Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 610. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 973  —  610. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. tölul. orðast svo:
         3. 13% vörugjald:
         a.    Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
        b.    Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
        c.    Yfirbyggingar, þar með talin ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
        d.    Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
        e.    Dráttarbifreiðar fyrir festivagna sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
        f.        Ökutæki, sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
        g.    Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
     b.      4. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo:
    8.    Vörugjald af bifreiðum sem eru sérstaklega útbúnar og notaðar til líkflutninga skal vera:
     Flokkur     Sprengirými aflvélar     Gjald í %
    I     0–2.000     10
    II     Yfir 2.000     13

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Prentað upp.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til lækkun vörugjalds af nokkrum flokkum ökutækja vegna samræmissjónarmiða. Þá er lögð til lækkun vörugjalds af bifreiðum sem eru sérútbúnar og notaðar til líkflutninga til samræmis við lækkun vörugjalds af leigubifreiðum, bílaleigubifreiðum og bifreiðum til ökukennslu að uppfylltum tilteknum skilyrðum laga og reglugerða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lögð til lækkun vörugjalds af ökutækjum til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna í 13% sem er til þess fallin að draga úr hvata til innflutnings þyngri bifreiða sem bera ekkert vörugjald, en nokkuð hefur borið á því að ökutækjum sem ekki ná 5 tonnum er breytt til þess að þau nái þeirri þyngd fyrir álagningu vörugjalds. Þá þykir rétt að lækka vörugjald af þessum flokki ökutækja til samræmis við sérreglur laganna um leigubifreiðar, bifreiðar bílaleiga og bifreiðar til ökukennslu með vélar stærri en 2.000 rúmsentímetrar. Til einföldunar og til þess að gæta samræmis á milli flokka sem tilgreindir eru í 3. og 4. tölul. 4. gr. laganna er lögð til sameining þeirra í einn tölulið sem ber 13% vörugjald.


Um 2. gr.

    Lagt er til að við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður þar sem kveðið sé á um lækkun vörugjalds af bifreiðum sem eru sérútbúnar og notaðar til líkflutninga. Þá er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um lækkun vörugjalds skv. 3. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

    Með frumvarpinu er lagt til að vörugjald af ökutækjum til vöruflutninga sem eru allt að 5 tonn verði 13% en það er nú 20% af flestum tegundum slíkra ökutækja. Ef tekið er mið af aðflutningsgjöldum ökutækja af þessum toga árið 2001 má ætla að ríkissjóður verði af um 60 m.kr. tekjum á ári verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið snýr eingöngu að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi.