Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1087  —  552. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingu.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Ólaf Haraldsson og Sigurjón Einarsson frá Blindrafélaginu og Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara. Málið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá landlæknisembættinu, Blindrafélaginu og Landssambandi eldri borgara.
    Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar til að lögin uppfylli kröfur stjórnarskrárinnar til gjaldtökuákvæða auk þess sem lagt er til að ráðherra verði veitt almenn reglugerðarheimild um nánari framkvæmd laganna. Við umfjöllun málsins kom fram að þörf er orðin á því að endurskoða ákvæði laganna í heild sinni og mun undirbúningur þess hafin að sögn fulltrúa ráðuneytisins.
    Breytingin sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins á 1. mgr. 4. gr. laganna felur í raun í sér að Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra skuli aðeins annast þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar. Það er þó ekki ætlunin því að í 3. gr. frumvarpsins er gjaldtökuheimild annars vegar fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og hins vegar fyrir þá sem eru það ekki. Að mati nefndarinnar þarf því að breyta 1. gr. frumvarpsins þannig að stöðinni sé einnig heimilt að annast þjónustu við aðra en þá sem sjúkratryggðir eru samkvæmt almannatryggingalögum. Þá telur nefndin reglugerðarheimild þá sem lagt er til að ráðherra verði veitt í 4. gr. frumvarpsins of víðtæka og er lagt til að hún verði felld brott. Leggur nefndin til að við endurskoðun laganna verði kannað hvaða reglugerða er þörf og ákvæði sett inn í samræmi við það.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGUM:


1.    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
             1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
              Stofnunin skal annast hvers konar þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar, svo sem sjúkdómsgreiningu, mælingu, úthlutun sérhæfðra hjálpartækja, þjálfun og hvers konar endurhæfingu sem sjónskertir þurfa á að halda. Heimilt er að veita sjónskertum sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar sömu þjónustu gegn gjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr.
2.    4. gr. falli brott.

    Drífa Hjartardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Dagný Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2004.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Þuríður Backman.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.