í seinni greininni eru hins vegar talin upp atriði, sem gætu leitt til sömu málaloka, en þeirra mundi héraðsdómari ekki gæta af sjálfsdáðum, heldur aðeins láta þau ráða niðurstöðu ef þeim væri haldið fram af lánardrottni eða öðrum sem kynnu að mótmæla kröfu skuldarans. Þessi munur milli ákvæðanna sést af orðalaginu í upphafi hvors þeirra þar sem í 57. gr. segir að héraðsdómari skuli hafna kröfu skuldarans af þargreindum ástæðum meðan í 58. gr. segir að héraðsdómari geti hafnað henni eftir kröfu af þeim ástæðum sem síðan eru þar talin.
    Önnur atriði í ákvæðum 57. gr. en nú hefur verið getið þykja ekki þarfnast sérstakra skýringa hér.
    Ástæða er til að vekja athygli á því að upphafsorð 58. gr. afmarka hverjir geti haft uppi mótmæli gegn kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings svo þýðingu hafi með því að áskilið er að hlutaðeigandi hafi lögmætra hagsmuna að gæta. Fyrst og fremst gæti verið hér um að ræða lánardrottin sem yrði knúinn til að veita skuldaranum ívilnun eftir ákvæðum nauðasamningsins, ef hann yrði staðfestur. Ekki er þó útilokað að aðrir gætu einnig talist hafa lögvarða hagsmuni af þessu eftir almennum viðhorfum í einkamálaréttarfari, t.d. þriðji maður sem bæri ábyrgð á greiðslu samningskröfu og stæði frammi fyrir að þurfa að greiða kröfuna að fullu, sbr. 4. mgr. 60. gr., en gæti aðeins endurkrafið skuldarann um hluta af henni ef nauðasamningur yrði staðfestur. Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að mótmæli gegn kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings yrðu ekki tekin til greina nema þau styddust við einhver atvik sem eru talin í 58. eða eftir atvikum 57. gr. Mundi því ekki stoða að hafa uppi mótmæli á öðrum grundvelli en hér um ræðir.
    Einstök atriði í 1.–6. tölul. 58. gr. þykja ekki þarfnast skýringa hér, en benda má á að vikið var nokkuð að atriðum varðandi ákvæði 4. og 5. tölul. í athugasemdum við 52. gr.

Um 59. gr.


    Í 1. mgr. 59. gr. er mælt fyrir um afbrigðilegan frest til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um kröfu um staðfestingu nauðasamnings og gildir sá frestur hvort sem krafan hefur verið tekin til greina eða ekki. Segir í ákvæðinu að ef úrskurðinum hefur ekki verið skotið til æðra dóms innan þessa frests verði niðurstaða hans endanleg um hvort nauðasamningur hafi komist á eða ekki. Ef úrskurður yrði hins vegar kærður innan frestsins stæði óútkljáð hvort nauðasamningur kæmist á þar til málinu lyki fyrir Hæstarétti, en m.a. yrðu áhrif 40. gr. við lýði á þeim tíma. Ástæðulaust er að taka berum orðum fram í 1. mgr. 59. gr. að niðurstaða Hæstaréttar um kröfu skuldarans verði talin endanleg, enda leiðir það af grundvallarreglum réttarfars.
    Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. hvílir skylda á umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum að fá birta í Lögbirtingablaði auglýsingu um endanlega niðurstöðu um kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings, en þessi skylda er jafnt fyrir hendi á hvorn veginn sem niðurstaðan yrði.

Um 60. gr.


    Í 60.–63. gr. er mælt fyrir um réttaráhrif nauðasamnings, en þessi ákvæði heyra til X. kafla frumvarpsins.
    Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram hvenær nauðasamningur verði talinn hafa komist á og þar með frá hvaða tíma gæti réttaráhrifa hans. Gerist þetta þegar endanleg dómsúrlausn liggur fyrir um staðfestingu nauðasamnings, eða með öðrum orðum að liðinni viku frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara, sem hefur ekki verið kærður til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 59. gr., eða við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.
    Í 2. mgr. 60. gr. kemur fram grundvallarregla sem varðar beinlínis eðli nauðasamninga, en samkvæmt henni eru lánardrottnar og þeir sem kunna að koma í stað þeirra bundnir um samningskröfur sínar af ákvæðum nauðasamnings þegar hann hefur komist á. Þessi regla felur í sér að lánardrottnar eru nauðbeygðir til að hlíta skilmálum nauðasamnings hvort sem þeir voru fylgjandi honum eða andvígir, en þetta á þó aðeins við um samningskröfur eins og þær eru skilgreindar með ákvæðum 1. mgr. 29. gr., sbr. 28. og 31. gr. Regla sama efnis kemur fram í 21. gr. laga nr. 19/1924. Í 2. mgr. 60. gr. frumvarpsins er jafnframt tekið fram að efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafi sömu áhrif og ef hún hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Sambærilegt ákvæði kemur ekki fram í núgildandi lögum, en í fræðikenningum hefur verið gengið út frá að þessi regla gildi. Reglan tekur af tvímæli um að lánardrottinn geti ekki neytt vanefndaúrræða gagnvart skuldaranum ef samningskrafa hefur verið efnd í skertri mynd eftir ákvæðum nauðasamnings.
    Í 3. mgr. 60. gr. kemur fram að nauðasamningur hafi sömu áhrif og réttarsátt milli skuldarans og lánardrottna um þær samningskröfur, sem koma fram í skrá umsjónarmanns skv. 46. gr. og skuldarinn hefur ekki mótmælt eftir 3. mgr. 48. gr. við nauðasamningsumleitanir. Þessi regla er sama efnis og 22. gr. laga nr. 19/1924, en hún hefur m.a. í för með sér að hlutaðeigandi lánardrottnar gætu krafist fjárnáms til fullnustu á kröfum sínum eftir nauðasamningnum ef vanefndir yrðu af hendi skuldarans, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.
    Í 4. mgr. 60. gr. kemur fram að nauðasamningur breyti ekki rétti lánardrottins til að ganga að tryggingu af hendi þriðja manns eða að ábyrgðarmanni til fullnustu á samningskröfu sinni í heild. Þessi regla, sem er sama efnis og regla 23. gr. laga nr. 19/1924, hefur í för með sér að maður, sem hefur til dæmis gengist í ábyrgð gagnvart lánardrottni fyrir samningskröfu hans á hendur skuldaranum eða sett eign sína að veði fyrir kröfunni, verði að standa skil á skuldinni í heild sinni, en að því gerðu gæti hann hins vegar ekki gengið að skuldaranum nema fyrir þeim hluta sem nauðasamningur hefur kveðið á um.

Um 61. gr.


    Í 32. gr., sem áður hefur verið fjallað um, er kveðið á um heimild skuldarans til að höfða riftunarmál eftir reglum XX. kafla eftir að nauðasamningur hefur komist á. Riftun hefði að öðru jöfnu í för með sér að sá sem hún beinist að mundi eignast kröfu sem riftuninni næmi á hendur skuldaranum. Krafan á hendur skuldaranum, sem yrði til með þessum hætti, yrði að öðru jöfnu talin samningskrafa eftir því sem nánar segir í 2. mgr. 32. gr. og mundi hún því færast niður í samræmi við ákvæði nauðasamningsins. Eftir sem áður væri þó sennilegt að sá sem riftun beinist að ætti einhverja kröfu á hendur skuldaranum þótt hún næmi ekki svo miklu sem honum bæri að greiða skuldaranum fyrir sitt leyti. Ef ekki yrði mælt beinlínis fyrir um réttarstöðuna milli skuldarans og gagnaðila hans í tilviki sem þessu gæti orðið álitamál hvort gagnaðili skuldarans kynni að geta krafist skuldajafnaðar við hann að því leyti sem krafa gagnaðilans kynni að hrökkva til. Ákvæðum 61. gr. er ætlað að taka af skarið um það að hverju marki slíkur skuldajöfnuður geti átt sér stað, en samkvæmt því sem þar kemur fram gæti gagnaðili skuldarans aðeins krafist skuldajafnaðar að því leyti sem greiðslur, sem hann ætti rétt til eftir nauðasamningnum, væru þá komnar í gjalddaga.

Um 62. og 63. gr.


    Í 1. mgr. 62. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimild lánardrottins, sem á samningskröfu á hendur skuldaranum, til að höfða einkamál gegn honum eftir almennum reglum til ógildingar á nauðasamningi, ef einhverju skilyrði 1.–3. tölul. ákvæðisins væri fullnægt meðan skuldarinn hefði ekki efnt skyldur sinar samkvæmt samningnum að fullu. Þá er í 2. mgr. 62. gr. mælt fyrir um að nauðasamningur falli úr gildi ef skuldarinn fær heimild til að leita nauðasamnings á ný eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta meðan upphaflegi nauðasamningurinn hefur ekki verið efndur. Ákvæði 63. gr. taka síðan til þess hver áhrif ógilding eða brottfall nauðasamnings skv. 62. gr. hefði á stöðu skuldarans, lánardrottna hans og eftir atvikum þeirra sem hafa gengist í ábyrgð fyrir efndum skyldna samkvæmt samningnum. Þessar reglur eiga sér að nokkru fyrirmynd í danskri löggjöf, en þeim er ætlað að koma í stað ákvæða 29. og 48. gr. laga nr. 19/1924. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist frekari skýringa.

Um 64. gr.


    Hér er um að ræða fyrsta ákvæði 4. þáttar frumvarpsins þar sem fram koma reglur þess um gjaldþrotaskipti. Þessum þætti er skipt í kafla með eftirfarandi hætti:
          Í XI. kafla, sem er fyrsti kafli 4. þáttarins og geymir 64.–71. gr., er mælt fyrir um upphaf gjaldþrotaskipta.
          Í XII. kafla, 72.–74. gr., eru almennar reglur um þýðingu gjaldþrotaskipta.
          Í XIII. kafla, 75.–84. gr., eru reglur um skiptastjóra.
          Í XIV. kafla, 85.–88. gr., er mælt fyrir um fyrstu aðgerðir við gjaldþrotaskipti.
          Í XV. kafla, 89.–98. gr., eru reglur um gagnkvæma samninga sem þrotabú á hlut að.
          Í XVI. kafla, 99.–108. gr., eru ákvæði um kröfur á hendur þrotabúi.
          Í XVII. kafla, 109.–115. gr., er mælt fyrir um rétthæð krafna á hendur þrotabúi,
          Í XVIII. kafla, 116.–121. gr., eru reglur um meðferð krafna á hendur þrotabúi.
          Í XIX. kafla, 122.–130. gr., er kveðið á um bústjórn og ráðstöfun hagsmuna þrotabús.
          Í XX. kafla, 131.–148. gr., eru reglur um riftun við gjaldþrotaskipti.
          Í XXI. kafla, 149.–153. gr., er mælt fyrir um gerð nauðasamninga við gjaldþrotaskipti.
          Í XXII. kafla, sem er jafnframt síðasti kafli 4. þáttar frumvarpsins, eru reglur um úthlutun og lok gjaldþrotaskipta, en til þessa kafla heyra 154.–165. gr.
    Eins og vikið var að hér áður í almennum athugasemdum eru ekki ráðgerðar stórfelldar breytingar í þessum þætti frumvarpsins frá núgildandi reglum um gjaldþrotaskipti í III.–XIX. kafla laga nr. 6/1978 og reglum um skuldaröð í 8. kapítula laga nr. 3/1878, sem eru tekin hér upp í XVII. kafla frumvarpsins. Vissar breytingar eru samt óhjákvæmilegar af tilliti til breyttrar dómstólaskipunar, en öllu umfangsmeiri eru þó áhrif þeirrar stefnu, sem er fylgt í frumvarpinu, að héraðsdómarar muni ekki annast framkvæmd gjaldþrotaskipta, heldur sérstakir skiptastjórar. Þær breytingar, sem leiða af þessu tvennu, eiga sér að miklu leyti hliðstæður í frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl. og eru skýrðar frekar í athugasemdum við það frumvarp. Þá eru einnig lagðar til ýmsar minni breytingar af tilliti til fenginnar reynslu af ákvæðum núgildandi laga í framkvæmd, en loks má geta að reglum þessa þáttar frumvarpsins er skipað með nokkuð öðrum hætti í efnisröð en gert er í lögum nr. 6/1978.
    Í ljósi þess hvers eðlis þær breytingar eru, sem eru lagðar til í 4. þætti frumvarpsins, þykir almennt ekki tilefni til umfangsmikilla skýringa við hverja grein þáttarins fyrir sig. Af þeim sökum verður sú leið almennt farin hér á eftir að fjalla í sem stystu máli um þær greinar sem heyra til þessa þáttar og eiga sér ýmist hliðstæður í ákvæðum núgildandi laga eða í frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl., en í síðarnefndu tilvikunum er þá haft í huga að finna megi frekari skýringar um sambærilegar reglur í athugasemdum við nefnt frumvarp, sem er þá nánar vísað til hverju sinni. Að því leyti sem hvorugt af þessu á við um ákvæði þessa þáttar frumvarpsins er hins vegar óhjákvæmilegt að leitast við að skýra þau nánar.
    Í 64. gr. koma fram reglur um rétt eða eftir atvikum skyldu skuldara til að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta sjálfur, en reglur sama efnis koma fram annars vegar í a-lið 1. mgr. 13. gr. og hins vegar í 14. gr. laga nr. 6/1978. Orðalag 2. mgr. 64. gr. frumvarpsins felur í sér breytingu frá ákvæðum 14. gr. núgildandi laga, en hún er til samræmis við hefðbundin viðhorf í fræðikenningum sem hefur verið stuðst við um skýringu á umræddri grein í framkvæmd.

Um 65. gr.


    Í 65. gr. koma fram reglur um það hvenær lánardrottinn geti krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara. Í 1. mgr. er að finna reglu sem er efnislega samhljóða ákvæðum b-liðar 1. mgr. 13.gr. laga nr. 6/1978, en líklega hefur ekki reynt á heimild þess ákvæðis nema eitt skipti frá því það tók gildi.
    Ákvæði 2. mgr. 65. gr. frumvarpsins er ætlað að koma í stað c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 6/1978. Í upphafi 2. mgr. kemur berum orðum fram að skuldari geti varist kröfu um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, en þótt sambærileg fyrirmæli komi ekki fram í ákvæðum núgildandi laga hefur verið gengið út frá að þetta gildi í framkvæmd. Ákvæði 1. og 4. tölul. 2. mgr. eiga sér efnislegar hliðstæður í umræddum c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 6/1978. Ákvæði 2. og 3. tölul. geyma hins vegar nýmæli með því að lagt er hér til að lánardrottinn geti krafist gjaldþrotaskipta sjálfstætt á þeim grundvelli að skuldarinn hafi haft heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings sem hefur fallið niður innan mánaðar áður en gjaldþrotaskiptanna yrði krafist. Þetta er gert í því skyni að tryggja betur hagsmuni lánardrottna en gert er í núgildandi lögum og um leið að flýta fyrir að til gjaldþrotaskipta komi ef þau eru á annað borð óumflýjanleg. Þessar heimildir geta vart talist varhugaverðar gagnvart skuldaranum, enda má segja að með því að leita heimildar til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana hafi skuldarinn viðurkennt í verki að hann sé ófær um að standa í skilum nema honum takist að koma nýrri skipan á fjármál sín eða nái nauðasamningi. Ef heimild skuldarans til þessara úrræða fellur niður án þess að honum hafi tekist slík ætlunarverk væri andstætt hagsmunum lánardrottna að frekari bið verði á gjaldþrotaskiptum. Ef skuldaranum hefði hins vegar tekist þetta væri vitanlega ekki um það að ræða að lánardrottnar hans krefjist gjaldþrotaskipta á grundvelli þessara heimilda. Þá má og vekja athygli á því að skuldarinn ætti ávallt kost á að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti undir þessum kringumstæðum á grundvelli áðurnefndra upphafsorða 2. mgr.
    Vekja má athygli á því að með 2. mgr. 65. gr. er gert ráð fyrir brottfalli heimilda lánardrottna til að styðja kröfu um gjaldþrotaskipti við ýmis önnur atvik en nú hafa verið nefnd, sem nánar er mælt fyrir um í áðurnefndum c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 6/1978. Þeim heimildum sem þetta á við um hefur ekki verið beitt í framkvæmd og verður að telja mjög óraunhæft að ætla að þær þjóni neinum tilgangi.
    Í 3. og 4. mgr. 65. gr. er að finna ákvæði sem er ætlað að koma í stað reglna 15. gr. laga nr. 6/1978. Í þessum ákvæðum frumvarpsins felst tillaga um nokkra einföldun frá reglu núgildandi laga, en telja verður að þau þarfnist ekki sérstakra skýringa, enda reynir hverfandi lítið á álitaefni af þessum meiði í framkvæmd.

Um 66. gr.


    Í 1. mgr. 66. gr. er gert ráð fyrir þeirri breytingu frá núgildandi reglum að krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti og fylgigögn með henni verði send héraðsdómara í tvíriti. Er þetta gert í því skyni að unnt verði að afhenda skuldaranum eintak þessara gagna þegar hann er kvaddur fyrir dóm vegna kröfunnar, sbr. 1. mgr. 69. gr., sem verður að te1ja að sé eðlilegt að gera til glöggvunar fyrir skuldarann.
    Ákvæði 2. mgr. eru efnislega þau sömu og nú koma fram í fyrri málslið 21. gr. og 2. mgr. 120. gr. laga nr. 6/1978, en þau eiga sér jafnframt hliðstæðu í 2. mgr. 41. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl.
    Í 3. mgr. koma fram reglur sem svara til ákvæða 20. gr. laga nr. 6/1978.

Um 67. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að héraðsdómari kanni kröfu um gjaldþrotaskipti þegar í stað eftir að hún berst honum til að ganga úr skugga um hvort einhverjir slíkir gallar séu á henni að henni verði hafnað af sjálfsdáðum. Ef slíkir annmarkar væru á kröfu er gert ráð fyrir að héraðsdómari geti vísað henni á bug með einföldum hætti, en sá sem gerði kröfuna geti þó ávallt krafist úrskurðar héraðsdómara um þessa ákvörðun. Sambærileg heimild kemur ekki fram í núgildandi lögum en allt að einu hefur verið farið að með þessum hætti í framkvæmd um árabil og hefur það gefið góða raun. Er því lagt hér til að þessi framkvæmdarvenja verði beinlínis fest í lög.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir nánari reglum en í núgildandi lögum um hvernig staðið verði að ákvörðun um þá tryggingu fyrir skiptakostnaði sem sá sem krefst gjaldþrotaskipta kann að vera krafinn um og um setningu tryggingarinnar. Þessar reglur eiga sér að nokkru hliðstæðu í ákvæðum 21. gr. laga nr. 6/1978, en í frumvarpinu er þó ekki gert ráð fyrir því að áskilin verði trygging fyrir hugsanlegum skaðabótum vegna kröfu um gjaldþrotaskipti eins og þar er gert, enda verður að telja slíka reglu óraunhæfa.
    Ákvæðum 3. mgr. er ætlað að koma í stað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 6/1978, en hér er þó um mun nánari reglur að ræða en þar koma fram. Verður að telja þær skýra sig sjálfar.
    Regla 4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 16. gr. laga nr. 6/1978.

Um 68. gr.


    Í 68. gr. er mælt fyrir um meðferð á kröfu skuldarans sjálfs um gjaldþrotaskipti á búi sínu, en ákvæði þessarar greinar svara til reglna 17. gr. laga nr. 6/1978 eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd.

Um 69. gr.


    Í 69. gr. er mælt fyrir um undirbúning að fyrirtöku kröfu lánardrottins um gjaldþrotaskipti á dómþingi með því að fyrirkall verði birt fyrir skuldaranum og lánardrottninum verði tilkynnt um þinghaldið, en reglur um þetta efni koma nú fram í 2. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 6/1978. Ákvæði frumvarpsins um þetta eru að mun ítarlegri, sem er lagt til af tilliti til verklags í þessum efnum í framkvæmd, en vissar breytingar eru þó einnig ráðgerðar til samræmis við almennar reglur um stefnubirtingar. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist skýringa.

Um 70. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. 70. gr. svara til 4. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 6/1978.
    Í 3. mgr. 70. gr. er lagt til að tekin verði upp sérregla um heimildir til að fresta meðferð kröfu lánardrottins um gjaldþrotaskipti, en afstaða er ekki tekin til þessa atriðis í núgildandi lögum. Þess hefur gætt mjög í framkvæmd, bæði fyrir gildistöku laga nr. 6/1978 og allar götur síðan, að lánardrottnar hafi krafist gjaldþrotaskipta og fengið slíkar kröfur teknar fyrir á dómþingi að undangengnu fyrirkalli til skuldarans, en látið síðan fresta meðferð kröfunnar, jafnvel margsinnis, ýmist að ósk skuldarans eða án þess að mætt hafi verið af hálfu hans. Hefur þessi háttur borið sterkan keim af því að lánardrottnar hafi krafist gjaldþrotaskipta í því skyni einu að reyna að ógna skuldara til efnda á skuldbindingum sínum, en án þess að neinn ásetningur hafi verið til að knýja í reynd á um gjaldþrotaskipti. Ákvæði 2. mgr. 67. gr. frumvarpsins ættu að vísu að hafa í för með sér að mjög dragi úr þessari óviðeigandi beitingu réttarúrræða, en ástæða er þó allt að einu til að girða fyrir að frestanir á meðferð gjaldþrotakrafna verði úr hófi. Stafar það af því að móttaka kröfu um gjaldþrotaskipti markar hver verði talinn frestdagur við skiptin, sbr. 4. mgr. 2. gr., en við hann miðast bæði sum ákvæði XVII. kafla varðandi aldur krafna af tilliti til forgangsréttar fyrir þeim við gjaldþrotaskipti og riftunarreglur XX. kafla varðandi það hvenær ráðstöfun þurfi að hafa átt sér stað til að af riftun geti orðið. Getur því verið mjög varhugavert að jafnlangur tími líði frá frestdegi fram að því að úrskurður gangi um gjaldþrotaskipti eins og oftast er nú reyndin í framkvæmd, en þetta hefur að verulegu leyti átt rætur að rekja til umræddra frestveitinga við meðferð á kröfum um gjaldþrotaskipti. Í 3. mgr. 70. gr. er lagt til að frestir sem þessir verði ekki veittir nema í mesta lagi í einn mánuð frá því krafa er tekin fyrir á dómþingi í fyrsta sinn og að auki er gert ráð fyrir að frestun verði háð því að mætt sé á dómþingi af hálfu skuldarans til að æskja hennar. Má telja að þessi breyting geti orðið til verulegra bóta í framkvæmd.
    Í 4. mgr. 70. gr. er mælt fyrir um hvernig verði brugðist við ef skuldari mætir á dómþingi og mótmælir kröfu lánardrottins um gjaldþrotaskipti, en farið yrði með ágreining sem þennan eftir ákvæðum 168. gr. og XXIV. kafla. Ekki er að finna sambærilega reglu í núgildandi lögum, en farið hefur verið að með áþekkum hætti í framkvæmd og ráðgert er í þessum efnum í umræddum ákvæðum frumvarpsins.

Um 71. gr.


    Ákvæði fyrri málsliðar 1. mgr. 71. gr. svara til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 6/1978. Síðari málsliður 1. mgr. 71. gr. á sér ekki hliðstæðu í orðum núgildandi laga, en byggt hefur verið á þeirri reglu, sem þar kemur fram, í framkvæmd jafnt sem fræðikenningum.
    Reglur 2. mgr. 71. gr. svara efnislega til ákvæða 2. mgr. 19. gr. laga nr. 6/1978.
    Í 3. mgr. 71. gr. er gert ráð fyrir að krafa um gjaldþrotaskipti kunni fyrst að verða tekin til greina fyrir Hæstarétti og eru tekin af tvímæli um hvernig fari þá um viðmiðunarmörk varðandi fresti eftir öðrum ákvæðum frumvarpsins í slíkum tilvikum. Hliðstæð regla kemur ekki fram í núgildandi lögum, en víst má telja að eins yrði farið að í framkvæmd og hér er kveðið á um.
    Í 4. mgr. 71. gr. kemur fram regla um það hvaða dagur verði talinn svara til úrskurðardags um gjaldþrotaskipti ef farið verður með dánarbú, sem er til opinberra skipta, eftir ákvæðum 4. þáttar frumvarpsins vegna ógjaldfærni þess. Þessi regla tengist ráðagerðum í 3. mgr. 62. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. um að skipti á ógjaldfæru dánarbúi fari eftir reglum um gjaldþrotaskipti.

Um 72.–74. gr.


    Í XII. kafla frumvarpsins, sem 72.–74. gr. heyra til, er að finna almennar reglur um þýðingu gjaldþrotaskipta. Í þessum þremur greinum frumvarpsins er að finna sambærileg ákvæði og nú má að mestu finna í 22., 23., 25.–27. og 29. gr. laga nr. 6/1978, sem koma þó fram í tveimur aðgreindum köflum laganna, þeim IV. og V. Í tengslum við þetta er rétt að nefna að reglur 24. gr. núgildandi laga eru þess efnis að þau þykja fremur eiga samstöðu með öðrum ákvæðum en þeim, sem hér um ræðir, og eru þær því að mestu teknar upp í 116. og 138. gr. frumvarpsins. Enn fremur að ákvæði 28. gr. núgildandi laga varða í sjálfu sér ekki gjaldþrotaskipti, heldur dánarbússkipti, og þykir því óþarft að taka þau upp hér.
    Í fyrirmælum 72. gr. felst að ein megináhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti séu þau að til verði sjálfstæð persóna að lögum, þrotabú kennt við hlutaðeigandi mann, félag eða stofnun, en þessi lögpersóna taki í aðalatriðum bæði við réttindum og skyldum skuldarans og njóti hæfis til að öðlast réttindi og baka sér skyldur meðan hún er við lýði fram að endanlegum lokum gjaldþrotaskipta. Sá háttur, að þrotabú sé skilgreint sem sjálfstæð lögpersóna, er sá sami og byggt er á um dánarbú í frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl., svo sem fram kemur í 2. gr. þess frumvarps. Í athugasemdum við það ákvæði þess frumvarps er vikið nánar að því hvað búi að baki þessari skilgreiningu og hverja þýðingu hún hafi, en þær athugasemdir geta eins átt við 72. gr. þessa frumvarps að breyttu breytanda. Telja má að byggt sé á sama grunni í ákvæðum laga nr. 6/1978 þótt það koma hvergi fram þar jafn berlega og hér er lagt til.
    Um 72. gr. frumvarpsins skal þess að öðru leyti getið að ákvæði 1. mgr. svara að nokkru til ákvæða 25. og 29. gr. laga nr. 6/1978. Fyrirmæli 2. og 3. mgr. eru í samræmi við viðhorf í fræðikenningum og framkvæmd þótt þau eigi sér ekki beinar hliðstæður í orðum núgildandi laga.
    Ákvæði 1. mgr. 73. gr. geyma efnislega sömu reglur og fram koma í 25. og 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/1978. Þá fela ákvæði 2. mgr. 73. gr. í sér reglu sem nú kemur fram í niðurlagi 1. mgr. 30. gr. núgildandi laga.
    Reglur 74. gr. frumvarpsins eru að mestu sama efnis og ákvæði 22. og 24. gr. og 2. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 6/1978.

Um 75. gr.


    Ákvæði 75.–84. gr. heyra til XIII. kafla frumvarpsins, en í honum er fjallað um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti.
    Í lögum nr. 6/1978 má einkum finna ákvæði um bústjóra til bráðabirgða og skiptastjóra í XIII. og XV. kafla, en eins og nefnt var hér áður í almennum athugasemdum er ráðgert í frumvarpinu að skiptastjóri verði ráðinn til starfa við þrotabú í eitt skipti fyrir öll við upphaf skipta og að sú tilhögun núgildandi laga verði þannig afnumin að bústjóri til bráðabirgða verði ráðinn af dómara í byrjun og skiptastjóri verði síðan kosinn af lánardrottnum til að taka við störfum hans. Reglur XIII. kafla frumvarpsins eru um sumt áþekkar einstökum reglum áðurnefndra kafla laga nr. 6/1978 þegar þessi fyrirvari er hafður í huga, en í umræddum reglum frumvarpsins koma þó einnig fram fyrirmæli um atriði sem önnur ákvæði laga nr. 6/1978 taka til, t.d. 86., 137. og 138. gr. þeirra.
    Í 1. mgr. 75. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að héraðsdómari skuli skipa skiptastjóra til að fara með skipti á þrotabúi um leið og úrskurður hefur verið kveðinn upp um gjaldþrotaskipti. Í þessu ákvæði felst að alltaf sé skylt að skipa skiptastjóra, en ákvæði 86. og 89. gr. laga nr. 6/1978 mæla aðeins fyrir um heimild til þess. Fjallað var sérstaklega um ástæðurnar fyrir tillögum um þessar breytingar hér áður í almennum athugasemdum og má vísa til þeirrar umfjöllunar hér. Ákvæði 2., 3., 5. og 6. mgr. 75. gr. taka til atriða sem nú er mælt fyrir um í 2. mgr. 90. gr., 95. gr. og 137. gr. laga nr. 6/1978, en ákvæði 4. mgr. 75. gr. frumvarpsins á sér ekki beina hliðstæðu í núgildandi lögum.
    Ákvæði 75. gr. þessa frumvarps eru í nær öllum atriðum samhljóða ákvæðum 46. gr. frumvarps til laga um skipti á dáilarbúum o.fl. og má því vísa hér að flestu leyti til umfjöllunar um umrædda 46. gr. í athugasemdum við það frumvarp. Sá munur er þó á þessum ákvæðum að í 5. tölul. 2. mgr. 75. gr. þessa frumvarps er gert að óundanþægu hæfisskilyrði að skiptastjóri hafi lokið embættisprófi í lögum og í 3. mgr. 75. gr. er ráðgerð sérstök heimild handa dómara til að ákveða að skiptastjórar verði tveir eða jafnvel enn fleiri, en um hvorugt er að ræða í nefndri 46. gr., auk þess að ákvæði 6. tölul. 2. mgr. og 5. mgr. 75. gr. um vanhæfi skiptastjóra eru frábrugðin ákvæðum umræddrar 46. gr. af tilliti til ólíkra aðstæðna við gjaldþrotaskipti og opinber skipti á dánarbúum.

Um 76. gr.


    Í 76. gr. er mælt fyrir um heimildir þeirra, sem telja til krafna á hendur þrotabúi, til að hafa uppi athugasemdir vegna starfa skiptastjóra við héraðsdómara og krefjast eftir atvikum að skiptastjóri verði áminntur eða honum vikið frá. Fremur ófullkomin ákvæði má finna um þessi atriði í 3. mgr. 90. gr. og 105. gr. laga nr. 6/1978.
    Reglur 76. gr. eru efnislega þær sömu og koma fram í 47. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. og má því vísa til athugasemda við það frumvarp um skýringar á einstökum atriðum, sem má telja að eigi hér við að breyttu breytanda.

Um 77. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eiga sér ekki hliðstæðu í lögum nr. 6/1978, en þau eru nánast samhljóða 48. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. Þykir því mega vísa hér til athugasemda við það frumvarp varðandi efnisatriði 77. gr.

Um 78. gr.


    Í 78. gr. er fjallað um reikningshald fyrir þrotabú, sem skiptastjóra er ætlað að annast, skýrslugjöf hans til yfirvalda í þágu bús og reglubundna gerð yfirlita um rekstur og efnahag þrotabús sem lánardrottnum er ætlaður réttur til að fá aðgang að. Reglur um þessi efni í 93., 102. og 103. gr. laga nr. 6/1978 eru svipaðar ákvæðum 78. gr., en hafa um sumt reynst þungar í vöfum og hefur ekki verið fylgt til hlítar í framkvæmd. Er leitast við að ráða bót á því með þessum ákvæðum frumvarpsins.
    Ákvæði 78. gr. eru nánast samhljóða 49. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Um 79. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins koma fram almennar reglur um skiptafundi í þrotabúum, en gert er ráð fyrir að skiptastjórar haldi slíka skiptafundi og hafi þannig m.a. með höndum að ákveða hvar og hvenær það verði gert og hvert fundarefni verði, annist boðun til fundar og stjórn hans og færi þar fundargerðir. Hér er um talsverða breytingu að ræða frá reglum 1.–3. mgr. 96. gr. laga nr. 6/1978, þar sem gert er ráð fyrir að héraðsdómari gegni þessum störfum, en hún er lögð til í samræmi við þá stefnu þessa frumvarps að afskipti héraðsdómara af framkvæmd gjaldþrotaskipta verði afnumin í öðrum atriðum en varðandi skipun skiptastjóra og úrlausn ágreiningsefna sem rísa við búskiptin. Þá er einnig vert að nefna í þessu sambandi að umrædd ákvæði 96. gr. laga nr. 6/1978 hafa leitt til nokkuð sérkennilegrar aðstöðu í þeim þrotabúum þar sem skiptastjórar hafa annast framkvæmd skipta því í slíkum tilvikum hafa héraðsdómarar orðið að boða til skiptafunda um málefni, sem þeir eru jafnvel ekkert kunnugir sjálfir, og hafa í orði kveðnu átt að stjórna slíkum fundum þar sem þeir hafa þó ekkert haft til málanna að leggja. Þykir í ljósi þeirrar reynslu bæði einfaldara og eðlilegra að fela skiptastjórum að gegna þessum störfum. Af öðrum breytingum af völdum fyrirmæla 79. gr. má vekja athygli á því að í 1. mgr. er ráðgert að skiptafundir fari fram á þeim stað, sem skiptastjóri velur til þess, en með þessu yrði ailagt að dómstólar þyrftu að hýsa fundarhöld sem þessi, og jafnframt má benda á að skv. 3. mgr. yrði ekki fortakslaus skylda að boða til skiptafunda með auglýsingum í Lögbirtingablaði, gagnstætt því sem nú gildir skv. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 6/1978.
    Að öðru leyti má benda hér á að ákvæði 79. gr. eru efnislega þau sömu og koma fram í 50. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. og má því vísa hér til umfjöllunar um þá grein í athugasemdum við það frumvarp.

Um 80. gr.


    Í 80. gr. er mælt fyrir um hlutverk skiptastjóra varðandi viðtöku á skjölum vegna málefna þrotabúa, varðveislu þeirra og veitingu heimilda handa öðrum til aðgangs að þeim. Sambærilegar reglur koma ekki fram í lögum nr. 6/1978, enda er þar byggt á því að héraðsdómarar taki almennt við skjölum sem þessum þannig að almennar réttarfarsreglur gildi um þessi atriði. Ákvæði 80. gr. eru samhljóða ákvæðum 51. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Um 81. gr.


    Í 1. mgr. 81. gr. er mælt fyrir um skyldur þrotamanns, manna sem honum eru nákomnir og forráðamanna gjaldþrota félags eða stofnunar til að veita skiptastjóra upplýsingar og afhenda honum gögn í tengslum við gjaldþrotaskipti. Reglur þessa ákvæðis svara að mestu til reglna 79., sbr. 84. gr. laga nr. 6/1978, að því frátöldu að þar er jöfnum höndum gert ráð fyrir að hlutaðeigendur veiti skiptastjórum og héraðsdómurum upplýsingar.
    Í 2. mgr. 81. gr. er mælt fyrir um heimild skiptastjóra til að taka eftir þörfum skriflegar skýrslur af þeim sem eru taldir í 1. mgr., en hér mætti væntanlega líta svo á að með því að skylda hvíli á hlutaðeigendum til skýrslugjafar og skiptastjóri teljist opinber sýslunarmaður í starfi sínu, sbr. 3. mgr. 77. gr., þá gæti röng skýrsla eftir atvikum varðað við ákvæði 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sambærilega reglu er ekki að finna í lögum nr. 6/1978, enda gengið þar út frá að héraðsdómari taki skýrslur sem þessar þegar þeirra er þörf.
    Í 3. mgr. 81. gr. er mælt fyrir um úrræði skiptastjóra ef skyldu er ekki sinnt til skýrslugjafar við hann, en samkvæmt ákvæðinu gæti hann óskað eftir því við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Slík skýrslutaka færi eftir almennum reglum um vitnaskýrslur í lögum nr. 85/1936, en í því ljósi væri m.a. unnt að krefjast að vitnið hefði meðferðis gögn við skýrslugjöf sína, sbr. 3. mgr. 124. gr. þeirra laga. Í 1. mgr. 82. gr. laga nr. 6/1978 er kveðið á um úrræði við þessar aðstæður, en samkvæmt því ákvæði getur héraðsdómari látið lögreglu færa þann, sem sinnir ekki að mæta til skýrslugjafar, á fund sinn eða skiptastjóra. Reglur 3. mgr. 81. gr. frumvarpsins þykja fela í sér nægileg úrræði að þessu leyti til að ekki sé ástæða til að taka núgildandi reglur upp óbreyttar.

Um 82. gr.


    Í 1. mgr. 82. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um skyldur tiltekinna manna, sem ákvæði 81. gr. taka ekki til, til að veita skiptastjóra upplýsingar við gjaldþrotaskipti. Samsvarandi reglur er að finna 2. og 3. mgr. 79. gr. laga nr. 6/1978, sbr. 2. gr. laga nr. 98/1985, en þær eru þó frábrugðnar umræddum fyrirmælum frumvarpsins að því leyti að þær kveða á um skyldu til upplýsingagjafar við héraðsdómara. Ákvæði 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins fela í sér heimild handa skiptastjóra til að fylgja eftir kröfu sinni um upplýsingar frá þeim, sem hér um ræðir, með því að hann óski eftir að þeir verði kvaddir fyrir dóm til skýrslugjafar eftir áðurnefndri reglu 3. mgr. 81. gr.
    Í 3. og 4. mgr. 82. gr. er að finna heimildir handa skiptastjóra til að leita atbeina héraðsdómara til að ná umráðum eignar þrotabús, sem haldið er fyrir honum, og til að tryggja sér aðgang að húsnæði þar sem ástæða væri til að ætla að finna mætti eign þrotabús eða gögn þess. Þessar reglur þykja skýra sig sjálfar, en þær eiga sér ekki hliðstæðu í ákvæðum laga nr. 6/1978, sem hefur stundum leitt til vandkvæða í framkvæmd.

Um 83. gr.


    Í 83. gr. er gert ráð fyrir heimildum skiptastjóra til að leita dómsúrskurðar um bann við brottför þrotamanns eða forráðamanna gjaldþrota félags eða stofnunar úr landi ef slíkt bann þykir nauðsynlegt til að tryggja nærveru hlutaðeigenda meðan athugun stendur yfir á fjárreiðum þrotabús og ráðstafanir fyrir upphaf skipta. Í 80. og 81. gr., sbr. 84. gr. laga nr. 6/1978 er að finna til mikilla muna strangari reglur til takmörkunar á ferðafrelsi þessara manna, sem ástæðulaust er að taka hér upp í óbreyttu horfi.
    Ekki verður séð að einstök atriði 83. gr. þarfnist sérstakra skýringa.

Um 84. gr.


    Í 84. gr. er að finna reglur sem svara til ákvæða 3. mgr. 91. gr. laga nr. 6/1978. Í tengslum við þessar reglur er vert að benda á að ekki er ráðgert í frumvarpinu að héraðsdómari framkvæmi sjálfstæða rannsókn á atriðum sem varða hugsanlega refsivert athæfi þrotamanns eða forráðamanna gjaldþrota félags, svo sem nú er mælt fyrir um í 4. mgr. 88. gr. laga nr. 6/1978 þannig að rannsókn á slíkum atriðum yrði að öllu leyti að fara eftir almennum reglum um meðferð opinberra mála.

Um 85. og 86. gr.


    Í XIV. kafla frumvarpsins, sem nær yfir 85.–88. gr., er mælt fyrir um fyrstu aðgerðir við gjaldþrotaskipti, en á því stigi þarf ekki síst að huga að útgáfu innköllunar til kröfuhafa, ákveða lengd frests handa þeim til að lýsa kröfum sínum og gera ráðstafanir til að tryggja að þeir sem hafi hagsmuni af gjaldþrotaskiptunum geti átt kost á að fá vitneskju um þau. Um þessi atriði er fjallað í 85. og 86. gr.
    Í 85. gr. er að finna fyrirmæli annars vegar um útgáfu, efni og birtingu innköllunar við gjaldþrotaskipti og hins vegar um ákvörðun á lengd kröfulýsingarfrests. Reglur 85. gr. eru sama efnis og ákvæði 3. mgr. 19. gr., 1. mgr. 87. gr. og 106. gr. laga nr. 6/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 98/1985, eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd, að því frátöldu að í reglum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að skiptastjóri gefi út innköllun og ákveði lengd kröfulýsingarfrests meðan ákvæði núgildandi laga fela héraðsdómara þessi verk.
    Í 86. gr. er mælt fyrir um frekari ráðstafanir en birtingu innköllunar, sem skiptastjóra væri rétt að grípa til í því skyni að tryggja að kröfuhafar fái vitneskju um gjaldþrotaskipti, en þessi ákvæði varða fyrst og fremst aðstöðu erlendra kröfuhafa. Eftir þessu ákvæði væri skiptastjóra ekki skylt að grípa til aðgerða sem þessara, en þær gætu einkum þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir að erlendir lánardrottnar geti komið að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests í skjóli 2. tölul. 118. gr. Með þessum ákvæðum frumvarpsins er lögð til breyting frá 2. mgr. 87. gr. laga nr. 6/1978 því samkvæmt þeirri reglu er ávallt skylt að beina sérstakri tilkynningu um gjaldþrotaskipti til allra þekktra lánardrottna, bæði hér á landi og erlendis. Er skemmst frá því að segja að þeirri skyldu hefur nánast aldrei verið sinnt í framkvæmd, enda nánast ógerningur að fylgja umræddri reglu og tæplega heldur neitt almennt tilefni til þess.

Um 87. og 88. gr.


    Í 87. og 88. gr. er mælt fyrir um fyrstu aðgerðir skiptastjóra varðandi eignir þrotabús og aðra hagsmuni þess. Þessi ákvæði taka mið af beitingu reglna 86. gr. og 1.–3. mgr. 88. gr. laga nr. 6/1978 í framkvæmd og verður ekki séð að einstök atriði þeirra þarfnist skýringa.

Um 89.–91. gr.


    Í XV. kafla frumvarpsins, sem nær til ákvæða 89.–97. gr., er fjallað um gagnkvæma samninga sem þrotamaðurinn hefur átt aðild að og voru gerðir áður en úrskurður gekk um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Mæla ákvæði þessa kafla fyrir um réttarstöðu þrotabúsins og viðsemjenda þess í ýmsum þýðingarmiklum atriðum varðandi gagnkvæma samninga þeirra. Gert er ráð fyrir að reglur þessa kafla verði að mestu efnislega óbreyttar frá reglum VII. kafla laga nr. 6/1978, en tillögur eru þó gerðar um minni háttar efnisbreytingar og einstaka orðalagsbreytingar. Þar sem þessar breytingar eru óverulegar þykir ekki ástæða til að skýra hvert ákvæði sérstaklega, heldur verður látið við það sitja að geta breytinga sem eru lagðar til.
    Í 89.–91. gr. er mælt fyrir um óbreyttar reglur frá þeim sem nú koma fram í 41.–43. gr. laga nr. 6/1978.

Um 92. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. 92. gr. eru í samræmi við 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 6/1978.
    Í 3. mgr. 92. gr. er gert ráð fyrir lítillega breyttu orðalagi frá 3. mgr. 43. gr. laga nr. 6/ 1978, sem á rætur að rekja til breyttrar dómstólaskipunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 92/ 1989. Eftir sem áður yrði mat á þeim atriðum, sem ákvæði 3. mgr. taka til, lagt undir héraðsdóm til úrlausnar, en það yrði þá gert eftir sérreglum XXIII. og XXIV. kafla frumvarpsins.

Um 93.–97. gr.


    Ákvæði 93.–97. gr. eru efnislega samhljóða ákvæðum 44.–49. gr. laga nr. 6/1978.

Um 98. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. 98. gr. eru efnislega í samræmi við 1. og 2. mgr. 50. gr. laga nr. 6/1978, en þó er lagt hér til að þrotabú fái meira svigrúm til að taka ákvörðun um það hvort það taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum, sem þrotamaðurinn var aðili að við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskiptin. Er allt að einu áfram gert ráð fyrir því að hlutaðeigandi starfsmenn eigi rétt til launa frá þeim tíma og til þess tímamarks sem ákvörðun þrotabús um framhald ráðningarsambandsins liggur fyrir. Um rétthæð launakröfunnar er lagt til að sama regla gildi og nú.
    Í 3. mgr. 98. gr. er gerð tillaga um að starfsmanni verði, svipað og er samkvæmt lögum nr. 6/1978, heimilt að slíta ráðningarsamningi sínum ef gjaldþrotið hefur í för með sér breyttar aðstæður og brýnir hagsmunir hans krefjast þess. Lagt er til að ef starfsmaður neytir þessa réttar áður en þrotabúið hefur ákveðið að taka við réttindum og skyldum samkvæmt samningnum þá sé honum samt skylt að gegna áfram starfi sínu meðan þrotabúið fær hæfilegan frest til að leita annars starfsmanns. Er gert ráð fyrir að þrotabúinu sé skylt að setja tryggingu fyrir greiðslu launa þann tíma sem starfsmaður sinnir starfinu af þessum sökum. Verður að ætla að fjárhagslegir hagsmunir starfsmannsins séu tryggðir þó svo að lögfest verði regla sem veitir skiptastjóra heimild til að ráða annan mann í starfið áður en starfsmaðurinn lætur endanlega af störfum.

Um 99. gr.


    Í XVI. kafla frumvarpsins, sem 99.–108. gr. heyra til, er að finna reglur um ýmis atriði, sem lúta að kröfum á hendur þrotabúi, rétt til skuldajafnaðar þegar kröfuhafinn stendur einnig í skuld við þrotabúið, hvernig með skuli fara þegar krafa í þrotabú er veðtryggð og er greidd að hluta af andvirði veðsins og þegar fleiri skuldarar eru að kröfu sem er lýst á hendur þrotabúi. Þá eru einnig reglur um endurkröfurétt samskuldara á hendur þrotabúi ef hann hefur greitt kröfuna eða hluta hennar. Reglur um þessi atriði er nú að finna í VI. kafla laga nr. 6/1978 og er hér gert ráð fyrir að þær verði að mestu óbreyttar.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. 99. gr. eru efnislega samhljóða reglum 1. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 6/1978. Í 3. mgr. 99. gr. er hins vegar gert ráð fyrir breytingum frá reglu 3. mgr. 31. gr. laga nr. 6/1978 um það við hvaða tímamörk eigi að miða við gjaldþrotaskipti þegar umreikna þarf kröfur í erlendum gjaldmiðli í íslenskar krónur, en umrædd regla núgildandi laga hefur þótt sérlega óljós og leitt til verulegra vandkvæða í framkvæmd. Í 3. mgr. 99. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þessi umreikningur eigi að fara eftir skráðu gengi viðeigandi gjaldmiðils á þeim degi sem úrskurður er kveðinn upp um gjaldþrotaskiptin ef um kröfur er að ræða sem standa í skuldaröð eftir 112. og 113. gr., en ef um aðrar kröfur er að ræða verði farið eftir gengi á greiðsludegi. Sú leið, sem hér er farin, verður að teljast eðlileg af tilliti til viðhorfa um jafnræði lánardrottna, enda verða þá þeir lánardrottnar, sem fara með kröfur í erlendum gjaldmiðli, eins settir varðandi rétt til gengismunar og vaxta af kröfum sínum og lánardrottnar, sem fara með kröfur í íslenskum krónum, verða varðandi rétt til verðbóta og vaxta, sbr. nánar 1. tölul. 114. gr. Þess má geta að ákvæði 3. mgr. 99. gr. eru sama efnis og reglur danskrar löggjafar um þetta.

Um 100.–103. gr.


    Ákvæði þessi samsvara í nær öllum atriðum ákvæðum 32.–35. gr. laga nr. 6/1978 og verður því ekki séð að einstök atriði þarfnist skýringa.

Um 104. gr.


    Í 104. gr. er gert ráð fyrir að sú meginregla, sem fram kemur í 36. gr. laga nr. 6/1978, verði áfram í gildi, en hún er á þann veg að kröfuhafi, sem getur krafið fleiri skuldara en þrotabúið um greiðslu og hefur fengið greiðslu frá einhverjum þeirra, geti ekki borið meira úr býtum samanlagt en nemi kröfunni með vöxtum og málskostnaði, enda mundi gagnstæð regla geta leitt til auðgunar kröfuhafans á kostnað skuldaranna. Jafnframt er gert ráð fyrir að sama regla gildi og nú ef úthlutun úr þrotabúi til kröfuhafans er svo há, til viðbótar því sem hann hefur fengið greitt frá samskuldurum búsins, að hún mundi leiða til þess að hann fengi hærri greiðslu en næmi kröfunni með vöxtum og málskostnaði, en þá bæri skiptastjóra að greiða þeim samskuldurum þrotabúsins, sem hafa greitt of mikið miðað við skyldur sínar, það sem umfram væri. Þær greiðslur mundu ganga hlutfallslega til samskuldaranna eftir því sem þeir hafa greitt umfram skyldur sínar. Ef þeir samskuldarar, sem hafa greitt of mikið, fengju ekki með greiðslunni frá þrotabúinu endurgreiðslu á því sem þeir hafa greitt umfram skyldur sínar, ættu þeir kröfur á hendur þeim samskuldurum sem of lítið hafa greitt.
    Í niðurlagi 36. gr. laga nr. 6/1978 er endurkröfuréttur samskuldara takmarkaður sérstaklega í þessum tilvikum ef sá samskuldari, sem hefur greitt of lítið, er þrotabú. Lagt er til með 104. gr. frumvarpsins að þessi takmörkun verði felld niður, enda eru tæpast rök fyrir henni ef endurgreiðslukröfu er lýst réttilega og úthlutað yrði upp í hana við skiptalok í því þrotabúi.

Um 105.–108. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er gert ráð fyrir óbreyttum reglum frá því sem nú gildir eftir 37.–40. gr. laga nr. 6/1978.

Um 109. gr.


    Í reglum 109.–115. gr. frumvarpsins, sem tilheyra XVII. kafla þess, er kveðið á um innbyrðis rétthæð krafna á hendur þrotabúi eða röðun réttinda eða skuldaröð eins og oft er nefnt, en reglur um þetta ráða því í hverri forgangsröð einstakar kröfur verði greiddar af andvirði eigna þrotabúa við gjaldþrotaskipti. Önnur ákvæði þessa kafla en 99. gr. taka til atriða sem nú er mælt fyrir um í reglum 8. kapítula laga nr. 3/1878, eins og þeim var breytt með lögum nr. 32/1974 og 23/1979, og eru þær reglur teknar hér upp með fáum breytingum.
    Í 109. gr. frumvarpsins er fjallað um rétthæstu kröfurnar við gjaldþrotaskipti, en það eru kröfur þriðja manns um afhendingu muna eða annarra verðmæta í vörslum þrotabús á grundvelli eignarréttar hans að þeim, svo og tilkall hans til greiðslu andvirðis slíkra verðmæta sem kunna að hafa verið ráðstafað af hálfu búsins áður en hann hafði uppi kröfu sína. Tekið hefur verið svo til orða í framkvæmd og fræðikenningum að kröfur sem þessar séu utan skuldaraðar, en með því er vísað til þess að þeir sem hafi uppi kröfur á grundvelli eignarréttar þurfi ekki að sæta því að hlutaðeigandi munum eða réttindum verði varið til fullnustu öðrum kröfum eftir stöðu þeirra í skuldaröð. Með 109. gr. er gerð tillaga um að setja regluna um þetta í samhengi við skuldaröðina að öðru leyti með því að hafa hana fyrsta í röð þeirra reglna sem kveða hver af annarri á um rétthæð einstakra afbrigða krafna. Til samræmis við þessa tillögu ber XVII. kafli frumvarpsins ekki fyrirsögnina „skuldaröðin“, svo sem fyrirsögn X. kafla laga nr. 6/1978, eða „um niðurröðun skulda“, eins og gert er í undirfyrirsögn við 8. kapítula laga nr. 3/1878, heldur er tekið svo til orða að kaflinn fjalli um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Með þeirri fyrirsögn er gefið til kynna að þar sé ekki aðeins að finna ákvæði um skuldaröðina sem slíka, heldur einnig um rétthæð annars konar krafna.
    Ákvæði 1. mgr. 109. gr. eru efnislega þau sömu og nú koma fram í 69. gr. laga nr. 6/1978.
    Í 2. mgr. 109. gr. er mælt fyrir um rétt þriðja manns sem hefur átt hlut í vörslum þrotabús ef skiptastjóri selur hlutinn í grandleysi um eignarrétt hans. Meginreglan í þessum efnum, sem kemur fram í ákvæðinu, er á þann veg að eigandinn njóti réttar til að fá söluandvirði hlutarins óskert í sinn hlut og að sá réttur hans gangi framar öllum öðrum greiðslukröfum á hendur búi. Ef skiptastjóri hefur hins vegar vitað eða mátt vita um eignarrétt þriðja manns, en allt að einu ráðstafað hlutnum, nýtur sá síðarnefndi aukinna réttinda með því að honum er mæltur réttur til bóta í 3. mgr. 123. gr., ef hann fær ekki tjón sitt af missi hlutarins að fullu bætt með greiðslu skv. 2. mgr. 109. gr., en slík bótakrafa stæði þá í skuldaröð eftir 3. tölul. 110. gr. Skipanin sem leiðir samkvæmt þessu af ákvæðum 2. mgr. 109. gr. og 3. mgr. 123. gr. er að mestu sú sama efnislega og nú er mælt fyrir um í 70. og 72. gr. laga nr. 6/1978.

Um 110. gr.


    Í 110. gr. eru taldar upp rétthæstu kröfurnar á hendur þrotabúi þegar frá eru talin áðurnefnd réttindi skv. 109. gr. Kröfurnar í 110. gr. koma fram í fjórum töluliðum ákvæðisins og eftir upphafsorðum þess felur upptalningin um leið í sér ákvörðun á rétthæð hverrar kröfutegundar gagnvart hinum sem þar eru taldar. Í upphafsorðum 110. gr. kemur einnig fram fyrirvari um rétthæð þeirrar krafna, sem síðan eru taldar, því vísað er þar um undantekningu til ákvæða 3. mgr. 111. gr. Þessi fyrirvari um undantekningu er til þess að vekja athygli á því að kröfur, sem njóta veðréttar eða annarra tryggingarréttinda í eign þrotabús, gangi allt að einu framar kröfum skv. 110. gr. til fullnustu af andvirði þeirrar eignar sem stendur að veði eða til tryggingar. Hér er um óbreytta skipan að ræða frá því sem nú kemur fram í 82. og 83. gr. laga nr. 3/1878.
    Ákvæði 1.–3. tölul. 110. gr. frumvarpsins eru sama efnis og núgildandi reglur 1.–3. tölul. 82. gr. laga nr. 3/1878. Vakin skal þó athygli á því að í 2. tölul. 110. gr. er ekki tekið berum orðum fram að gjöld í ríkissjóð vegna skipta teljist ekki til skiptakostnaðar, svo sem er gert í 2. tölul. 82. gr. laga nr. 3/1878, en sá varnagli þykir óþarfur í ljósi þess að slík gjöld geti tæplega talist eiga í eðlilegum skilningi undir hugtakið skiptakostnaður.
    Í 4. tölul. 110. gr. frumvarpsins eru hins vegar lögð til nýmæli með því að þar er gert ráð fyrir forgangsrétti fyrir kröfum sem hafa orðið til eftir frestdag vegna ráðstafana skuldarans við greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir, en forgangsrétturinn er þó háður því tvennu að aðstoðarmaður eða umsjónarmaður hafi samþykkt þá ráðstöfun, sem leiddi til myndunar kröfunnar, og að ráðstöfunin hafi að auki verið heimil eftir reglum 19.–21. gr., sbr. 1. mgr. 40. gr. Þessi regla, sem á sér fyrirmynd í danskri löggjöf, þykir nauðsynleg til að tryggja stöðu viðsemjenda skuldara á greiðslustöðvunartíma eða við nauðasamningsumleitanir. Þykir að auki mega telja regluna rökrétta í ljósi þess að hér væri almennt um kröfur að ræða, sem ættu rætur að rekja til gagnkvæmra samninga skuldarans við kröfuhafa eftir frestdag, en slík viðskipti mundu þá almennt hafa fært verðmæti í hendur skuldarans sem svara til krafnanna á hendur honum. Verðmætin sem skuldarinn fengi ættu síðan að öðru jöfnu að liggja fyrir við upphaf gjaldþrotaskipta og koma þannig þrotabúi hans til góða. Væri óeðlilegt að slíkar hagsbætur bús yrðu fengnar á kostnað þess sem hefur átt viðskipti við skuldarann á greiðslustöðvunartíma eða við nauðasamningsumleitanir, með því að krafa viðsemjandans yrði almenn krafa eftir 113. gr.

Um 111. gr.


    Í 111. gr. koma fram reglur um rétthæð krafna sem veðréttindi eru fyrir í eign þrotabús eða njóta annarra tryggingarréttinda í henni. Nýtur þá kröfuhafinn réttar fram yfir aðra til fullnustu kröfu sinnar af andvirði þeirrar eignar, sem hann á veðrétt eða önnur tryggingarréttindi í, enda standist þau réttindi riftun eftir 137. eða 138. gr.
    Ákvæði 111. gr. eru efnislega þau sömu og reglur 83. gr. laga nr. 3/1878 nema í einu atriði. Nánar tiltekið er lögð til sú breyting í niðurlagi 1. mgr. 111. gr. að kröfuhafar, sem eiga veðréttindi eða tryggingarréttindi í eign, njóti ekki aðeins eins og nú er réttar til greiðslu af söluandvirði eignarinnar, heldur einnig réttar til greiðslu af arði eða öðrum tekjum sem þrotabúið kynni að njóta af viðkomandi eign frá upphafi gjaldþrotaskipta og þar til henni væri ráðstafað. Er þannig gert ráð fyrir því að ef þrotabú hefur t.d. átt fasteign, sem hefur verið leigð út frá upphafi skipta fram til söludags, þá njóti veðhafar í fasteigninni réttar til að fá kröfur sínar greiddar af söluverði eignarinnar og leigutekjunum, eftir atvikum að frádregnum útgjöldum vegna rekstrar fasteignarinnar, sbr. 3. tölul. 110. gr. og 3. mgr. 111. gr. Telja verður þessa reglu eðlilega því að öðrum kosti gætu almennir kröfuhafar notið góðs af leigutekjum, sem væri aflað meðan á skiptum stæði, jafnvel með því að dregið yrði að ráðstafa veðsettri eign gagngert til að afla leigutekna í þessu skyni, meðan kröfur veðhafa færu hækkandi vegna áfallandi vaxta og eftir atvikum verðbóta með þeim afleiðingum að aftari veðhafar kynnu að fara á mis við fullnustu af þessum sökum.

Um 112. gr.


    Í 112. gr. er kveðið á um forgangsrétt fyrir tilteknum kröfum, sem kæmu til greiðslu við gjaldþrotaskipti að frágengnum kröfum skv. 109.–111. gr. Ákvæði um forgangsrétt fyrir sömu kröfunum og hér um ræðir má nú finna í 84. gr. laga nr. 3/1878, en í framkvæmd reynir mest á forgangsrétt í skjóli þessara ákvæða fyrir kröfum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti, orlofsfé eða orlofslaun og iðgjöld til lífeyrissjóða. Reglur nefndrar 84. gr. eru að mestu leyti teknar upp með lítt breyttu orðalagi í 112. gr. frumvarpsins, en eftirtaldar breytingar eru þó lagðar hér til:
     1.      Í 3. tölul. 112. gr. er lögð til óveruleg breyting á því til hvaða tímabils kröfur um orlofsfé eða orlofslaun þurfi að eiga rætur að rekja til að forgangsréttur fylgi þeim. Sú breyting, sem hér um ræðir, ætti að leiða í senn til einföldunar og um margt til eðlilegri skipunar en núgildandi ákvæði um þetta í 3. tölul. 84. gr. laga nr. 3/1878.
     2.      Í 4. tölul. 112. gr. er gert ráð fyrir að sérreglur um forgangsrétt í 8. gr. laga nr. 55/1980 verði fluttar í reglu, sem svarar að öðru leyti til 4. tölul. 84. gr. laga nr. 3/1878, en þessu til samræmis er lagt til afnám umræddrar 8. gr. í 181. gr. frumvarpsins.
     3.      Í 5. tölul. 112. gr. er orðalagi breytt lítillega frá ákvæðum 5. tölul. 84. gr. laga nr. 3/1878 til að afnema þargreint skilyrði fyrir forgangsrétti um aðild að kröfu um bætur fyrir örorku eða dauðsfall af völdum vinnuslyss, enda verður ekki séð hver eðlisrök geti búið að baki slíku skilyrði.
     4.      Í 3. mgr. 112. gr. er lagt til að tekin verði upp regla að danskri fyrirmynd til að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé. Sambærileg takmörkun er ekki fyrir hendi í ákvæðum 84. gr. laga nr. 3/1878, sem hefur stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd.
    Rétt er að taka fram að öðru leyti að í 112. gr. frumvarpsins er orðalagi breytt nokkuð frá ákvæðum 84. gr. laga nr. 3/1878, en þetta felur almennt ekki í sér ráðagerðir um breytingar frá ríkjandi venjum í framkvæmd um skýringu og beitingu núgildandi reglna.

Um 113. gr.


    Ákvæði 113. gr. eru efnislega eins og ákvæði 85. gr. laga nr. 3/1878 og þarfnast því ekki skýringa.

Um 114. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins eru reglur um svonefndar eftirstæðar kröfur við gjaldþrotaskipti, en reglur fyrstu þriggja töluliða þess eru efnislega eins og reglur 86. gr. laga nr. 3/1878, svo sem þeim hefur verið beitt í framkvæmd. Frá þessu er þó sú undantekning að í 2. tölul. 114. gr. frumvarpsins eru kröfur um refsingar og refsikennd viðurlög ekki taldar meðal eftirstæðra krafna eins og gert er í 2. tölul. 86. gr. laga nr. 3/1878, enda verður ekki séð hver rök standi til þeirrar skipunar. Af þessum sökum yrðu kröfur sem þessar taldar til svonefndra almennra krafna eftir 113. gr. frumvarpsins, en þess má geta að ekki hefur reynt á umrædd ákvæði 2. tölul. 86. gr. í framkvæmd svo vitað sé.
    Í 4. tölul. 114. gr. er hins vegar að finna þau nýmæli að tekið er fram að þær kröfur standi öllum öðrum kröfum að baki sem hefur verið samið um að víki fyrir þeim. Með þessu er gert ráð fyrir því berum orðum að krafa vegna svonefnds víkjandi láns geti beinst að þrotabúi, en væri ekki áskilið sérstaklega í lánssamningi að slík krafa víki aðeins fyrir vissum kröfum og öðrum ekki yrði að líta svo á að hún falli aftast í skuldaröð eftir ákvæðum 4. tölul. 114. gr. Þótt ekki sé nú fyrir hendi lögfest regla um þetta þá hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að farið verði að með þessum hætti.
    Í 5. tölul. 114. gr. er loks kveðið á um stöðu vaxta og fleiri liða, sem kunna að falla á kröfur um févíti og gjafir og víkjandi kröfur eftir 2.–4. tölul. 114. gr., en með þessu eru tekin af tvímæli um að sambærilegum reikniaðferðum verði beitt um eftirstæðar kröfur og um kröfur eftir 112. og 113. gr. Sams konar regla kemur ekki fram í 86. gr. laga nr. 3/1878, en ætla má að með lögskýringu yrði komist að efnislega sömu niðurstöðu og mælt er hér fyrir um.

Um 115. gr.


    Í 115. gr. eru ákvæði 87. gr. laga nr. 3/1878 tekin upp efnislega óbreytt og þarfnast þessi grein því ekki sérstakra skýringa.

Um 116. gr.


    Í XVIII. kafla frumvarpsins, þar sem 116.–121. gr. er skipað, koma fram reglur um hvernig verði farið með kröfur á hendur þrotabúi, en þessum reglum er ekki ætlað að leiða til breytinga að heitið geti frá þeirri framkvæmd sem hefur mótast á grundvelli ákvæða laga nr. 6/1978.
    Í 1. mgr. 116. gr. koma fram meginreglur um takmarkanir á heimildum til að höfða dómsmál á hendur þrotabúi, enda er ætlast til þess í frumvarpinu að kröfuhafar fylgi réttindum sínum eftir við gjaldþrotaskipti með kröfulýsingum til skiptastjóra í stað þess að höfða mál í því skyni. Sambærileg regla og hér um ræðir kemur ekki berum orðum fram í lögum nr. 6/1978, en gengið hefur verið allt að einu ótvírætt út frá gildi hennar í framkvæmd á grundvelli dómafordæma og ákvæða 1. mgr. 33. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 2. mgr. 116. gr. er að finna ákvæði sem svara til 1.–3. mgr. 118. gr. laga nr. 6/1978.
    Í 3. mgr. 116. gr. koma fram hliðstæðar reglur og nú verða leiddar af 1. mgr. 24. gr. laga nr. 6/1978 í samanburði við 34. gr. laga nr. 3/1878. Í þessum efnum er þó gert ráð fyrir því í frumvarpinu að afnumin verði sérstök undantekningarregla, sem kemur fram í nefndri 1. mgr. 24. gr., enda hefur henni ekki verið beitt í framkvæmd og verður hún að auki að teljast í nokkurri andstöðu við almennar réttarfarsreglur.
    Í 4. mgr. 116. gr. er efnislega að finna sömu reglu og nú kemur fram í 1. mgr. 73. gr. og 1. mgr. 74. gr. laga nr. 6/1978. Í tengslum við hana má nefna að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir öðrum sérreglum um nauðungarsölu á eignum þrotabúa eins og nú má finna í 2. mgr. 73. gr., 2. mgr. 74. gr. og 75.–77. gr. laga nr. 6/1978, enda verður ekki séð hverjum tilgangi þær ættu að þjóna.

Um 117. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er að finna reglur um kröfulýsingar á hendur þrotabúum, þar á meðal um efni kröfulýsinga, fylgigögn með þeim og réttaráhrif þeirra. Þessar reglur eiga sér ekki nema að litlu leyti hliðstæður í ákvæðum laga nr. 6/1978, en þó má benda á 107. gr. laganna í þessu sambandi.
    Efni 117. gr. frumvarpsins er í samræmi við venjubundin viðhorf í fræðikenningum og framkvæmd. Ákvæðið á sér hliðstæðu í 57. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. og þykir hér mega láta við það sitja að vísa til umfjöllunar um það ákvæði í athugasemdum við umrætt frumvarp.

Um 118. gr.


    Í upphafi 118. gr. kemur fram meginreglan um afleiðingar af því að kröfu sé ekki lýst innan kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskipti, en slík vanlýsing hefur að jafnaði í för með sér að krafa glatist gagnvart þrotabúi. Þessi regla kemur fram með óbeinum hætti í ákvæðum 111. gr. laga nr. 6/1978, en byggt hefur verið á henni í því horfi, sem fram kemur í upphafi 118. gr. frumvarpsins, um langan aldur í dómaframkvæmd og fræðikenningum.
    Undantekningar frá meginreglunni um að krafa tapist gagnvart þrotabúi með vanlýsingu koma fram fram í sex töluliðum í 118. gr. auk þess að ein undantekningin til viðbótar felst í upphafsorðum ákvæðisins þar sem vísað er til þess að krafa tapist ekki ef henni verður fylgt eftir gagnvart þrotabúi eftir ákvæðum 116. gr. Þær undantekningar, sem hér um ræðir, eiga sér ýmist hliðstæður í 111. gr. laga nr. 6/1978 eða ólögfestum fordæmisreglum, og verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist sérstakra skýringa hér.

Um 119. og 120. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er fjallað um skrá sem skiptastjóra er ætlað að gera um lýstar kröfur eftir lok kröfulýsingarfrests og skiptafund sem hann heldur síðan til að leggja skrá sína fram. Þessar reglur fela nánar í sér hvernig staðið sé að því að komast að niðurstöðu um það hvort lýst krafa verði viðurkennd við gjaldþrotaskiptin og þá eftir atvikum hvernig hún verði viðurkennd.
    Reglur 119. og 120. gr. eru í nær öllum atriðum sama efnis og ákvæði 108.–110. gr. laga nr. 6/1978 eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd. Rétt er þó að benda á að í frumvarpinu er skiptastjóra ætlað að halda skiptafund til að fjalla um kröfuskrá, eins og reyndar aðra skiptafundi við gjaldþrotaskipti, en í ákvæðum núgildandi laga er héraðsdómara falið að halda skiptafund í þessu skyni. Þá er einnig rétt að benda á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ágreiningur um viðurkenningu lýstra krafna komi til kasta héraðsdómara eftir reglum 171. gr., en rekstur sérstakra dómsmála til að fá leyst úr sams konar ágreiningsefnum á sér aðeins annan aðdraganda eftir lögum nr. 6/1978. Að öðru leyti má geta þess að ákvæði 119. og 120. gr. frumvarpsins eru hliðstæð ákvæðum 59. og 60. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., en í athugasemdum við það frumvarp er fjallað að nokkru um einstök atriði þeirra ákvæða. Þykir því mega láta við það sitja að vísa hér að öðru leyti til þeirrar umfjöllunar.

Um 121. gr.


    Hér er að finna sérreglu um hvernig afstaða verði tekin til kröfu sem fyrst kemur fram eftir lok kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskipti. Sambærilega reglu er ekki að finna í lögum nr. 6/1978, en í ákvæðum 121. gr. frumvarpsins er tekið mið af því hvernig hafi verið staðið að verki í þessum efnum í framkvæmd.
    Sams konar regla og hér um ræðir kemur fram í 61. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Um 122. gr.


    Í 122.–130. gr. frumvarpsins, sem mynda XIX. kafla þess, er fjallað um stjórn þrotabús og ráðstöfun hagsmuna þess við gjaldþrotaskiptin. Í þessum ákvæðum er gert ráð fyrir að skiptastjóri hafi með höndum daglega stjórn á málefnum þrotabús, varðveiti eignir þess, annist sölu eða aðra ráðstöfun eigna, gæti hagsmuna bús í samskiptum við aðra og komi fram út á við sem fyrirsvarsmaður þess í alla staði. Valdið til að taka ákvarðanir um þessi málefni þrotabús er hins vegar að nokkru í höndum lánardrottna, sem geta látið til sín taka á skiptafundum, en að öðru leyti í höndum skiptastjóra. Í frumvarpinu er ætlast til þess að skiptastjóri haldi einkum skiptafundi með lánardrottnum í því skyni að gera þeim grein fyrir ráðagerðum sínum um væntanlegar ráðstafanir og þeim aðgerðum sem hann hefur þegar gripið til, en á þessum fundum geti lánardrottnar komið fram tillögum í þessum efnum og eftir atvikum tekið ákvarðanir sem binda skiptastjóra. Eins gæti skiptastjóri haldið skiptafund gagngert til þess að láta lánardrottna taka ákvörðun um málefni sem hann telur óheppilegt að ráða til lykta sjálfur.
    Reglur frumvarpsins í þessum efnum fela ekki í sér teljandi breytingar frá þeirri framkvæmd sem hefur mótast á grundvelli ákvæða laga nr. 6/1978. Þess verður að vísu að geta í þessu sambandi að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skiptastjórar haldi þá skiptafundi, sem hér er um að ræða, í stað héraðsdómara eftir núgildandi lögum, en þessi breyting er í reynd aðeins formlegs eðlis, enda hafa skiptastjórar í reynd haft veg og vanda að fundum sem þessum í framkvæmd. Með ákvæðum frumvarpsins er hins vegar leitast við að færa lagareglur nær þeim búningi sem framkvæmd hefur tekið á sig á undanförnum árum, en í því sambandi gætir þess öðru fremur að í frumvarpinu er dregið nokkuð úr þýðingu skiptafunda varðandi ákvörðunartöku um hagsmuni þrotabúa, enda hefur reynslan í framkvæmd gefið eindregið til kynna að lánardrottnar hafi mjög takmarkaðan áhuga af virkum afskiptum af þessu. Að öðru leyti má nefna að í þessum ákvæðum frumvarpsins er tekin skýrari afstaða en í núgildandi lögum til nokkurra álitaefna, sem hafa verið uppi í framkvæmd, auk þess að í 129. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sérreglum um ráðstöfun veðsettra eigna, sem eiga sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum.
    Rétt er að taka fram að ákvæði XIX. kafla eru að verulegu leyti samsvarandi ákvæðum IX. kafla frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. Í athugasemdum við það frumvarp er almennt fjallað nokkuð um einstök atriði hvers ákvæðis um sig, en sú umfjöllun getur að meira eða minna átt við um sambærileg ákvæði í þessu frumvarpi. Í þessum efnum verður þó að taka tillit til þess eðlismunar á reglum þessara tveggja frumvarpa að í frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl. er gert ráð fyrir að heimildir skiptastjóra til sjálfstæðra ákvarðana verði öllu takmarkaðri en mælt er fyrir um í þessu frumvarpi, en að sama skapi séu þá skiptafundir oftar haldnir og afskipti þeirra að mun meiri af bústjórn. Sú skipan umrædds frumvarps á rætur að rekja til þess tillits, sem þarf að taka til hagsmuna erfingja af bústjórn í dánarbúum, en sambærilegar þarfir eru að sjálfsögðu ekki fyrir hendi við gjaldþrotaskipti.
    Í 122. gr. frumvarpsins má finna almenn fyrirmæli um forræði skiptastjóra á hagsmunum þrotabús og helstu atriðin sem hann verður að gæta að í störfum sínum. Þessi fyrirmæli eiga sér að verulegu leyti samsvörun í 1. mgr. 91. gr. laga nr. 6/1978 og verður ekki séð að einstök atriði þeirra þarfnist sérstakra skýringa.

Um 123. gr.


    Í 1. mgr. 123. gr. er kveðið á um að skiptastjóri eigi að hefjast handa um ráðstöfun eigna og réttinda þrotabús svo fljótt sem verða má eftir skipun sína, en sérstaklega er þó tekið fram að hann geti frestað slíkum aðgerðum um sinn ef hann telur það hagkvæmara eða þjóna betur hagsmunum lánardrottna með því að slík bið geti leitt til að þrotabúið beri meira úr býtum fjárhagslega en með ráðstöfun þegar í stað. Þá er einnig mælt fyrir um skyldu skiptastjóra til að slá ráðstöfunum á frest, ef þrotamaðurinn hefst handa um nauðasamningsumleitanir við gjaldþrotaskiptin, að því leyti sem ráðstafanirnar kynnu að vera í andstöðu við tilgang samningsumleitana, en um sömu skyldu væri og að ræða að því leyti sem horfur þættu á að gjaldþrotaskiptunum kynni að ljúka eftir ákvæðum 2. mgr. 154. gr. með því að allir lánardrottnar fái fullnustu. Eitt meginatriði þessa ákvæðis felst hins vegar í því að hvergi er minnst á það að skiptastjóri þurfi að halda skiptafund áður en hann byrjar þessar aðgerðir sínar og þegar litið er í þessu sambandi til ákvæða 124. gr. má sjá að gengið sé út frá að hann hafi mjög frjálsar hendur að þessu leyti. Ákvæði laga nr. 6/1978 hafa þótt fremur óskýr í þessum efnum, en sú leið, sem er lögð til með ákvæðum 1. mgr. 123. gr. og 124. gr., er nánast sú sama og hefur almennt verið farin í framkvæmd.
    Í 2. og 3. mgr. 123. gr. er að finna reglur um meðferð eigna sem eru í vörslum þrotabús og óvissa er um hverjum tilheyri. Þessar reglur eru um margt sambærilegar ákvæðum 71. og 72. gr. laga nr. 6/1978, en í 2. mgr. 123. gr. er þó að finna nýmæli um aðdragandann að því að slíkum eignum verði ráðstafað. Þessum nýmælum er ætlað að stuðla að öruggari meðferð á þessum vettvangi, en ekki verður séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist sérstakra skýringa.

Um 124. gr.


    Í 124. gr. koma fram reglur sem er ætlað að taka af skarið um það hvar mörkin standi milli valds skiptastjóra til að taka ákvarðanir um hagsmuni þrotabús upp á eindæmi sitt annars vegar og valds skiptafunda í þessum efnum hins vegar. Meginreglan í þessum efnum kemur fram í 1. mgr. 124. gr. með samanburði við ákvæði 2. mgr., en samkvæmt henni verður skiptastjóri talinn bær um að taka ákvarðanir um alla hagsmuni þrotabús, nema ákvörðun hafi áður verið tekin á skiptafundi um ráðstafanir sem þá voru enn ógerðar. Er enginn greinarmunur gerður hér á því hvort ákvörðun varði stórfellda hagsmuni eða óverulega og heldur ekki á því hvort um sé að ræða ákvörðun um sölu eignar, málshöfðun, eftirgjöf réttinda eða önnur tiltekin atriði. Í lögum nr. 6/1978 er ekki að finna skýrar reglur um skilin milli ákvörðunarvalds skiptastjóra annars vegar og skiptafunda hins vegar að öðru leyti en því að leitt verður af 4. mgr. 96. gr. laganna að skiptafundur standi skiptastjóranum almennt framar í þessum efnum. Ákvæði 124. gr. frumvarpsins taka hins vegar mið af því hvernig hafi verið staðið að verki í þessu sambandi í framkvæmd.
    Í 2. mgr. 124. gr. kemur að öðru leyti fram að skiptastjóri geti haldið skiptafundi til að fjalla um ráðstöfun á hagsmunum þrotabús svo oft sem hann telur tilefni til, en í tveimur tilvikum er þó ráðgert að honum sé það skylt. Annars vegar er mælt fyrir um skyldu skiptastjóra til að taka þessi málefni upp á skiptafundi, sem er haldinn til að fjalla um kröfuskrá, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 85. gr. og 120. gr. Hins vegar ber honum að efna til skiptafundar ef þess er krafist skriflega af hálfu þeirra, sem færu að minnsta kosti með fimmtung atkvæða á fundinum, en um atkvæðisrétt er nánar mælt í 126. gr. Með þessum hætti þykir nægilega tryggt að lánardrottnar geti haft afskipti af bústjórninni ef þeir telja tilefni til. Í sambandi við þetta er rétt að ítreka það sem kom fram hér áður í almennum athugasemdum að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir sérstökum kröfuhafanefndum til að fylgjast með bústjórn skiptastjóra, svo sem finna má heimild fyrir 92. gr. laga nr. 6/1978, enda er ekki vitað um dæmi þess að þeirrar heimildar hafi verið neytt í framkvæmd.
    Ákvæði 3. mgr. 124. gr. taka mið af verklagi sem oft er beitt í framkvæmd án beinna fyrirmæla um það í lögum nr. 6/1978. Verður ekki séð að þau þarfnist sérstakra skýringa.

Um 125. gr.


    Í 125. er mæltfyrir um það hverjir njóti réttar til að sækja skiptafundi við gjaldþrotaskipti. Meginreglan í þeim efnum kemur fram í 1. mgr. 125. gr. þar sem segir að það séu kröfuhafar, sem hafi lýst kröfum fyrir skiptastjóra, sem njóti þessa réttar, enda hafi kröfum þeirra ekki áður verið hafnað með öllu. Þessu til viðbótar kemur þó fram í 2. mgr. 125. gr. að skiptastjóri geti heimilað öðrum fundarsókn, en hér væri aldrei um það að ræða að skiptastjóra yrði talið skylt að veita þeim sem þar greinir aðgang að skiptafundi. Þessar reglur byggja einfaldlega á því að á skiptafundum er verið að fjalla um málefni sem varða almennt ekki hagsmuni annarra en lánardrottna, en nærvera annarra getur leitt til tafa á störfum fundar og jafnvel orðið til óþæginda ef verið er að fjalla um einkamálefni manna.

Um 126. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. 126. gr. um ákvörðun atkvæðisréttar á skiptafundum eru hliðstæð ákvæðum 1. mgr. 97. gr. og 98.–100. gr. laga nr. 6/1978 og þykja því ekki þarfnast skýringa.
    Í 3. mgr. 126. gr. er mælt fyrir um að lánardrottinn njóti ekki atkvæðisréttar á skiptafundi um málefni sem varða sérstaka hagsmuni hans sjálfs. Sambærileg regla kemur ekki fram í lögum nr. 6/1978 og hefur það leitt til óvissu um hvort farið yrði svo að sem hér er mælt fyrir. Hins vegar þykir vart geta orkað tvímælis að regla þessa efnis eigi rétt á sér.

Um 127. gr.


    Í 127. gr. er mælt fyrir um hvernig ákvarðanir verði teknar á skiptafundum, þar á meðal hver lágmarksfundarsókn þurfi að vera á skiptafundi til hann verði talinn fær um að taka bindandi ákvarðanir, hvernig brugðist verði við ef ákvörðun fæst ekki á fundi og hvenær mætti virða ákvörðun fundar að vettugi. Þessum ákvæðum er að nokkru ætlað að koma í stað 2. og 3. mgr. 97. gr. og 105. gr. laga nr. 6/1978, en að öðru leyti snúa þau að atriðum sem settar reglur hafa ekki náð til. Þau eru nánast samhljóða 70. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. og þykir því mega vísa hér um frekari skýringar til umfjöllunar um þá grein í athugasemdum við það frumvarp.

Um 128. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru samhljóða 71. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., og þykir því mega vísa hér til umfjöllunar um þá grein í athugasemdum við það frumvarp. Sambærilegar reglur koma ekki fram í lögum nr. 6/1978, en þær eru að nokkru byggðar á venjum í framkvæmd.

Um 129. gr.


    Í þeim tilvikum þar sem þrotabúum hafa á annað borð tilheyrt einhverjar eignir hefur sú aðstaða oft verið uppi í framkvæmd að veðbönd hafi hvílt á eign fyrir kröfum sem nema hærri fjárhæð en söluandvirði hennar hefur getað orðið. Undir þeim kringumstæðum getur eðlilega ekki orðið af sölu nema með því að áhvílandi veðkröfum verði að einhverju meira eða minna leyti aflétt, en til þess eru aðeins tvenn úrræði að gildandi lögum. Annars vegar geta veðhafar að sjálfsögðu fellt sjálfir niður veðbönd sín að því leyti sem þörf krefur til að unnt verði að selja eign, en hins vegar er unnt að ráðstafa eign við nauðungarsölu á grundvelli d-liðar 1. tölul. 1. gr. laga nr. 57/1949, sem hefur í för með sér að veðbönd fyrir meira en söluverðinu falla brott, sbr. 1. mgr. 36. gr. nefndra laga. Þetta hefur leitt til þess að ef eign þrotabús er yfirveðsett þá er aðeins unnt að selja hana á frjálsum markaði með velvild veðhafa, að minnsta kosti þeirra sem eiga veðkröfur sem söluverðið hrekkur ekki til að greiða. Ef umræddir veðhafar fást hins vegar ekki til að afmá veðbönd sín sjálfir verður ekki komist hjá nauðungarsölu jafnvel þótt aðeins einn af mörgum veðhöfum standi gegn frjálsri sölu. Oft hefur þetta beinlínis orðið til þess að ekki hafi verið hægt að komast hjá nauðungarsölu jafnvel þótt flestum eða öllum hlutaðeigendum hafi mátt vera ljóst að slík ráðstöfun eignar verði þeim til tjóns. Í framkvæmd hefur tilfinnanlega þótt vanta heimild til annarra úrræða undir þessum kringumstæðum þannig að veðhafar hefðu ekki afgerandi vald til að koma í veg fyrir frjálsa sölu.
    Í 129. gr. frumvarpsins er gerð tillaga til að ráða bót á þeirri aðstöðu sem hér var lýst. Hún felst í því í stuttu máli að skiptastjóra verði heimilað að ráðstafa yfirveðsettri eign þrotabús án tillits til afstöðu einstakra veðhafa, en áður verður hann þó annaðhvort að fá samþykki fyrir sölunni hjá þeim veðhöfum, sem fengju ekki fullnustu af söluverði eignarinnar, eða að gefa þeim sem fá ekki fullnustu og fást ekki til að afmá veðbönd sín kost á að ganga inn í framkomið tilboð í eignina og gera eftir atvikum hærra boð í hana. Ef veðhafi fæst hvorki til að ganga inn í framkomið tilboð né til að bjóða betur er skiptastjóra heimilað að ráðstafa eigninni og hlutast síðan sjálfur til um að veðböndin verði afmáð með framvísun gagna fyrir því að staðið hafi verið þannig að verki sem nánar er boðið í fyrirmælum 129. gr.
    Telja verður að einstök atriði 129. gr. skýri sig sjálf og þykir því ekki ástæða til að víkja nánar að þeim hér.

Um 130. gr.


    Ákvæði 130. gr. eru að mestu samhljóða ákvæðum 114. og 115. gr. laga nr. 6/1978 og verður því ekki séð að þau þarfnist sérstakra skýringa.

Um 131. og 132. gr.


    Í XX. kafla frumvarpsins, sem 131.–148. gr. heyra til, er gert ráð fyrir að reglur um riftun ráðstafana þrotamanns og um endurgreiðslu riftunarþola verði í öllum aðalatriðum óbreyttar frá því sem mælt er fyrir um í VIII. kafla laga nr. 6/1978. Í frumvarpinu eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar, sem felast að jafnaði í breyttu orðalagi án þess að um efnislegan mun sé að ræða, en flestar aðrar tillögur um breytingar miða að því að lögfesta reglur sem hefur verið beitt í framkvæmd, t.d. ákvæði 143. gr. frumvarpsins. Af þessum sökum verður ekki séð að ástæða sé til að skýra hér sérstaklega önnur atriði í ákvæðum þessa kafla frumvarpsins en þau sem fela í sér tillögur um efnislegar breytingar frá núgildandi lögum.
    Með 131. gr. og 1. og 2. mgr. 132. gr. eru lagðar til óbreyttar reglur frá þeim sem koma fram í 51. og 52. gr. laga nr. 6/ 1978.
    Í 3. mgr. 132. gr. er gert ráð fyrir sambærilegri reglu og nú kemur fram í 60. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna nr. 20/1923. Sú regla heimilar skuldheimtumönnum annars hjóna að ganga að hinu til fullnustu á kröfum sínum ef það hjónanna, sem kröfurnar hvíla á, hefur gefið nokkuð eftir af sínum eignum eða tilkalli til eigna hins við fjárslit milli þeirra og hefur ekki gætt þess að halda eftir nægilegum fjármunum af sínum eignum til að standa skil á skuldum sínum. Geta þá skuldheimtumenn gengið að hinu hjónanna að því marki, sem það fékk meiri eignir við skiptin en nam réttum hluta þess. Regla 60. gr. laga nr. 20/1923 er ekki riftunarregla í hefðbundnum skilningi þar sem riftun þarf ekki að fara fram, heldur geta skuldheimtumenn einfaldlega gengið að því hjónanna sem fékk eignir umfram það sem honum bar. Þessi heimild skuldheimtumanna hefur heldur ekki verið háð því að bú þess hjónanna, sem kröfur þeirra hvíla á, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og þeir frestir, sem gilda til málshöfðunar skv. VIII. kafla laga nr. 6/1978, hafa ekki átt við um þessa heimild.
    Þar sem markmið þeirrar reglu, sem nú er í 60. gr. laga nr. 20/1923, er að vernda skuldheimtumenn þess hjónanna, sem gefur eftir réttindi sín við fjárslit í þeim mæli að það eigi ekki eftir nægar eignir til greiðslu skulda sinna, og þetta markmið er það sama og riftunarreglna við gjaldþrotaskipti, er lagt til að ákvæðið verði fellt inn í XX. kafla þessa frumvarps. Af þeirri tilfærslu reglunnar leiðir að henni verði ekki beitt nema við gjaldþrotaskipti og að auki ættu almennar reglur um fresti á þessum vettvangi þá við, bæði um að réttindaafsalið fari fram innan tiltekins tímabils fyrir frestdag og að mál verði höfðað til riftunar innan þess frests sem tilgreindur er í 148. gr. frumvarpsins.

Um 133.–137. gr.


    Í 133.–137. gr. eru ákvæði 53.–57. gr. laga nr. 6/1978 tekin upp efnislega óbreytt með tveimur undantekningum.
    Annars vegar er gert ráð fyrir að heimildir til riftunar verði rýmkaðar lítils háttar í 134. gr. Samkvæmt 54. gr. laga nr. 6/1978 er heimilt að rifta greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, m.a. ef greiðslan hefur ráðið úrslitum um greiðslugetu þrotamannsins. Ekki er kunnugt um að þessari riftunarreglu hafi verið beitt í framkvæmd, enda verður að telja að orðalag hennar leggi svo strangar kröfur á herðar þess, sem krefst riftunar, að erfitt sé að sjá fyrir tilvik þar sem reglunni yrði beitt. Má því ætla að reglan hafi lítið sem ekkert sjálfstætt gildi við hlið annarra riftunarreglna, eins og orðalag hennar er nú. Því er lögð til sú breyting á orðalagi þessa ákvæðis að riftun verði háð því að greiðsla hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Við þetta mundu möguleikar til að beita reglunni aukast, en þó ber að leggja áherslu á að orðalagsbreytingin felur aðeins í sér stigsmun en ekki eðlismun, og er þess ekki að vænta að reglunni yrði oft beitt til að rifta ráðstöfunum þrotamanns.
    Hins vegar er lagt til í niðurlagi 1. mgr. 137. gr., sem að öðru leyti er sama efnis og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 6/1978, að frestur verði lengdur úr þremur mánuðum í sex mánuði. Í því felst einungis að frestur þessi verði samræmdur frestum í öðrum ákvæðum þessa kafla, enda verður ekki séð að rök séu til þess að hafa annan frest í þessu tilviki en öðrum.

Um 138. gr.


    Ákvæði 138. gr. eru sama efnis og 58. gr. laga nr. 6/1978, að frátöldum orðalagsbreytingum, og því að ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna um brottfall kyrrsetningar vegna gjaldþrotaskipta eru tekin hér upp, enda eiga þau efnislega betur við í samhengi við önnur fyrirmæli 138. gr. frumvarpsins en þar sem þeim er skipað í núgildandi lögum. Þá skal þess getið að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir sambærilegri reglu við 3. mgr. 58. gr. laga nr. 6/1978 þar sem ekki verður talin ástæða til að það undantekningarákvæði verði áfram í lögum.

Um 139.–142. gr.


    Ákvæði 139.–142. gr. eru efnislega eins og 59.–63. gr. laga nr. 6/1978.

Um 143. gr.


    Regla 143. gr. á sér ekki hliðstæðu í lögum nr. 6/1978, en hún er í samræmi við það sem tíðkað hefur verið í framkvæmd og styðst við fræðikenningar í þessum efnum.
    Ákvæði 1. málsl. 143. gr. miða við það að þeim sem er gert að sæta riftun, beri, að inna af hendi endurgreiðslu sína til þrotabúsins alveg óháð því hvenær skiptum kunni að ljúka og hvað hann kunni þá að fá upp í hugsanlegar kröfur sínar á hendur búinu. Er þannig gert ráð fyrir því að riftunarþoli njóti ekki réttar til skuldajafnaðar gagnvart endurgreiðslukröfunni. Hefur ríkt nokkur óvissa um þetta í framkvæmd og þykir nauðsynlegt að taka af tvímæli með því að setja um þetta ákveðnar reglur. Er tæpast hægt að sjá að reglan geti verið með öðrum hætti til þess að jafnræðis sé gætt milli kröfuhafa og riftunarþoli fái greiðslu sína um leið og aðrir kröfuhafar.
    Er einnig lagt til í 143. gr. að riftunarþoli geti komið að upphaflegri kröfu sinni á hendur þrotabúinu miðað við stöðu hennar við upphaf skipta þannig að hann verði í öllu tilliti jafnsettur öðrum kröfuhöfum.

Um 144.–148. gr.


    Ákvæði 144.–148. gr. eru sama efnis og reglur 64.–68. gr. laga nr. 6/1978 og þarfnast því ekki frekari skýringa.

Um 149.–153. gr.


    Í XXI. kafla frumvarpsins, sem 149.–153. gr. heyra til, er fjallað um heimildir þrotamanns, eftir atvikum stjórnar gjaldþrota félags eða stofnunar, til að leita nauðasamnings við gjaldþrotaskipti. Þessum reglum frumvarpsins er ætlað að koma í stað ákvæða II. kafla laga nr. 19/1924, en þær eiga sér fremur fyrirmyndir í danskri löggjöf en að teljandi skyldleika gæti við núgildandi reglur. Eins og fram kemur í 2. mgr. 149. gr. er gengið út frá að reglum 3. þáttar frumvarpsins verði almennt beitt um nauðasamningsumleitanir við þessar aðstæður, þannig að efni XXI. kafla er í reynd bundið við að lýsa nauðsynlegum frávikum frá nefndum meginákvæðum frumvarpsins um nauðasamninga. Rétt er að nefna að í framkvæmd hefur hverfandi lítið reynt á reglur um gerð nauðasamninga við gjaldþrotaskipti og virðist ekki teljandi ástæða til að vænta þess að breyting yrði þar á þótt frumvarp þetta verði að lögum.
    Í 149. gr. koma fram almenn fyrirmæli um gerð nauðasamninga við gjaldþrotaskipti. Er þannig í 1. mgr. mælt fyrir um tilvist heimildar til þessa og afmarkað á hvaða tímaskeiði gjaldþrotaskipta hún teljist fyrir hendi. Að ákvæðum 2. mgr. hefur þegar verið vikið, en í 3. mgr. er mælt fyrir um að skiptastjóri gegni sama hlutverki við nauðasamningsumleitanir við gjaldþrotaskipti eins og umsjónarmaður eftir fyrirmælum 3. þáttar. Þess nánast sjálfgefna atriðis er þó getið að skiptastjóri fari eftir sem áður með forræði á málefnum þrotabús þótt leitað sé nauðasamnings. Í 4. mgr. er síðan greint frá því hvernig ákvarða eigi fresti eftir fyrirmælum 3. þáttar, sem taka mið af deginum sem úrskurður gengur um heimild til nauðasamningsumleitana, þegar þeim yrði beitt við aðstæður XXI. kafla.
    Í 150. gr. er mælt fyrir um hvernig þrotamaður eigi að bera sig að, ef hann vill leita nauðasamnings, hver gögn hann þurfi að láta af hendi í tengslum við það og hvernig skiptastjóri leggi mat á það hvort samningsumleitanir megi fara fram. Heimilað er sérstaklega að bera neitun skiptastjóra um framkvæmd samningsumleitana undir héraðsdómara. Verður ekki séð að einstök atriði 150. gr. þarfnist sérstakra skýringa.
    Í 151. gr. er síðan mælt fyrir um undirbúning að því að frumvarp þrotamanns til nauðasamnings verði borið undir atkvæði á sérstökum skiptafundi í þrotabúinu og í 152. gr. er kveðið á um hvernig atkvæðagreiðslan sjálf fari fram. Reglur þessara ákvæða leiða í öllum aðalatriðum til þess að eins sé farið að á þessum vettvangi eins og við nauðasamningsumleitanir endranær, en þó er vert að vekja hér sérstaka athygli á tveimur frávikum frá því. Annars vegar verður að gefa því gaum varðandi ákvæði 2. mgr. 151. gr. og 1. mgr. 152. gr. að ákvörðun atkvæðisréttar um samningsfrumvarp byggir á talsvert öðrum grunni en almennar reglur 46. og 48. gr., með því að þegar nauðasamnings væri leitað eftir XXI. kafla væri áður búið að gefa út innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og fara að meira eða minna leyti með lýstar kröfur eftir reglum 119. og 120. gr. Er því ólíku saman að jafna hver líkindi séu fyrir að deilur geti risið um atkvæðisrétt í þessum tveimur tilvikum. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að ef deilur rísa á annað borð um atkvæðisrétt við samningsumleitanir eftir XXI. kafla, sem gæti nánast eingöngu stafað af því að deilt væri um atkvæði í skjóli kröfu, sem ekki væri enn útkljáð um hvort fáist viðurkennd við gjaldþrotaskiptin, og ágreiningsatkvæði gætu ráðið niðurstöðu um samþykki samningsfrumvarps, þá kæmi ekki til kasta sérreglna 4. mgr. 52. gr. um atkvæðatalningu, heldur er ráðgert í 2. mgr. 152. gr. að leyst verði úr viðkomandi ágreiningsefnum eftir almennum reglum um meðferð krafna við gjaldþrotaskipti áður en endanleg niðurstaða fengist um samþykki frumvarpsins. Þetta á rætur að rekja til þess að við gjaldþrotaskiptin þyrfti hvort eð er að fá leyst úr viðkomandi ágreiningsefnum eftir reglum 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., þar sem kröfulýsing við gjaldþrotaskipti veitir lánardrottni rétt til fullnustu ef krafa hans er viðurkennd, gagnstætt því sem á við um kröfulýsingu við nauðasamningsumleitanir án gjaldþrotaskipta.
    Í 1. mgr. 153. gr. er mælt fyrir um að ekki þurfi að auglýsa eða tilkynna sérstaklega þótt samningsfrumvarp þrotamanns hljóti ekki samþykki eða kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings verði hafnað, enda er mælt fyrir um auglýsingu um lok gjaldþrotaskipta í 2. mgr. 162. gr., sem fæli í sér nægilega opinberun á því í fyllingu tímans að nauðasamningur hafi ekki komist á. Í 2. mgr. 153. gr. er að mestu vísað til almennra reglna IX. kafla um það hvernig verði staðið að staðfestingu nauðasamnings við gjaldþrotaskipti, en í þessu ákvæði er mælt fyrir um það sérstaka skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings við þessar aðstæður að kröfur skv. 109.–112. gr. þurfi að vera greiddar, trygging verði sett fyrir þeim eða hlutaðeigandi kröfuhafar samþykki beinlínis staðfestingu nauðasamnings án greiðslu eða tryggingar. Þessi sérregla er sama efnis og ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1924.
    Ef nauðasamningur kemst á við gjaldþrotaskipti leiðir hann til þess að gjaldþrotaskiptum ljúki þegar í kjölfarið, sbr. 1. mgr. 154. gr., en þá fengi þrotamaðurinn, eftir atvikum stjórn félags eða stofnunar, aftur forræði á hagsmunum sínum og þær eignir þrotabúsins í hendur sem hefði ekki enn verið ráðstafað.

Um 154. og 155. gr.


    Í 154.–165. gr., sem mynda XXII. kafla frumvarpsins, er fjallað um úthlutun til kröfuhafa við gjaldþrotaskipti og lok skiptanna. Reglur þessa kafla samsvara í öllum aðalatriðum ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 6/1978, en að frátöldu því að ákvæði frumvarpsins ráðgera ekki afskipti héraðsdómara af þessum atriðum, gagnstætt því sem gildir eftir lögum nr. 6/1978, felast flestar tillögur um breytingar frá núgildandi lögum hér ýmist í öðru orðalagi einstakra ákvæða, breyttri efnisröð þeirra eða aðlögun reglnanna að því sem venjur hafa myndast um í framkvæmd. Verður því ekki séð að tilefni sé til teljandi athugasemda við einstök ákvæði XXII. kafla nema þar sem frekari breytingar eru ráðgerðar en þetta á við um.
    Í 154. gr. er mælt fyrir um sams konar málalok við gjaldþrotaskipti og nú er kveðið á um í 121. gr. laga nr. 6/1978, með því að nauðasamningur komist á við gjaldþrotaskipti eða allar lýstar kröfur verði afturkallaðar. Efnislegar breytingar eru ekki lagðar til í þessum efnum frá því sem hefur tíðkast í framkvæmd á grundvelli núgildandi reglna.
    Ákvæði 155. gr. um lok gjaldþrotaskipta á eignalausum eða mjög eignalitlum þrotabúum eru sambærileg reglum 120. gr. laga nr. 6/1978. Ákvæði 155. gr. eru þó til muna fyllri að því leyti að mælt er þar beinlínis fyrir um atriði sem hefur þótt mega draga ályktanir um af reglum nefndrar 120. gr. í framkvæmd.

Um 156. gr.


    Í 156. gr. er mælt fyrir um hvenær og hvernig staðið verði að greiðslu á kröfum og eftir atvikum greiðslu upp í þær áður en gjaldþrotaskiptum er lokið með formlegri úthlutunargerð. Ákvæðin um þetta fela í sér ráðagerð um sömu tilhögun og hefur verið viðhöfð í framkvæmd á grundvelli 122. og 123. gr. laga nr. 6/1978.

Um 157. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir skiptastjóra til að ákveða að ljúka skiptum þótt enn kunni að vera óútkljáð hvernig fari um viðurkenningu einstakra krafna á hendur þrotabúinu eða þrotabúið telji til réttinda sem það getur ekki enn ráðið yfir. Þegar þannig stendur á er gert ráð fyrir að skiptastjóri taki frá fé til að mæta umdeildum kröfum og eftir atvikum til að standa straum af væntanlegum útgjöldum vegna meðferðar eigna, sem síðar komast í hendur þrotabúsins, en að öðru leyti verður skiptum lokið eftir almennum reglum með fyrirvara um að til endurupptöku komi á síðari stigum. Samsvarandi heimildir felast nú í 124. og 126. gr. laga nr. 6/1978, en gagnstætt því sem ráðgert er í 157. gr. frumvarps er beiting þeirra háð ákvörðun héraðsdómara. Þá má vekja athygli á því að í 157. gr. er tekið beinlínis fram að skiptastjóra sé ætlað að fylgja réttindum þrotabúsins eftir þótt skiptum verði lokið eftir þessum heimildum, en þetta hefur verið gert í framkvæmd þótt ekki sé berum orðum mælt fyrir um það í ákvæðum laga nr. 6/1978.

Um 158.–160. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er mælt fyrir um þau almennu málalok sem verða við gjaldþrotaskipti þegar eignir eru á annað borð fyrir hendi til greiðslu krafna. Þau eiga sér stað með því að gert er frumvarp til úthlutunar úr þrotabúi, sem síðan er lagt fram á skiptafundi þar sem hlutaðeigendum gefst kostur á að hafa uppi athugasemdir við efni þess eða mótmæli gegn því, en komi ekki fram mótmæli gegn frumvarpinu verður skiptum lokið þá þegar á grundvelli þess. Þá er mælt fyrir um það í 3.–5. mgr. 160. gr. hvernig farið verði að ef mótmæli koma fram gegn frumvarpi, en slíkt gerist sárasjaldan í framkvæmd.
    Með þeim fyrirvara enn á ný að héraðsdómara sé ekki ætlað að hafa afskipti af málalokum við gjaldþrotaskipti, nema ágreiningur verði um þau, er gert ráð fyrir að ákvæði 158.–160. gr. leiði til nánast óbreyttrar framkvæmdar frá þeirri sem tíðkast eftir fyrirmælum 127., 128. og 130. gr. laga nr. 6/1978. Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru þó ítarlegri reglur um efni frumvarps til úthlutunar, sem styðjast við fastar venjur í framkvæmd, og um meðferð ágreinings um það, en um það atriði eru nánast engin fyrirmæli í núgildandi lögum. Að öðru leyti þykir mega vísa hér til þess að ákvæði 158.–160. gr. eru nánast samhljóða ákvæðum 78.–80. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., en í athugasemdum við það frumvarp er vikið mun nánar að einstökum atriðum sem eru þessum ákvæðum sameiginleg.

Um 161. gr.


    Í 161. gr. er gert ráð fyrir því að skiptastjóri eigi að inna af hendi greiðslur til kröfuhafa, sem hefur verið kveðið á um í frumvarpi til úthlutunar, tafarlaust eftir að skiptum er lokið með samþykki þess. Tekið er beinlínis fram að skiptastjóri eigi að senda þessar greiðslur hlutaðeigendum, en að auki er mælt sérstaklega fyrir um hvernig bregðast eigi við ef ekki reynist unnt að koma greiðslu til skila með þessum hætti og ef lánardrottinn afsalar sér greiðslu eða endursendir hana. Þessi ákvæði eru í nær öllum atriðum í samræmi við fastar venjur sem hafa myndast í þessum efnum í framkvæmd, en sú framkvæmd hefur vikið um margt frá reglum laga nr. 6/1978 og gera ákvæði frumvarpsins það því að sama skapi. Í þessu sambandi má einkum minnast annars vegar á það að eftir 129. gr. laganna er ekki ætlast til að kröfuhafar fái greitt fyrr en að liðnum þriggja mánaða áfrýjunarfresti sem byrjar að líða við lok skipta. Þeirri reglu hefur svo til aldrei verið fylgt, enda þjónar hún ekki neinum sýnilegum tilgangi, en hún gæti enn síður átt við eftir ákvæðum þessa frumvarps í ljósi þess að framkvæmd gjaldþrotaskipta yrði að engu leyti talin dómsathöfn sem gæti sætt áfrýjun til Hæstaréttar. Hins vegar má nefna að í 130. gr. laga nr. 6/1978 virðist vera gert ráð fyrir þeirri tilhögun að lánardrottnar verði að vitja greiðslna eftir úthlutunargerð, en þetta er reyndar ekki með öllu tvímælalaust eftir orðalagi nefnds ákvæðis. Allt að einu hefur allar götur frá gildistöku laganna verið staðið þannig að verki, sem mælt er fyrir í 161. gr. frumvarpsins, að greiðslur hafi verið sendar lánardrottnum.
    Ekki verður séð að ástæða sé til að víkja frekar að einstökum atriðum 161. gr.

Um 162. gr.


    Í 162. gr. er mælt fyrir um þær tilkynningar sem skiptastjóra er ætlað að standa að um lok gjaldþrotaskipta. Annars vegar er ráðgert í 1. mgr. að hann tilkynni héraðsdómara skriflega um lok skipta og láti um leið í té endurrit fundargerðar af skiptafundi þar sem skiptum var lokið og úthlutunargerð eða yfirlit um fjárreiður búsins sem var lagt til grundvallar við málalokin. Eftir eðli málsins er ekki um tilkynningar sem þessar að ræða samkvæmt núgildandi lögum því héraðsdómara er ætlað sjálfum að eiga þátt að skiptalokum. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 2. mgr. að skiptastjóri fái birta auglýsingu um skiptalokin í Lögbirtingablaði, en regla þessa ákvæðis er sama efnis og 1. mgr. 132. gr. laga nr. 6/1978.

Um 163. og 164. gr.


    Í 163. og 164. gr. er mælt fyrir um hvernig verði staðið að verki við endurupptöku gjaldþrotaskipta, en til hennar gæti komið vegna þess að skiptum hafi áður verið lokið án þess að öllum atriðum hafi verið ráðið til lykta, sbr. 157. gr., eða eign komi fram sem tilheyrir þrotabúinu en ekki var kunnugt um áður en skiptum var lokið. Fyrirmæli þessara greina taka mið af því hvernig staðið hefur verið að endurupptöku í framkvæmd, en þau eru að mun ítarlegri en ákvæði 126. og 131. gr. laga nr. 6/1978. Verður ekki séð að einstök atriði þessara ákvæða þarfnist sérstakra skýringa.

Um 165. gr.


    Í 1. mgr. 165. gr. er tekið fram að gjaldþrotaskipti verði ekki endurupptekin í öðrum tilvikum en þeim sem ákvæði 163. og 164. gr. taki til, en með þessari reglu eru tekin af öll tvímæli um að önnur atvik geti ekki leitt til endurupptöku, t.d. að mistök hafi verið gerð við framkvæmd skiptanna eða að þrotamaðurinn greiði allar lýstar kröfur eftir lok skipta að því leyti sem þær greiddust þar ekki. Ekki er mælt berum orðum fyrir um reglu sem þessa í ákvæðum laga nr. 6/1978, en gengið hefur verið út frá gildi hennar í framkvæmd.
    Í 2. mgr. 165. gr. er mælt fyrir um það hvernig fari um þær kröfur, sem greiðast ekki við gjaldþrotaskipti, eða eftir atvikum þann hluta þeirra sem fæst ekki fullnægt. Er kveðið á um að þrotamaðurinn beri ábyrgð á kröfunum að þessu leyti, en fyrningarfrestur á þeim byrji að líða á ný við lok skipta eða eftir atvikum þegar kröfu var lýst, eftir því hvort krafa hafi verið viðurkennd við skiptin eða ekki. Með þessum ákvæðum er ætlast til þess að gjaldþrotaskiptin leiði til rofa á fyrningu, en síðan byrji sá fyrningartími að líða á ný sem eigi við um hverja kröfu um sig. Að þessu leyti eru ákvæði 2. mgr. 165. gr. frábrugðin reglum 133. gr. laga nr. 6/1978, með því að þær leiða til þess að nýi fyrningartíminn á kröfunum, sem komi til vegna gjaldþrotaskipta, verði ávallt tíu ár og það án tillits til þess hver fyrningartími hefði annars gilt um viðkomandi tegund kröfu. Verður að telja þessa breyttu reglu eðlilegri, ekki síst af tilliti til hagsmuna þrotamanns. Nefna má að ákvæði 2. mgr. 165. gr. geta eftir eðli sínu aðeins tekið til aðstæðna þegar um er að ræða gjaldþrotaskipti á búi einstaklings því lok gjaldþrotaskipta á búi félags eða stofnunar leiða til þess að hún verði endanlega afmáð, nema um sé að ræða skiptalok eftir 154. gr. frumvarpsins, en á hvorn veginn sem væri gæti eftir eðli málsins ekki reynt á þessa ábyrgð félags eða stofnunar eftir lok skipta.

Um 166. gr.


    Hér er um að ræða fyrsta ákvæði 5. þáttar frumvarpsins þar sem fram koma reglur um hvernig leyst verði úr ágreiningsefnum fyrir dómstólum, sem rísa í tengslum við greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir og gjaldþrotaskipti. Ákvæði 5. þáttar leiða til þess að það verði að mestu sams konar ágreiningsefni, sem komi til úrlausnar eftir sérreglum frumvarpsins um málsmeðferð, og nú koma til úrlausnar eftir ákvæðum laga nr. 6/1978 og 19/1924, og málsmeðferðin sem slík yrði að verulegu leyti áþekk eftir ákvæðum frumvarpsins eins og nú gildir eftir ákvæðum nefndra laga. Ákvæðum 5. þáttar er skipt í þrjá kafla, XXIII. kafla, sem fjallar um það hver ágreiningsefnin séu, sem komi til úrlausnar eftir sérreglum frumvarpsins. og hvern aðdraganda það hafi að þau komi til kasta dómstóla, XXIV. kafla, sem fjallar um málsmeðferðina fyrir héraðsdómi, og XXV. kafla, sem geymir reglur um málskot til æðra dóms. Ákvæði 5. þáttar frumvarpsins eru í vel flestum atriðum hliðstæð ákvæðum 5. þáttar frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., sem tekur til sömu atriða á þeim vettvangi. Að vísu eru ákvæði XXIII. kafla þessa frumvarps frábrugðin ákvæðum XVI. kafla frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. í ýmsum atriðum, sem er óhjákvæmilegt af tilliti til séreðlis annarra reglna hvors frumvarpsins fyrir sig, en ákvæði XXIV. og XXV. kafla þessa frumvarps eru nánast samhljóða ákvæðum XVII. og XVIII. kafla umrædds frumvarps.
    Ákvæði 166.–173. gr. þessa frumvarps, sem heyra til XXIII. kafla þess, geyma sem áður segir annars vegar reglur um það hver þau ágreiningsefni séu, sem dómstólar leysi úr eftir reglum 5. þáttar, og hins vegar um það hvernig ágreiningsmálin komi til kasta dómstóla. Um síðarnefnda atriðið má segja að almennt komi þessi mál í hendur dómstóla eftir annarri af tveimur leiðum. Ýmist er um það að ræða eftir XXIII. kafla að gert sé ráð fyrir að ágreiningur rísi á dómþingi þar sem verið er að taka fyrir málefni eftir tilteknum ákvæðum 2.–4. þáttar frumvarpsins, og að ágreiningsmálið verði þá tekið rakleitt til sérstakrar meðferðar, eða að ágreiningur rísi um afmörkuð atriði við nauðasamningsumleitanir eða framkvæmd gjaldþrotaskipta, sem verður beint eftir sérstökum reglum til héraðsdóms til úrlausnar. Í síðarnefndu tilvikunum er mælt fyrir um hvernig verði staðið að því að koma ágreiningsmáli í hendur héraðsdómara og hver gögn þurfi að fylgja slíku erindi. Á hvorn veginn sem þessu er háttað fjalla ákvæði XXIII. kafla einnig að nokkru um það hvernig dómari ákveði hver verði talinn sóknaraðili og varnaraðili í hverju afbrigði ágreiningsmála og einnig má finna í einstökum ákvæðum kaflans sérfyrirmæli um takmarkanir á heimildum til að fresta vissum tegundum mála.
    Í 166. gr. koma fram reglur um ágreiningsmál sem geta risið í tengslum við greiðslustöðvun, en þau geta annars vegar komið til með því að lánardrottinn mótmæli að skuldara verði veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. sbr. 16. gr., eða að lánardrottinn krefjist að heimild skuldarans verði felld niður, sbr. 26. gr. Vert er að nefna í þessu sambandi að meðferð beiðni skuldara um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar færi ekki eftir ákvæðum 5. þáttar í öðrum tilvikum en þeim, þar sem lánardrottinn mótmælir henni eftir reglum 16. gr., heldur eftir almennum ákvæðum III. kafla, og ekki yrði heldur fjallað um niðurfellingu greiðslustöðvunar eftir reglum 5. þáttar í öðrum tilvikum en þeim, sem 26. gr. varðar, heldur færi um slíkt til fullnaðar eftir reglum 24. og 25. gr.
    Í þeim tveimur tilvikum, þar sem ágreiningur varðar heimild til greiðslustöðvunar og sem ákvæði 166. gr. taka til, er um það að ræða að viðkomandi málefni yrðu þegar komin í hendur héraðsdómara til meðferðar áður en í ljós kæmi að ágreiningur væri uppi. Þannig væri héraðsdómari þegar að fást við beiðni skuldarans um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar þegar fram kæmu mótmæli lánardrottins gegn henni skv. 16. gr., og héraðsdómari væri að taka fyrir kröfu lánardrottins um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar, sbr. 26. gr., þegar fram kæmi að skuldari mótmæli slíkri kröfu. Ágreiningurinn sem slíkur risi þannig í bókstaflegum skilningi á dómþingi, eins og segir í upphafi 1. og 2. mgr. 166. gr. Dómarinn þyrfti því ekki að boða hlutaðeigendur frekar til þinghalds um ágreininginn, heldur yrði brugðist við mótmælum á dómþingi með því að beina málarekstrinum strax inn á brautir 166. gr. og XXIV. kafla.
    Bæði í 1. og 2. mgr. 166. gr. koma fram reglur um það hvern beri að telja sóknaraðila og hvern varnaraðila í dómsmáli sem kæmi til á þennan hátt. Eftir atvikum gætu varnaraðilar orðið tveir eða fleiri í máli skv. 1. mgr., en tekið er fram að ekki skipti máli í þeim efnum hvort slíkir varnaraðilar byggi málstað sinn á sama grunni eða ekki.
    Í 3. mgr. 166. gr. koma fram sérstakar reglur um meðferð mála skv. 1. og 2. mgr. ákvæðisins, sem leiða til vissra frávika frá almennu málsmeðferðarreglunum í XXIV. kafla. Eftir upphafsorðum 3. mgr. yrði aðalreglan sú að mál yrði tekið til úrskurðar þegar í því þinghaldi, sem ágreiningur hefur komið fram í, að því undangengnu að málsaðilum gæfist kostur á að leggja fram gögn sem þeir hefðu meðferðis og tjá sig stuttlega um ágreiningsefnið án þess að um formlegan málflutning væri að ræða. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að ef annar málsaðilinn, eftir atvikum einn þeirra, krefst þess, þá beri dómaranum að fresta málinu til nýs þinghalds, þar sem annars vegar yrðu lagðar fram skriflegar greinargerðir beggja eða allra aðilanna og hins vegar færi fram aðalflutningur málsins og yrðu þá m.a. teknar munnlegar skýrslur á dómþingi ef þörf krefði. Frestun máls til aðalflutnings má hins vegar ekki vera til lengri tíma en þriggja sólarhringa, en þessi stutti frestur er settur af tillili til þess að nauðsyn ber til að leyst verði úr þessum málefnum á sem skemmstum tíma, auk þess að hann þykir nauðsynlegur af tilliti til ákvæða 1. mgr. 17. gr. varðandi mál skv. 1. mgr. 166. gr.
    Að öðru leyti en hér hefur verið greint færi málsmeðferð í umræddum tilvikum eftir almennum reglum XXIV. kafla, en vegna sérfyrirmæla í 166. gr. mundi ekki reyna á reglur 174. og 175. gr. og væntanlega að auki fremur lítið á sum atriði í 176. og 177. gr.

Um 167. gr.


    Í 167. gr. koma fram reglur um ágreiningsmál sem geta risið í tengslum við heimild til að leita nauðasamnings og leyst yrði úr í sérstöku dómsmáli eftir reglum 5. þáttar. Þau mál, sem hér er um að ræða, eru annars vegar þau sem stafa af kröfu lánardrottins eða umsjónarmanns með samningsumleitunum um að heimild skuldara verði felld niður, sbr. 42. gr., og hins vegar þau sem eiga rætur að rekja til mótmæla gegn því að krafa skuldara um staðfestingu nauðasamnings verði tekin til greina. Með sama hætti og greint var frá í athugasemdum við 166. gr. kæmu ágreiningsmál sem þessi upp í tilvikum þar sem viðkomandi málefni væru þegar komin í hendur dómara til meðferðar og rísa þannig ágreiningsefnin á dómþingi eins og segir í upphafi 1. og 2. mgr. 167. gr. Dómarinn tæki því ágreiningsmál sem þessi þegar í stað til sérstakrar meðferðar eftir nánari fyrirmælum 167. og XXIV. kafla.
    Í tengslum við reglur 167. gr. er rétt að benda á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir frekari heimildum til að beina ágreiningsefnum í tengslum við nauðasamningsumleitanir til héraðsdómara en hér um ræðir, ef frá er talinn sá kostur að leita mætti úrlausnar um kröfu um frávikningu umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum í skjóli 169. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr. og 3. mgr. 76. gr. Ágreiningsefnum um nauðasamningsumleitanirnar sjálfar, t.d. um atkvæðisrétt um samningsfrumvarp, yrði því ekki skotið út af fyrir sig til dómstóla, en á þau mundi hins vegar mega reyna með því að mótmæli yrðu höfð uppi gegn kröfu um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 2. mgr. 167. gr., á þeim grunni að ranglega hafi verið staðið að framkvæmd samningsumleitana.
    Í 1. og 2. mgr. 167. gr. koma fram sérstakar reglur um hver verði talinn sóknaraðili að ágreiningsmálum sem þessum og hver varnaraðili. Eftir atvikum gætu varnaraðilar orðið tveir eða fleiri í máli skv. 2. mgr. 167. gr.
    Í 3. mgr. 167. gr. er vísað til 3. mgr. 166. gr. um tiltekin frávik frá almennum reglum XXIV. kafla um meðferð mála skv. 1. og 2. mgr. 167. gr., en sérstaklega er þó tekið fram að fresta megi málum sem þessum til aðalflutnings í allt að tvær vikur í stað þeirra þriggja sólarhringa sem um ræðir í 3. mgr. 166. gr. Að þessu frátöldu má vísa hér til áður framkominna athugasemda varðandi ákvæði 3. mgr. 166. gr.

Um 168. gr.


    Í 168. gr. er kveðið á um meðferð ágreinings sem kann að rísa með því að skuldari mótmæli kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta þegar hún yrði tekin fyrir á dómþingi, sbr. 4. mgr. 70. gr. Líkt og í 166. og 167. gr. risi ágreiningur sem þessi eftir að héraðsdómari væri kominn með málefnið í hendur, en eftir 168. gr. yrði brugðist við ágreiningnum með hliðstæðum hætti og mælt er fyrir um í nefndum ákvæðum. Dómari tæki þannig ágreiningsefnið þegar til úrlausnar eftir nánari fyrirmælum 168. gr. og XXIV. kafla og mundi leysa úr því í úrskurði þar sem mælt væri annaðhvort fyrir um að bú skuldarans væri tekið til gjaldþrotaskipta eða að kröfu hlutaðeigandi lánardrottins þess efnis væri hafnað.
    Í 1. mgr. 168. gr. kemur fram regla um hver verði talinn sóknaraðili máls sem þessa og hver varnaraðili, en síðan er vísað til áður umræddrar reglu 3. mgr. 166. gr. um frávik frá almennum reglum XXIV. kafla um málsmeðferðina sem slíka. Þó er hér, líkt og í 3. mgr. 167. gr., mælt fyrir um að frestur til aðalflutnings í máli af þessum toga megi vera allt að tvær vikur.

Um 169. gr.


    Í 76. gr. er fjallað um heimildir þeirra, sem hafa uppi kröfur á hendur þrotabúi, til að bera upp aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara og eftir atvikum að krefjast þess beinlínis að skiptastjóranum verði vikið úr starfi. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. getur sá sem finnur að störfum skiptastjóra krafist þess við héraðsdómara að hann taki afstöðu til kröfu um frávikningu skiptastjóra í úrskurði sem mætti þá skjóta til æðra dóms ef því væri að skipta. Í 169. gr. er mælt nánar fyrir um hvernig slík krafa um formlegan úrskurð yrði höfð uppi. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. ber þeim sem æskir úrskurðarins að beina skriflegri kröfu til héraðsdómstólsins þar sem hlutaðeigandi skiptastjóri var skipaður til starfa, en í henni verður að greina frá þeim atriðum, sem eru talin í 1.–3. tölul. 1. mgr. 169. gr., og skv. 2. mgr. 169. gr. verða þau gögn að fylgja kröfunni, sem hún er studd við. Í 3. mgr. 169. gr. kemur fram að héraðsdómari fari eftir reglum XXIV. kafla, þegar krafa í þessum búningi hefur borist honum þannig að undirbúningur að rekstri málsins og meðferð þess fari eftir nefndum reglum. Í niðurlagi 3. mgr. er tekið fram hvernig fari um aðild að málum sem þessum.
    Svo sem ráða má af þessu eiga þau mál, sem ákvæði 169. gr. taka til, sér nokkuð annan aðdraganda en þau sem reglur 166.–168. gr. ná til og áður hefur verið fjallað um. Í tilvikum sem eiga undir 169. gr. er þannig ekki um það að ræða að ágreiningur komi upp um málefni, sem er áður komið í hendur héraðsdómara, heldur er málefninu beint til hans gagngert til að fá leyst úr því. Af þessum sökum tæki dómari ekki mál sem þessi rakleitt til úrlausnar, líkt og ráðgert er í 166.–168. gr., heldur yrði hann að boða aðilanna til þinghalds um kröfuna eftir ákvæðum 174. og 175. gr. og fara upp frá því með málið eftir öðrum almennum reglum 24. kafla.
    Rétt er að ítreka það hér, sem kom fram í athugasemdum við 167. gr., að ákvæðum 169. gr. mætti beita til að fá leyst úr kröfu um frávikningu umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum, en þetta leiðir af tilvísun 2. mgr. 39. gr. til almennra ákvæða XIII. kafla um skiptastjóra, sem felur m.a. í sér að frávikningarheimildin í 76. gr. getur átt við um umsjónarmann.

Um 170. gr.


    Í 170. gr. er mælt fyrir um meðferð tvenns konar ágreiningsefna sem kunna að rísa á dómþingi, annars vegar um kröfu skiptastjóra um skyldu þrotamanns eða forráðamanns gjaldþrota félags eða stofnunar til að veita sér aðgang að húsakynnum til að leita eigna eða gagna þrotabús, sbr. 3. mgr. 82. gr., og hins vegar um kröfu skiptastjóra um að þrotamanni eða forráðamanni verði meinuð för úr landi, sbr. 1. mgr. 83. gr. Með hliðstæðum hætti og í þeim tilvikum, sem eiga undir ákvæði 166.–168. gr., risi ágreiningurinn hér á dómþingi þar sem héraðsdómari tæki fyrir umræddar kröfur skiptastjóra, með því að þeir sem kröfur beinast að mótmæli að þær verði teknar til greina. Héraðsdómari tæki því ágreiningsefni eftir 1. mgr. 170. gr. rakleitt til frekari meðferðar eftir ákvæðum greinarinnar og XXIV. kafla.
    Í niðurlagi 1. mgr. 170. gr. er mælt fyrir um að þrotabú, sem skiptastjóri hefði uppi kröfur sem þessar fyrir, skuli teljast sóknaraðili að máli samkvæmt ákvæðinu, en sá sem krafan beinist gegn verður varnaraðili.
    Samkvæmt 2. mgr. 170. gr. fer um meðferð mála af þessum toga eftir sérreglu 3. mgr. 166. gr. þannig að ekki yrði að öðru jöfnu um eiginlegan flutning þeirra að ræða áður en þau yrðu tekin til úrskurðar. Eftir kröfu bæri þó að fresta máli í allt að þrjá sólarhringa til framlagningar greinargerða og aðalflutnings, en gagnstætt því sem á við eftir 3. mgr. 166. gr. nægir ekki að annar málsaðilinn krefjist þessarar frestunar, heldur verða þeir að sameinast um slíkar óskir. Telja verður þessa afbrigðilegu málsmeðferð nauðsynlega í ljósi þeirra málefna, sem 1. mgr. 170. gr. tekur til, enda mætti ætla að frestun máls geti leitt til hættu á að þeir hagsmunir fari forgörðum, sem ákvæðinu er einmitt ætlað að vernda.

Um 171. gr.


    Í 171. gr. kemur fram almenna regla frumvarpsins um það hvernig leyst verði úr ágreiningsmálum sem koma upp í tengslum við framkvæmd gjaldþrotaskipta, þar á meðal við nauðasamningsumleitanir eftir XXI. kafla, og falla ekki undir einhverja þeirra sérreglna sem koma fram fyrr í XXIII. kafla. Í þessu sambandi er rétt að benda á það að með samanburði ákvæða 171. gr. við reglur 172. og 173. gr. má sjá að ekki sé ætlast til að farið verði eftir 171. gr. eða XXIV. kafla við úrlausn allra ágreiningsefna, sem geta komið upp við gjaldþrotaskipti, því það leiðir beinlínis af 172. og 173. gr. að verulegar takmarkanir séu á því að leyst verði úr um skyldu þriðja manns við þrotabú eftir reglum frumvarpsins. Reglur 171. gr. taka þannig fyrst og fremst til ágreinings sem rís um réttindi þriðja manns á hendur þrotabúi eða hvernig staðið verði að framkvæmd gjaldþrotaskiptanna sem slíka, en sú skipan, sem hér um ræðir, er hliðstæð þeirri sem leiðir af núgildandi lagareglum.
    Í 1. mgr. 171. gr. kemur fram að skiptastjóra sé skylt að hlutast til um að leita úrlausnar héraðsdómara um ágreiningsefni, sem upp koma í tengslum við gjaldþrotaskipti, ýmist eftir því sem beinlínis er mælt fyrir um í öðrum ákvæðum frumvarpsins eða eftir því sem skiptastjóri telur sjálfur þörf. Þau ágreiningsefni sem ákvæði frumvarpsins skylda skiptastjóra beinlínis til að beina til héraðsdómara eftir þessari reglu, eru eftirfarandi:
          ágreiningur um viðurkenningu lýstrar kröfu, sbr. 2. mgr. 120. gr., þar á meðal kröfu sem berst eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 121. gr., og kröfu sem ekki hefur verið útkljáð um þegar skuldari leitar nauðasamnings við gjaldþrotaskipti, sbr. 2. mgr. 152. gr.,
          ágreiningur um ákvörðun eða aðgerð skiptastjóra varðandi ráðstöfun á hagsmunum þrotabús, sbr. 3. mgr. 128. gr., þar á meðal um ráðstöfun eignar, sem á sér stað án þess að söluverð hrökkvi fyrir veðkröfum, sbr. 6. mgr. 129. gr.,
          ágreiningur um hvort frumvarp að nauðasamningi verði tekið til meðferðar við gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 150. gr.,
          ágreiningur um hvort gjaldþrotaskiptum verði lokið skv. 2. mgr. 154. gr. vegna greiðslu eða afturköllunar allra krafna á hendur þrotamanni, sbr. 4. mgr. ákvæðisins,
          ágreiningur um hvort gjaldþrotaskiptum verði lokið vegna eignaleysis þrotabús, sbr. 2. mgr. 155. gr.,
          ágreiningur um frumvarp til úthlutunar í þrotabúi, sbr. 5. mgr. 160. gr.
    Ætla má að þau ákvæði, sem hér hafa verið nefnd og skylda skiptastjóra til að hlutast til um að dómsúrlausn verði fengin um ágreining, nái til flestra aðstæðna þar sem ágreiningur getur á annað borð komið upp á þessu sviði. Það verður hins vegar ekki útilokað að einhver óvenjulegri ágreiningstilvik geti komið upp, þar sem ekki væri unnt að heimfæra aðstæður undir einhverja af framangreindum reglum sem skylda skiptastjóra til að leita úrlausnar. Einmitt af þeim sökum er ráðgerð sú sérstaka heimild, sem kemur fram í 1. mgr. 171. gr., handa skiptastjóra til að beina öðrum ágreiningsatriðum til héraðsdómara en þeim sem honum er beinlínis skylt. Í sambandi við þessa reglu verður að hafa í huga, að þótt hún feli aðeins í sér heimild til að leita jafnharðan úrlausnar á ágreiningi sem kemur upp við framkvæmd gjaldþrotaskipta, þá er síður en svo um það að ræða að komist yrði hjá því að ágreiningur fengist leiddur til lykta með því að skiptastjóri ákveði einfaldlega að nýta sér ekki heimildina. Þau ágreiningsefni, sem gætu átt undir þessa heimild, hljóta nánast alltaf eftir eðli máls að vera þannig vaxin að hafa mætti þau uppi í tengslum við lok skipta, en eftir reglum 154., 155. og 160. gr. væri óhjákvæmilegt að það reyndi þá á þau fyrir dómi. Sinnuleysi skiptastjóra um að nýta heimildina í 1. mgr. 171. gr. yrði þannig ekki til þess að réttindum annarra yrði stefnt í tvísýnu, heldur aðeins til þess að niðurstaða fengist ekki um ágreiningsefni fyrir enn á lokastigi skipta.
    Í 171. gr. er byggt á því að skiptastjóri eigi alltaf frumkvæðið að því að ágreiningsefni komi til kasta dómstóla, en með því er útilokað að t.d. lánardrottnar geti gripið til slíkra aðgerða upp á eindæmi sitt. Þótt lánardrottnar og aðrir, sem kunna að hafa hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefna, kunni að virðast ráðalausir í þessum efnum við fyrstu sýn, ber að hafa í huga að ef skiptastjóri sinnti ekki skyldu til að beina ágreiningi til héraðsdómara pá væri um að ræða augljósa vanrækslu hans í starfi. Bera mætti aðfinnslur vegna slíkrar vanrækslu upp við héraðsdómara skv. 76. gr. og eftir atvikum að krefjast að skiptastjóra verði vikið úr starfi, sbr. einnig 169. gr. Má þannig telja tryggt að ágreiningur fái ekki að liggja óleystur þótt svo ólíklega færi að skiptastjóri hlutaðist ekki til um að beina honum til héraðsdóms.
    Í 171. gr. er mælt nánar fyrir um það til hvaða héraðsdómstóls skiptastjóri eigi að beina kröfu um úrlausn ágreinings og með hvaða hætti það verði gert. Þá er í 3. mgr. 171. gr. að finna leiðbeiningarreglu um það hvernig aðild að málum sem þessum verði almennt hagað, en um frekari undirbúning máls og meðferð þess er vísað til almennra reglna XXIV. kafla. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist sérstakra skýringa.

Um 172. og 173. gr.


    Í þessum ákvæðum er mælt fyrir um þau tilvik þar sem leyst verður úr um skyldu þriðja manns gagnvart þrotabúi í máli samkvæmt XXIV. kafla, en eins og áður var nefnt heyrir heimild til þessa til undantekninga. Reglur 172. og 173. gr. eru efnislega samhljóða ákvæðum í 124.–126. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., en þau ákvæði er skýrð í allnokkru máli í athugasemdum við það frumvarp. Þykir því mega vísa hér til þeirrar umfjöllunar varðandi einstök atriði 172. og 173. þessa frumvarps.

Um 174.–178. gr.


    Í 174.–178. gr., sem til samans mynda XXIV. kafla frumvarpsins, er mælt fyrir um hvernig þau mál verði rekin í héraði, sem koma til kasta dómstóla eftir reglum XXIII. kafla. Er kveðið á um það hvernig staðið verði að tilteknum atriðum við meðferð máls í héraði, en í 2. mgr. 178. gr. er síðan vísað til almennra reglna í lögum um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, um önnur atriði í þessum efnum. Efni annarra ákvæða XXIV. kafla en þessa síðastnefnda felur þannig í reynd í sér lýsingu á þeim atriðum í málsmeðferðinni þar sem vikið er frá nefndum almennum reglum.
    Ákvæði 174.–178. gr. eru nánast samhljóða ákvæðum 127.–131. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl. Þykir því mega vísa hér til athugasemda við nefnt frumvarp um skýringar á einstökum atriðum, sem koma fram í ákvæðum 174.–178. gr. þessa frumvarps.

Um 179. gr.


    Hér er um að ræða eina ákvæði XXV. kafla þar sem mælt er fyrir um heimildir til að skjóta úrskurðum og eftir atvikum ákvörðunum héraðsdómara samkvæmt reglum frumvarpsins til æðra dóms, málskotsleið, framkvæmd málskots og áhrif þess. Ákvæði 179. gr. eru í öllum atriðum eins og ákvæði 133. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., og þykir því enn mega vísa til athugasemda við það frumvarp um skýringar á atriðum, sem ella hefði verið ástæða til að gera hér frekari skil.

Um 180.–182. gr.


    Ef frumvarp þetta verður að lögum er mælt svo fyrir í 180. gr. að þau öðlist gildi 1. júlí 1992, eða á sama tíma og lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, og ýmis önnur heildarlög á sviði réttarfars, sem eru sniðin að nýrri skipan dómstóla og framkvæmdarvalds ríkisins í héraði.
    Í 181. gr. er mælt fyrir um brottfall ýmissa laga og lagaákvæða. Í 1. og 2. tölul. 181. gr. er mælt fyrir um brottfall gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, og laga um nauðasamninga, nr. 19/1924, en í 3. tölul. er kveðið á um brottfall þeirra fyrirmæla laga nr. 3/1878, sem ráðgert er að standi óhögguð af brottfallsákvæðum í 135. gr. frumvarps til laga um skipti á dánarbúum o.fl., en hér er um að ræða reglur nefndra laga um skuldaröð, sbr. ákvæði XVII. kafla þessa frumvarps. Í 4.–11. tölul. 181. gr. er hins vegar mælt fyrir um brottfall einstakra ákvæða laga, sem taka ýmist til sömu atriði og nú er mælt fyrir um í reglum frumvarpsins, sbr. 7., 10. og 11. tölul. 181. gr., eða verða að teljast óþörf.
    Í 182. gr. er mælt fyrir í ellefu töluliðum um breytingar á jafnmörgum lögum, en í ýmsum þessara liða eru lagðar til fleiri breytingar en ein á viðkomandi lögum. Fer hér mest fyrir tillögum um breytingar á ákvæðum laga, sem tengjast reglum gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, eða byggja gagngert á þeim í einstökum atriðum. Af þessum meiði eru ákvæði 5. tölul. 182. gr. um breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, en reglur laganna um slit á hlutafélögum byggja mjög á reglum um gjaldþrotaskipti, og ákvæði 7. og 8. tölul. 182. gr. um breytingar á nánast samhljóða reglum um slit á viðskiptabönkum og sparisjóðum í lögum um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og lögum um sparisjóði, nr. 87/1985. Á það sama við um ákvæði 11. tölul. 182. gr. þar sem mælt er fyrir um breytingar á lögum um ríkisábyrgð á launum, nr. 88/1990, en reglur þeirra laga taka mið af skipan laga nr. 6/1978. Öðrum ákvæðum 182. gr. er ætlað að leiða til umfangsminni breytinga á einstaka lögum til samræmis við efni og eftir atvikum hugtakanotkun þessa frumvarps.

Um 183.–192. gr.


    Í þessum ákvæðum koma fram reglur varðandi ýmis atriði um skil eldri laga og yngri ef frumvarp þetta verður að lögum. Verður ekki séð að ástæða sé til að skýra hvert þeirra sérstaklega hér.