Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 343  —  301. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.

    Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: vísitölu neysluverðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Greinargerð.


    Við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, var í meðförum þingsins gerð sú breyting að viðmiðun í 2. mgr. 5. gr. laganna var breytt úr neysluverðsvísitölu í lánskjaravísitölu. Hér er lagt til að þessu verði breytt aftur í það form sem var í upphaflega frumvarpinu, þ.e. að lánskjaravísitala breytist í neysluverðsvísitölu.
    Lánskjaravísitala var reiknuð þar til í mars 1995 sem samsett vísitala. Síðast var hún reiknuð að jöfnu úr neyslu-, byggingar- og launavísitölu. Frá apríl 1995 var eingöngu farið að verðtryggja eftir neysluverðsvísitölu. Sett voru lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, og vaxtalögum breytt á þann hátt að fjárskuldbindingar á sparifé og lánsfé væru verðtryggðar með vísitölu neysluverðs. Gagnvart fjárskuldbindingum sem urðu til fyrir 1. apríl 1995 og tengdust lánskjaravísitölu skyldi reiknaður sérstakur stuðull (19,745) sem margfeldi af neysluverðsvísitölunni. Þessi stuðull gildir um lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem í gildi voru 1. apríl 1995, t.d. skaðabótalögin.
    Lánskjaravísitalan hefur því ekki verið til frá mars 1995 og hefur hún ekki komið fyrir í lögum eftir þann tíma, fyrir utan lög um sjúklingatryggingu.
    Með vísun til framangreinds er lagt til að þetta verði fært til rétts vegar.
    Gert er ráð fyrir að breyting þessi taki gildi 1. janúar 2001 sem er í samræmi við gildistöku laga um sjúklingatryggingu.