Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 188 . mál.


207. Frumvarp til

laga

um brunavarnir og brunamál.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI


Stjórn brunamála.


1. gr.


    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn brunamála í landinu.

2. gr.


    Brunamálastofnun ríkisins hefur á hendi yfirumsjón með öllum brunavörnum og brunamálum í landinu og ber ábyrgð á þeim gagnvart ráðherra.
     Brunamálastofnun ríkisins skal hlutast til um að farið sé í hvívetna eftir lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál.
     Brunamálastofnun ríkisins ber að gera sjálfstæðar athuganir og úttektir til þess að geta gert sér grein fyrir ástandi mála, hvenær sem þurfa þykir, með fullri vitneskju og í sem bestri samvinnu við hlutaðeigandi brunamálayfirvöld.
     Önnur helstu verkefni Brunamálastofnunar ríkisins eru:
    Að leiðbeina sveitarstjórnum um allt það er lýtur að brunavörnum, þar með talið eftirlit með því að nýbyggingar, viðbætur og endurbætur á vatnsveitukerfum komi að sem mestum notum við slökkvistarf.
    Að hafa á hendi yfirumsjón með opinberu eldvarnaeftirliti sveitarfélaga og eigin eldvarnaeftirliti eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis. Brunamálastofnun skal veita öllum þeim, sem sinna reglubundnu eldvarnaeftirliti, tækniaðstoð og leiðbeiningu, eftir því sem kostur er, og sjá til þess að unnið sé samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma.
    Að yfirfara brunahönnun og uppdrætti af nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjum sem slökkviliðsstjóri og/eða byggingarfulltrúi vísa til hennar eða stofnunin sjálf kallar eftir til að ganga úr skugga um að lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál sé fullnægt. Einnig skal Brunamálastofnun gefa út tæknilegar leiðbeiningar og reglur um brunavarnir og brunahönnun atvinnuhúsnæðis eftir því sem kostur er.
    Að vinna að samræmingu á brunahönum, slöngutengingum og öðrum slökkvibúnaði.
    Að hafa æfingar með slökkviliðum, gangast fyrir reglubundnum námskeiðum fyrir slökkviliðsmenn og eldvarnaeftirlitsmenn og stuðla að menntun þeirra heima og erlendis.
    Að halda uppi rannsóknastarfsemi á sviði brunamála og leiðbeina um val, uppsetningu og notkun á slökkvibúnaði og aðvörunarkerfum.
    Að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi, þar með talið að kynna hönnuðum mannvirkja nýjungar á sviði brunavarna og gangast fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir hönnuði og aðra tæknimenn.
    Að semja árlega skýrslu um orsakir og afleiðingar eldsvoða. Vátryggingafélög skulu senda Brunamálastofnun, eigi síðar en 1. mars ár hvert, sundurliðaðar skýrslur um brunatjón á næstliðnu ári. Skal árleg yfirlitsskýrsla Brunamálastofnunar um eldsvoða birt opinberlega.
    Að undirbúa og endurskoða, eftir því sem þörf er á, reglugerðir um brunamál og sjá svo um að þær séu ávallt í samræmi við kröfur tímans.
    Að hafa samvinnu við samsvarandi stofnanir í nágrannalöndunum og fylgjast með framförum og nýjungum erlendis á sviði brunavarna.
     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni, svo og starfshætti Brunamálastofnunar.

3. gr.


    Ráðherra skipar fimm manna stjórn Brunamálastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn. Hann skipar einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra tryggingafélaga og einn eftir sameiginlegri tilnefningu Arkitektafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands. Einn mann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Skipa skal varamenn með sama hætti. Stjórnin fer með yfirstjórn stofnunarinnar. Ráðherra ákveður þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra.
     Ráðherra skipar brunamálastjóra til sex ára í senn, að fengnum tillögum stjórnar Brunamálastofnunar, og sér hann um daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði stjórnar og er hún ábyrg gagnvart ráðherra. Brunamálastjóri skal vera tæknimenntaður og hafa sérþekkingu á brunamálum. Hann ræður starfsmenn Brunamálastofnunar og taka þeir laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna.

4. gr.


    Sveitarstjórn og slökkviliðsstjóri skulu halda uppi almennum brunavörnum og opinberu eldvarnaeftirliti í sveitarfélagi í samræmi við kröfur sem nánar er kveðið á um í reglugerðum um brunavarnir og brunamál. Kostnaður greiðist úr sveitarsjóði.
     Sveitarstjórnir geta haft samvinnu sín á milli um brunavarnamál sveitarfélaga. Um þá samvinnu skulu gilda ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
     Sá sem telur rétti sínum hallað með ályktun sveitarstjórnar (slökkviliðsstjóra) getur skotið slíkri ályktun til félagsmálaráðherra sem fellir úrskurð í málinu að fenginni umsögn Brunamálastofnunar.
     Félagsmálaráðherra getur, að fenginni umsögn Brunamálastofnunar, undanþegið sveitarfélag skyldu til að halda uppi sérstökum brunavörnum berist rökstudd beiðni um slíkt frá sveitarstjórn.

II. KAFLI


Slökkvilið og slökkvistarf.


5. gr.


    Sveitarfélögum er skylt að leggja til og halda við nauðsynlegum tækjum og búnaði til almenns slökkvistarfs og brunavarna, þar með talið nauðsynlegt húsnæði fyrir slökkviliðið.
     Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskröfur varðandi tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða.
     Sveitarfélögum ber að hlutast til um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað, t.d. vatnsúðakerfi í meiri háttar byggingum.
     Við skipulag byggðar og staðsetningu slíkra bygginga í sveitarfélagi ber að taka fullt tillit til ofangreindra þátta.

6. gr.


    Sveitarstjórn skipar slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri, en í forföllum hans varaslökkviliðsstjóri, er yfirmaður og stjórnandi slökkviliðs. Hann hefur umsjón með öllum tækjum slökkviliðsins og brunahönum. Um verksvið hans skal nánar kveðið á um í reglugerð.
     Tæki og búnað slökkviliðs má einungis nota til slökkvi- og björgunarstarfs, nema slökkviliðsstjóri heimili annað og um sérstaka almannahættu sé að ræða, t.d. af völdum vatnsflóða og fárviðris.

7. gr.


    Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri, sem hafa fasta búsetu í sveitarfélagi, eru skyldir til þjónustu í slökkviliði. Þeim er skylt að koma til slökkviæfinga allt að 20 klukkustundir á ári og auk þess skulu þeir koma hvenær sem eldsvoða ber að höndum samkvæmt nánari reglum um útköll.
     Sveitarstjórn skipar menn í slík slökkvilið eftir tillögum slökkviliðsstjóra. Um þóknun fyrir störf í slökkviliði fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar að höfðu samráði við samtök slökkviliðsmanna.

8. gr.


    Í sveitarfélögum þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum má takmarka skyldur skv. 7. gr. eða fella þær niður.
     Slökkviliðsstjóra er skylt að sjá um að slökkviliðsæfingar séu haldnar eins oft og áskilið er í reglugerð.

9. gr.


    Slökkviliðsstjóra, eða staðgengli hans, er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að kveðja til slökkvistarfa eins marga menn og hann telur nauðsynlegt og getur enginn vinnufær maður skorast undan þeirri skyldu. Slík aðstoð skal veitt án endurgjalds.

10. gr.


    Slökkviliðsmenn og aðrir, sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra, skulu slysatryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna í samræmi við áhættu starfsins. Lágmarkstrygging þeirra skal vera í samræmi við skilmála um slysatryggingar opinberra starfsmanna samkvæmt kjarasamningum. Þeir sem verða fyrir tjóni við störf í þágu brunavarna eiga rétt á að fá tjónið bætt úr sveitarsjóði, enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Náist ekki samkomulag um bætur skal tjónið metið af dómkvöddum mönnum.

11. gr.


    Félagsmálaráðherra getur að nokkru eða öllu leyti undanþegið sveitarfélag þeirri skyldu að hafa slökkvilið ef það hefur samið um að slökkvilið í nærliggjandi sveitarfélagi annist slökkvistarf. Um slíka samvinnu skal gera skriflegan samning og skal hann staðfestur af félagsmálaráðherra að fenginni umsögn Brunamálastofnunar.

12. gr.


    Verði eldur laus eða bráð hætta er á að svo fari þá skal sá er þess verður vís slökkva eldinn eða afstýra hættu ef honum er það kleift. Geti hann það ekki skal hann tafarlaust aðvara þá sem kunna að vera í hættu og kveðja til slökkvilið eða aðra tiltæka hjálp.

13. gr.


    Hverjum manni er skylt, þegar eldsvoða ber að höndum, að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við slökkvistarf þegar eldsvoða ber að höndum.

14. gr.


    Fjártjón, sem hlýst af ráðstöfunum skv. 13. gr., telst brunatjón.

15. gr.


    Ef lögreglustjóri býr í sveitarfélaginu skal hann ásamt lögregluliði staðarins annast löggæslu við slökkviæfingar og slökkviliðsstörf, en ella hreppstjóri eða sérstakur fulltrúi sem lögreglustjóri skipar. Við eldsvoða er löggæslulið á brunastað undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Lögreglulið skal sjá slökkviliði fyrir greiðum aðgangi að brunastað, stöðva umferð um nærliggjandi götur, afgirða svæði sem slökkviliðið þarf til að gegna störfum sínum og varðveita muni sem bjargað er frá bruna þar til þeir eru afhentir réttum aðilum.

16. gr.


    Heimilt er slökkviliði, lögreglu eða þeim sem þessir aðilar kveðja til að fjarlægja hvern þann er truflar slökkvistarf og gera fullnægjandi ráðstafanir til að hann valdi ekki frekari truflun.

17. gr.


    Slökkviliði er heimilt að veita aðstoð við að slökkva eld utan eigin umdæmis. Slökkviliðsstjóri ákveður hverju sinni, hversu mikið af tækjum og mannafla megi senda með hliðsjón af því að eigin umdæmi sé ekki stofnað í óeðlilega hættu.
     Kostnaður við slíka aðstoð telst til brunavarnakostnaðar þess sveitarfélags sem aðstoðar nýtur. Verði ágreiningur um kostnað skal hann ákveðinn af dómkvöddum mönnum. Héraðsdómari í því umdæmi, sem aðstoð veitir, útnefnir matsmenn.

III. KAFLI


Brunavarnir og meðferð eldfimra efna.


18. gr.


    Seljanda byggingarefna eða tækja, sem haft geta áhrif á öryggi húss gegn eldi, er skylt að afla nauðsynlegra upplýsinga um brunatæknilega eiginleika þeirra og láta Brunamálastofnun þær í té. Slíkar upplýsingar skulu vera frá viðurkenndum og óháðum aðila sem Brunamálastofnun samþykkir. Brunamálastofnun tekur á grundvelli þessara upplýsinga ákvörðun um hvort nota megi efnið (tækið), til hvers og með hvaða skilyrðum.
     Brunamálastofnun getur bannað sölu efnis (tækis) sem ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir eða fullnægjandi brunatæknilegar upplýsingar fást ekki um. Lögreglu er skylt að aðstoða við slíkar aðgerðir ef þörf krefur.

19. gr.


    Eigandi mannvirkis er ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál.
     Forráðamanni mannvirkis er skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í mannvirkinu fer fram á hverjum tíma.
     Eigandi og/eða forráðamaður mannvirkis ber fulla ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og því að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í gildandi lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál, byggingarmál, öryggismál og hollustuhætti.
     Skylt er að láta fara fram brunahönnun fyrir byggingu, sem skal fullnægja grein 1.1.2 í reglugerð nr. 269/1978 um brunavarnir og brunamál og grein 7.3.2 í byggingarreglugerð nr. 292/1979, þegar um nýbyggingu er að ræða þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða.
     Sé um að ræða atvinnuhúsnæði sem þegar er byggt og í rekstri skal slökkviliðsstjóri og/eða byggingarfulltrúi gera úttekt á brunavörnum þess, m.a. með tilliti til viðvörunar- og slökkvibúnaðar, leggja hana fyrir eiganda og/eða forráðamann og senda síðan til hlutaðeigandi vátryggingafélaga og Brunamálastofnunar. Nánar skal kveðið á um aðgerðir til brunavarna í slíku húsnæði í reglugerð um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.
     Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt, er eiganda og/eða forráðamanni skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki og/eða hina breyttu starfsemi.
     Félagsmálaráðherra getur, að fengnum tillögum Brunamálastofnunar, lagt svo fyrir að í meiri háttar atvinnuhúsnæði séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna, t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi.
     Eiganda og/eða forráðamanni mannvirkis ber að leggja til nægilegan mannafla til eftirlits með brunarústum eftir eldsvoða.

20. gr.


    Nauðsynlegum búnaði vegna almennra brunavarna má koma fyrir þar sem slíkt telst nauðsynlegt ef það veldur ekki óeðlilegu tjóni eða óþægindum. Slökkviliðsstjóri skal tilkynna aðila fyrir fram um slíkar aðgerðir.


21. gr.


    Fara skal þannig með eld eða eldfim efni að sem allra minnst hætta sé á því að eldsvoði geti af því hlotist.

IV. KAFLI


Tilkynningar um eldsvoða og rannsókn

ir.

22. gr.


    Sá sem verður fyrir brunatjóni, eða sé hann ekki viðstaddur þá sá er kemur í hans stað, er skyldur að tilkynna brunann hlutaðeigandi vátryggingafélagi, svo og lögreglustjóra, fulltrúa hans, sbr. 15. gr., eða hreppstjóra, svo fljótt sem unnt er.

23. gr.


    Rannsóknarlögregla ríkisins skal sjá um að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón og kveðja til sérfróða menn eftir þörfum. Hún skal tafarlaust tilkynna Brunamálastofnun ríkisins og Rafmagnseftirliti ríkisins um rannsókn sína. Lögreglurannsókn þarf hins vegar ekki að fara fram ef brunatjón er óverulegt og eldsupptök kunn.
     Lögreglurannsókn skal beinast að því að kanna hver upptök eldsins hafi verið og þróun og útbreiðsla brunans, enn fremur hvernig háttað hafi verið brunahönnun hlutaðeigandi húss, hvernig staðið hafi verið að brunavörnum þess og hvernig slökkvistarfið hafi gengið fyrir sig. Kanna ber síðustu úttektir eldvarnaeftirlits fyrir brunann hvaða athugasemdir þar hafi verið fram settar og hvernig eftir þeim hafi verið farið.
     Sú lögreglurannsókn, sem hér er mælt fyrir um, breytir í engu heimild Brunamálastofnunar og Rafmagnseftirlits til að rannsaka á eigin vegum bruna og brunatjón, enda hafi þessir aðilar við rannsókn sína fullt samráð við Rannsóknarlögreglu ríkisins, m.a. vegna varðveislu verksummerkja eftir brunann sem kunna að hafa rannsóknargildi.
     Afrit af gögnum um hverja lögreglurannsókn vegna bruna ber að senda Brunamálastofnun, slökkviliðsstjóra og hlutaðeigandi vátryggingafélögum þegar rannsókn er lokið.

V. KAFLI


Fjármál brunavarna.


24. gr.


    Öll tryggingafélög og aðrir, sem annast vátryggingar, skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum, sérstakt brunavarnagjald fyrir Brunamálastofnun ríkisins. Brunavarnagjaldið má nema allt að 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Viðlagatrygging skal þó ekki teljast gjaldskyld trygging í þessu efni né heldur brunatryggingar skipa og flugvéla. Félagsmálaráðherra ákveður hversu hátt fyrrgreint hlutfall skal vera og setur nánari reglur um innheimtu brunavarnagjaldsins í reglugerð. Þeir aðilar, sem innheimta brunavarnagjaldið, skulu hafa staðið Brunamálastofnun ríkisins skil á gjaldinu innan þriggja mánaða frá innheimtu þess. Endanlegt uppgjör gjaldsins fyrir hvert ár fer fram þegar ársreikningar þeirra aðila, sem annast innheimtu brunavarnagjaldsins, liggja fyrir.
    Það sem á kann að vanta að framangreindir tekjustofnar nægi til þess að standa undir rekstrinum greiðist úr ríkissjóði.
    Brunamálastofnun er heimilt að semja gjaldskrá og fá hana staðfesta af félagsmálaráðherra. Í slíkri gjaldskrá skal kveðið á um skoðunargjöld og önnur gjöld er stofnunin tekur fyrir veitta þjónustu.

25. gr.


    Heimilt er Brunamálastofnun að veita slökkviliðsmönnum, eldvarnaeftirlitsmönnum og öðrum þeim, sem starfa að brunamálum, styrki til náms á sviði brunamála.
     Fjármagn til þessara styrkveitinga má nema allt að 5% brunavarnagjaldsins á hverju ári. Ráðherra ákveður hversu hátt þetta hlutfall skal vera hverju sinni og setur nánari ákvæði um styrki þessa í reglugerð.

VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


26. gr.


    Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim.
     Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimil umferð um híbýli manna, vinnustaði og aðra þá staði þar sem eftirlits er þörf.

27. gr.


    Nú kemur í ljós að ákvæði laga þessara eða reglugerða, sem settar eru á grundvelli þeirra, eru brotin og skal þá slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Slökkviliðsstjóra er heimilt að leita aðstoðar byggingarnefndar til að knýja eiganda og/eða forráðamann mannvirkis til úrbóta, sbr. 19. gr., og jafnframt er honum heimilt af sömu ástæðu að hafa samráð við Rafmagnseftirlit ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins ef þörf krefur.
     Við áhættumat einstakra mannvirkja mega vátryggingafélög setja álag á brunatryggingaiðgjöld húsa þegar og meðan fyrir liggur að eigandi hefur ekki sinnt kröfum slökkviliðsstjóra um úrbætur skv. 1. mgr.
     Ef upp kemur ágreiningur milli slökkviliðsstjóra og eiganda eða forráðamanns mannvirkis um úrbætur þær, sem fyrirskipaðar eru skv. 1. mgr., ber slökkviliðsstjóra tafarlaust að vísa málinu til Brunamálastofnunar sem sker úr ágreiningnum. Slökkviliðsstjóra ber að leita atbeina lögreglustjóra ef ekki er farið eftir úrskurði Brunamálastofnunar.
     Að fengnu samþykki Brunamálastofnunar getur slökkviliðsstjóri í samráði við lögreglustjóra ákveðið að framkvæmdar verði nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda og/eða forráðamanns mannvirkis fyrir hvern dag uns úr verður bætt. Dagsektir renni til hlutaðeigandi sveitarsjóðs. Ef almannahætta stafar af því að settum reglum um brunavarnir er ekki fylgt ber slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra að stöðva rekstur í viðkomandi mannvirki og loka því þar til úr hefur verið bætt með fullnægjandi hætti að mati þessara aðila.

28. gr.


    Nú telur Brunamálastofnun að brotin séu ákvæði laga þessara eða reglugerða byggðra á þeim og slökkviliðsstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta skv. 27. gr., og skal þá Brunamálastofnun benda slökkviliðsstjóra á misbrestina og hefur stofnunin síðan rétt til að beita þeim heimildum sem slökkviliðsstjóra eru veittar í þeirri grein ef ekki er úr bætt.
     Ef Brunamálastofnun telur að sveitarstjórn gegni ekki skyldu sinni samkvæmt lögum þessum þá er stofnuninni heimilt að láta bæta úr á kostnað sveitarsjóðs.

29. gr.


    Um matsgerðir samkvæmt lögum þessum fer að almennnum reglum og venjum um möt dómkvaddra matsmanna. Meta skal raunverulegt fjártjón hverju sinni.

30. gr.


    Gjöld og dagsektir samkvæmt lögum þessum, svo og kostnað skv. 27. og 28. gr., má innheimta með lögtaki.

31. gr.


    Ráðherra setur, að fenginni tillögu Brunamálastofnunar, reglugerðir þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd laga þessara.

32. gr.


    Brot á lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða sektum, en varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar.

33. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 74 12. maí l982, um brunavarnir og brunamál.
     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. um tímabunda skipun brunamálastjóra tekur ekki til núverandi brunamálastjóra.
     Við gildistöku laga þessara skal félagsmálaráðherra skipa nýja stjórn Brunamálastofnunar ríkisins í samræmi við 1. mgr. 3. gr. Umboð núverandi stjórnar fellur niður um leið og ráðherra hefur skipað hina nýju stjórn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í kjölfar stórbrunans að Réttarhálsi 2 í Reykjavík skipaði félagsmálaráðherra 27. janúar 1989 nefnd til að gera heildarúttekt á stöðu brunamála á Íslandi. Nefnd þessi skilaði skýrslu sinni til ráðherra 7. nóvember sama ár.
     Í þessari skýrslu komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allgóða löggjöf um brunavarnir og brunamál, þegar á heildina væri litið, væri víða að finna veilur í skipulagi brunamála og sérstaklega eldvarnaeftirlits. Athugasemdum og kröfum um úrbætur væri lítt fylgt eftir og upplýsingar um helstu brunatjón væru ófullnægjandi. Þá hafi lokaúttektir á byggingum almennt ekki farið fram. Nefndin gerði tillögur til félagsmálaráðherra til úrbóta í þessum efnum og lutu þær í fyrsta lagi að auknu forvarnastarfi jafnt á hönnunarstigi sem og á byggingartíma mannvirkja, í öðru lagi að hertu eldvarnaeftirliti eftir að hús hafa verið tekin í notkun og í þriðja lagi að áframhaldandi heildarúttekt á mannvirkjum þar sem ætla mætti að hætta á bruna væri mest.
     Í 3. kafla áðurgreindrar skýrslu er að finna samantekt þeirra atriða sem nefndin lagði sérstaka áherslu á í niðurstöðum sínum ásamt tillögum hennar um breytingar eða úrbætur og vísast nánar um það efni til þess kafla skýrslunnar.
     Hinn 29. janúar 1990 ákvað félagsmálaráðherra að fela nefnd að undirbúa framkvæmd á þeim tillögum sem fram komu í ofangreindri skýrslu, m.a. með því að semja drög að frumvarpi til breytinga á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 74/1982.
     Í þeirri nefnd áttu sæti: Magnús H. Magnússon, fyrrverandi ráðherra, formaður, Hákon Ólafsson byggingarverkfræðingur, Ingi R. Helgason hæstaréttarlögmaður og Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar var Þórir Hilmarsson verkfræðingur.
     Nefnd þessi komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hafa þann hátt á að undirbúa heildstætt frumvarp til laga um brunavarnir og brunamál í stað frumvarps til breytinga á núgildandi lögum um sama efni nr. 74/1982, enda lagðar til breytingar á meiri hluta ákvæða gildandi laga. Félagsmálaráðherra lagði það frumvarp fram í febrúar 1991 sem þskj. 835 í efri deild á 113. löggjafarþingi 1990–91. Sakir anna Alþingis á þeim tíma og vegna nálægðar alþingiskosninga auðnaðist ekki að taka frumvarpið til umræðu eða þinglegrar meðferðar fyrir þinglok. Félagsmálaráðuneytið sendi hins vegar frumvarpið til umsagnar flestra þeirra aðila sem tengjast brunamálum í landinu.
     Eftir myndun núverandi ríkisstjórnar í kjölfar alþingiskosninga 1991 fól félagsmálaráðherra nefnd þeirri, sem samdi frumvarpið, að yfirfara efnislega umsagnir þær sem borist höfðu og gera tillögur um breytingar á frumvarpinu ef ástæða þætti til áður en það yrði lagt fram að nýju. Lauk því starfi 19. september 1991 og tók nefndin tillit til fjölmargra efnisatriða sem fram komu í umsögnunum og gerði tillögur um breytingar á hinu fyrra frumvarpi og er því nýtt frumvarp lagt fram nú. Er þess að vænta að þessi endurskoðunarvinna spari tíma og auðveldi greiða og markvissa umfjöllun Alþingis um hið nýja frumvarp á þessu mikilvæga málasviði. Umsagnaraðilarnir voru þessir: brunamálastjóri ríkisins, stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra tryggingafélaga, Landssamband slökkviliðsmanna, Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi og Félag byggingarfulltrúa.
     Rétt er að benda á þá breytingu frá fyrra frumvarpi sem mesta þýðingu hefur, en hún varðar brunavarnafulltrúann. Í úttektarskýrslunni frá 7. nóvember 1989 kom fram að mikil brotalöm þótti vera á sviði eldvarnaeftirlits sveitarfélaganna, sem berlegast kom í ljós þegar skoðaðir voru 10 stærstu brunar hérlendis sl. 10 ár. Þessi brotalöm var einkum fólgin í því að illa gekk að fylgja eftir kröfum um úrbætur þegar eigendur mannvirkja fóru ekki að settum reglum eða hreinlega sniðgengu þær. Til að bæta úr þessu var lagt til í úttektarskýrslunni að nýr tæknimenntaður aðili, brunavarnafulltrúi, kæmi hér til skjalanna til að sinna, á vegum sveitarfélaganna, sérstaklega þessum þætti. Í þessu skyni var því gert ráð fyrir að skipta landinu upp í eldvarnaeftirlitsumdæmi sem væru miðuð við það sem brunavarnafulltrúi í fullu starfi gæti sinnt, að sveitarfélögin mynduðu byggðasamlög um brunavarnir og gjald, sem samsvaraði launum brunavarnafulltrúans, væri innheimt með almennu brunavarnagjaldi en sveitarfélögin stæðu sjálf undir öðrum kostnaði.
     Umsagnaraðilarnir voru ýmist með efasemdir um þessa nýskipan eða hreinlega andmæltu henni. Nefndin tók tillit til þessa og byggir á núverandi skipulagi eldvarnaeftirlitsmála í frumvarpsgerð sinni um eflingu eldvarnaeftirlitsins með því m.a. að gera byggingarnefndirnar virkari, að efna til samvinnu hinna opinberu eftirlita, eldvarna-, rafmagns- og vinnueftirlits, auk þess sem vátryggingafélögunum er heimilt að setja álag á brunatryggingaiðgjöld til að auka þrýsting á eigendur mannvirkja að fara að settum reglum og fyrirmælum eftirlitanna þar til úr hefur verið bætt.
     Þess má geta að byggingar- og brunamálayfirvöld í Reykjavík hafa þegar eftir stórbrunann að Réttarhálsi 2 og úttektarskýrsluna frá 7. nóvember 1989 tileinkað sér þessi vinnubrögð með góðum árangri og er horft til þess fordæmis í frumvarpsgerð þessari.
     Þá er rétt að geta þess að á vegum nefndarinnar hafa og verið samin drög að tveimur reglugerðum er fela í sér nánari útfærslu á þeim lagabreytingum sem eru lagðar til með þessu frumvarpi. Annars vegar er um að ræða reglugerð um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga og hins vegar reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum atvinnuhúsnæðis.
     Helstu nýmæli, sem er að finna í frumvarpinu, eru þessi:
    Lagt er til að tekin verði af öll tvímæli þess efnis að Brunamálastofnun ríkisins fari með yfirumsjón með öllum brunavörnum og brunamálum í landinu og beri ábyrgð á þeim gagnvart félagsmálaráðherra.
     Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi brunamálastjóra tímabundið, að fengnum tillögum stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins, og gert er ráð fyrir að hann annist daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði stjórnarinnar.
     Lagt er til að fjölgað verði um tvo fulltrúa í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins. Þeir verði fimm í stað þriggja eins og nú er. Annar þessara fulltrúa verði skipaður samkvæmt sameiginlegri tilnefningu Arkitektafélags Íslands, Tæknifræðingafélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands en hinn verði skipaður af félagsmálaráðherra án tilnefningar.
     Lagt er til að ákvæði um verkefni Brunamálastofnunar ríkisins verði gerð skýrari og um leið markvissari.
     Lagt er til að ábyrgð eigenda og/eða forráðamanna atvinnuhúsnæðis verði aukin varðandi brunavarnir og eftirlit með þeim.
     Lagt er til að eldvarnaeftirlit sveitarfélaganna verði eflt frá því sem nú er með því m.a. að gera byggingarnefndir sveitarfélaga virkari, efna til samvinnu hinna opinberu eftirlita, eldvarna-, rafmagns- og vinnueftirlits, auk þess sem vátryggingafélögum verði heimilt að setja álag á iðgjöld brunatrygginga húsa og mannvirkja þegar og meðan ekki er sinnt kröfu um úrbætur í brunavörnum.
     Lagt er til að Rannsóknarlögregla ríkisins annist lögreglurannsókn eftir brunatjón og kveðji til sérfróða menn þegar þess er talin þörf og að rannsóknin skuli beinast að fleiri þáttum en nú er mælt fyrir um.
     Þá er lagt til að ákveðnu fjármagni verði varið til að styrkja menn, er starfa að brunavörnum og brunamálum, til náms hérlendis og erlendis.
     Um nánari skýringar á þessum tillögum vísast til athugasemda þeirra sem hér fara á eftir um hverja einstaka frumvarpsgrein.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Óbreytt frá núgildandi lögum nr. 74/1982 að öðru leyti en því að lagt er til að í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ komi: Félagsmálaráðherra, en það er í samræmi við 13. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Þá er rétt að taka fram til að taka af allan vafa að brunavarnir í skipum og flugvélum heyra undir samgönguráðuneytið.

Um 2. gr.


    Í núgildandi lögum eru ákvæði óljós um hlutverk Brunamálastofnunar ríkisins og verksvið æðstu yfirmanna hennar. Á einum stað er verkefni talið heyra undir stjórn stofnunarinnar, á öðrum stað er verkefni talið í verkahring brunamálastjóra og á þriðja staðnum fellur verkefni undir Brunamálastofnunina sjálfa og þá ekki ljóst hvort það heyrir undir stjórn eða brunamálastjóra. Þessi ákvæði hafa valdið togstreitu innan stofnunarinnar og hamlað mjög samstarfi stjórnenda.
     Úr þessu er bætt með skýrum hætti í þessari grein frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru meginverkefni Brunamálastofnunar skilgreind á glöggan hátt, en þau eru einkum þrenns konar:
—    að hafa á hendi yfirumsjón með öllum brunavörnum og brunamálum í landinu í umboði félagsmálaráðherra.
—    að fylgjast með ástandi brunamála og gera sjálfstæðar athuganir og úttektir í því skyni.
—    að hlutast til um að lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál sé framfylgt.
     Í greininni eru enn fremur önnur helstu verkefni Brunamálastofnunar ríkisins tilgreind. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða heldur eru tilgreindir þeir málaflokkar og markmið sem brunamálastjóra og stjórn stofnunarinnar ber að hafa í huga og leggja áherslu á í daglegum rekstri hennar.
     Liðir a, d, f, g, i og j eru efnislega óbreyttir frá núgildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     Í b-lið er það ákvæði núgildandi laga að Brunamálastofnun veiti þeim er sinna eldvarnaeftirliti, tækniaðstoð og leiðbeiningu efnislega óbreytt. Til viðbótar er skýrt kveðið á um að stofnunin hafi yfirumsjón með eldvarnaeftirliti í landinu hvort sem er opinbert eldvarnaeftirlit á vegum sveitarfélaga eða eldvarnaeftirlit á vegum eigenda og/eða forráðamanna atvinnuhúsnæðis.
     Í c-lið er ákvæði núgildandi laga varðandi yfirferð teikninga efnislega óbreytt. Aftur á móti er sett inn nýtt ákvæði varðandi brunavarnir og brunahönnun í atvinnuhúsnæði. Núgildandi brunamálareglugerð, reglugerð nr. 269/1978 um brunavarnir og brunamál, er komin til ára sinna og var á sínum tíma svo til bein þýðing tiltekins kafla í danskri byggingarreglugerð, 6. kafla í Bygningsreglement 1977. Í Danmörku er rekstri brunamála öðruvísi háttað heldur en hér á landi. T.d. eru engin sérákvæði í hinni dönsku fyrirmynd er sérstaklega varða kröfur um brunavarnir í iðnaðar- og framleiðsluhúsnæði, nema fyrir einnar hæðar iðnaðar- og geymsluhúsnæði þar sem brunaálag er takmarkað eða minna en 400 MJ/m 3 gólfs, sbr. 15. kafla í hinni íslensku brunamálareglugerð. Þetta gerir það að verkum að mikil vöntun er á reglum og leiðbeiningum um brunavarnir stórra iðnaðar- og framleiðslufyrirtækja. Það er óviðunandi ástand sem þessu nýja lagaákvæði er ætlað að ráða bót á.
     Í e-lið eru ákvæðin efnislega samhljóða ákvæðum núgildandi laga að öðru leyti en því að fellt er brott ákvæði um undirbúning að reglugerð um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna þar sem hún hefur þegar verið staðfest og birt lögum samkvæmt. Lögð er áhersla á að menntun fari fram bæði hér á landi sem og erlendis, sbr. 25. gr. Með sérstöku bréfi til félagsmálaráðherra hefur nefnd sú, sem vann frumvarp þetta, enn fremur gert tillögur til eflingar fræðslu- og þjálfunardeildar Brunamálastofnunar.
     Í h-lið er fastar kveðið á um skýrslugerð um eldsvoða en í núgildandi lögum. Þessu verkefni hefur lítið verið sinnt af Brunamálastofnun. Með því að lögbinda samstarf Brunamálastofnunar og vátryggingafélaga í þessu efni er stuðlað að því að tryggt sé að þessu mikilvæga verkefni verði sinnt sem skyldi.
     Lagt er til að félagsmálaráðherra verði heimilt að setja reglugerð sem kveði nánar á um verkefni og starfshætti Brunamálastofnunar.

Um 3. gr.


    Lagt er til að stjórn Brunamálastofnunar verði æðsta stjórnvald hennar, en á því leikur vafi samkvæmt núgildandi ákvæði þar sem segir að stjórnin „skuli hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar“. Í þessu skyni er stjórnin styrkt faglega og skipulagslega. Í stað þriggja stjórnarmanna, sem nú eru, skal skipa fimm manna stjórn. Til að styrkja tengslin við ráðuneytið beint skal ráðherra skipa formann stjórnar án tilnefningar. Á faglega sviðinu er lagt til að hönnuðir mannvirkja tilnefni sameiginlega mann í stjórnina. Aðrir tilnefningaraðilar verða það áfram.
     Þá er lagt til að brunamálastjóri sé eins og áður skipaður af ráðherra, en skipunartími hans verði sex ár í senn. Verkefni hans verði fyrst og fremst að sjá um daglegan rekstur Brunamálastofnunar í umboði stjórnar. Samkvæmt þessum ákvæðum er brunamálastjóri æðsti embættismaður brunamála í landinu, kemur fram fyrir hönd Brunamálastofnunar ríkisins í öllum verkefnum hennar, í umboði stjórnar sem svo er ábyrg gagnvart ráðherra.
     Í öðrum greinum þessa frumvarps eru ákvæði um verkaskiptingu samræmd þessari grein og verkefnin færð beint yfir á stofnunina sjálfa.

Um 4. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru efnislega svo til óbreytt frá núgildandi lögum. Þó er í 2. mgr. að finna nýmæli sem heimilar sveitarstjórnum að hafa samvinnu sín á milli um brunavarnamál sveitarfélags og þá á grundvelli ákvæða IX. kafla sveitarstjórnarlaga.
     Tilfinnanlega hefur vantað reglugerðir um eldvarnaeftirlit á Íslandi og reynslan krefst þess að úr þessu verði bætt. Samhliða undirbúningi lagafrumvarps þessa hafa drög að reglugerðum verið samin. Önnur er um opinbert eldvarnaeftirlit á vegum sveitarfélaga en hin um eigið eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis. Nánar um efni þetta vísast til reglugerðardraga þessara.

Um 5. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í flestum atriðum efnislega óbreytt frá núgildandi lögum og þarfnast varla skýringa, nema mun fastar er kveðið á um kröfur varðandi vatn til slökkvistarfs.
     Nýmæli er að sveitarfélögum og skipulagsyfirvöldum er gert skylt að taka fullt tillit til getu slökkviliðs (tækjabúnaðar og mannafla) og aðstöðu til öflunar slökkvivatns fyrir slökkviliðið og einnig fyrir svonefnd vatnsúðakerfi (sprinkler) þegar staðsetja skal meiri háttar byggingar í sveitarfélagi. Með „meiri háttar byggingu“ er hér átt við stóra og verðmæta byggingu og innbú. (Dæmi um meiri háttar byggingu er Gúmmívinnustofan að Réttarhálsi 2 í Reykjavík.)

Um 6. gr.


    Ákvæði núgildandi laga um skipun stjórnenda slökkviliðs, slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra og umsjón þeirra með tækjum slökkviliðs og brunahönum vatnsveitu er óbreytt frá núgildandi lögum. Hins vegar er lagt til að nánar skuli kveðið á um verksvið slökkviliðsstjóra í reglugerð.
     Nýmæli er og í greininni að lögfest er bann við notkun tækja og búnaðar slökkviliðs til annars en björgunar- og slökkvistarfs, nema slökkkviliðsstjóri heimili annað og um sérstaka almannahættu sé að ræða, t.d. af völdum vatnsflóða eða fárviðris. Þetta ákvæði er sett inn að marggefnu tilefni og er talið sjálfsagt og nauðsynlegt með hliðsjón af öryggissjónarmiðum.

Um 7. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.
     Um langt árabil hefur Landssamband slökkviliðsmanna gefið út launatöflu fyrir starfandi slökkviliðsstjóra og skipaða slökkviliðsmenn í landinu á grundvelli samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga. Með ákvæðinu í 2. mgr. er lagt til að sveitarstjórnir hafi samráð við samtök slökkviliðsmanna þegar ákveðin er þóknun fyrir störf manna í slökkviliðum sem skipuð hafa verið eftir tillögu slökkviliðsstjóra í stað einhliða ákvörðunar sveitarstjórnar eins og mælt er fyrir um í núgildandi lögum.

Um 8. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 9. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 10. gr.


    Brýnt er að slökkviliðsmenn og aðrir þeir, sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra, séu ávallt tryggðir með hliðsjón af hinni miklu áhættu sem fylgir störfum þeirra. Því er lagt til að lágmarkstrygging þeirra verði í samræmi við þá skilmála sem í gildi eru hverju sinni um slysatryggingar opinberra starfsmanna þar sem mikilvægt er að samræmis sé gætt milli slökkviliðsmanna í fullu starfi, svo og þeirra sem kallaðir eru til slökkvistarfa í einstökum tilfellum.

Um 11. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 12. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 13. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 14. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 15. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 16. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 17. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 18. gr.


    Ákvæði núgildandi laga um kynditæki eru felld niður. Í staðinn er kveðið á um upplýsingaskyldu seljenda byggingarefna og tækja um brunatæknilega eiginleika þeirra og heimild Brunamálastofnunar til að kveða á um notkun þeirra og þá með hvaða skilyrðum. Þessu verkefni sinnir Brunamálastofnun nú þegar en eðlilegt er að það eigi sér skýra stoð í lögum. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er sett það nýmæli að móta lagagrundvöll fyrir reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði. Brýna nauðsyn bar til að setja reglur um skyldur eigenda húsa og annarra mannvirkja í landinu varðandi forvarnir, brunavarnir og eftirlit með þeim við hliðina á opinberu eldvarnaeftirliti sveitarfélaganna sem um ræðir í 4. gr.
     Í þessari grein eru lögð til ýmis nýmæli, svo og ítarlegri ákvæði um brunavarnir bygginga, bæði nýbygginga og eldri mannvirkja, sem hér á eftir verða nánar skýrð.
     Kveðið er á um að eigandi mannvirkis sé ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir bygginguna sem slíka, en forráðamanni (notanda) sé skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem fram fer á hverjum tíma. Sameiginlega og hvor fyrir sig beri þessir aðilar ábyrgð á eigin brunavörnum og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt sé þeim skylt að hlíta fyrirmælum opinberra aðila um brunavarnir sem eigi sér stoð í gildandi lögum og reglugerðum. Eins og þegar hefur komið fram voru samhliða gerð þessa lagafrumvarps samin drög að reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis.
     Kveðið er á um að brunahönnun skuli fara fram fyrir nýbyggingar í samræmi við gildandi reglugerðir þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafi sérstök eldhætta eða þar sem margir starfi, komi saman eða dveljist eða þar sem hætta sé á stórfelldu eignatjóni í bruna.
     Sérstök ákvæði eru sett inn varðandi atvinnuhúsnæði sem þegar er byggt og í rekstri. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og/eða byggingarfulltrúi geri úttektir á brunavörnum atvinnuhúsnæðis hver í sínu umdæmi og leggi hana fyrir hlutaðeigandi eiganda, forráðamann, vátryggingafélag og Brunamálastofnun ríkisins. Í reglugerð skal kveða á um aðgerðir til brunavarna í slíku húsnæði og er sérstök áhersla lögð á uppsetningu sjálfvirkra brunaviðvörunarkerfa þar sem slíkt hentar.
     Ákvæði er sett inn varðandi öll mannvirki hvort sem er atvinnuhúsnæði eða ekki ef breytingar eru á því gerðar eða starfsemi í því breytt. Þá skal mannvirkið í heild sinni fullnægja kröfum laga og reglugerða um brunavarnir eftir breytinguna og þá starfsemi sem fram fer. Þetta ákvæði er mikilvægt til þess að ná fram úrbótum á eldri húsum og öðrum mannvirkjum.
     Að hluta til eru ákvæði greinarinnar í núgildandi lögum óbreytt, þ.e. varðandi þá skyldu eigenda eða forráðamanna fasteignar eða annars mannvirkis að leggja til nægilegan mannafla til eftirlits með brunarústum eftir eldsvoða og þá heimild félagsmálaráðherra, að fengnum tillögum Brunamálastofnunar, að mæla fyrir um sérstakar brunavarnir í stærri fyrirtækjum og þjálfun tiltekinna starfsmanna í slökkvistarfi.

Um 20. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 21. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 22. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 23. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að Rannsóknarlögregla ríksins í stað lögreglustjóra skuli sjá um að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón.
     Það nýmæli er síðan að finna í greininni að Rannsóknarlögregla ríkisins skuli kveðja sérfróða menn til rannsóknarinnar eftir þörfum í stað þess að Brunamálastofnun tilnefni þá. Aftur á móti skal Rannsóknarlögreglan tafarlaust tilkynna Brunamálastofnun ríkisins og Rafmagnseftirliti ríkisins um rannsókn sína. Hafa þessir aðilar eftir sem áður heimild til að rannsaka brunann á eigin vegum, þó að höfðu samráði við rannsóknaraðila, ef lögreglurannsókn er í gangi, til þess að raska ekki þeim ummerkjum eftir brunann sem kunna að hafa rannsóknargildi.
     Sú skylda er jafnframt lögð á Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsóknin beinist ekki einungis eða aðallega að upptökum elds og almannahættu heldur einnig að ýmsum öðrum og veigamiklum þáttum eins og fram kemur í greininni.
     Ljóst er að Rannsóknarlögregla ríkisins þarf með tilkomu þessa ákvæðis að efla starfsemi sína á sviði brunarannsókna.

Um 24. gr.


    Ákvæði greinar þessarar eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 25. gr.


    Fræðsla og þjálfun slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitsmanna í brunavörnum og björgunar- og slökkvistarfi, menntunarmál stjórnenda og annarra yfirmanna í slökkviliðum og fræðsla um fyrirbyggjandi brunavarnir og brunahönnun bygginga fyrir hönnuði í mannvirkjagerð allt eru þetta veigamiklir þættir í starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins sem efla þarf til muna frá því sem nú er.
     Erlendis, t.d. hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, eru þessi mál í allt öðrum farvegi. Þar eru starfræktir skólar fyrir slökkviliðsmenn og eldvarnaeftirlitsmenn og þar er brunafræði sjálfsagður hluti menntakerfisins, allt upp í háskóla.
     Með þessu ákvæði er lagt til að Brunamálastofnun hafi heimild til að veita þeim sem starfa að brunamálum styrki til náms hvort sem er á erlendri grund eða hér á landi í brunafræðum. Nánari ákvæði um þessar styrkveitingar skal setja í reglugerð sem félagsmálaráðherra staðfestir að fengnum tillögum Brunamálastofnunar. Fjármagn til þessara styrkveitinga má nema allt að 5% af brunavarnagjaldi ár hvert en það er ráðherra sem skal ákveða hversu hátt hlutfallið má vera hverju sinni.
     Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að fjárhæð þessi geti numið allt að þremur milljónum króna miðað við árið 1991 ef heimildin er nýtt að fullu sem er eins og fyrr segir í valdi ráðherra.

Um 26. gr. (25. gr. í núgildandi lögum).


     Óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 27. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er að finna nýmæli sem heimilar slökkviliðsstjóra að leita aðstoðar byggingarnefndar til að knýja eiganda mannvirkis og/eða forráðamann þess til úrbóta í samræmi við ákvæði sem er að finna í 19. gr. frumvarps þessa. Þá er enn fremur lagt til að slökkviliðsstjóri hafi þá sjálfsögðu heimild að leita eftir samráði við Rafmagnseftirlit ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins þegar þess gerist þörf vegna þess að úrbótum í brunavörnum er ekki sinnt, sbr. áðurnefnda grein.
     Í 2. mgr. er enn fremur að finna nýmæli sem heimilar vátryggingafélögum að leggja álag á iðgjöld brunatrygginga húsa í þeim tilvikum þegar húseigandi og/eða forráðamaður mannvirkis sinnir ekki kröfu slökkviliðsstjóra um úrbætur, sbr. nánar 19. gr. Álagið má leggja á þar til úr hefur verið bætt að dómi slökkviliðsstjóra.
     Þá er lagt til í 4. mgr. að dagsektir renni til sveitarsjóðs í stað ríkissjóðs eins og mælt er fyrir í núgildandi lögum um brunavarnir og brunamál. Þetta er gert þar sem eðlilegt er talið að sektin nýtist til að efla brunavarnir í hlutaðeigandi sveitarfélagi.
     Loks er í 5. mgr. fastar kveðið á um stöðvun á rekstri og lokun mannvirkja ef almannahætta stafar af því að reglum um brunavarnir er ekki fylgt. Í stað þess að hlutaðeigandi lögreglu- og brunamálayfirvöld hafi einungis heimild til rekstrarstöðvunar og lokunar eins og nú er er hér lagt til að þeim beri að gera það. Að fenginni slæmri reynslu þykir ástæða til að gera þetta nú að skyldu í stað heimildar.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 28. gr. (27. gr. í núgildandi lögum).


     Ákvæði greinarinnar eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum, nema að því leyti að
hún er aðlöguð nýjum stjórnunarháttum í Brunamálastofnun ríkisins, sbr. 2. og 3. gr. frumvarpsins.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 29. gr.


    Óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 30. gr.


    Óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 31. gr. (28. gr. í fyrri lögum).


     Efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 32. gr. (31. gr. í fyrri lögum).


     Óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 33. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um brunavarnir og brunamál.


    Verði þetta frumvarp að lögum falla úr gildi núverandi lög nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál, og lög nr. 83/1987, um breytingu á þeim. Helstu nýmæli, sem er að finna í frumvarpinu, eru rakin í inngangskafla athugasemda við það og verða ekki endurtekin hér heldur vikið að þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif til kostnaðarauka.
     Fjármögnun brunavarna skv. 24. gr. frumvarpsins er með sama hætti og bundið er í núgildandi lögum eða eftirfarandi:
    Allir sem annast vátryggingar innheimta árlega með iðgjöldum sínum sérstakt brunavarnagjald fyrir Brunamálastofnun Íslands. Gjaldið má nema allt að 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár.
    Standi tekjustofnar ekki undir rekstrinum greiði ríkissjóður það sem á kann að vanta.
    Brunamálastofnun er heimilt að semja gjaldskrá og fá hana staðfesta af félagsmálaráðherra, en í gjaldskránni skal kveða á um skoðunargjöld og önnur gjöld sem stofnunin tekur fyrir veitta þjónustu.
     Samkvæmt núgildandi lögum (2. gr.) skipar ráðherra þrjá menn í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn og eru þeir skipaðir samkvæmt tilnefningum eftirfarandi aðila, einn frá hverjum: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi slökkviliðsmanna og Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Í frumvarpinu (3. gr.) er gert ráð fyrir fimm mönnum í stjórn og eru þrír tilnefndir frá sömu aðilum og áður er getið og bætt við einum manni eftir sameiginlegri tilnefningu Arkitektafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands. Einn stjórnarmann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Fjölgun stjórnarmanna um tvo gæti þýtt um 250 þús. kr. kostnaðarauka fyrir stofnunina.
     Í 25. gr. frumvarpsins er heimild fyrir Brunamálastofnun til að veita slökkviliðsmönnum, eldvarnaeftirlitsmönnum og öðrum þeim sem starfa að brunamálum styrki til náms á sviði brunamála. Fjármagn til þessara styrkveitinga má nema allt að 5% brunavarnagjalds á hverju ári. Verði þessi heimild notuð til fulls gæti fjárhæðin numið allt að 3–3,5 m.kr. á ári.