Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 652. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 969  —  652. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisráðherra skipar forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa háskólamenntun og hafa stundað rannsóknir sem tengjast fræðisviði stofnunarinnar.
    Forstöðumaður fer með stjórn stofnunarinnar, hefur umsjón með rekstri hennar og ræður aðra starfsmenn.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði niður ákvæði laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997, um sérstaka stjórn stofnunarinnar. Af hálfu umhverfisráðuneytisins hefur verið unnið markvisst að því að undirstrika ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra þannig að forstjórum stofnana sem heyra undir ráðuneytið hefur verið falin sú ábyrgð sem stjórnir viðkomandi stofnana höfðu áður. Er sú stefna sem í því birtist í samræmi við breytt viðhorf um stjórnun stofnana á vegum ríkisins, um að forstöðumaður stofnunar eða forstjóri beri ábyrgð á störfum og rekstri stofnunar, sem koma m.a. fram í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Í 3. gr. laganna er kveðið á um þriggja manna stjórn stofnunarinnar. Hlutverk stjórnarinnar er að fjalla um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að afnema lagaákvæði um stjórnir stofnana umhverfisráðuneytisins. Má í því sambandi nefna Hollustuvernd ríkisins, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, nú Umhverfisstofnun, Landmælingar Íslands, sbr. lög nr. 171/2000, um breytingu á lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, og Brunamálastofnun, sbr. lög um brunavarnir, nr. 75/2000.
    Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að 4. gr. laganna verði breytt til samræmis við þessa breytingu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/1997, um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum, eru þau að niður fellur kostnaður við stjórn stofnunarinnar. Sá kostnaður hefur verið óverulegur.