Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 258  —  231. mál.




Frumvarp til laga



um vegabréf.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Íslenskur ríkisborgari á samkvæmt umsókn rétt á að fá gefið út vegabréf eftir lögum þess­um og reglum settum samkvæmt þeim.
    Utanríkisráðuneytið gefur út diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf samkvæmt reglum sem utanríkisráðherra setur.


2. gr.

    Vegabréf skal gefið út af ríkislögreglustjóra.
    Heimilt er að fela öðrum stjórnvöldum að gefa út vegabréf til bráðabirgða þegar sérstak­lega stendur á.
    Vegabréf telst eign íslenska ríkisins.


3. gr.

    Þegar sótt er um vegabréf skal umsækjandi sanna á sér deili og gengið skal úr skugga um ríkisfang hans.
    Með umsókn skal umsækjandi leggja fram ljósmyndir og önnur nauðsynleg gögn.


4. gr.

    Við útgáfu vegabréfs til barns undir 18 ára aldri skal liggja fyrir samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá barnsins. Þegar annað forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna er samþykki hins fullnægjandi.
    Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði.
    Heimilt er að víkja frá framangreindum skilyrðum ef sérstaklega stendur á.


5. gr.

    Nú er umsækjandi um vegabréf eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og skal þá synja um útgáfu vegabréfs.
    Heimilt er að synja um útgáfu vegabréfs þegar svo stendur á:
     a.      fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot, sem ætla má að varði refsivist, og hætta er talin á að hann muni reyna að komast undan refsiábyrgð með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis, eða
     b.      umsækjandi hefur verið dæmdur til refsivistar, sem ekki hefur verið afplánuð, eða sætt sektarrefsingu fyrir dómi eða hjá stjórnvaldi, sem hvorki hefur verið greidd né sett trygging fyrir, og hætta er á að hann muni reyna að komast hjá fullnustu refsingarinnar með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis.

6. gr.

    Vegabréf skal gefa út handa einum einstaklingi.
    Gildistími vegabréfs skal vera tíu ár frá útgáfudegi. Þó skal gildistími vegabréfs barns yngra en 16 ára vera þrjú ár frá útgáfudegi.
    Nú glatast vegabréf og skal þá nýtt vegabréf gefið út til sama tíma og fyrra vegabréf.


7. gr.

    Ríkislögreglustjóra er heimilt að afturkalla vegabréf þegar:
     a.      skilyrði til útgáfu vegabréfs eru ekki lengur fyrir hendi,
     b.      fyrir liggja aðstæður þær sem greinir í 5. gr.,
     c.      útliti vegabréfs eða efni hefur verið breytt,
     d.      vegabréf er skemmt eða slitið eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa,
     e.      vegabréf finnst í vörslu óviðkomandi eða
     f.      aðstæður eða atvik að öðru leyti gera það að verkum að óhjákvæmilegt er að afturkalla vegabréf.
    Handhafa vegabréfs er skylt að verða við kröfu um afhendingu vegabréfs sem er afturkall­að skv. 1. mgr.


8. gr.

    Ríkislögreglustjóri heldur skrá um útgefin vegabréf. Þar skal einnig skrá bráðabirgða­vegabréf og vegabréf sem utanríkisráðuneytið gefur út. Í skránni skulu glötuð vegabréf sér­staklega tilgreind.


9. gr.

    Handhafi vegabréfs skal varðveita vegabréf sitt þannig að ekki sé hætta á að það glatist. Tilkynna skal lögreglu eða sendimönnum Íslands erlendis þegar í stað ef vegabréf glatast og skal þá gera sérstaka grein fyrir afdrifum þess.

10. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum ef maður:
     a.      með vísvitandi röngum upplýsingum eða sviksamlegu undanskoti upplýsinga gagnvart útgefanda vegabréfs eða viðtakanda umsóknar aflar sér ranglega vegabréfs eða annars ferðaskilríkis eða verður þess valdandi að vegabréf eða annað ferðaskilríki, sem gefið er út fyrir hann, hljóðar ekki á rétt nafn hans og kennitölu,
     b.      gefur rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis forsjárforeldris,
     c.      aflar sér án sérstakrar heimildar fleiri en eins vegabréfs eða ferðaskilríkis sem hljóðar á nafn hans, breytir eða nemur á brott hluta af vegabréfi eða öðru ferðaskilríki eða áritanir á því, eða
     d.      selur vegabréf eða gerir sér á annan hátt að féþúfu.

11. gr.

    Dómsmálaráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Þar skal meðal annars kveðið á um:
     a.      gerð, form og efni vegabréfa og þau gögn sem umsækjandi skal leggja fram með umsókn,
     b.      heimild til að einstaklingur megi í sérstökum tilvikum hafa fleiri en eitt gilt     vegabréf,
     c.      heimild annarra stjórnvalda til útgáfu vegabréfs til bráðabirgða í sérstökum     tilvikum,
     d.      heimild til að binda vegabréf við tiltekið svæði, svo og til að takmarka gildistíma þess þegar 5. gr. á við eða ef ætla má að umsækjandi hafi misfarið með vegabréf,
     e.      heimild til að gefa út hópvegabréf, þar á meðal um gildistíma og gildissvið,
     f.      heimild til að gefa út vegabréf til útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn, og
     g.      vegabréfaskrá, færslu hennar og aðgang að upplýsingum úr skránni.


12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 1999.
    Jafnframt falla úr gildi lög um íslensk vegabréf, nr. 18 11. febrúar 1953.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Árið 1991 gáfu íslensk stjórnvöld út yfirlýsingu um að hafinn væri undirbúningur að því hér á landi að gefa út vélrænt lesanleg vegabréf. Þessi yfirlýsing var nauðsynleg til að Ísland gæti átt aðild að verkefni bandarískra stjórnvalda, sem nefnt er „Visa waiver pilot program“, en þátttaka í því fól í sér afnám þeirrar skyldu að Íslendingar þyrftu vegabréfsáritun í ferðum til Bandaríkjanna. Afnám vegabréfsáritunar til Bandaríkjanna var bundin þessu skilyrði, en vélrænt lesanleg vegabréf auðvelda eftirlit við landamæri.
    Fölsun vegabréfa eykst stöðugt og í samstarfi ríkja hefur verið leitað allra leiða til að tryggja enn frekar öryggi þessara skilríkja. Með þeirri tækni sem felst í útgáfu vélrænt lesan­legra vegabréfa eykst öryggi þeirra mikið. Einnig stuðlar þetta að greiðari afgreiðslu farþega við vegabréfaskoðun. Þá býður það upp á ýmsar tæknilegar lausnir á öðrum sviðum, svo sem við skráningu farþega í flug, auk þess sem hentugt er að vegabréfaeftirlit gangi greiðlega fyrir sig með tilliti til starfsemi flugfélaga.
    Frá því fyrrgreind yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var gefin hefur verið unnið að undir­búningi málsins í dómsmálaráðuneytinu. Tæknilegar lausnir hafa verið kannaðar og hugað að nauðsynlegum breytingum við útgáfu og prentun vegabréfa. Með ráðuneytinu hafa starfað að málinu forstöðumaður útlendingaeftirlitsins auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins og Ríkis­kaupa. Verði frumvarp þetta að lögum mun dómsmálaráðuneytið láta hanna nýja gerð vél­rænt lesanlegra vegabréfa. Jafnframt mun ráðuneytið festa kaup á nauðsynlegum tækjabún­aði til að koma á þessu breytta fyrirkomulagi. Hefur útboð þegar farið fram og liggja fyrir tilboð frá erlendum fyrirtækjum.

II.

    Samstarf ríkja á sviði vegabréfamála hefur leitt til þess að sífellt fleiri þjóðir gefa út vélrænt lesanleg vegabréf eða hafa uppi slík áform. Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) hefur um áratuga skeið verið fremst í flokki varðandi þróun vegabréfa og á vegum hennar hafa verið gerðir staðlar um vélrænt lesanleg vegabréf. Hefur það verið gert í samráði við ýmsar aðrar alþjóðlegar stofnanir, svo sem Interpol. Upphafið má rekja til ársins 1968 þegar hugað var að því hvernig auka mætti hraða í afgreiðslu flugfarþega í kjölfar gífurlegrar aukningar á flutningum fólks milli landa með flugvélum. Árið 1980 gaf stofnunin út leiðbeiningar um gerð vélrænt lesanlegra vegabréfa og á grundvelli þeirra var hafin útgáfa slíkra vegabréfa í nokkrum ríkjum. Hafa leiðbeiningar þessar verið endurnýjaðar í formi alþjóðlegs staðals um gerð bréfanna.
    Á vegum alþjóðalögreglunnar Interpol hefur ítrekað verið vakin athygli á nauðsyn þess að auka öryggi í útgáfu vegabréfa, bæði að því er varðar ýmsa öryggisþætti í prentun vega­bréfanna og eins varðandi útgáfuna sjálfa. Leggur Interpol áherslu á að ríki taki upp vélrænt lesanleg vegabréf svo fljótt sem kostur er.

III.

    Um vegabréf gilda lög um íslensk vegabréf, nr. 18/1953, og á grundvelli þeirra hefur verið sett reglugerð um íslensk vegabréf, nr. 169/1987. Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru:
     1.      Útgáfa vegabréfa verður í höndum ríkislögreglustjóra og metur hann hvort umsækjandi fullnægir skilyrðum til að fá útgefið vegabréf. Til hagræðingar er hins vegar gert ráð fyrir að unnt verði að sækja um vegabréf hjá öllum lögreglustjórum. Þeir senda síðan umsóknir til ríkislögreglustjóra, sem gefur út vegabréfið. Ástæða þess að lagt er til að ríkislögreglustjóri gefi út öll vegabréf er sú að tæknibúnaður til útgáfu vélrænt lesan­legra vegabréfa er mjög dýr. Af þeim sökum er ekki unnt að setja upp slíkan búnað hjá hverju embætti lögreglustjóra. Gert er ráð fyrir því að ríkislögreglustjóri komi upp neyðarþjónustu þannig að þessi breyting leiði ekki til vandræða fyrir ferðamenn sem skyndilega þurfa á vegabréfi að halda. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að önnur stjórnvöld geti gefið út bráðabirgðavegabréf. Slík stjórnvöld geta til dæmis verið lögreglustjórar og sendimenn Íslands erlendis.
     2.      Í frumvarpinu er lagt til að hvert vegabréf verði einungis gefið út handa einum einstaklingi. Með þessu er felld úr gildi sú regla að í vegabréfi náins aðstandanda sé unnt að skrá barn yngra en 15 ára. Hvert barn þarf því eftir gildistöku laga þessara að hafa sér­stakt vegabréf með mynd. Regla þessi er í samræmi við alþjóðleg viðhorf, meðal annars innan ICAO.
     3.      Þá er lagt er til að lögfestar verði reglur um afturköllun vegabréfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú grundvallarregla að almenn íslensk vegabréf verði gefin út til ís­lenskra ríkisborgara.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að utanríkisráðuneytið gefi út diplómatísk vegabréf og þjón­ustuvegabréf svo sem verið hefur. Er lagt til að í reglugerð utanríkisráðherra verði nánari ákvæði um þessi vegabréf.
    

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að ríkislögreglustjóri einn gefi út almenn vegabréf, en gert er ráð fyrir því að sótt verði um útgáfu vegabréfa hjá öllum lögreglustjórum eða sendiráðum. Með tölvu­væðingu lögreglu verður unnt að gera það í hvaða umdæmi sem er, án tillits til lögheimilis umsækjanda. Rafræn samskipti við myndasöfn og aðra gagnabanka gætu einnig komið til álita. Lögreglustjóri eða starfsmaður sendiráðs gengur úr skugga um að umsækjandi sé sá sem hann lætur uppi og kannar jafnframt ríkisfang hans. Að því búnu er umsókn send ríkis­lögreglustjóra til afgreiðslu. Samhliða því að taka við umsókn og leggja á hana mat verður lögreglustjóra falið að innheimta lögboðin gjöld.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að ákveða að önnur stjórnvöld geti gefið út vegabréf til bráðabirgða. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að í neyðartilvikum geti til dæmis lögreglu­stjórar eða sendimenn Íslands erlendis gefið út bráðabirgðavegabréf þar til almennt vegabréf verður gefið út.
    Rétt þykir að taka beinlínis fram í lögum að vegabréf skuli talið eign íslenska ríkisins svo sem lagt er til í 3. mgr. Með því er lögð sérstök áhersla á mikilvægi vegabréfa og áréttað að þau verði ekki notuð nema í þeim tilgangi sem lög gera ráð fyrir.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að umsækjanda beri að sanna á sér deili þegar hann leggur fram um­sókn um vegabréf og að ríkisfang hans verði kannað áður en það er gefið út. Lögð er áhersla á vandvirkni við þessa athugun.
    Í 2. mgr. segir að með umsókn skuli umsækjandi leggja fram ljósmyndir og önnur nauð­synleg gögn, sem nánar verða tilgreind í reglugerð, sbr. a-lið 11. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um útgáfu vegabréfs til barns undir 18 ára aldri. Við útgáfu vegabréfs til barns skal liggja fyrir samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá þess. Það tekur einnig til þess að báðir foreldrar fara sameiginlega með forsjá í kjölfar skilnaðar eða slita óvígðrar sambúðar. Sá áskilnaður er nauðsynlegur í ljósi þess að öðru foreldri er óheimilt við þær aðstæður að fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr. 2. mgr. 39. gr. barnalaga, nr. 20/1992. Þá er gert ráð fyrir að samþykki annars foreldris sé nægjanlegt ef aðstæður eru þær að samþykkis hins verður ekki aflað.
    Í 2. mgr. segir að samþykki lögráðamanns þurfi til að gefið verði út vegabréf til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði heimild til að víkja frá fyrrgreindum skilyrðum ef sérstaklega stendur á. Mat í þeim efnum hvílir á ríkislögreglustjóra. Það yrði reist á hags­munum barns hverju sinni. Þetta er nauðsynlegt til að unnt verði að tryggja börnum vegabréf þegar aðstæður valda því að ekki verður aflað samþykkis foreldra eða þeirra sem fara með forsjána. Sama gildir ef um er að ræða einstakling sem sviptur hefur verið sjálfræði. Að öðrum kosti er hætt við verulegum vandkvæðum í framkvæmd þar sem oft þarf að afgreiða vegabréf við erfiðar aðstæður með skömmum fyrirvara. Þetta er einnig reynsla annarra þjóða og má finna hliðstæð ákvæði í löggjöf allra annarra ríkja á Norðurlöndum.

Um 5. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um einstök atriði sem geta staðið í vegi þess að umsækjandi fái útgefið vegabréf. Þetta byggist á því að hindra ber að einstaklingur, sem gerst hefur sekur um afbrot eða eftir atvikum hlotið dóm án þess að hafa lokið afplánun, geti farið úr landi í þeim tilgangi að komast undan refsiábyrgð eða fullnustu refsingar. Ákvæðið er í samræmi við 2. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að synjað verði um útgáfu vegabréfs þegar brottför manns mundi brjóta í bága við lagaákvæði sem tryggja eiga nærveru manns í landinu þar til hann hefur fullnægt skuldbindingum sem á honum hvíla gegn almannavaldinu eða einstaklingum. Með lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, var felld úr gildi heimild til að kyrrsetja einstakling vegna skuldbindinga hans. Var það ekki talið samrýmast almennum viðhorfum um hverjar ráðstafanir verði taldar eðlilegar til inn­heimtu eða tryggingar kröfu. Með hliðsjón af þessu þykir ekki ástæða til að hafa þetta ákvæði áfram í lögum um vegabréf. Þá verður einnig að gæta þess að almennt er mönnum frjálst að fara úr landi, sbr. 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. samningsviðauka nr. 4 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis um tiltekin önnur mannréttindi, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að synja skuli um útgáfu vegabréfs þegar umsækjandi er eftir­lýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða á hann lagt far­bann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Hafi verið gefin út handtöku­skipun á hendur umsækjanda eða hann er eftirlýstur krefjast almannahagsmunir að viðkom­andi fari ekki úr landi án þess að úr máli hans verði leyst. Í farbanni felst að sakborningur skal halda sig á tilteknu svæði eða honum er bönnuð brottför af landi. Samkvæmt ákvæðinu fær sakborningur ekki útgefið vegabréf meðan slíkt ástand varir og tryggir það enn frekar nærveru hans.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um heimild til að synja um útgáfu vegabréfs þegar ætla má að um­sækjandi reyni að fara af landi brott eða dveljast erlendis til að komast undan refsiábyrgð eða fullnustu refsingar. Þessi heimild er reist á sjónarmiðum um refsivörslu. Ríkislögreglu­stjóri metur hvort synjað verði um útgáfu vegabréfs en við það mat verður að gæta almennra reglna um ferðafrelsi.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að vegabréf skuli gefa út handa einum einstaklingi, sem hefur í för með sér að óheimilt verður að skrá barn í vegabréf náins aðstandanda. Í þessu felst að gefa verður út sjálfstætt vegabréf til barns án tillits til aldurs þess. Þetta er lagt til í öryggisskyni til að fyrirbyggja að börn verði numin á brott eða fari úr landi ásamt foreldri sem ekki hefur forsjá barns en hefur nafn þess í vegabréfi sínu. Hafa gildandi reglur í för með sér aukna hættu á því að börn séu færð úr landi gegn vilja þess foreldris sem fer með forsjá. Þá þekkjast einnig þau tilvik að vegabréf með nafni barns hafi verið notað til að flytja annað barn milli landa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um gildistíma vegabréfa. Er gildistími vegabréfs ákveðinn tíu ár frá útgáfudegi en þrjú ár þegar um er að ræða barn yngra en 16 ára.
    Samkvæmt 3. mgr. skal nýtt vegabréf gefið út til sama tíma og fyrra vegabréf sem hefur glatast.


Um 7. gr.

    Hér eru lögð til nýmæli um heimild til að afturkalla vegabréf. Leitast er við að skilgreina eins nákvæmlega og unnt er hvenær heimilt skuli að afturkalla vegabréf.
    Samkvæmt a-lið er heimilt að afturkalla vegabréf þegar ekki eru lengur fyrir hendi skil­yrði til útgáfu vegabréfs. Sambærileg heimild þekkist víða í lögum varðandi leyfi af ýmsu tagi. Þykir rétt að sama gildi um vegabréf. Við þessar aðstæður er full ástæða til að aftur­kalla vegabréf til að koma í veg fyrir að það verði misnotað.
    Í b-lið er lögð til heimild til að afturkalla vegabréf ef ákvæði 5. gr. eiga við um handhafa þess. Sú heimild er eðlileg með tilliti til þeirra refsivörslusjónarmiða sem búa að baki þeirri grein frumvarpsins. Eðli máls samkvæmt væri slík afturköllun jafnan tímabundin.
    Hafi útliti vegabréfs eða efni verið breytt er gert ráð fyrir heimild til afturköllunar þess í c-lið. Mikilvægt er að vegabréfi verði ekki breytt og í 10. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um refsinæmi þess verknaðar.
    Í d-lið er mælt fyrir um afturköllun vegabréfs við þær aðstæður að notkun þess telst ekki forsvaranleg. Tekur það bæði til þess að vegabréfið sé ónothæft eða upplýsingar í því svari ekki lengur til handhafa. Kæmi til álita að beita þessari heimild ef nafni handhafa hefur verið breytt eða útlit hans er ekki lengur í samræmi við mynd eða lýsingu í vegabréfi.
    Í e-lið er mælt fyrir um að afturkalla megi vegabréf þegar það finnst í vörslu óviðkom­andi.
    Loks er í f-lið að finna heimild til að afturkalla vegabréf þegar aðstæður eða atvik að öðru leyti gera það að verkum að óhjákvæmilegt er að afturkalla útgefið vegabréf. Má sem dæmi nefna að vegabréf hafi verið gefið út fyrir mistök eða í því reynist villa.
    Ef vegabréf hefur verið afturkallað er handhafa þess skylt að afhenda það, sbr. 2. mgr.     

Um 8. gr.

    Lagt er til að ríkislögreglustjóri haldi skrá um útgefin vegabréf. Þykir nauðsynlegt að sú skrá taki til allra vegabréfa og að þar verði einnig skráð vegabréf til bráðabirgða og þau vegabréf sem utanríkisráðuneytið gefur út. Enn fremur skal þar skrá upplýsingar um glötuð vegabréf.
    Samræmdar reglur um skráningu vegabréfa eru ekki í gildi. Hins vegar eru útgefin vega­bréf skráð í hverju umdæmi. Með breyttri tilhögun á útgáfu vegabréfa er stefnt að því að koma á fót tölvufærðri skrá á landsvísu. Þetta leiðir til öruggari framkvæmdar og auðveldar öflun upplýsinga, sem er mikilvægt með hliðsjón af samstarfi við alþjóðlegar stofnanir eða önnur ríki. Miðlæg skrá gerir einnig umsækjanda kleift að leggja inn umsókn um vegabréf hjá lögreglustjóra hvar sem er á landinu.

    
Um 9. gr.

    Hér er að finna ákvæði um varðveislu vegabréfs og skyldu til að tilkynna lögreglu eða sendimönnum Íslands erlendis þegar í stað ef vegabréf glatast. Þannig verður unnt að skrá upplýsingar þar að lútandi í landsskrá um vegabréf og koma í veg fyrir misnotkun. Þá þykir rétt að lögákveða að gera skuli sérstaka grein fyrir afdrifum glataðra vegabréfa.


Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að nánar tilgreind atriði varðandi öflun og meðferð vegabréfs verði refsiverð. Um er að ræða ákvæði hliðstæð 3. gr. gildandi laga.
    Í a-lið er mælt fyrir um heimild til að refsa þeim sem með sviksamlegum hætti verður sér úti um vegabréf eða verður þess valdandi að vegabréf hljóðar ekki á rétt nafn hans og kenni­tölu. Þetta tekur til þess að umsækjandi villir á sér heimildir til að fá útgefið vegabréf.
    Samkvæmt b-lið verður refsivert að gefa rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim til­gangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis forsjárforeldris. Þykir rétt að mæla fyrir um refsinæmi þeirrar háttsemi til að draga úr hættu á því að annað foreldri reyni að fá útgefið vegabréf fyrir barn án vitneskju hins.
    Í c-lið er mælt fyrir um heimild til að refsa þeim sem án sérstakrar heimildar aflar sér fleiri vegabréfa sem hljóða á nafn hans. Við ákveðnar aðstæður getur slík ráðstöfun verið réttmæt og er sérstaklega gert ráð fyrir reglum þar að lútandi í b-lið 11. gr. frumvarpsins, svo sem nánar er vikið að í athugasemdum við það ákvæði.
    Samkvæmt d-lið er lögð refsing við því að breyta eða nema á brott hluta af vegabréfi eða öðru ferðaskilríki eða áritanir á því.
    Loks er í e-lið lögð refsing við því að selja vegabréf eða gera sér það á annan hátt að féþúfu.

Um 11. gr.

    Hér er mælt fyrir um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um ýmis framkvæmdaratriði.
    Lagt er til í a-lið að settar verði reglur um gerð, form og efni vegabréfa. Í þessu felst að í reglugerð verði mælt nákvæmlega fyrir um hvaða upplýsingar skuli koma fram í vegabréfi og með hvaða hætti. Einnig er gert ráð fyrir því að í reglugerð verði ákvæði um þau gögn sem umsækjandi skal láta fylgja umsókn sinni um vegabréf.
    Samkvæmt b-lið skal í reglugerð tilgreina við hvaða aðstæður einstaklingur má hafa fleiri en eitt gilt vegabréf. Slíkt er lagt til að fenginni reynslu. Þeim sem ferðast mikið til ríkja þar sem krafist er vegabréfsáritunar getur verið nauðsynlegt að hafa fleiri en eitt gilt vegabréf til ráðstöfunar. Hlutaðeigandi þarf þá oft að láta vegabréf sitt af hendi þegar aflað er áritunar en í millitíðinni kann hann að þurfa að ferðast og hafa vegabréf undir höndum. Þá getur árit­un í vegabréf staðið í vegi fyrir ferð til tiltekinna ríkja. Lagt er til að komið verði til móts við þessar þarfir.
    Í c-lið er gert ráð fyrir að settar verði reglur um heimild annarra stjórnvalda en ríkislög­reglustjóra til að gefa út vegabréf til bráðabirgða, en það getur verið nauðsynlegt í sérstök­um tilvikum, til dæmis þegar vegabréf glatast erlendis eða maður þarf að fara af landi brott með mjög skömmum fyrirvara.
    Samkvæmt d-lið skulu vera í reglugerð ákvæði um hvenær megi takmarka vegabréf við tiltekið svæði (lönd) eða stytta gildistíma þess þegar ákvæði 5. gr. eiga við eða ætla má að umsækjandi hafi misfarið með vegabréf. Gæti komið til álita að beita þeirri heimild ef um­sækjandi hefur ítrekað glatað vegabréfi án þess að gera trúverðuga grein fyrir afdrifum þess.
    Í e-lið er mælt fyrir um að í reglugerð verði ákvæði um hópvegabréf. Tilvist hópvegabréfa byggist á Evrópusamningi frá 1961 um ferðir ungmenna samkvæmt hópvegabréfi. Með út­gáfu hópvegabréfs er með ákveðnum hætti vikið frá þeirri meginreglu að vegabréf skuli vera bundið við einn einstakling. Samkvæmt þessari heimild er unnt að gefa út vegabréf til hóps ferðamanna undir 21 árs aldri, en það er meðal annars bundið skilyrðum um hámarks- og lágmarksfjölda og fararstjórn með tilteknum hætti. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði með­al annars kveðið á um gildistíma og gildissvið hópvegabréfa.
    Í f-lið er lagt til að í reglugerð verði ákvæði um heimild til að gefa út sérstök vegabréf til útlendinga, sem ekki eiga kost á að fá útgefið vegabréf í heimalandi sínu, og ferðaskilríki fyrir flóttamenn, sem mælt er fyrir um í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951.     Loks er lagt til í d-lið að í reglugerð verði ákvæði um vegabréfaskrá, færslu hennar og aðgang að upplýsingum úr skránni.

Um 12. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. apríl 1999 þannig að svigrúm gefist til að undirbúa gildis­töku þeirra.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vegabréf.

    Frumvarp þetta er endurskoðun á gildandi lögum nr. 18/1955, um íslensk vegabréf. Það felur í sér ítarlegri ákvæði um ýmsa þætti er lúta að útgáfu og afturköllun vegabréfa. Nýmæli í frumvarpinu er að ríkislögreglustjóra er ætlað að gefa út öll vegabréf í stað lögreglustjóra á hverjum stað, og skal ríkislögreglustjóri einnig halda skrá yfir öll útgefin vegabréf.
    Að mati fjármálaráðuneytis leiða ákvæði frumvarpsins ein og sér ekki til hækkunar út­gjalda nema vegna þeirrar skrár sem ríkislögreglustjóra er ætlað að halda. Í greinargerð frumvarpsins kemur hins vegar fram að fyrirhugað er að gefa út tölvulesanleg vegabréf hér á landi og hefur það útgjaldaauka í för með sér. Í samráði við dómsmálaráðuneyti er það mat fjármálaráðuneytis að eftirfarandi þættir hafi fjárhagsleg áhrif.
     1.      Kostnaður vegna undirbúnings, stofnbúnaðar o.fl. er áætlaður 49–50 m.kr. og skiptist í nokkra þætti:
     2.      Farið hefur fram útboð og liggja fyrir tilboð frá erlendum aðilum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða tilboði verði tekið en gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 42 m.kr. Innifalið í þeirri fjárhæð er m.a. hönnun á nýju vegabréfi, prentun á rúmlega 100 þúsund vegabréfum, vélbúnaður til að gefa út vegabréf, þjálfun starfsmanna, ráðgjöf og ábyrgð. Gert er ráð fyrir að kerfið endist í um tíu ár.
     3.      Gert er ráð fyrir, sbr. b-lið 2. tölul., að starfsemi vegna útgáfu vegabréfa verði í sér húsnæði og að ráða þurfi starfsmenn. Einskiptiskostnaður vegna húsgagna og annars bún­aðar en vélbúnaðar er metinn á 0,5 m.kr. Að auki má gera ráð fyrir um 1 m.kr. til að­stöðu fyrir flýtiafgreiðslu vegabréfa.
     4.      Hanna þarf vegabréfaskrá og er gert ráð fyrir að skrá um ökuskírteini sem þegar er til verði notuð sem fyrirmynd. Hönnun og aðlögun vegabréfaskrár er talin kosta 3,5–4 m.kr. og útgjöld til nauðsynlegra endurbóta og endurnýjunar á tölvubúnaði vegna skrár­innar eru áætluð 1 m.kr.
     5.      Nauðsynlegt er talið að kynna breytt fyrirkomulag, m.a. vegna þess að afgreiðslufrestur hjá smærri embættum mun væntanlega lengjast frá því sem nú er. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig verði staðið að slíkri kynningu, en sé miðað við útgáfu lítils bæklings er talið að kostnaður við gerð hans og dreifingu geti orðið 1–1,5 m.kr.
     6.      Árlegur rekstrarkostnaður er talinn nema um 20,6–25,8 m.kr. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að rekstur útgáfu vegabréfa verði hluti af annarri starfsemi en ekki sérstök eining. Þar með samnýtast ýmsir þættir í húsnæði og kostnaði. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvar útgáfan verður staðsett.
     7.      Útgáfa vegabréfa má ekki stöðvast þrátt fyrir sumarleyfi eða veikindi starfsmanna. Því er talið nauðsynlegt að gera ráð fyrir þremur og hálfu starfi við útgáfuna. Starfsmenn verða ekki sérmenntaðir en þeir fá sérhæfða þjálfun og er sá kostnaður innifalinn í kostnaði við útboð. Í upphafi starfsins má gera ráð fyrir meira álagi en þegar jafnvægi hefur komist á geta starfsmennirnir að einhverju leyti sinnt öðrum störfum við stofnun­ina þar sem útgáfan verður. Að meðtöldum kostnaði vegna sumarleyfa eru launagjöld talin nema 7 m.kr. á ári.
     8.      Sé tekið mið af fjölda starfsmanna og þeim vélbúnaði sem starfseminni fylgir þarf stærð húsnæðis að vera 60–70 m2. Árleg leiga gæti verið á bilinu 0,6–0,8 m.kr. Annar kostnaður, vegna símalína, ræstinga o.fl., er áætlaður 1 m.kr. og vegur þar símakostnaður þyngst en útgáfa vegabréfa verður í tölvutengingu við lögregluembættin.
     9.      Ekki hefur verið ákveðið hvaða fyrirkomulag skuli hafa á umsóknum um vegabréf. Sé miðað við að einstaklingar sæki um vegabréfin hjá lögreglustjóranum í Reykjavík og við sýslumannsembætti úti á landi, eins og nú er, verður viðbótarkostnaður vegna þessa ekki teljandi. Hins vegar má gera ráð fyrir verulegum kostnaði við að senda vegabréfin til viðtakenda. Að jafnaði má reikna með að gefin verði út um 40 þúsund vegabréf á ári. Ábyrgðarsending kostar tæplega 250 krónur og póstburðarkostnaður á ári verður því um 10 m.kr. Sé einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu gert að sækja vegabréfin lækkar sá kostnaður um 5–6 m.kr.
     10.      Á hverju ári þarf að prenta vegabréfabækur til nota við gerð vegabréfa. Í fjárlögum þessa árs og í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár eru um 7 m.kr. ætlaðar til slíkra bóka. Ekki er gert ráð fyrir að þessi kostnaður aukist vegna nýju vegabréfanna. Í útboðinu eru innifaldar fyrstu 100 þúsund bækurnar en talið er að þær nægi í um tvö ár.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Að öllu töldu telur fjármálaráðuneytið að verði frumvarpið óbreytt að lögum hækki árlegur rekstrarkostnaður við útgáfu vegabréfa um 13,6–18,8 m.kr. Innifalið í stofnkostnaði eru um 100 þúsund vegabréf sem væntanlega munu nægja í um tvö ár. Þær 7 m.kr. sem þegar er áætlað fyrir í fjárlögum koma því á móti framangreindri hækkun fyrstu tvö árin, en eftir það þarf framlagið að hækka um 7 m.kr.
    Einskiptisframlag til að koma starfseminni af stað er metið á 49–50 m.kr. Á móti þeirri fjárhæð kemur um 10 m.kr. afgangur af 13,3 m.kr. framlagi í fjárlögum 1997 sem ætlað var til undirbúnings og útboðs vegna tölvulesanlegra vegabréfa.
    Samkvæmt aukatekjulögum eru innheimtar 4.600 krónur vegna vegabréfa til einstaklinga á aldrinum 18–66 ára en 1.700 krónur til annarra. Tekjur af vegabréfum sem renna í ríkis­sjóð eru um 80 m.kr. á ári en gert er ráð fyrir að þær verði að mestu óbreyttar þótt kveðið sé á um heimild til hærra verðs fyrir flýtiafgreiðslu vegabréfa.