Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 295 . mál.


883. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem felur í sér að sveitarfélögum verði veitt heimild til að koma á fót öldrunarmálaráði sem hafi með höndum stjórn málefna aldraðra. Öldrunarmálaráð heyri beint undir sveitarstjórn og verði því hliðstætt félagsmálanefndum eða -ráðum en ekki undirnefnd þeirra.
    Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun um málið Guðmund Árna Stefánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og Hjörleif B. Kvaran, framkvæmdastjóra lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar. Þá studdist nefndin við umsagnir frá borgarráði Reykjavíkurborgar, bæjarstjórn Akureyrar, bæjarráði Egilsstaðabæjar, bæjarstjórn Kópavogs, hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps, félagsmálastjóra Akureyrarbæjar, Sveini H. Ragnarssyni, félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, yfirmanni öldrunarþjónustudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, Sigrúnu Karlsdóttur, forstöðumanni heimaþjónustusviðs Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, Heilsugæslustöð Kópavogs, Heilsugæslustöðinni í Reykjavík, Heilsugæslustöðinni Seltjarnarnesi, Jóni Eyjólfi Jónssyni og Jóni Snædal, læknum á öldrunarlækningadeild Landspítalans, Páli Gíslasyni, lækni og borgarfulltrúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þór Halldórssyni, yfirlækni öldrunarlækningadeildar Landspítalans, og öldrunarnefnd Kópavogs.
    Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í umfjöllun sinni að nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, samhliða frumvarpi þessu. Frumvarpið var því sent félagsmálanefnd til umsagnar sem komst að þeirri niðurstöðu að gera þyrfti þær breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hér eru lagðar til.
    Nefndin mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Efnisbreytingar, sem lagðar eru til, eru eftirfarandi.
    Lagt er til að samstarfsráð heilsugæslustöðva verði tiltekið í ákvæðinu í stað heilbrigðismálaráðs þar sem hið síðarnefnda hefur aldrei starfað í Reykjavík, en samstarfsráð heilsugæslustöðva sinnir í raun þessu lögbundna hlutverki. Þá er lagt til að bætt verði við nýrri grein, er verði 5. gr. a, þar sem kveðið er sérstaklega á um öldrunarmálaráð. Þar er kveðið nánar á um en gert hafði verið í frumvarpinu hvernig öldrunarmálaráð skuli skipað. Þá er kveðið sérstaklega á um að öldrunarmálaráð skuli hafa samvinnu við félagsmálanefnd eða -ráð og stjórn heilsugæslustöðva eftir því sem kostur er.
    Lagt er til að ný grein, 2. gr., bætist við frumvarpið. Samhliða þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins er nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á 39. og 40. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rétt þykir, með breytingunni sem lögð er til á 39. gr., að taka af allan vafa um að aldraðir eigi eftir sem áður rétt til þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Á það jafnt við um þjónustu samkvæmt lögunum, svo sem fjárhagsaðstoð og félagsráðgjöf, sem og málsmeðferð og málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Með breytingunni sem lögð er til á 40. gr. er kveðið á um að öldrunarmálaráð geti á sama hátt og félagsmálanefndir séð um húsnæðismál og félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða.

Alþingi, 29. mars 1994.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.


varaform., frsm., með fyrirvara.



Margrét Frímannsdóttir,

Hermann Níelsson.

Sólveig Pétursdóttir.


með fyrirvara.



Finnur Ingólfsson,

Sigríður A. Þórðardóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.