Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 890 – 519. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um leigubifreiðar, nr. 61/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Inngangsmálsliður greinarinnar orðast svo:
                  Þeir einir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum mega aka fólksbifreið í leiguakstri.
     b.      2. tölul. orðast svo: hafa óflekkað mannorð; enginn telst hæfur til að öðlast leyfi samkvæmt lögum þessum sem dæmdur hefur verið til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar eða varðhalds; ef meira en fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dómsins og dómurinn hefur ekki kveðið á um lengra en fjögurra mánaða fangelsi eða varðhaldsvist telst brotið fyrnt í skilningi laganna nema um sé að ræða skírlífisbrot eða að viðkomandi hafi verið dæmd ur fyrir kynferðislegt ofbeldi; brotið telst þó ætíð fyrnt ef viðkomandi hefur fengið upp reist æru.
     c.      3. tölul. orðast svo: hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu sem felst í því að vera fjár síns ráðandi.

2. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Leiguakstur vörubifreiða og sendibifreiða, með einni grein, 9. gr., og breytist greina- og kaflatala samkvæmt því. Greinin orðast svo ásamt fyrirsögn:

Starfsleyfi.


    Þeim einum sem hafa starfsleyfi er heimilt að taka að sér eða stunda leiguakstur með vörur á vörubifreiðum, vörubifreiðum með aukabúnaði, vörubifreiðum með eftirvögnum og sendi bifreiðum.
    Til að öðlast starfsleyfi þarf viðkomandi að uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1.      hafa fullnægjandi starfshæfni, þar með talið fullnægjandi ökuréttindi,
     2.      hafa óflekkað mannorð,
     3.      hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu sem felst í því að vera fjár síns ráðandi.
     Bifreiðastjórar sem stunda leiguakstur samkvæmt lögum þessum skulu hafa í bifreið sinni skilríki til sönnunar á því að þeir hafi starfsleyfi. Heimilt er að halda námskeið fyrir umsækj endur um starfsleyfi til leiguaksturs með vörur á vörubifreiðum og sendibifreiðum.
    Heimilt er að svipta leyfishafa starfsleyfi tímabundið ef hann brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar eða fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast slíkt leyfi, en fyrir fullt og allt ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.
    Starfsleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja starfs leyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leigu akstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.
    Leyfi samkvæmt kafla þessum eru gefin út í samgönguráðuneytinu.

3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða með lögunum bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þeir sem stunda leiguakstur með vörur á sendibifreiðum, vörubifreiðum, vörubifreiðum með aukabúnaði og vörubifreiðum með eftirvögnum eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
    Þeir sem stunda leiguakstur með vörur á sendibifreiðum, vörubifreiðum, vörubifreiðum með aukabúnaði og vörubifreiðum með eftirvögnum skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér starfsleyfis á árinu 1998.
    Þeir sem stunda leiguakstur með vörur á sendibifreiðum, vörubifreiðum, vörubifreiðum með aukabúnaði og vörubifreiðum með eftirvögnum við gildistöku laga þessara þurfa ekki að sækja námskeið skv. 3. mgr. 9. gr. ef ákveðið verður að halda slíkt námskeið.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Tilgangur þess er fyrst og fremst að setja reglur um sendi- og vörubifreiðastjóra sem stunda leiguakstur með vörur. Lagt er til að þeir sem þennan akstur stunda skuli hafa til þess starfsleyfi og uppfylli almenn hæfnisskilyrði leigubifreiðalaganna á sama hátt og þeir sem stunda leiguakstur á fólki. Við það er miðað að þeir sem þegar stunda slíkan akstur skuli einnig sækja um slíkt starfsleyfi á árinu 1998.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði greinarinnar eigi einungis við um fólksbifreiðar í leiguakstri, enda er kveðið á um skilyrði fyrir starfsleyfum sendi- og vörubifreiðastjóra, sem stunda leiguakstur, í 9. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    Hér er skilgreint hvað felst í óflekkuðu mannorði. Samkvæmt gildandi lögum er þessa skil greiningu að finna í reglugerð en þar sem kveðið er fastar að orði en í almennri skilgreiningu um óflekkað mannorð í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, var farin sú leið hér að skilgreina hvaða háttsemi sé þess eðlis að menn hafi með henni fyrirgert rétti sínum til að fá útgefið atvinnuleyfi eða starfsleyfi á leigubifreið.
    Hér er lagt til að nánar verði skýrt hvað felist í orðunum „fullnægjandi fjárhagsstaða“. Ákvæðið er í meginatriðum samhljóða ákvæði reglugerðar um leigubifreiðar, nr. 224/1995, og þarfnast ekki nánari skýringar.

Um 2. gr.


    Með 1. mgr. er lagt til að þeir sem stunda leiguakstur á sendibifreiðum, vörubifreiðum, vörubifreiðum með aukabúnaði og vörubifreiðum með eftirvögnum skuli hafa starfsleyfi. Með því er fyrst og fremst verið að tryggja að þeir sem hafa atvinnu af þessum akstri uppfylli ákveðin skilyrði um fullnægjandi ökuréttindi, óflekkað mannorð og fjárhagsstöðu. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að þeir sem starfsleyfi hafa geti í forföllum sínum ráðið annan mann á bifreiðina og þarf sá aðili ekki sérstakt starfsleyfi.
    Með 2. mgr. er kveðið á um skilyrði þess að geta öðlast starfsleyfi. Skilyrðin felast í því að umsækjandi um starfsleyfi þarf að hafa fullnægjandi ökuréttindi til að aka í atvinnuskyni þeirri bifreið sem um ræðir. Jafnframt þarf sá sem sækir um slíkt starfsleyfi að hafa óflekkað mannorð. Í því sambandi er miðað við þá skilgreiningu hugtaksins sem gefin er í lögum um kosn ingar til Alþingis nr. 80/1987. Krafan í þessu efni er ekki eins ströng eins og hjá þeim sem stunda leiguakstur á fólksbifreið, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Auk þess er gerð krafa um full nægjandi fjárhagsstöðu sem fellst í því að vera fjár síns ráðandi, þ.e. að bú viðkomandi hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Með 3. mgr. er lagt til að heimilt verði að halda námskeið fyrir bifreiðastjóra sendibifreiða og vörubifreiða í leiguakstri. Ef ákveðið verður að halda slík námskeið er þó gert ráð fyrir að þeir sem þegar stunda þennan akstur við gildistöku laganna þurfi ekki að fara á námskeið, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lokamálsgrein 3. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 4. mgr. er sambærilegt við ákvæði í 4. mgr. 7. gr. sem lúta að þeim sem stunda leiguakstur á fólksbifreiðum.
    Ákvæði 5. mgr. er sambærilegt við ákvæði í 5. mgr. 7. gr. sem lúta að þeim sem stunda leiguakstur á fólksbifreiðum.
    Ákvæði 6. gr. er miðað við að úthlutun starfsleyfanna fari fram í samgönguráðuneytinu. Ekki þykir henta að skipa sérstakar umsjónarnefndir af þessu tilefni.

Um 3. og 4. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á
lögum um leigubifreiðar, nr. 61/1995.

    Frumvarpinu er ætlað að setja starfsreglur um sendibifreiða- og vörubifreiðastjóra sem stunda leiguakstur með vörur. Lagt er til að þeir sem þennan akstur stunda skuli hafa til þess starfsleyfi og uppfylla almenn hæfnisskilyrði leigubifreiðalaganna á sama hátt og þeir sem stunda leiguakstur með fólk.
    Ekki er talið að frumvarpið, verði það að lögum, muni leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.