Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 430 . mál.


642. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum nr. 30/1993, um neytendalán.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    Nýr stafliður, c-liður, bætist við, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Lánssamningar þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur almenningi ekki til boða.
    G-liður, sem verður h-liður, orðast svo: Lánssamningar sem eru gerðir í því skyni að stofna til eða viðhalda eignarrétti yfir fasteignum eða til að endurgera eða bæta við fasteign.
    Ný málsgrein, 2. mgr., bætist við, svohljóðandi:
                  Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um samninga sem gerðir eru í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem með skiptingu fjárhæðar á fleiri en einn lánssamning.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Í stað orðanna „heimildir til fyrirframúttektar“ í 1. mgr. kemur: yfirdráttarheimildar.
    Í stað orðanna „áður en gengið er frá samningnum“ í 1. mgr. kemur: í upphafi viðskipta.
    Í stað orðsins „ársvextir“ í b-lið kemur: vextir.
    D-liður orðast svo: Hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum. Í þeim tilvikum skal neytandi upplýstur um það með hvaða hætti breytingar verða tilkynntar honum. Slíkt má gera með því að vekja sérstaka athygli á breytingunni í reikningsyfirliti, með auglýsingum í fjölmiðlum eða á annan sambærilegan hátt.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    A-liður orðast svo: Neytandi er einstaklingur sem á lánsviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
    F-liður orðast svo: Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

4. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þegar lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal höfuðstóll lánsins jafngilda staðgreiðsluverði vörunnar eða þjónustunnar. Ef einungis hluti af andvirði vörunnar eða þjónustunnar er lánaður skal draga útborgunina frá höfuðstól.
    Í stað orðanna „Árlega nafnvexti“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: Vexti.
    Í stað orðsins „Lántökukostnað“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: Heildarlántökukostnað.
    Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, 9. tölul., er orðast svo: Heimild til að greiða fyrir lokagjalddaga, sbr. 16. gr.
    Í stað orðanna „árlegir nafnvextir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: vextir.

5. gr.


    7. gr. laganna breytist þannig að 1. málsl. 1. mgr. verður 1. mgr., 2. málsl. 1. mgr. verður 2. mgr. og 2. mgr. verður 3. mgr.
    Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur: 2. mgr.

6. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
    Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar skal mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur.

7. gr.


    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

8. gr.


    1. og 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
    Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.

9. gr.


    16. gr. laganna orðast svo:
    Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu eða lækkunar á gjöldum sem eru óháð því hvenær greiðsla er innt af hendi.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um greiðslu sem innt er af hendi fyrir gjalddaga þegar hún tengist ekki uppgreiðslu láns fyrir umsaminn lokagjalddaga eða annarri breytingu á umsömdum afborgunum láns.

10. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
    Í stað orðsins „kröfu“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: kröfurétt sinn samkvæmt láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum.
    Í stað orðsins „og“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: eða.
    3. mgr. orðast svo:
                  Ef neytandi á kröfu á hendur lánveitanda, sem jafnframt er seljandi, vegna kaupa, t.d. vegna galla, er framsalshafi meðábyrgur lánveitanda.

11. gr.


    18. gr. laganna orðast svo:
    Seljandi, sem veitir neytanda lán samkvæmt lögum þessum í formi viðskiptabréfs, skal taka tryggingu vegna hugsanlegrar vanefndakröfu neytanda vegna þeirra viðskipta sem að baki viðskiptabréfi standa.
    Tryggingarfjárhæð innan hvers tryggingartímabils, sem er eitt ár, skal nema 5.000.000 kr. Neytandi skal gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár innan eins árs frá afhendingu vöru eða þjónustu. Séu kröfuhafar fleiri en einn fer um rétt þeirra til tryggingarfjárins eftir röð krefjenda. Að gengnum fullnaðardómi eða að gerðri réttarsátt um vanefnd og þegar ljóst er að seljandi getur ekki efnt skyldu sína samkvæmt dóminum eða sáttinni skal neytanda greitt af tryggingarfénu.
    Ráðherra skal setja nánari ákvæði um tryggingarskylduna, gildissvið tryggingarinnar, hverjir veitt geti tryggingu og skilmála í reglugerð. Í henni má einnig kveða á um lægri tryggingarfjárhæð en greinir í 2. mgr. þegar umfang viðskipta er það takmarkað að lægri tryggingarfjárhæð veitir nægjanlega vernd.
    Nú hefur seljandi ekki gilda tryggingu samkvæmt grein þessari og getur kaupandi þá borið fram mótbárur svo sem bréfið væri ekki viðskiptabréf.

12. gr.


    21. gr. laganna orðast svo:
    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

13. gr.


    Í stað orðanna „fjárhæðarmörkum lánssamninga sem lög þessi taka til“ í 23. gr. laganna kemur: fjárhæðum í lögum þessum.

14. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á VII. kafla laganna:
    Við bætist ný grein, 25. gr., er orðast svo:
                  Samkeppnisstofnun annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Um meðferð mála hjá samkeppnisyfirvöldum fer samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga að öðru leyti en því að ákvörðunum samkeppnisráðs um dagsektir verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
    Við bætist ný grein, 26. gr., er orðast svo:
                  Samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara. Banni má fylgja ákvörðun um dagsektir sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.
                  Áður en til banns kemur skv. 1. mgr. getur Samkeppnisstofnun lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem bann skv. 1. mgr.
    Núgildandi 25.–26. gr. verða 27.–28. gr.
    Fyrirsögn kaflans verður: Bótaskylda, eftirlit og gildistaka.

15. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þegar lögin hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 30/1993, um neytendalán, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 30/1993, um neytendalán, voru samþykkt á Alþingi í apríl 1993. Þau tóku gildi 1. október 1993. Megintilgangur laganna er að tryggja neytendum, sem taka lán í tengslum við kaup á vöru og þjónustu, ákveðin lágmarksréttindi og ákveðnar lágmarksupplýsingar áður en þeir taka ákvörðun um lántökuna. Setning laganna var liður í aðlögun íslenskrar löggjafar að evrópskum rétti í tengslum við aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði.
    Við gildistöku laga nr. 30/1993 1. október 1993 komu strax í ljós ýmis vandkvæði við framkvæmd þeirra. Skipta þar mestu máli óljós ákvæði 18. gr. laganna um tryggingu vegna vanefndakrafna í tengslum við framsal viðskiptabréfa. Þá er notkun hugtaka í ýmsum ákvæðum laganna ónákvæm og ekki að fullu samræmd innan laganna. Hefur það meðal annars valdið vandkvæðum við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Einnig má nefna að ákvæði vantar um eftirlit með framkvæmd laganna. Loks er ráðherra ekki veitt almenn heimild til að útfæra nánar ákvæði laganna en í ljós hefur komið að full þörf er á slíkri heimild.
    Viðskiptaráðuneytið fól starfshópi í byrjun nóvember 1993 að fara yfir þau ákvæði laganna sem valdið hafa vandkvæðum í framkvæmd frá því að þau tóku gildi. Í starfshópnum voru Benedikt Guðbjartsson lögfræðingur, fyrir hönd banka og sparisjóða, Jónas Fr. Jónsson hdl., fyrir hönd Verslunarráðs Íslands, María Thejll hdl., fyrir hönd Íslenskrar verslunar, Sigurjón Heiðarsson lögfræðingur, fyrir hönd Samkeppnisstofnunar, Sólrún Halldórsdóttir hagfræðingur, fyrir hönd Neytendasamtakanna, og Finnur Sveinbjörnsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, og var hann jafnframt formaður hópsins. Gunnar Viðar, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, starfaði með hópnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í gildandi lögum er kveðið á um vildargjörninga á tveimur stöðum, í b-lið 2. gr. og 21. gr. Hér er lagt til að ákvæði 21. gr. verði tekið inn í 2. gr. laganna þannig að kveðið verði á um undanþágur frá lögunum á einum stað í upphafi þeirra.
    Ákvæði g-liðar 2. gr. laganna hefur valdið nokkrum vafa. Hafa þeir sem selja vörur sem nota á við endurbætur á fasteignum, svo sem teppi eða parket, talið lánveitingar í því skyni falla utan við gildissvið laganna. Engin efnisrök eru hins vegar til að gera undantekningu að því er þessi tilvik varðar. Ætlunin með þessu ákvæði frumvarpsins er að kveða skýrar á um það að eingöngu er verið að undanskilja lánsviðskipti þegar um fjármögnun á kaupum eða nýsmíði fasteigna er að ræða. Einnig þykir eðlilegt að undanskilja þau tilvik sem eru í eðli sínu svipuð, þ.e. ef um er að ræða miklar endurbætur eða viðauka við fasteign, þannig að verðmæti þeirra aukist svo miklu nemi eða yfirbragð fasteignar breytist. Þannig eru undanskilin ákvæðum laganna lán til að bæta herbergi eða bílskúr við byggingu eða til að endurbyggja efstu hæð og þak. Hins vegar mundi lán til að endurnýja innréttingar eða til að annast eðlilegt viðhald að innan eða utan ekki vera undanskilið ákvæðum laganna.
    Nokkur hætta er á að menn reyni að losna undan íþyngjandi ákvæðum laganna með ýmsum aðferðum. Með ákvæði c-liðar er leitast við að stemma stigu við þessu og nefnd sem dæmi augljósasta leiðin sem er að skipta fjárhæð á fleiri en einn lánssamning eða viðskiptabréf.

Um 2. gr.


    Hugtakið „heimild til fyrirframúttektar“ er óalgengt hér á landi og því er lagt til að hugtakið „yfirdráttarheimild“ verði notað í staðinn.
    Samningar um yfirdráttarheimildir eru iðulega framlengdir oftar en einu sinni og samningsfjárhæð jafnvel breytt. Þetta gerist oft símleiðis. Þykir eðlilegt að þær upplýsingar, sem kveðið er á um í greininni, séu veittar í upphafi viðskipta en ekki í hvert sinn sem samningurinn er framlengdur eða honum breytt. Til að taka af öll tvímæli er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt.
    Í gildandi lögum eru notuð ýmis hugtök yfir vexti, t.d. ársvextir í b-lið 3. gr., árlegir nafnvextir í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. og vextir í 1. mgr. 7. gr. Nú er lagt til að notkun hugtaka verði samræmd þannig að hugtakið vextir verði notað alls staðar. Þar er þá átt við vaxtafót lánsins, hvort sem um er að ræða óverðtryggt eða verðtryggt lán. Ef þörf krefur má útfæra vaxtahugtakið betur í reglugerð.
    Í 4. mgr. er lagt til að tvær efnislegar breytingar verði gerðar á ákvæðinu. Í fyrsta lagi að neytanda sé tilkynnt við upphaf viðskipta hvort vextir og umsamin gjöld geti tekið breytingum á samningstímanum og þá með hvaða hætti honum verður tilkynnt um slíkar breytingar. Ekki er kveðið á um þetta í núgildandi lögum heldur aðeins hvernig tilkynningum um breytingar skuli háttað. Varðandi tilkynningarskylduna er lagt til að auglýsing í fjölmiðlum þurfi ekki að vera áberandi eins og tekið er fram í gildandi lagaákvæði, enda ávallt matsatriði hvað telst vera áberandi auglýsing.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að skilgreining á hugtakinu „neytandi“ verði einfölduð án þess að þar sé um efnisbreytingu að ræða.
    Í 2. mgr. er lagt til að í skilgreiningu á eignarréttarfyrirvara komi skýrt fram að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast hefur. Í gildandi lagaákvæði er þetta hins vegar ekki tekið fram.

Um 4. gr.


    Fram hefur komið mismunandi skilningur á því hvort við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og frágang lánssamninga skuli miðað við staðgreiðsluverð eða afborganaverð. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar skiptir miklu máli við hvort verðið er miðað. Þannig verður hún hærri ef notað er staðgreiðsluverð og lántökukostnaður tiltekinn sérstaklega en ef notað er afborganaverð, þ.e. staðgreiðsluverð að meðtöldum lántökukostnaði. Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um það að höfuðstóll skuli miðaður við staðgreiðsluverð þegar um er að ræða lánveitingu í tengslum við kaup á vöru eða þjónustu. Með staðgreiðsluverði er átt við uppgefið verð á vöru, hvort heldur er á sölustað eða í auglýsingu, sem neytanda býðst vara almennt á gegn greiðslu í reiðufé. Ákvæði þetta takmarkar þó á engan hátt að samið sé um staðgreiðsluafslátt í einstökum tilvikum. Samkvæmt þessu á lántökukostnaður ávallt að koma sérstaklega fram en ekki vera innfalinn í verði vöru eða þjónustu. Sama regla gildir ef hluti vöru er greiddur en eftirstöðvar lánaðar.
    Um athugasemdir við 2. mgr. vísast til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.
    Með breytingunni í 3. mgr. er verið að samræma notkun hugtaka í 6. gr. laganna.
    Hvað varðar 4. mgr. þykir eðlilegt að neytanda skuli veittar upplýsingar um rétt sinn til að greiða fyrir gjalddaga skv. 16. gr. laganna. Samkvæmt gildandi lagaákvæði er þess hins vegar ekki þörf.
    Um athugasemdir við 5. mgr. vísast til athugasemda við 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 5. gr.


    Af orðalagi 1. málsl. 1. mgr. er ljóst að málsgreinin hefur í raun átt að vera tvær málsgreinar. Hér er lagt til að þau mistök verði leiðrétt.

Um 6. gr.


    Árleg hlutfallstala kostnaðar er í rauninni sá vaxtafótur sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda, sem oftast felast í útborgun höfuðstólsins þegar lán er tekið, og greiðsluskuldbindingum neytanda, sem felast í greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda á lánstímanum. Núvirði skiptir máli þar sem lánveiting og afborgun láns og greiðsla vaxta falla til á ólíkum tíma. Þetta hugtak hefur einnig verið nefnt virkir vextir. Þetta er ekki ljóst af núgildandi orðalagi ákvæðisins. Jafnframt er lagt til að niður falli ákvæði um að í reglugerðinni um stærðfræðilíkingu skuli settar nánari reglur um útreikning kostnaðar, enda ákvæðið óþarft í ljósi þess að í 12. gr. er lagt til að við lögin bætist almenn reglugerðarheimild.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara. Hugtakið verðtrygging er notað í víðtækri merkingu þannig að það nær til hvers konar verðtryggingar sem heimiluð er hér á landi.

Um 8. gr.


    Í núgildandi 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að ef vextir eru ekki tilgreindir skuli þeir vera hinir sömu og vextir af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Þetta stríðir gegn þeirri meginreglu vaxtalaga að vextir skuli einungis reiknaðir ef um þá er samið. Ákvæðið er einnig í andstöðu við almennar reglur kröfuréttar. Því er lagt til að sú breyting verði á ákvæðinu að ef ekki er kveðið á um vaxtatöku í lánssamningi þá skuli vextir ekki reiknaðir af láninu. Sama gildir um annan lántökukostnað.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að lagt er til að orðalag 2. málsl. verði skýrara en í núgildandi lögum.

Um 9. gr.


    Í lögunum eru neytanda tryggð þau réttindi að geta greitt af láni sínu hraðar en kveðið er á um í lánssamningi. Í þeim tilvikum getur hann krafist lækkunar á lánskostnaði sem svarar til þess sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort lán er greitt upp fyrir lokagjalddaga eða greitt er meira en umsaminni afborgun nemur, þannig að eftirstöðvar lækki frá því sem gert er ráð fyrir í lánssamningi. Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara með því að fella brott hugtakið lausnardagur. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að neytandi eigi rétt á lækkun lánskostnaðar í stað þess að hann geti krafist lækkunarinnar eins og gert er ráð fyrir í núgildandi ákvæði. Þar með ber lánveitanda að veita neytandanum þessa lækkun án þess að neytandinn þurfi sértaklega að óska eftir henni.
    Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein. Með henni er verið að taka af allan vafa um að ákvæði 1. mgr. eigi einungis við þegar greiðsla neytanda verður til þess að breyting verður á umsömdum afborgunum láns, annaðhvort að þær falli niður í þeim tilvikum þegar lán er greitt upp fyrir lokagjalddaga eða lækki í þeim tilvikum að greitt er „inn á skuld“. Þannig gildir ákvæðið ekki um þau tilvik þegar neytandi greiðir af láni nokkrum dögum fyrir reglulegan gjalddaga án þess að breytingar séu gerðar á þeim afborgunum sem eftir eru.

Um 10. gr.


    Hér er lagt til að orðalagi fyrri málsliðar 17. gr. laganna verði breytt þannig að það fari ekki á milli mála að það taki ekki til framsals á öllum kröfum lánveitanda til þriðja aðila heldur einungis framsals á kröfurétti samkvæmt láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum, þ.e. neytendaláni.
    Í 2. mgr. eru lagðar til tvær breytingar á 3. mgr. 17. gr. laganna. Annars vegar er fellt niður orðalagið „þar til uppgjör hefur farið fram“, en það þykir bæði óljóst og óþörf viðbót við ákvæðið. Þá er felldur niður síðari málsliður 3. mgr. 17. gr., en ekki er að fullu ljóst hvað í honum felst. Hugsanlegt er að í stað orðsins „lánveitandi“ hafi átt að standa „framsalshafi“. Í fyrri málslið ákvæðisins er hins vegar kveðið skýrt á um meðábyrgð seljanda og framsalshafa og því óeðlilegt að ábyrgð þess síðarnefnda sé síðan takmörkuð. Því er lagt til að málsliðurinn falli brott.

Um 11. gr.


    Í frumvarpinu sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi og varð að lögum um neytendalán var gert ráð fyrir að neytendalán með viðskiptabréfum heyrðu sögunni til. Alþingi féllst ekki á þetta sjónarmið. Ekki þótti heldur rétt að breyta alfarið þeim almennu reglum sem gilda um viðskiptabréf og var því kveðið á um að viðskiptabréf skyldu undanþegin ákvæði 17. gr. laganna um möguleika neytanda til að halda uppi mótbárum við framsalshafa og meðábyrgð framsalshafa og lánveitanda. Þess háttar aðskilnaður er forsenda fyrir því að bankar og aðrar lánastofnanir vilji kaupa viðskiptabréf af seljendum vöru og þjónustu. Til að tryggja rétt neytenda var hins vegar ákveðið að seljendur vöru eða þjónustu, sem veita lán í formi viðskiptabréfa, skuli taka tryggingu til að mæta hugsanlegum vanefndakröfum neytenda vegna þeirra viðskipta sem að baki slíkum bréfum standa.
    Ákvæðið hefur valdið nokkrum vandkvæðum í framkvæmd, fyrst og fremst vegna þess að það þarfnast nánari útfærslu. Sökum þess að almenna reglugerðarheimild skortir í lögin hefur það ekki reynst unnt. Þá stóðu tryggingar af þessu tagi seljendum vöru og þjónustu ekki til boða þegar lögin tóku gildi því bankar og vátryggingarfélög biðu eftir nánari útfærslu á ákvæðinu. Vegna þess að tryggingar skorti treystu bankar, sparisjóðir og aðrir sem kaupa viðskiptabréf af seljendum vöru og þjónustu sér ekki til að halda slíkum kaupum áfram eftir gildistöku laganna. Nú standa tryggingar af þessu tagi til boða en skilmálar þeirra byggjast að nokkru leyti á því að getið sé í eyður lagaákvæðisins. Hér er lagt til að ákvæðið verði gert skýrara. Það er sérstaklega mikilvægt að meginatriðum tryggingarinnar sé lýst í lögunum sjálfum þar sem hliðstætt ákvæði er ekki í löggjöf annarra ríkja um neytendalán svo vitað sé.
    Í 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er tekið fram að ákvæðið eigi aðeins við þegar seljandi veitir neytanda lán í formi viðskiptabréfs. Ef lánið er í öðru formi, t.d. sem kaupsamningur, gildir ákvæði 17. gr. Ákvæði 17. gr. gildir einnig þegar lán er veitt í formi viðskiptabréfs og ekki er til staðar trygging. Komi til framsals viðskiptabréfs undir slíkum kringumstæðum er framsalshafi meðábyrgur framseljanda. Í þessu felst breyting á meginreglu viðskiptabréfaréttar en samkvæmt henni glatast mótbáruréttur við framsal viðskiptabréfs.
    Með ákvæði 4. mgr. er verið að koma í veg fyrir að neytendur njóti mismunandi verndar eftir því hvort lánveitandi, sem jafnframt er seljandi, framselur viðskiptabréf til þriðja aðila eða ekki. Geri hann það ekki er samkvæmt núgildandi lögum engin leið til að hafa eftirlit með því hvort viðkomandi hefur gilda tryggingu eða ekki. Með þeirri reglu, sem hér kemur fram, ætti að vera hagkvæmt fyrir seljanda að hafa í gildi tryggingu samkvæmt ákvæðinu því ef trygging er ekki fyrir hendi lýtur bréfið ekki reglum um viðskiptabréf. Hagur neytandans ætti því að vera tryggur í hvoru tilfelli sem er. Með reglu þessari er ljóst að verið er að víkja frá meginreglum sem gilda um viðskiptabréf þar sem unnt verður að hafa uppi mótbárur sem lotið geta að viðskiptum þeim sem að baki bréfunum standa. Ef seljandi framselur bréfið koma ákvæði 4. mgr. 17. gr. einnig til skjalanna. Í þessu sambandi skal bent á að breyting þessi ætti aðeins að ná til lítils brots af þeim viðskiptabréfum sem í umferð eru á hverjum tíma og aðeins í þeim tilfellum að trygging sé ekki fyrir hendi. Ef lánveitandi samkvæmt viðskiptabréfi hefur gilda tryggingu samkvæmt lögunum breytast reglur um þær mótbárur sem hafa má uppi ekki að neinu leyti og gildir þá einu hvort lánveitandi heldur bréfi í sínum vörslum eða framselur það þriðja manni.
    Í 2. mgr. er kveðið á um meginatriði tryggingarinnar. Tryggingartímabilið er eitt ár og skulu kröfur koma fram innan árs frá lokum tryggingartímabilsins. Það er nauðsynlegt vegna þeirrar almennu reglu kaupalaga að gallar skuli bættir komi þeir fram innan árs frá kaupum. Tryggingin skal gilda fyrir eitt ár í senn. Verði kröfur greiddar gengur á tryggingarfjárhæðina í þeirri röð sem kröfur koma fram. Rétt er að benda á að ekki er lögbundið að hér sé um vátryggingu að ræða. Því getur greiðslutrygging frá banka einnig komið til greina. Gert er ráð fyrir að greiðsluskylda þess er veitir trygginguna vakni þegar tveimur skilyrðum hefur verið fullnægt, annars vegar að gengið hafi fullnaðardómur eða verið gerð réttarsátt um vanefnd seljanda og hins vegar að ljóst sé að seljandi geti ekki efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt þeim dómi. Með fullnaðardómi er átt við að fengist hafi niðurstaða í Hæstarétti eða í héraði og þeim dómi verði ekki áfrýjað. Einnig verður að telja rétt, ef bú seljanda hefur þegar verið tekið til skipta, að yfirlýsing skiptastjóra um að krafa sé samþykkt eða að búið sé eignalaust nægi í þessu tilfelli. Ef árangurslaus aðfarargerð hefur farið fram hjá seljanda verður að telja að ljóst sé orðið að hann geti ekki efnt skyldu sína í merkingu laganna. Ákvæði þessarar greinar breyta því að sjálfsögðu ekki að sá er tryggingu veitir getur samþykkt að greiða þrátt fyrir að skilyrðum greinarinnar sé ekki fullnægt, til dæmis í því tilfelli að tryggjandi samþykki að galli sé fyrir hendi og að ljóst sé orðið að seljandi sé orðinn ógjaldfær.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvæði núgildandi laga um heimild til að lækka tryggingarfjárhæðina gildi áfram. Við mat á umfangi viðskipta er eðlilegt að litið verði til umfangs lánsviðskipta í formi viðskiptabréfa.

Um 12. gr.


    Í gildandi lögum er ekki að finna almennt reglugerðarákvæði. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði laganna um að breyta megi fjárhæðarmörkum lánssamninga í samræmi við verðlagsþróun verði rýmkað þannig að það nái til allra fjárhæða í lögunum, þar með taldar tryggingar til að mæta hugsanlegum vanefndakröfum. Heimild til að hækka tryggingarfjárhæðina í samræmi við breytingu á verðlagi er nú í 18. gr. laganna en eðlilegt þykir að kveðið sé á um verðtryggingu fjárhæða í lögunum á einum stað.

Um 14. gr.


    Í gildandi lögum er kveðið á um að brot á þeim geti valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar. Ákvæðið tók breytingum í meðförum Alþingis því að í frumvarpinu að lögunum var gert ráð fyrir sérrefsiákvæðum og málsmeðferð að hætti opinberra mála. Báðar þessar leiðir eru þungar í vöfum. Nú er lagt til að farin verði önnur leið. Lagt er til að Samkeppnisstofnun verði falið að hafa eftirlit með ákvæðum laganna. Jafnframt er lagt til að samkeppnisráð fái heimild til að beita þá aðila dagsektum sem brjóta gegn ákvæðum þeirra. Er þetta sams konar ákvæði og í samkeppnislögum. Þó er lagt til að fjárhæðarmörk dagsekta verði lægri en í samkeppnislögum eða 10.000–100.000 kr. samanborið við 50.000–500.000 kr. í samkeppnislögunum. Jafnframt er lagt til að sama málsmeðferð gildi um brot gegn ákvæðum laga um neytendalán og gilda um brot gegn ákvæðum samkeppnislaga með þeirri undantekningu að ákvörðunum samkeppnisráðs verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hvort tveggja þykir eðlilegt í ljósi þess að brot gegn ákvæðum laga um neytendalán verða tæplega jafnalvarlegs eðlis og brot gegn ákvæðum samkeppnislaga. Rétt er að taka fram að tillaga frumvarpsins kemur ekki í veg fyrir að neytendur geti krafist skaðabóta eftir almennum reglum fyrir það tjón sem þeir telja sig hafa orðið fyrir.

Um 15. gr.


    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til fjölmargar breytingar á lögunum um neytendalán og þau lög varða neytendur sem og seljendur vöru og þjónustu miklu þykir eðlilegt að leggja til að lögin verði gefin út að nýju þegar þeim hefur verið breytt.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 30/1993, um neytendalán.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að laga ýmsa af þeim göllum sem fram hafa komið á lögum nr. 30/1993, um neytendalán. Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.