Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 302 . mál.


490. Frumvarp til laga



um stöðvun verkfalls fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands utan Vestfjarða, svo og Vélstjórafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. lögjafarþingi 1993–94.)



1. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd þriggja manna. Nefndin skal gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum. Nefndin skal skila tillögum sínum sem fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 1994.

2. gr.

    Allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til skulu gilda frá gildistöku laga þessara til 15. júní 1994 nema aðilar semji um annað.

3. gr.

    Vinnustöðvanir þær sem lög þessi taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar.

4. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast að öðru leyti til meðfylgjandi fylgiskjals.


Fylgiskjal.

BRÁÐABIRGÐALÖG

um stöðvun verkfalls fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og

Farmanna- og fiskimannasambands Íslands utan Vestfjarða, svo og Vélstjórafélagi

Íslands, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Sjávarútvegsráðherra hefur tjáð mér að félagsmenn á fiskiskipaflotanum í flestum aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands utan Vestfjarða, svo og félagsmenn í Vélstjórafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, hafi hafið vinnustöðvun dagana 2.–5. janúar sl. Ríkissáttasemjari hafi tjáð ríkisstjórninni að ítrekaðar sáttatilraunir hafi reynst árangurslausar og engar horfur séu taldar á lausn vinnudeilunnar í bráð. Vinnudeilan valdi víðtæku atvinnuleysi meðal annarra launþega en þeirra er í verkfalli eru. Haldi vinnudeila þessi áfram muni hún hafa í för með sér mikinn skaða fyrir atvinnulíf landsmanna og óbætanlegt tjón fyrir þjóðarbúið í heild.
    Því telji ríkisstjórnin að brýna nauðsyn beri til að koma í veg fyrir frekari stöðvun fiskiskipaflotans og leggja grunn að því með hvaða hætti endi verði bundinn á deilu þessa.
    Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið:

1. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd þriggja manna. Nefndin skal gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum. Nefndin skal skila tillögum sínum sem fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 1994.

2. gr.

    Allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til skulu gilda frá gildistöku laga þessara til 15. júní 1994 nema aðilar semji um annað.

3. gr.

    Vinnustöðvanir þær sem lög þessi taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar.

4. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Reykjavík, 14. janúar 1994.

Vigdís Finnbogadóttir.

(L. S.)

________________
Þorsteinn Pálsson.