Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 259 . mál.


491. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE eða 92/51/EBE, sem og viðauka við þær svo sem þeir eru á hverjum tíma, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær til og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að greiða fyrir framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum og byggist á þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra til þessa.
    Alþingi hefur lögfest tilskipanir 89/48/EBE og 92/51/EBE um viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar. Í efnisákvæðum tilskipananna er vísað til viðauka sem varða útfærslu á tilteknum ákvæðum þeirra. Samkvæmt gildandi lögum þarf að leita samþykkis Alþingis í hvert sinn sem þessum viðaukum er breytt.
    Reynslan af lögfestingu tilskipananna er á þann veg að menntamálaráðuneytið telur eðlilegt að fara fram á almenna heimild frá Alþingi til að hrinda viðaukum við þær í framkvæmd. Er ljóst að þannig verða aðeins gerðar breytingar á flokkun starfsheita samkvæmt umræddum tilskipunum.
    Með lögum nr. 83/1993 var kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og taka þau til starfa sem falla undir tilskipun 89/48/EBE. Einnig taka lögin til samninga um sama efni sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi áttu lögin að gilda almennt um gagnkvæma viðurkenningu á störfum sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þyrfti til og féllu undir þær tilskipanir Evrópubandalagsins (nú Evrópusambandsins) sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið næði til. Lögin voru hins vegar aðeins látin taka til tilskipunar 89/48/EBE sem fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár.
    Með lögum nr. 76/1994 var kveðið á um að lögin skyldu einnig taka til tilskipunar 92/51/EBE sem fjallar um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE. Þessi tilskipun tekur til starfa sem krefjast þjálfunar og starfsmenntunar á framhaldsskólastigi eða háskólastigi og falla ekki undir tilskipun 89/48/EBE. Einnig eru undanskilin nokkur störf sem talin eru upp í viðauka A. Í viðauka C við tilskipun 92/51/EBE eru talin upp störf sem sett eru í flokk með störfum sem að jafnaði krefjast menntunar og starfsþjálfunar á háskólastigi eða krefjast sérstakrar ábyrgðar enda þótt menntunin fullnægi ekki þeim skilyrðum formlega séð.
    Með nýrri tilskipun ESB, 94/38/EBE, var viðauka C við tilskipun 92/51/EBE breytt á þann veg að bætt var inn nýjum starfsheitum fyrir Þýskaland og starfsheiti fyrir Ítalíu felld niður. Í viðauka D er fjallað um starfsmenntun sem sérstaklega á við í Bretlandi. Með tilskipun 94/38/EBE er einnig bætt við lýsingu á sérstöku námi í Þýskalandi sem er svipaðrar gerðar.
    Breytingar á viðaukum þeirra tilskipana, sem þegar hafa verið lögleiddar hér á landi, verða fyrirsjáanlega nokkuð tíðar og því er lagt til með frumvarpi þessu að skýrt verði kveðið á um að lögin taki til allra breytinga sem kunna að verða gerðar á upptalningu starfa sem falla undir viðauka við tilskipanir 89/48/EBE og 92/51/EBE. Frumvarpið nær ekki til breytinga sem hugsanlega verða gerðar á þeim meginreglum sem gilda um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum heldur einvörðungu til breytinga á viðaukum við tilskipanirnar varðandi flokkun á starfsheitum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993,
um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að skýrt verði kveðið á um að lögin taki til allra breytinga sem kunna að verða gerðar á upptalningu starfa sem falla undir viðauka við tilskipanir Evrópusambandsins nr. 89/48/EBE og 92/51/EBE.
    Að því er séð verður hefur frumvarpið ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs.