Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1059  —  352. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Hrafn Hallgrímsson frá umhverfisráðuneyti, Stefán Thors skipulagsstjóra og Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur frá Skipulagsstofnun ríkisins, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi ís­lenskra sveitarfélaga, Gunnar H. Hjálmarsson, Sigmar B. Hauksson og Hauk Jóhannesson frá SAMÚT, Samtökum útivistarfélaga, og Trausta Valsson skipulagsfræðing. Þá komu á fund nefndarinnar Gunnar Eydal frá Reykjavíkurborg, Gísli Einarsson, Stefán Skaftason og Magnús Sigurðsson, fulltrúar nefndar um svæðisskipulag hálendisins, Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Holta- og Landsveitar, Arnór Benediktsson, oddviti Norður-Héraðs, Þorkell Helgason orkumálastjóri, Gestur Ólafsson frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands og Jón Gunn­ar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Umsagnir um málið bárust frá héraðsnefnd Þingeyinga, Ferðafélagi Íslands, Borgarbyggð, Eyjafjarðarsveit, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fuglaverndarfélagi Íslands, sveitarstjórn Norður-Héraðs, Holta- og Landsveit, Húnaþingi vestra, félagsmálaráðuneytinu, hreppsnefnd Hrunamannahrepps, Skógrækt ríkisins, Hvítársíðuhreppi, hreppsnefndum Ás-, Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshrepps, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, héraðsnefnd Mýrasýslu, héraðsnefnd Árnesinga, Landmælingum Íslands, Hálshreppi, héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, sveitarfélaginu Borgarfirði, Djúpárhreppi, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hreppsnefnd Fljótshlíðarhrepps, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Biskupstungna­hreppi, Umhverfissamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, héraðsnefnd Austur-Húnvetninga, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, héraðsnefnd Rangæinga, sveitarstjórn Skútustaðahrepps, Náttúruvernd ríkisins, Landgræðslu ríkisins, héraðsnefnd Eyjafjarðar, Magnúsi Sigurðssyni, Bárðdælahreppi, héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu, Orkustofnun, Vestur-Eyjafjallahreppi, Landssambandi íslenskra vélsleðamanna, Skotveiðifélagi Íslands, sveitarstjórn Skagafjarðar og hreppsnefnd Akrahrepps, hreppsnefnd Ásahrepps í Rangár­vallasýslu, Rangárvallahreppi, Stefáni Skaftasyni, hreppsnefnd Laugardalshrepps, Skipu­lagsstofnun, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Landvernd.
    Tilgangurinn með frumvarpinu er að festa í lög skipulag miðhálendis Íslands. Sérstök samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins var skipuð samkvæmt heimild í bráða­birgðaákvæði laga nr. 73/1993 og var hlutverk hennar að gera tillögu að skipulagi á mið­hálendi Íslands. Samvinnunefndin var skipuð 13 mönnum, einum fulltrúa frá hverri héraðs­nefnd frá sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu auk formanns sem skipaður var af um­hverfisráðherra. Önnur sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum, hafa ekki tekið þátt í meðferð málsins á sama hátt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samvinnunefndin sé skipuð með nokkuð öðrum hætti enda er um að ræða svæði sem að stórum hluta er ekki í einstaklingseign og skiptir alla landsmenn máli.
    Samvinnunefndin skilaði tillögum til Skipulagsstofnunar í nóvember 1998 og lauk með því störfum. Nefndin miðaði í upphafi mörk skipulagssvæðisins í grófum dráttum við línu sem dregin var á milli heimalanda og afrétta. Í vinnu sinni endurskoðaði samvinnunefndin svo legu markalínunnar og í þeim tillögum sem skilað var til Skipulagsstofnunar var henni breytt nokkuð.
    Miklar umræður urðu í nefndinni um 2. gr., einkum um ákvæði sem varðar skipun sam­vinnunefndar miðhálendis auk ákvæðis um afmörkun skipulagssvæðis miðhálendisins. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingar á þessum ákvæðum. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar sem varða málsmeðferð tillagna að svæðisskipulagi miðhálendisins. Helstu efnis­breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Meiri hluti nefndarinnar leggur til að svæðisskipulag miðhálendisins markist í megindráttum af línu sem mótuð var af samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins. Við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að sátt er um þá markalínu meðal flestra sveitar­stjórna í landinu. Við lögfestingu svæðisskipulags miðhálendisins leggur meiri hlutinn því til að hún verði lögð til grundvallar við vinnu nýrrar samvinnunefndar miðhálendis­ins. Enn fremur er lagt til að samvinnunefnd miðhálendis eða hlutaðeigandi sveitarfélög geti gert tillögur til ráðherra um breytingar á markalínu miðhálendis. Ráðherra ákveður þá hvort breytingar skuli gerðar á markalínunni. Til að geta gert slíka tillögu um breytingar á markalínunni verða hlutaðeigandi sveitarfélög annars vegar og samvinnu­nefnd miðhálendis hins vegar að hafa haft samráð sín á milli um tillögugerðina. Þau þurfa ekki að vera sammála um að gera tillögu til ráðherra eða gera hana sameiginlega en þau skulu hafa samráð um það áður en tillagan er gerð. Hlutaðeigandi sveitarfélög eru þau sveitarfélög sem hafa beina hagsmuni af ákvörðun um legu línunnar, ýmist vegna þess að línan liggur innan marka sveitarfélags eða hún liggur að mörkum þess.
     2.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á skipan samvinnunefndar miðhálendis. Fjölgað er um einn í nefndinni þannig að nefndarmenn verða samtals tólf með tillögu- og atkvæðisrétt. Auk þess leggur meiri hlutinn til að ráðherra verði heimilt að skipa allt að fjóra fulltrúa til viðbótar með áheyrnaraðild og skulu þeir hafa málfrelsi og tillögurétt. Ráðherra skip­ar formann og skal hann fara með oddaatkvæði ef atkvæði falla jöfn. Aðra fulltrúa skal tilnefna þannig að einn fulltrúi komi úr hverju kjördæmi. Fulltrúar þeirra fimm kjör­dæma sem liggja að miðhálendinu skulu tilnefndir af þeim sveitarfélögum í hverju kjör­dæmi sem liggja að miðhálendinu. Þá skal Reykjavíkurborg tilnefna einn fulltrúa, Fjórð­ungssamband Vestfjarða einn og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sam­band sveitarfélaga á Suðurnesjum skulu sameiginlega tilnefna einn fulltrúa. Að auki skipar ráðherra einn fulltrúa og skal hann koma úr einhverju þeirra fimm kjördæma sem liggja að miðhálendinu en úr sveitarfélagi sem liggur ekki að miðhálendinu. Með þessari breyttu skipan er reynt að koma til móts við sjónarmið og hagsmuni ólíkra aðila. Skipu­lag miðhálendisins er hagsmunamál allra landsmanna og meiri hlutinn telur að með þessu móti muni verða náð sátt meðal landsmanna um skipan í samvinnunefndina.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 2. og 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins sem lúta að því að ákvarða hlutverk samvinnunefndarinnar. Með breytingunum er ætlunin að gerð svæðis­skipulags miðhálendisins verði á vegum samvinnunefndarinnar og hlutverk hennar verði að gera tillögu að svæðisskipulagi þess sem síðan skal fara með samkvæmt því sem kveðið er á um í nýrri grein sem nefndin leggur til að verði 3. gr. frumvarpsins (13. gr. a laganna). Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnar­kosningar skipi ráðherra samvinnunefnd miðhálendis og nefndin leggur til í lokamálslið 3. efnismgr. 2. gr. að samvinnunefndin meti eftir að hún hefur tekið til starfa hvort nauð­syn sé á að endurskoða svæðisskipulagið.
     4.      Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist ný grein sem verði 3. gr. (13. gr. a laganna). Greinin fjallar um kynningu, auglýsingu, samþykkt og staðfestingu skipulags miðhálendisins og er í mörgu sambærileg við 13. gr. laganna. Hún er þó frábrugðin að því leyti að samvinnunefnd miðhálendis annast kynningu, auglýsingu og samþykkt til­lögu að svæðisskipulagi miðhálendisins. Þá er Skipulagsstofnun send tillagan sérstak­lega til athugunar. Enn fremur eru gerðar nokkrar breytingar sem lúta að því að kynning og auglýsing svæðisskipulagsins sé almenn og að hún nái til alls landsins. Þannig skal auglýsa tillöguna í dagblaði sem gefið er út á landsvísu auk Lögbirtingablaðsins og til­greina þarf hvar tillagan er til sýnis og hve lengi. Einnig er kveðið á um að hún skuli liggja frammi hjá Skipulagsstofnun, sveitarfélögum sem tillagan nær til og í öllum kjör­dæmum landsins. Með því á að tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að tillögun­um enda er um að ræða mál sem er mikilvægt fyrir alla landsmenn.
     5.      Lagt er til að nýr liður bætist við 3. gr. frumvarpsins, er verði 5. gr. (2. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna). Þar er lagt til að Skipulagsstofnun leiti umsagnar samvinnunefndar miðhálendis eftir að hún hefur fengið tillögu að aðalskipulagi innan hálendis eða veru­legar breytingar á því til athugunar. Það er í samræmi við hlutverk samvinnunefndar sem kveðið er á um í 3. efnismgr. 2. gr. (3. mgr. 12. gr. a laganna). Þar er kveðið á um samræmishlutverk samvinnunefndar miðhálendis á svæðisskipulagi þess gagnvart aðal­skipulagstillögum sveitarfélaga.
     6.      Í nýrri 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á síðari málslið 1. mgr. 18. gr. laganna um að tillaga að aðalskipulagi eða breyting á því verði látin liggja frammi hjá Skipu­lagsstofnun. Hér er um nýjung að ræða.
     7.      Í nýrri 7. gr. frumvarpsins (34. gr. laganna) er tekinn af allur vafi um að kostnaður við gerð svæðisskipulags miðhálendisins greiðist úr ríkissjóði.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. mars 1999.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Árni M. Mathiesen.


Kristján Pálsson.



Hjörleifur Guttormsson,


með fyrirvara.


Ísólfur Gylfi Pálmason.