Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 83 . mál.


Nd.

360. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988.

Frá meiri hl. allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Harald Johannessen, forstöðumann Fangelsismálastofnunar, og Birgi Kjartansson, formann Verndar. Umsagir bárust frá Fangavarðafélagi Íslands, Fangelsismálastofnun og Landssambandi lögreglumanna.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið. Sérstaklega hefur verið kannað hvort setja eigi tímamörk á úrskurð dómsmálaráðuneytisins um kæru á ákvörðun um einangrun eða agaviðurlög. Einnig hvort rétt sé að fangi geti kært ákvörðun forstöðumanns um agaviðurlög til Fangelsismálastofnunar og síðan ákvörðun stofnunarinnar til dómsmálaráðuneytisins, en Fangelsismálastofnun hefur óskað eftir slíku fyrirkomulagi. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til frumvarpsins og skilar minni hl. nefndarinnar séráliti.
    Hvað varðar tímamörk til þess að kveða upp úrskurð um kæru er meiri hl. nefndarinnar sammála um að setja dómsmálaráðuneytinu tveggja sólarhringa frest til þess eftir að gögn málsins hafa borist. Gögnin skulu send ráðuneytinu þegar eftir að úrskurður um agaviðurlög eða einangrun er kveðinn upp. Þannig er reynt að tryggja að fangi sæti ekki óréttmætum agaviðurlögum nema í þann skamma tíma sem rannsókn málsins á að taka. Ef úrskurður um kæru er ekki kveðinn upp innan tímamarkanna falla ákvarðanir forstöðumanns um agaviðurlög eða einangrun niður. Meiri hl. nefndarinnar telur að þessi breyting á frumvarpinu tryggi rétt fanga eins vel og kostur er á og flytur því tillögu um hana.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem hann gerir tillögu um á sérstöku þingskjali.
    Friðjón Þórðarson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. des. 1990.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.

Guðni Ágústsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.

Ingi Björn Albertsson.