Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 198 . mál.


220. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Viðskiptabankar, sparisjóðir, veðdeildir við innlánsstofnanir og opinberir fjárfestingarlánasjóðir, sbr. þó 2. gr., skulu með þeim takmörkunum, er síðar greinir, skyldir til þess að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað og eignarskatt af öllum eignum sínum hvar sem þær eru í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

2. gr.

    1. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Til skattskyldra tekna og eigna skv. 1. gr. teljast þó ekki tekjur og eignir Byggðasjóðs, Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, Framkvæmdasjóðs Íslands, Framkvæmdasjóðs fatlaðra og Framkvæmdasjóðs aldraðra.

3. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein svohljóðandi:
    Þeir sjóðir, sem skattskyldir eru skv. 1. gr., skulu undanþegnir stimpilgjaldi af fjárskuldbindingum sem þeir kunna að taka á sig.

4. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirtalin lagaákvæði:
    29. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.
    6. gr. laga nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð.
    2. mgr. 5. gr. laga nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins.
    8. gr. laga nr. 62/1979, um Landflutningasjóð.
    16. gr. laga nr. 45/1987, um Stofnlánadeild landbúnaðarins.
    33. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála.
    36. gr. hafnalaga, nr. 69/1984.
    19. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
    6. gr. laga nr. 47/1970, um Útflutningslánasjóð.
    Í 77. gr. orkulaga, nr. 58/1967, falli niður orðið „Orkusjóður“.
    Jafnframt falla úr gildi önnur lagaákvæði sem undanþiggja sjóði, sem skattskyldir verða skv. 1. gr., skattskyldu.

5. gr.


    Lög þessi öðlast gildi frá og með 1. janúar 1992 og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 og eigna í lok þess árs, sbr. þó ákvæði 10. gr.

II. KAFLI

Ákvæði til bráðabirgða.

6. gr.

    Með skattframtali á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 og eigna í lok þess árs skulu aðilar, sem skattskyldir verða samkvæmt ákvæðum þessara laga en voru það ekki samkvæmt eldri lögum, framkvæma endurmat á þeim fyrnanlegu eignum, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem voru í eigu þeirra í byrjun þess árs.
    Endurmatið skal framkvæma þannig að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár. Kostnaðarverð, þannig framreiknað, myndar fyrningargrunn sem fyrning reiknast af, í fyrsta sinn á árinu 1992.
    Til frádráttar framreiknuðu stofnverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af stofnverðinu sem um getur í 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á, fyrir hvert ár frá og með kaup- eða byggingarári til ársloka 1991. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning en hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu stofnverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Mismunur fyrningargrunns, sbr. 2. mgr. þessa ákvæðis, og framreiknaðra fyrninga, sbr. 3. mgr., telst eftirstöðvar fyrningarverðs. Fyrningargrunnur og fengnar fyrningar breytast síðan árlega, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Ríkisskattstjóri skal reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem aðili skv. 1. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis hefur eignast á árunum 1977 til 1991. Stuðullinn reiknast í samræmi við ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 26. gr. sömu laga, með síðari breytingum. Hafi skattaðili eignast fyrnanlegar eignir skv. 1., 3., 4. eða 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, fyrir ársbyrjun 1977 skulu þær ekki endurmetnar samkvæmt þessu ákvæði. Þegar endurmetnar eru eignir skv. 2. tölul. greindrar 32. gr. sem verið hafa í eigu skattaðila í fimmtán ár eða lengur skal ríkisskattstjóri reikna stuðul til notkunar í því sambandi og skal hann hafa sömu viðmiðun og um getur í upphafi þessarar málsgreinar. Liggi byggingarvísitala ekki fyrir skal stuðullinn reiknaður eftir hliðstæðum upplýsingum og skal ríkisskattstjóri hafa samráð við Hagstofu Íslands við útreikninginn.
    Endurmatsverð mannvirkja, sbr. 2. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, er skattaðila heimilt að ákveða jafnt gildandi fasteignamati í árslok 1992 í stað framreiknaðs kostnaðarverðs (stofnverðs). Sé þessi heimild notuð myndar fasteignamatið nýjan fyrningargrunn. Sé fasteignamatið notað sem fyrningargrunnur samkvæmt þessari málsgrein reiknast ekki fyrningar skv. 3. mgr. fyrir liðinn tíma.
    Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má víkja frá skyldu til endurmats samkvæmt ákvæði þessu að því er varðar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og veitir ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika.
    Reglur þessa ákvæðis gilda einnig um endurmat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á.
    Aðilar skv. 1. mgr. þessa ákvæðis, sem eiga eignir í ársbyrjun 1992 sem ber að endurmeta, skulu senda skattstjóra, eigi síðar en með skattframtali 1993, greinargerð um endurmatið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Endurmatsbreyting samkvæmt þessu ákvæði telst ekki til tekna heldur færist í sérstakan reikning, endurmatsreikning, sem telst til eigin fjár.

7. gr.

    Við ákvörðun á söluhagnaði eigna, sem skattaðili skv. 1. mgr. 6. gr. hefur eignast fyrir árið 1992, skal stofnverð þeirra framreiknað eftir sömu verðbreytingarstuðlum og með sama hætti og endurmetið er skv. 6. gr., eftir því sem við á. Eftir þann tíma gilda ákvæði 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, um beitingu verðbreytingarstuðuls. Sé um sölu á fyrnanlegum eignum að ræða fer á sama hátt um framreikning fyrninga umræddra eigna.
    Þegar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem aðili eignaðist fyrir ársbyrjun 1977, eru seldar skal framreikna stofnverð þeirra frá kaupári til söluárs með verðbreytingarstuðli kaupárs og telst söluhagnaður þá mismunur á söluverði og 10% af þannig framreiknuðu stofnverði.
    Nú hefur ríkisskattstjóri veitt undanþágu frá endurmati eigna, sbr. 7. mgr. 6. gr., og telst þá söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári.

8. gr.

    Aðilar, sem skattskyldir verða samkvæmt lögum þessum, skulu reikna verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, í fyrsta sinn vegna ársins 1992 miðað við stöðu eigna og skulda í lok ársins 1991.

9. gr.

    Við mat á eignum í ársbyrjun 1992 skulu skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum draga 1% frá samanlögðum útlánum og veittum ábyrgðum í árslok 1991.

10. gr.

    Á árinu 1992 skulu aðilar, sem verða skattskyldir samkvæmt lögum þessum, greiða sérstaka fyrirframgreiðslu vegna væntanlegrar álagningar skatta samkvæmt lögum þessum. Kemur hún í stað fyrirframgreiðslu skv. 110. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Stofn sérstakrar fyrirframgreiðslu skal vera hagnaður viðkomandi aðila á árinu 1991, ákvarðaður í samræmi við góða reikningskilavenju. Skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu skila til skattstjóra fyrir 1. júlí 1992 greinargerð um hagnað ársins 1991. Skattyfirvöld skulu ákveða fyrirframgreiðsluskyldu samkvæmt lögum þessum og skal hún innt af hendi á tímabilinu ágúst til desember 1992 með fimm jöfnum greiðslum. Gjalddagi fyrirframgreiðslunnar er 15. dagur hvers mánaðar og eindagi 10 dögum síðar. Fyrirframgreiðsla hvers mánaðar skal nema 4% af stofni og skal hún ganga upp í álagningu á árinu 1993 vegna tekna ársins 1992.
    Komi í ljós við álagningu 1993 að skattskyldur aðili hafi greitt meira í fyrirframgreiðslu en nemur álögðum gjöldum samkvæmt lögum þessum skal ríkissjóður þegar endurgreiða það sem umfram er. Reynist álögð gjöld hærri en fyrirframgreiðsla skal það sem vangreitt er innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrsta hvers mánaðar það sem eftir lifir álagningarársins.
    Ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að því er varðar vanskil, viðurlög vegna vanskila, könnun á skilum, ákvörðun skila vegna vanrækslu eða vanskila á greinargerð, greiðsluskrár, kærufresti, úrskurði á kærum og áfrýjun þeirra, skulu gilda um fyrirframgreiðslu skv. 1. og 2. mgr. eftir því sem við á.
    Frá og með gjaldárinu 1993 skal fara um greiðslur aðila, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum þessum, eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Ákvæði þess kafla gilda einnig um innheimtu á mismun álagningar og fyrirframgreiðslu á árinu 1992 eftir því sem við getur átt.
    Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd fyrirframgreiðslu samkvæmt þessu ákvæði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 1988 var lagt fyrir 111. löggjafarþing Alþingis frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum. Það frumvarp var samþykkt sem lög frá Alþingi, sbr. lög nr. 99/1988, eftir að því hafði verið breytt nokkuð í meðförum þingsins. Í upphaflega frumvarpinu hafði verið gert ráð fyrir víðtækara skattskyldusviði en hlaut hljómgrunn við endanlega afgreiðslu Alþingis á því frumvarpi. Með ofangreindri lagabreytingu urðu veðdeildir bankanna skattskyldar. Hins vegar var frumvarpinu breytt þannig í meðförum þingsins að skattskyldusviðið náði ekki til opinberra fjárfestingarlánasjóða.
    Tekjur og eignir opinberra fjárfestingarlánasjóða, svo og stofnlánasjóða, hafa til þessa ekki verið skattskyldar til tekjuskatts og eignarskatts. Undanþáguákvæði þessi hafa allt frá gildistöku laga nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, verið nokkuð umdeild, ekki hvað síst eftir að veðdeildir bankanna urðu skattskyldar með framangreindum lögum, nr. 99/1988, enda hafa þau í för með sér augljósa skattalega mismunun. Í kjölfar þeirra breytinga á lánastarfsemi, sem rutt hafa sér til rúms á liðnum árum, hefur þessi mismunun aukist.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að opinberir fjárfestingarlánasjóðir, aðrir en þeir sem um ræðir í 2. gr., verði skattskyldir með sama hætti og bankar og sparisjóðir. Meginmarkmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu lánastofnana í þessum efnum, jafnframt því sem breyting þessi er í samræmi við þá stefnu sem verið hefur við lýði frá því staðgreiðsla opinberra gjalda var lögtekin í ársbyrjun 1987, að breikka skattstofna og fækka undanþágum og með því auka jafnræði í skattlagningu, jafna samkeppnisaðstöðu og auka hagræðingu við alla skattaframkvæmd og mynda þannig forsendur til að lækka almenn skatthlutföll. Breytingunni er að auki ætlað að auðvelda framkvæmd og eftirlit með skattheimtu. Að öðru leyti vísast til athugasemda við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni felst að opinberir fjárfestingarlánasjóðir, þar með taldir stofnlánasjóðir, verði með þeim takmörkunum, sem um ræðir í 2. gr., skattskyldir samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, á sama hátt og viðskiptabankar og sparisjóðir. Með hugtakinu opinber fjárfestingarlánasjóður er í frumvarpi þessu átt við sjóði, stofnanir eða fyrirtæki sem eru stofnuð með lögum eða með heimild í þeim í því skyni að veita fjárfestingarlán til atvinnugreina eða opinberra framkvæmda og undanþegin hafa verið tekjuskatti og eignarskatti til þessa.
    Samkvæmt núgildandi lögum eru stofnanir þessar yfirleitt undanþegnar skattskyldu með tvennum hætti. Annars vegar skv. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 2. gr. laga nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum, og hins vegar samkvæmt sérstökum ákvæðum í sérlögum er undanþiggja einstakar stofnanir af þessu tagi opinberum gjöldum og sköttum.
    Verði ofangreint frumvarp að lögum mun 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki lengur ná til þeirra opinberu fjárfestingarlánasjóða sem notið hafa skattfrelsis með vísan til þess ákvæðis. Einnig munu falla úr gildi ákvæði í sérlögum sem undanþiggja einstaka sjóði skattskyldu. Af því leiðir að þeir verða skattlagðar eftir sömu reglum og gilda um innlánsstofnanir samkvæmt lögum nr. 65/1982, sbr. lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og gilda ákvæði þeirra að öllu leyti um skattlagninguna eftir því sem við á.
    Sem dæmi um sjóði sem skattskyldir verða, má nefna Orkusjóð, Hafnabótasjóð, Ferðamálasjóð, Fiskveiðasjóð, Fiskræktarsjóð, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóð Íslands, Iðnþróunarsjóð, Landflutningasjóð og Lánasjóð sveitarfélaga.
    Rétt er að vekja athygli á því að ákvæði þessa frumvarps hafa hvorki áhrif á gildandi lagaákvæði um skattfrelsi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, lífeyrissjóða né opinberra tryggingar- og jöfnunarsjóða sem njóta skattfrelsis samkvæmt svipuðum lagaheimildum og minnst er á hér að framan. Má í þessu sambandi nefna tryggingarsjóð sparisjóða og viðskiptabanka, opinbera verðjöfnunarsjóði o.s.frv. Hér er ekki um að ræða opinbera fjárfestingarlánasjóði eins og þeir eru skilgreindir í frumvarpi þessu og því tekur skattskyldan ekki til þeirra séu þeir undanþegnir skv. 4. gr. tekjuskattslaga eða sérlögum sem um þá kunna að gilda.
    Það skal sérstaklega tekið fram að með lagabreytingunni er í engu verið að þrengja núgildandi skattskyldusvið, heldur er eingöngu um útvíkkun á því að ræða.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að Framkvæmdasjóður Íslands, Ríkisábyrgðasjóður, Byggðasjóður, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna, Framkvæmdasjóður aldraðra og Framkvæmdasjóður fatlaðra verði undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum vegna séreðlis þessara sjóða miðað við þá sjóði sem skattskyldir verða skv. 1. gr. Hér er um tæmandi talningu að ræða á þeim opinberu fjárfestingarlánasjóðum sem undanþegnir eru skattskyldu.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um það að þeir sjóðir, sem lögin taka til, skuli undanþegnir stimpilgjaldi af eigin lántökum. Sjóðir þeir, sem lögin taka til, eru almennt samkvæmt gildandi lögum undanþegnir stimpilgjaldi af eigin lántökum. Í sumum tilvikum er samkvæmt gildandi lögum um einstaka sjóði einnig kveðið á um undanþágu frá stimpilgjaldi varðandi lántökur úr sjóðunum. Þær undanþágur falla niður með lögum þessum. Er það í samræmi við þá stefnu að fækka skattundanþágum til þess að jafna samkeppnisaðstöðu og auka jafnræði lánastofnana.

Um 4. gr.


    Hér eru felld úr gildi einstök undanþáguákvæði. Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða, sbr. 10. tölul. greinarinnar. Ákvæði þetta er sett ex tuto og er fyrst og fremst byggt á lagatæknilegum sjónarmiðum.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6.–10. gr.


    Þar sem í frumvarpi þessu felst skattlagning á stofnanir og fyrirtæki, sem ekki hafa áður sætt skattlagningu og hafa því e.t.v. ekki hagað bókhaldi sínu og uppgjöri í samræmi við ákvæði skattalaga, er nauðsynlegt að setja ákvæði um endurmat, fyrningarstofn og stofn til söluhagnaðar vegna þeirra eigna sem þessir aðilar hafa eignast fyrir gildistöku laga samkvæmt frumvarpi þessu. Sama á við um stofn til verðbreytingarfærslu. Ákvæði 6.–9. gr. eru efnislega samhljóða þeim bráðabirgðaákvæðum sem sett voru við gildistöku laga nr. 65/1982, svo og núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, og vísast til þeirra um skýringar.
    Í 10. gr. er gert ráð fyrir fyrirframgreiðsluskyldu og skal fyrirframgreiðsla fara fram í ágúst til desember 1992. Því er fyrirframgreiðslunni í reynd flýtt. Þannig er ekki gert ráð fyrir að þeir aðilar, sem verða skattskyldir samkvæmt lögum þessum, inni af hendi frekari fyrirframgreiðslu á árinu 1993. Vakin er athygli á því að fyrirframgreiðsluhlutfallið er 4% sem er lágt miðað við það að gildandi skatthlutfall er 45%. Rökin fyrir þessu eru fyrst og fremst þau að gert er ráð fyrir að hið almenna skatthlutfall verði lækkað í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum.