Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 447  —  229. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efni frumvarpsins er að heimila ríkisstjórninni að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfesting­arbanka atvinnulífsins hf. Áður hafði ríkisstjórnin heimild til að selja 49% bankans þannig að þetta frumvarp fjallar um að ríkið fái heimild til að selja þau 51% sem eru óseld. Ætlun ríkisstjórnarinnar er að selja allt hlutafé í bankanum á fyrri hluta næsta árs.
    Minni hlutinn telur málatilbúnað ríkisstjórnarinnar með ólíkindum. Við sölu á 49% hlut í bankanum fyrir örfáum vikum hófst einn sérkennilegasti þáttur í íslenskri efnahagssögu, kapphlaupið um kennitölur.
    Ríkisstjórnin setti þær reglur við sölu 49% hlutafjár í Fjárfestingarbankanum að sérhver áskrifandi gæti skráð sig fyrir allt að 3 millj. kr. að nafnvirði. Þetta átti að tryggja dreifða eignaraðild. Fjármálafyrirtæki hófust þá handa við að safna áskrifendum. Fólk gat selt kenni­tölu sína þannig að það skráði sig fyrir hlut í bankanum, oftast hámarkshlut, og framseldi kaupréttinn strax til viðkomandi fjármálastofnunar og fékk greidda þóknun fyrir. Það er aug­ljóst að hér var verið að fara fram hjá áformum um dreifða eignaraðild.
    Þessi viðskipti eru vissulega ekki ólögleg en ekki áttu allir kost á því að taka þátt í þeim. Við sölu á hlutafé í Landsbanka Íslands hf. var nokkuð um slík kennitölukaup en þó keyrði um þverbak við sölu á hlutafé í Fjárfestingarbankanum að því er menn héldu. En síðar kom í ljós að málinu var hvergi nærri lokið því að það sama var uppi á tengingnum við sölu á hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. Þá auglýstu fjármálafyrirtæki opinberlega eftir kennitöl­um.
    Ljóst er að ríkissjóður og þar með almenningur verður af fjármunum við þessa sölu vegna þess að gengið á hlutabréfunum í frumsölu er greinilega of lágt án þess þó að með því sé dreifð eignaraðild tryggð. Það sýna miklar verðhækkanir í kjölfar mjög mikillar eftirspurnar og samþjöppun eignarhalds. Stefna ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild við sölu á hluta­fé í Fjárfestingarbankanum var einnig brotin á bak aftur af fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkis­sjóðs. Þannig hafa Landsbankinn og Búnaðarbankinn og tengd fyrirtæki tekið virkan þátt í kennitölukaupum.
    Minni hlutinn tók málið upp í nefndinni og óskaði upplýsinga um það. Þá kom m.a. fram hjá embættismönnum viðskiptaráðuneytis að hluthafaskrá í Fjárfestingarbankanum lægi ekki nákvæmlega fyrir fyrr en við greiðslu hlutafjárins, þ.e. eftir 4. desember. Fyrr gætu menn ekki lagt mat á umfang kennitöluviðskiptanna, hve margir hluthafar yrðu raunverulega í bankanum og hversu stóran hlut stærstu aðilar hefðu náð undir sig af hlutafé bankans. Því hefði verið eðlilegt að bíða með afgreiðslu frumvarpsins og leggja mat á áhrif þessarar aðferðar þegar þær upplýsingar lægju fyrir.
    Að mati minni hlutans er lágmark að við frumvarpið sé bætt ákvæði um hvernig staðið skuli að sölu 51% hlutafjár sem enn er í eigu ríkisins eigi að selja þau á annað borð. Ljóst er að ekki gengur að láta ríkisstjórnina fá opna heimild til sölu á þessari eign almennings nema hafa um það nákvæm lagafyrirmæli. Vitanlega hefði komið til greina að binda í lög að ein­stakir aðilar mættu einungis eiga takmarkaðan hlut í bankanum. Ríkisstjórnin og einkavæð­ingarnefnd sem er framkvæmdaraðili ríkisstjórnarinnar hafa fallið á því prófi að standa eðli­lega að sölu á eigum ríkissjóðs og fá fyrir þær fullt verð. Þetta dæmi um sölu hlutafjár Fjár­festingarbankans er einungis síðasti kaflinn í sögu einkavinavæðingar núverandi ríkisstjórnar.
    Minni hlutinn telur fráleitt að afgreiða frumvarpið með svo víðtækum heimildum og án þess að tryggja eðlilega eignadreifingu. Ríkisstjórnin virðist ætla að láta eign almennings lenda á einn eða annan hátt í höndunum á vinveittum fyrirtækjum flokksbræðra sinna og er það í samræmi við fyrri stefnu hennar.
    Minni hlutinn og stjórnarandstaðan lögðust gegn stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Bankinn er myndaður með samruna þriggja sjóða, Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróun­arsjóðs. Stjórnarandstaðan vildi að sjóðirnir rynnu inn í ríkisviðskiptabankana til að efla þá og að gætt yrði hagsmuna almennings og starfsmanna við uppstokkun í bankakerfinu. Reynsl­an hefur sýnt að álit stjórnarandstöðunnar var rétt, enda keppast bankarnir nú við að kaupa Fjárfestingarbankann til að leggja hann niður. Ríkisstjórnin afgreiddi lög um stofnun Fjár­festingarbankans í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Klúður hennar við sölu á 49% hlutafjár í bankanum er því algerlega á ábyrgð hennar, einkum viðskiptaráðherra.
    Í ljósi þess að framkvæmd einkavæðingarinnar og kennitölusöfnunin eru komnar í algerar ógöngur er brýnt að endurskoða meðferð þessara mála frá grunni. Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar enda sýna atburðir síðustu vikna að málatilbúnaðurinn er algerlega ófullnægjandi og ekki hægt að fallast á að ríkisstjórnin fái svo víðtækt og opið umboð til þess að ráðstafa eigum almennings.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 9. des. 1998.



Ágúst Einarsson,


frsm.


Svavar Gestsson.


Steingrímur J. Sigfússon.